Kveðjur og þakkir
Ég færi ykkur góðar og hlýjar kveðjur frá Auði Björk og
börnum okkar, Ásmundi, Kristínu Söru og Jónatani sem sáu sér ekki fært að vera
hér viðstödd í dag. Við komum til með að varðveita bjartar, hlýjar og góðar
minningar frá Húsavík um ókomna framtíð.
Ég þakka samstarfsfólki mínu fyrr og síðar fyrir
heilladrjúgt samstarf á guðsríkisakrinum í Húsavíkursókn, ekki síst
sóknarnefndarfólkinu og kórfólki. Ég óska söfnuðinum blessunar Guðs í
framtíðinni.
Ég óska söfnuðinum til hamingju með nýjan sóknarprest. Ég
þakka Guði fyrir að það kemur maður í manns stað. Allt hefur sinn tíma, segir prédikarinn í lexíu
dagsins.
Nú ætla ég að rifja upp minningar með ykkur kæru fyrrverandi
sóknarbörn. Flestar eru góðar og skemmtilegar en aðrar ljúfsárar eins og
gengur. Þannig er lífið og tilveran.
Kynningar prédikunin
– Miskunnsami Samverjinn
Fyrst vil ég geta þess að Sunnudaginn 24 ágúst 1986, flutti
ég kynningarprédikun í Húsavíkurkirkju þar sem ég lagði út frá dæmisögunni um
miskunnsama Samverjann. Ég hef varðveitt þessa ræðu. Þar sagði ég
,,Sagan af miskunnsama Samverjanum stendur okkur ljóslifandi
fyrir hugskotssjónum. Það er mjög eftirminnilegt hvernig Samverjinn bregst við
aðstæðum hins dauðvona manns sem liggur á veginum. Samverjinn sveigði ekki
framhjá likt og presturinn og levítinn heldur kenndi í brjósti um hann, bjó um
sár hans og flutti til gistihúss og ól þar önn fyrir honum. Slíkur var
kærleikur hans að halda mætti að Samverjinn stæði í mjög mikilli þakkarskuld
við þennan mann. Og ekki spurði Samverjinn manninn um nokkurn hlut heldur gerði
það sem hann vissi að honum bar að gera.
Þessi mynd af Samverjanum er mjög lík frásögnum
guðspjallanna af Jesú Kristi sem lét sér annt um allan hinn þjáða heim.
Hvarvetna gat að líta hungraða einstaklinga, sjúka og lamaða, útskúfaða og
fangelsaða. Jesús Kristur, sonur Guðs, spurði einskis. Hann vissi hvað honum
bar að gera. Jesús gekk inn í þeirra kjör og læknaði þá og huggaði.
Þannig hvetur þessi dæmisaga okkur til eftirbreytni, um að
fylgja fordæmi Krists og gefa okkur að þeim sem eru líknar og hjálparþurfi.“
Tilvitnun lýkur.
35 árum síðar legg ég
enn út frá þessari dæmisögu, þegar ég kveð loksins söfnuðinn með formlegum
hætti en heimsfaraldurinn kom í veg fyrir að ég gæti gert það fyrr.
Heimsfaraldrar fyrrum
og nú
Allt hefur sinn tíma eins og Prédikarinn segir við okkur
í lexíu dagsins. Að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faömlögum hefur
sinn tíma. Það er merkilegt að finna þessi orð í þessu gamla riti, Prédikaranum
og geta heimfært þau upp á samtíma okkar. En höfum við ekki haldið okkur frá
faðmlögum við ókunnuga frá því að faraldurinn hófst allt til þessarar stundar
að fjórða bylgja faraldursins er loks í rénun og lífið er að færast í fyrra
horf? Þó er allt breytt því að öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir
himninum hefur sinn tíma. Að kveðja hefur sinn tíma, að kveðja söfnuðinn hefur
sinn tíma. Að heilsa öðrum söfnuði hefur líka sinn tíma en nú þjóna ég tímabundið í
Hafnarfjarðarkirkju í hálfu starfi.
Heimsfaraldrar hafa geisað svo lengi sem fólk hefur lifað
hér á jörðu. Fyrrum hélt fólk sig frá faðmlögum vegna bráðsmitandi sjúkdóma af
ýmsu tagi. Sá sem skráði Prédikarann, lexíu dagsins, hefur kannski upplifað
faraldur á eigin skinni.
Jaðarsetta fólkið
Fólkið sem kemur við sögu í dæmisögunni um Miskunnsama
Samverjann hefur kannski upplifað skæðan veirufaraldur um sína daga þar sem
bjargráðin voru fá sem engin miðað við það sem við þekkjum í dag. Við skulum
gefa okkur að sá sem lá óvígur í vegkantinum í dæmisögunni góðu hafi verið með
bráðsmitandi veirupest sem hrjáði hann. Þá getum við skilið hvers vegna
presturinn og levítinn létu sem þeir sæju hann ekki og tóku á sig sveig framhjá
honum. Þá var enginn hlífðarfatnaður til. En Samverjinn gaf sig að þessum óvíga
einstaklingi sem sennilega var gyðingur,
faðmaði hann að sér og gaf honum þau bjargráð sem voru á hans valdi.
Slíkur var kærleikur Samverjans í garð þessa dauðvona manns. Að sönnu ber okkur
að feta í fótspor hans og leitast við að styðja við og styrkja og bæta líf
samferðafólks okkar hvað sem það kostar. En það er blessun í því fólgin að lifa
fórnfúsu lífi og huga betur að hag annarra en okkar sjálfra.
Samverjar voru litnir hornauga þótt gyðingar væru. Gyðingar
álitu þá óhreina og vildu engin samskipti eiga við þá. Samverjar höfðu sína
eigin guðsdýrkun og viðurkenndu aðeins Mósebækurnar sem heilaga ritningu.
Dæmisagan talar ekki síður til okkar nú en þá. Erum við með
fordóma í garð einhverra í samfélagi okkar í dag, jafnvel hér á Húsavík. Getum
við setið til borðs með innflytendum, flóttafólki og hælisleitendum. Hvað hefði Jesús gert? Samkvæmt guðspjalli dagsins þá sat hann til
borðs með tollheimtumönnum og bersyndugum.
Erum við haldin svo mikilli vina og frændhygli að við getum
ekki hleypt öðru fólki sem við þekkjum ekki neitt að nægtaborði okkar og gefið
því tækifæri til að blómstra í Kópavogi þar sem ég bý nú eða hér á Húsavík?
Hverjir eru litnir hornauga í okkar samfélagi í dag? Eru það
innflytjendur, flóttafólk og hælisleitendur. Fólk sem hefur annan hörundslit en
við sjálf Sveitarfélög, líkt og
Norðurþing, hafa skyldum að gegna í þessum efnum, að taka á móti flóttafólki og
greiða götu þess eins og frekast er kostur og hjálpa því að aðlagast íslensku
þjóðfélagi. Þetta er upp til hópa gott
fólk sem vill láta gott af sér leiða í íslensku samfélagi.
Hvað er fyrir innan hvíta eggjaskurn annars vegar og brúna
hins vegar? Innihaldið er alveg
eins. Við erum öll manneskjur sem Guð
hefur skapað. Líffærin okkar eru öll eins á litin þótt hörundsliturinn sé
annar. Þetta var ég minntur á þegar ég
kynntist starfi alþjóðlegu kirkjunnar í Breiðholtskirkju þar sem fólk af ólíkum
þjóðernum kom saman úr ólíkum menningarheimum en gat sameinast um trúna á Jesú
Krist og leitast við að feta í fótspor hans.
Fyrstu skrefin til
sóknar
Mér var trúað fyrir embætti sóknarprests í Húsavíkursókn.
Það voru forréttindi að fá að þjóna góðum söfnuði svona lengi í þessum fagra
helgidómi Fyrir það vil ég þakka enn og
aftur, nú þegar ég lít um öxl yfir farinn veg. Á þeirri vegferð leitaðist ég við að feta í fótspor Jesú Krist
og laða sóknarbörnin til fylgdar við hann í trú, von og kærleika. Ég keppti
eftir því sem til friðar heyrir í söfnuðinum og efldi samfélagið með ýmsum
hætti.
Ég útskrifaðist sem cand theol frá guðfræðideild HÍ í ársbyrjun 1986 og
starfaði eftir það á Elli -og hjúkrunarheimilinu Grund þar til ég var skipaður
sóknarprestur í Húsavíkursókn 1 október 1986 og vígður 5. Október s.m. Því
embætti gegndi ég formlega samfleytt í nærfellt 34 ár, til. 31 maí 2020. Mér
telst til að ég hafi gegnt þessu embætti hér á Húsavík lengst allra presta
síðan á 15 öld. En vitað er um nöfn presta samfleytt frá árinu 1431 á
Húsavík. Ef ég man rétt þá er ég nr 32 í
röðinni.
Aðdragandinn að þessu langa ferðalagi mínu er sá að sumarið
1986 voru fimm prestaköll auglýst laus til umsóknar í einu,
Þingeyrarprestakall, Bíldudalsprestakall,
Heydalaprestakall, Ólafsfjarðarprestakall og Húsavíkurprestakall. Ég hugsaði gott til glóðarinnar að fá
Heydalaprestakall vegna æðardúns hlunnindanna sem embættinu fylgdi. Og við Auður héldum af stað austur og gistum
m.a. á Djúpavogi hjá sr Sigurði Ægissyni og fjölskyldu. Þar knúði dyra þá um kvöldið sr Ingólfur
Guðmundsson sem þjónaði um tíma á Húsavík og reyndi allt hvað hann gat að koma
fólki í hjónaband með misjöfnum árangri. Sr Ingólfur hvatti mig til að koma við
á Húsavík. Nú væri hálfur mánuður liðinn frá því að prestaköllin voru auglýst
og enginn væri búinn að sækja um prestakallið.
Ég kannaðist við sr Ingólf en hann hafði verið sumarbúðastjóri á
Kleppjárnsreykjum þegar ég var þar 10 ára gamall.
Við Auður ókum að Heydólum. Þar hittum við sr Kristinn
Hóseason og frú. Hann var þá að ná tilskyldum eftirlaunaaldri og var frekar
fámáll um hagi þeirra hjóna á staðnum. Ég hafði á tilfinningunni að hann vildi
ekkert fara þaðan.
Við fórum til Húsavíkur og gistum fyrst á Stöng í Mývatnssveit hjá Ásmundi og frú. Ég hringdi í sr Sigurð Guðmundsson á Grenjaðarstað. Þau hjónin voru heima næsta dag og tóku okkur vel eins og þeim var von og vísa. Sr Sigurður hringdi í Sigurð Pétur Björnsson, Silla á Húsavík sem tók síðan á móti okkur og sýndi okkur hjónum prestakallið í drossíunni sinni og kynnti okkur fyrir vinum sínum meðal sóknarbarna. Þeirra á meðal var Laxamýrarfólkið, bræðurnir Vigfús og Björn og fjölskyldur þeirra. Sr Vigfús Bjarni Albertsson fyrrverandi sjúkrahúsprestur var þá staddur á Laxamýri, 9 ára gamall að eigin sögn.
Eftir þessar góðu móttökur ákvað ég að sækja um embætti
sóknaprests í Húsavíkursókn. Auk mín sótti sr Torfi Hjaltalín um embættið, þá
staddur í Svíþjóð, en hann dró sig til
baka. Hann varð síðar sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal. Efnt var
til almennra prestskosninga í Húsavíkurkirkju sama dag og Völsungar komust upp í fyrstu deild í
fótbolta. Að leik loknum hvatti Beisi,
Hallmar Freyr Bjarnason, formaður Völsungs, áhorfendur að koma við í
kirkjunni og kjósa sér fyrstu deildar
prest. Fyrir vikið fékk ég lögmæta kosningu, eða 52% greiddra atkvæða. Ég hefði ekki komið hingað ef ég hefði ekki
fengið lögmæta kosningu. Eg var gamall Frammari og Leedsari og nú fór ég líka
að halda með Völsungi og ég endurvakti borðtennisdeildina ínnan félagsins og
þjálfaði krakkana um nokkurra ára skeið. Ég var líka mjög ánægður að finna
fleiri Leedsara á Húsavík.
Hafliði Jósteinsson
Að morgni sunnudagins 1 nóvember 1986 keyrði ég til
Húsavíkur frá Akureyri í bílaleigubíl og fór beint í sunnudagaskólann í
Húsavíkurkirkju kl. 11.00. Þar var fyrir
Hafliði Jósteinsson ásamt góðu starfsfólki og þétt setin kirkja af börnum og
foreldrum. Hafliða hafði ég hitt áður undir suðurvegg kirkjunnar á fallegum
sólskinsdegi í ágúst. Þar tók hann þéttingsfast í hönd mína og vingsaði
handlegg mínum endurtekið til hliðar brosmildur og hress í bragði. Þá velti ég
fyrir mér hvort þetta handtak einkenndi fleiri húsvíkinga. Þar hófst okkar
vinátta og samstarf sem engan skugga bar á. Hann átti auðvelt með að hrífa
börnin og prestinn með sér í sönglistinni svo þakið ætlaði stundum að rifna af
kirkjunni.
Sigurður Pétur
Björnsson - Silli
Fyrsta mánuðinn gisti ég hjá Silla í gestaíbúðinni í Landsbankanum. Þegar hann bauð mér fyrst inn til sín þá varð mér starsýnt á ofninn í
eldhúsinu. Hann var síður en svo tómur líkt og flestir ofnar oftast nær. Hann
var fullur af ýmis konar skjölum. Síðan
tók hann til við að sauma út klukkustrenginn eða hélt áfram að smyrna teppið Ég kannaðist við teppið en ég hafði sjálfur byrjað að smyna slíkt teppi
nokkrum árum áður. Ég ákvað eftir þetta að klára teppið mitt og kom því fyrir á
gólfi á prestssetrinu í Baldursbrekku. Nú gátum við Silli farið að tala saman
en ég velti áfram fyrir mér af hverju ofninn væri fullur af skjölum.
Silli var safnaðarfulltrúi um áratuga skeið og hafði sínar
skoðanir um fyrrverandi presta og þennan unga prest sem nýkominn var til starfa
og var blautur bak við eyrun. Árið 1993
kom ég heim frá námi mínu í
Bandaríkjunum þar sem ég hafði stundað klínískt sálgæslunám á háskóla
sjúkrahúsi. Silli bað um áheyrn sem fulltrúi safnaðararins og hlýddi um allt
langt skeið á mig. Síðan sagði hann:
,,Það er eins og skipt hafi verið um höfuð á þér í Bandaríkjunum.“
Óli Kristins - barnabarn sr Jóns Arasonar sem þjónaði á Húsavík 1907.
Þegar ég byrjaði að kynna mig fyrir sóknarbörnum þá hitti ég Óla Kristins. Hann hlustaði á mig lengi vel og spurði svo: ,,Spilar þú bridge?“ Ég sagði nei. Þá sagði hann sposkur á svip. ,,Það er ekki hægt að segja að það séu góð meðmæli.“
Æskulýðsfélag Húsavíkurkirkju starfaði þegar ég kom til
Húsavíkur undir stjórn Gunnars Rafns Jónssonar læknis. Fundir fóru fram í
félagsheimili Húsavíkur og voru haldnir með reglulegu millibili vetrarlangt í
nokkur ár eftir að ég kom til starfa. Ég tel að heimildir um félagið séu til á
Safnahúsinu.
Kirkjukór Húsavíkur
Allt frá dögum sr Friðriks og frú Gertrud hefur kirkjan haft
góðan kirkjukór sem söng endurgjaldslaust fyrir sóknarbörnin á gleði og sorgarstundum í áratugi. Ingvar Þórarinsson
bóksali fór fyrir kirkjukórnum þegar ég kom. Hann reyndist mér vel ásamt konu
sinni Björgu Friðriksdóttur. Kirkjukórinn tók mér opnum örmum og ég þeim. Einn félaginn, bassinn, Eysteinn Sigurjónsson
vann í bankanum þegar ég gisti þar í gestaíbúðinni hjá Silla fyrsta mánuðinn.
Eysteinn var svo á sínum stað á
kirkjuloftinu, þegar á þurfti að halda. Hann gaf sig reglulega á tal við mig og
gaf mér í nefið. Þeim ágæta sið kynntist ég í guðfræðideildinni en þar gekk
reglulega baukur á milli manna og kvenna. Ég er ekki frá því að neftóbakið hafi
hjálpað mér að tóna betur. Það kom alla vega upp úr dúrnum að ég væri nokkuð
tónviss og nefmæltur lengst af í starfinu. Ég hætti neyslunni sumarið 2016 á
veitingastað á Neskaupstað þegar Auður gerði athugasemdir við útlit mitt. Og ég
hef síðan sungið í moll en ekki dúr.
Eitt sinn var ég að messa og varð að gera hlé á messunni
vegna lasleika. Þá tónaði kirkjukórinn. ,,Guði sé lof og dýrð fyrir sinn gleðilega
boðskap.“ Sr Örn Friðriksson prófastur sagði frá þessu og sagði að þetta væri
alveg hárrétt því að hann hefði sjálfur búið til þennan brandara.
Yfirleitt gekk ég í takt við kirkjukórinn. Ef við gerðum það
ekki þá héldum við bara áfram og enginn tók eftir öðru en að þetta ættti bara
að vera svona.
Organistar á Húsavík
í minni tíð.
Þegar ég gekk í gegnum brimskaflana á fyrsta árinu í
starfinu þá sá Úlrík Ólason organisti aumur á mér og bauð mér stundum heim til
sín í kaffi og koníak og vindil. Þar leystum við heimsmálin á Húsavík og ég
svaf værari svefni fyrir vikið. Þökk sé koníakinu og vindlinum og gefandanum.
Blessuð sé minning hans. Ég man eftir fleiri organistum við kirkjuna í
minni tíð, Helga Péturssyni, David Thompson og konu hans Sharon sem stjórnaði
kórnum. Juliet og Robert Faulkner, Pálínu Skúladóttur, Nataliu Chow, Valmari
Valjaots og ekki síst Judit György sem starfaði lengst af með mér og
kirkjukórnum enda frábær í sínu fagi sem organisti og kórstjóri. Engan skugga
bar á samstarf okkar í tæplega tvo áratugi. Ég bað hana að spila við þessa
messu og kann ég henni bestu þakkir fyrir.
Ég minnist skemmtilegra ferðalaga með kirkjukórnum innanlands sem utan. Við fórum í nokkrar messuheimsóknir á norðurlandi á starfstíma mínum, m.a. til Hvammstanga og nú síðast að Grund í Eyjafirði. Nokkrum sinnum söng ég með kórnum á aðventu og vortónleikum, ekki síst þegar ferðalög erlendis stóðu fyrir dyrum. Ég minnist ferðalaga til Ungverjalands, Færeyja og Kanada. Ég gleymdi að drekka vatn í hitanum í Ungverjalandi og man því lítið eftir tónleikunum í kirkjunni þar sem ég kom ekki upp orði meðan á tónleikunum stóð en hreyfði varirnar og lét sem ég væri að syngja með kórfélögum mínum. Við gistum á fallegu hóteli við Baleton vatnið. Þar fékk ég mér sæti í hótelgarðinum og strauk af mér svitann. Þá kom þjónninn með líterskrús af bjór handa mér. Mér varð starsýnt á krúsina um hríð, minntist þess ekki að hafa pantað hana en þakkaði gefandanum sem ég vissi ekki hver var, en grunaði kirkjukórinn samt. Mig minnir að ég hafi sagt Skál í botn og ég varð að standa við stóru orðin og reyndi það eftir bestu getu.
Í Kanada á íslendingahátíðinni mátti ekki sjást í bjórdósirnar. Ég huldi mínar með brúnum bréfpoka. Mér fannst merkilegt að tala íslensku við gamla fólkið á elliheimilinu í Gimli sem aldrei hafði komið til Íslands.
Færeyingar eru alltaf skemmtilegir heim að sækja. Í
Vesturkirkjunni í Þórshöfn sungum við messu. Þar þjónar afar skemmtilegur
prestur, sr Heri Jógvan Joensen sem var með mér í guðfræðideildinni. Hann er
kvæntur íslenskri konu frá Tjörnesi.
Gospelkór
Húsavíkurkirkju
Þegar Gospelkór Húsavíkurkirkju var stofnaður þá var boðið
reglulega boðið upp á gospelmessur af léttu tagi yfir veturinn. Mig minnir að
þær hafi verið ca 10 talsins á vetri. Það var vel tekið í þessa nýbreytni i
helgihaldi safnaðarins og messurnar voru
vel sóttar. Því miður varð að leggja starfið niður þegar hrunið varð en þá voru
sóknargjöldin skorin niður um 40 % ‚i
dag ættu sóknargjöldin að vera 2100 kr á
hvern þjóðkirkjumeðlim, 16 ára og eldri en eru þess í stað um 1000 krónur eða svo. Sóknargjöldin fara í rekstur á kirkjunni og safnaðarheimilinu,
laun til organista og meðhjálpara svo nokkuð sé nefnt. Kirkjukórinn hefur
fengið árlegan styrk frá sóknarnefnd til að geta sinnt sínum störfum og veitt
sér eitthvað þess á milli.
Almennt viðhald á kirkjunni hefur að mestu leyti verið
greitt úr Jöfnunarsjóði sókna. Það kostaði nærfellt 20 milljónir að gera við
turn kirkjunnar fyrir aldarafmælið 2 júní 2007 . Það þarf að mála kirkjuna á 6
ára fresti svo vel sé. Það kostar margar milljónir í hvert skipti, um 10
milljónir. En þökk sé sóknarbörnum sem
hafa frá upphafi hugsað vel um þennan þjóðarhelgidóm sem ég vil kalla svo.
Kirkjan hefur elst mjög vel. Mér finnst vera aðkallandi að skipta út glerinu
fyrir ofan altarið fyrir hamrað gler svo unnt sé að taka betri ljósmyndir hér
innan dyra af altariistöflu Sveins Þórarinssonar. Nú er búið að stofna
Hollvinasamtök kirkjunnar sem safnað hafa fjármunum til viðhalds á kirkjunni
sem er sístætt verkefni inn í framtíðina.
Fermingarbörnin
Skemmtilegast fannst mér að skíra börnin. Ég skírði 747 börn
í minni embættistíð hér. Það var líka yndislegt
að ferma alla þessa árganga en
mér telst til að ég hafi fermt 1218 börn. Ég var nálægt þeim í aldri þegar ég
hóf störf, gat verið bróðir þeirra, faðir þeirra og gat síðan verið afi þeirra
þegar ég var með síðustu árgöngunum. Ég
var oft dauð upp gefinn eftir flesta fermingarfræðslutímana með fyrsta
árganginum mínum en krakkarnir lögðu sig verulega fram við að stríða mér allan
veturinn. Og svo þegar kom að fermingunum sjálfum vorið 1987 þá var ég ekki alveg
með það á hreinu hvað þau hétu skilst mér. Ég elska þau öll í dag og þau mig
finnst mér. Já, ég hef fundið það á eigin skinni að þeim þykir vænt um mig og
ég þakka fyrir vináttu þeirra í minn garð, fyrr og síðar.
Prestahylur
Fyrsta hjónavígslan
Fyrsta hjónavígslan mín lifir enn í minningunni. Þá hafði brúðguminn
verið að skemmta sér fram á aðfararnótt brúðkaupsdagsins og var náfölur á
kirkjubekknum þegar ég mætti til kirkju frekar stressaður sjálfur. Svo leið
brúðgumanum enn verr frammi fyrir Guði sínum og prestinum. Nú voru góð ráð dýr.
Allra augu og eyru beindust að prestinum í kirkjunni. Ég velti fyrir mér hvað ég ætti til bragðs að
taka meðan ég las brúðhjónunum pistilinn. Ég þurfti í tvígang að stöðva
athöfnina og vísa brúðguma og svaramanni hans á salernið. Ég bað Juliet að spila eitthvað fallegt á
orgelið á meðan við biðum eftir þeim. En þeir skiluðu sér báðir jafnharðan til
baka og mér tókst að gefa brúðhjónin saman og ég veit ekki betur en að hjónabandið haldi enn og ég skirði líka
barnið þeirra og blessaði það í bak og fyrir rennsveittur á enni sem baki.
Tillaga sóknarprests
Í kjölfarið óskaði ég
ettir því að komið yrði fyrir sturtu í kjallara kirkjunnar sem var samþykkt af
sóknarnefnd en aldrei fór ég í í
sturtuna. Hún var tekin niður mörgum árum síðar. Ég skil ekkert í
sóknarnefndinni á þeim tíma að samþykkja þessa tillögu mína svona þegar ég lít
til baka.
Álagið
Mér fannst erfiðast að jarðsyngja börnin því að ég horfðist
í hvert skipti í augu við mín eigin börn. Það var afar þungbært að jarðsyngja
börnin sem ég hafði fermt. Blessuð sé minning allra þessara barna.
Stundum fór ég að gráta þegar heim var komið eftir erfiðar
athafnir sem tóku virkilega á og komu við kvikuna í mér. Þeim gleymi ég
seint. Stundum var ég undir miklu
starfsálagi þegar börnin mín voru lítil og það kom fyrir að mér kom ekki dúr á
auga í Baldursbrekkunni þar sem við bjuggum.
Einn morguninn tók ég til nesti handa Kristínu Söru og ók henni í
skólann. Ég setti safa í töskuna hennar og smurt brauð. Fljótlega fékk ég hringingu frá skólanum. Þá
hafði ég sett smjörstykki í nestisboxið hennar en enga brauðsneið.
Meðhjálparinn
Meðhjálpararnir voru mín hægri hönd, afar traustir
samstarfsmenn. Þar voru fremstir í flokki Hafliði Jósteinsson, Hjörtur
Tryggvason, Haukur Tryggvason, Óskar Jóhannsson og Guðbergur Ægisson sem var í
mínum fyrsta fermingarárgangi. Þeir gegndu líka starfi hringjara og kirkjuvarðar og kirkjugarðsvarðar. Þannig
að það mæddi mikið á þessum samstarfsmönnum mínum sem ég gat hringt í hvenær
sem var, jafnvel á ókristilegustu tímum. Kann ég Guðbergi þakkir fyrir að veita
mér áheyrn á slíkum tímum. Eitt sinn vakti Haukur Tryggvason mig á
sunnudagsmorgni korter í messu og spurði:,,Ertu ekki að fara koma?“ Það er
messa kl. 11.00 og kirkjan full af fólki á Allra heilagra messu. Ég man ekki hvað olli því að ég svaf svona
lengi fram eftir. Ég var heldur lúpulegur þegar ég gekk inn um suðurhurðina
rúmlega 11 í mislitum sokkum og
óhnepptri prestaskyrtu en það sá enginn vonandi.
Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gerir nema
meðhjálparinn komi þeim saman. Meðhjálparinn gætir þess að allt sé til reiðu
fyrir messuna, þ.m.t. messuvín og vatn handa kórnum. Það kom afar sjaldan fyrir
að messuvínið yrði of gamalt. Það varð að klára úr kaleiknum. Ég sá til þess og
meðhjálparinn með mér stundum. Það má
alls ekki hella helgaðri restinni úr kaleiknum í svelginn. Meðhjálparinn sá til
þess að hvergi sást kusk á hempu prestsins og að rykkilínið væri þvegið og
straujað. Ég sá sjálfur um að láta hreinsa pípukragana. Ég man nú ekki eftir
því að meðhjálparinn hafi greitt mér um hárið enda hefur verið erfitt að eiga við það stundum. Það jafnast fátt við það að sjá fullskrýddan
prest við altari. Það getur hins vegar verið afar erfitt fyrir prestinn að skrýðast ofnum hátíðarhökli úr kanínu ull sem
kirkjunni var gefinn á aldarafmælinu, 2007.
Þá runnu sem aldrei fyrr lækir lifandi vatns niður bakið á mér í tæplega
tvær klukkustundir. Þannig var stundum ekki þurr þráður á mér eftir
hátíðarmessurnar og fermingarmessurnar.
Já, ég þurfti stundum að færa líkamlegar fórnir í starfinu og gerði það
með glöðu geði. Ég legg til að smíðaður verði skápur fyrir hátíðarhökulinn með
gleri sem hleypir ekki sólarljósi í gegn, gott væri að koma skápnum fyrir á
vegg í safnaðarheimilinu svo fólk geti dáðst að handbragði Sigrúnar Jónsdóttur.
Tölulegar upplýsingar
Ef ég geri ráð fyrir að ég hafi tekið þátt í 25
guðsþjónustum og helgistundum í 31 ár þá gera það samtals 775 athafnir. Ég var
rúmlega tvo vetur í leyfi frá störfum. Ég skírði 747, - fermdi 1218, annaðist
188 hjónavígslur, - og jarðsöng 527 í Húsavíkursókn á starfstíma mínum .
Niðurlag
Nú er mál að linni þvi að ég sé að prófastur er búinn að
banka fjórum sinnum á armbandsúrið sitt til að benda mér á að ég þurfi nú að
fara að ljúka máli mínu. Ég segi þetta nú svona í gríni. En þessi ræða er nú
með lengri ræðum sem ég hef flutt í Húsavíkurkirkju og ég velti fyrir mér hvort
að mér hafi tekist að halda óskiptri athygli kirkjugesta meðan á flutningi
stóð?
Ég tek undir orð postulans Páls í pistli dagsins þegar hann
segir að Guðs ríki sé ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður
í heilögum anda. Keppum eftir því sem til friðar heyrir og eftir samfélagið.
Það leitaðist ég við að gera í minni embættistíð
Ég vitnaði í kynningarprédkun mína í upphafi máls míns. Þar
sagði ég að lokum:
Megi Guð gefa okkur náð til þess að svo megi verða. Amen.
Préd. 3. 1-13, Róm, 14.14-19
Mrk 2. 15-17
Flutningsstaður:
Húsavíkurkirkja
Sunnudagur 17. 10.
2021