Hvað er trú?

Hvað er trú?

Afstæðishyggjan ógnar vestrænni menningu [. . .] Trú og skynsemi eru ekki andstæður, heldur trú og . . .
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
25. desember 2007
Flokkar

Gleðileg jól, í Jesú nafni, gleðileg jól!

Við komum hér saman á grundvelli frásagnar, vegna sögu sem sögð var fyrir nærri tvö þúsund árum, hversdagslegrar sögu sem er þó svo hátíðleg að fátt kemst í samjöfnuð við hana. Frásögn Lúkasar af fæðingu frelsarans er undursamleg í einfaldleika sínum og ber í sér fræ sem spíra ár hvert og gefa nýgræðing sem andi okkar nærist á. Fóður fagnaðarerindisins er holl fæða, enginn harðskafi eins og höfundur metsölubókar nefndi bók sína á svo snjallan hátt, nei það er holl fæða af himninum sjálfum, sem berst til okkar í orði og sakramentum, í skírn og heilagri kvöldmáltíð. Þannig miðlar Guð náð sinni, nærir trú, von og kærleika og beinir sjónum okkar að hinu fagra og fullkomna.

Og mikið er það þakkarefni að hin kristnu gleðitíðindi voru sett fram í frásögnum af fólki en ekki í flóknum kenningarkerfum. Þess vegna geta allir skilið fagnaðarerindið, bæði börn og fullorðnir. Biblían geymir margar frásagnir af fólki, sumar ljótar og grimmar, en aðrar undurfagrar og heiðríkar í inntaki sínu og tilvísun. Kristin prédikun hefur frá fyrstu tíð stuðst við sögur og myndlíkingar. Við munum sögur og myndir. Þegar ég lít til baka til bernsku minnar og leiði hugann að hinu trúarlega þá man ég helst hið myndræna, kirkjuna heima, dimmbláan kórhiminn hennar og gylltar stjörnur og svo altarismyndina af Kristi og prestinn. Ég man líka samkomusal Hjálpræðishersins og sal hvítasunnusafnaðarins Salem, sem við börnin sóttum svo oft til að hlýða á líflegan söng, sjá bíómyndir og biðja. Ég man Jesúmyndina fyrir ofan rúmið mitt, hönd mömmu og pabba sem strauk mér um vangann og breiddi yfir mig fyrir svefninn. Ég man líka fræðsluna um kristna trú úr skóla, man hana Ingibjörgu Magnúsdóttur, kennara, sem kenndi okkur, á sinn einstaka hátt, sögurnar um Jesú, um líf hans og starf, kraftaverk og myndrænar dæmisögur Jesú. Ég gæti sagt ykkur margar sögur af trúarlífi mínu frá bernsku og fullorðinsárum en það verður að bíða betri tíma. Trúin er hjá okkur mörgum tengd upplifun og sjónrænu minni og svo auðvitað frásögnum af Jesú, dæmisögum hans og verkum, sem við meðtókum og meðtökum með heyrninni. Postulinn segir: „Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.“ (Rm 10.17) Og Lúkas vitanar í prédikun postulanns sem sagði: „Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“ (Post 4.20) Heyrn og sjón, með eyrum og augum. Svo er líka til innri sjón og heyrn sem ekki skitptir minna máli fyrir trúna.

Jólaguðspjallið er saga, lítil saga en þó svo firnastór. Hún spannar í raun tíma og eilífð og túlkendur hennar hafa fundið í henni óþrjótandi brunn visku, fegurðar og elsku. Jólaguðspjallið er saga sem gerðist í tíma og rúmi. Hún vísar til staðar, stjórnvalda og persóna. Hún er ekki ævintýri sem byrjar á orðunum: „Einu sinni var.“ Nei, hún er söguleg saga um atburð sem gerðist. Hún tjáir ákveðið sjónarhorn Lúkasar. Hann er fréttamaðurinn sem miðlar hinni stærstu frétt allra tíma. En svo flytur Jóhannes sitt jólaguðspjalla og fer allt öðru vísi að. Hann segir ekkert um ferðina til Betlehem, ekkert um fjárhús, jötu, fjárhirða eða vitringa. Hann segir aðeins að Orðið, viska Guðs, speki hans og máttur, hafi fæðst á jörðu. Hann sviðsetur undrið með upphafsorðum guðspjalls sína og setur svo fram kjarnann í þremur orðum: Orðið varð hold.

Og jólasagan kveikir margar hugsanir og getur sett ímyndunaraflið af stað eins og hjá höfundi þessarar gamansögu þar sem hann veltir því fyrir sér hvernig sagan væri ef vitringarnir þrír hefðu verið konur. Hann er með það á hreinu eins og þið fáið nú að heyra. Þær hefðu auðvitað byrjað á því spyrja til vegar og þar af leiðandi komið á réttum tíma, hjálpað til við fæðinguna, þrifið fjárhúsið, eldað pottrétt og fært barninu að gjöf einnota bleyjur!

Já, við gætum spunnið endalausan þráð með því að byrja allar vangaveltur okkar á orðunum: Hvað ef? Slíkar vangaveltur leiða okkur ekki neitt og segja ekki neitt en þær gætu skemmt okkur. Hitt skiptir öllu að skilja það sem sagt var í knöppum stíl þeirra sem rituðu guðspjöll Nýja testmentisins.

Kjarni jólanna er holdtekja Guðs, að Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Kjarni jólanna er ekki bara barnið í jötunni heldur um leið Kristur á krossinum. Við getum ekki látið staðar numið við sætleika jólasögunnar. Við verðum að ganga lengra og spyrja að leikslokum holdtekju Guðs á jörðu.

Jatan og krossinn eru sömu gerðar, hrjúft og óheflað timbur handa Frelsara heimsins. Já, þannig var við honum tekið og þannig var hann kvaddur. En elska hans var og er söm við hinn hrjúfa heim, sem teygir sannleikann eins og hrátt skinn og yptir öxlum þegar hann er spurður um tilgang og markmið. Afstæðishyggjan ógnar vestrænni menningu, sagði hin hugrakka Ayann Hirsi Ali, sem ólst upp í strangtrúaðri austur-afrískri múslimafjölskyldu, en öðlaðist síðar frægð fyrir baráttu gegn kúgun múslimakvenna. Hún segir skilningsleysi gagnvart ógnum sem vestræn menning standi frammi fyrir ógna henni innann frá. Hirsi Ali er reyndar trúlaus, en ég spyr: Er það ekki einmitt vaxandi trúleysi eða skeytingarleysi um trú, efahyggja Vesturlanda, sem er vandinn, brottkast hinna góðu gilda, sem skapar tómarúm og um leið aðfall þess átrúnað, sem kalla má nýheiðinn sið afstæðishyggjunnar? Er ekkert lengur rétt eða rangt? Er sannleikurinn á mínu valdi? Get ég skilgreint hann sjálfur og ákveðið inntak hans? Nei, til er algildur sannleikur, algilt réttlæti, algild elska og óendanleg.

Þrátt fyrir ólíkar trúarskoðanir í heiminum erum við eitt mannkyn. Mannfræðingar hafa undrast hvað margt er sameiginlegt þegar menningarkimar eru skoðaðir og rannsakaðir. Eitthvað er sameiginlegt með trúarhugmyndum á öllum tímum og alls staðar, svo ég vitni í grein Haraldar Ólafssonar, prófessors emeritus.

Manninum er eðlislægt að trúa. En hvað er trú? Er hún andstæða skynsemi og byggð á einhverju loftkenndu, óáþreifanlegu? Nei trúarhugtakið er samkvæmt hinum fornum kirkjufeðrum, eins og til að mynda Ágústínusi, tengt trausti og tiltrú sem byggist á vitnisburði af sögulegum atburðum. Lútherskur rétttrúnaður hélt áfram að túlka hugmyndir hans og annarra og skilgreindi trúarhugtakið á þrjá vegu:

1) trú sem þekkingu (l. notitia), það er trúin á að Guð sé til;

2) trú sem viðurkenningu (l. assensus), það að trúa Guði

3) og trú sem traust (l. fiducia), það er trúin sem tengist Guði í trausti til hans. (SÁE, Glíman/4, 2007, 86)

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur segir meðal annarra orða þetta um trúarhugtakið:

„Í umræðum evangelískra guðfræðinga hefur sú afstaða að trúin sé traust skipað öndvegi. Trúin er því ekki tilvinjunarkennd, undirstöðulaus eða óskynsamleg. Hún stendur ekki ein út af fyrir sig, heldur beinist hún að Guði sem maðurinn á samfélag við. Þessi tengsl Guðs og manns lúta að þekkingu, viðurkenningu og trausti. Kristin trú er því ekki blind, heldur ígrunduð, með henn er gerð grein fyrir uppruna traustsins á Guði og færð rök fyrir gildi þess fyrir allt líf mannsins.“ [. . . ] Mikilvægastur er sá þáttur trúarinnar sem maðurinn notar til að meðtaka fagnaðarerindið sem persónulegt ávarp og til að tileinka sér það (l. fides apprehensiva). Trúin veitir manninum nýja stöðu sem gerir honum kleift að skynja og takast á við veruleikann sem heild, þrátt fyrir allar þverstæður lifsins. Í trúnni veitir Guð manninum tiltekið sjónarhorn á tilveruna. Trúin beinist því ekki endilega að handanveruleikanum og opinberunum sem tengjast honum, heldur er hún fyrst og fremst aðferð mannsins til að takast á við og móta sitt daglega líf.“(SÁE, Glíman/4, 2007, s. 86)

Trúin fylgir manninum á leið hans og er eitt það mikilvægasta sem hann fæst við. Trú og skynsemi eru ekki andstæður, heldur trú og vantrú. Og trúin er ekki aukaatriði eða aukaafurð jarðlífsins. Hún er þar í miðju, í hjartastað mannsins og tengir hann himni Guðs, setur hann í hið stóra samhengi tilverunnar, samhengi hins stóra hjarta Guðs sem slær af ást til allra manna. En svo er það efinn. Hann kallast stöðugt á við trúna eins og við heyrðum fyrir viku hér í Neskirkju um efasemdir Jóhannesar skírara í fangelsinu og af fréttum fjölmiðla af trúarglímu Móður Theresu sem opinberaðar hafa verið úr dagbókum hennar. Okkur er eðlislægt að trúa á Guð og efinn fylgir henni stöðugt. Hann er aflvaki trúarhugsunar og glímunnar við lífið og tilveruna.

Jólasagan, þessi einfalda og fábrotna saga, er orðin hluti af okkar sögu - samofin lífi okkar og tilvist allri. Við fæddumst flest inn í þessa sögu, við höfum lifað með henni og við deyjum inn í hana og himinn hennar í fyllingu tímans. Jólasagan varðar allt líf á jörðu. Hún er staðfesting þess að Guð elskar þennan heim, elskar hið jarðneska líf, helgar hið efnislega og setur á það nýjan merki- og verðmiða og hvetur okkur til að njóta lífsins í gleði og ábyrgð í senn, gleði barnsins sem uppgötvar gjafirnar sem gefnar eru og í ábyrgð hins fullþroska sem veit að hann er ekki einn í heiminum.

Jólasagan varðar okkur öll. Hún er sagan sem breytti sögunni, sagan sem er orðin hluti af sögu þinni og minni, saga allra tíma, saga um eilífa elsku Guð. Þú ert með í þeirri sögu, við erum öll með í þeirri sögu, með í því undri sem Guð gerði og er enn að gera.

Í bæn eftir Dag Hammarskjöld segir:

Guð minn, fyrir allt sem var - takk.

Við öllu sem verður - Já!

Allt er í hendi Guðs, jólin og hversdagurinn, tími og eilífð, líf og dauði.

Gleðileg jól, í Jesú nafni, gleiðleg jól!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.