Kveiktu á perunni!

Kveiktu á perunni!

Kertaljós mynduðu stóran hring umhverfis söfnuðinn í Neskirkju í dag. Það var ljósamessa og fermingarbörnin sáu um lestra og ljósburð á þessu hundrað ára peruafmæli. Ekki átti ég von á mikilli messusókn í slagviðrinu, en 330 manns komu í kirkju! Kirkjusóknin er stöðugt að aukast, öllum til gleði. Safnaðarlífið eflist. Í samræmi við ljósamessu og perudag var flutt hugvekja fremur en prédikun.

“Verði ljós” hljómaði við upphaf heimsins og svo varð. Jesús sagði: “Ég er ljós heimsins” og það er satt.

Það er ljósamessa í dag, ljósin tindruðu í kirkjunni og spegluðust áðan í augum þessa fallega fólks, sem báru þau. Það er við hæfi að messulýsa með þeim hætti því nú er hundrað ára ljósaperuafmæli þjóðarinnar. Á þessum degi, 12. desember, 1904 var kveikt á fyrstu perunum á Íslandi. Jóhannes Reykdal gangsetti ljósavél suður í Hafnarfirði. Svo logaði á perunum á nokkrum heimilum og ljósvæðing þjóðarinnar hófst. Raflýsing hefur gerbreytt aðstæðum. Auðvitað vitum við að ljósorkan skiptir okkur miklu og finnum það best þegar allt slær út. Þá erum við í vandræðum. Við þörfnumst orku til velferðar, til að við getum kveikt á perunni.

Ljós og myrkur er líklegast djúpsæknasta tvennan í skynjun manna. Þegar myrkur umlykur okkur vaknar óttinn. Sjálfsagt áttu einhverja minningu um, að þú varst ein eða einn í algeru myrkri. Sumir tryllast fullkomlega við þær aðstæður.

Schindlerslistinn

Ég horfði á mynd Steven Spielbergs Schindler’s list í síðustu viku. Sagan segir frá Óskari Schindler og hópi Gyðinga, sem honum lánaðist að fá að nota sem verkamenn í verksmiðju sinni. Með brellum tókst honum síðan að véla yfirmenn fangabúðanna til að heimila flutning þeirra til Tékkóslóvakíu til að vinna þar í annarri verksmiðju Schindlers. Karlarnir voru fluttir sér og konurnar í annarri lest. Sögur höfðu borist til hópsins hvernig gasklefar væru notaðir til að eyða fólki. Kvennahópurinn var fyrir mistök fluttur til Auschwitz. Stórar sem smáar konur voru neyddar til að afklæðast og fara inn í risastóran klefann með ljósum og sturtuhausum í lofti. Hægt var ímynda sér að þeir væru annað hvort fyrir sturtuvatn eða sem útbúnaður fyrir gas inn í klefann. Kvennahópurinn stóð stjarfur og beið þess sem kæmi úr pípunum. Yrði það gas eða vatn? Alveg óvænt slokknaði á ljósunum og þá veinaði allur hópurinn. Í ógvænlegri stöðu er skelfilegt að sjá ekkert, geta ekki séð hvað verða vill og óttast hið versta. En svo komu ljósin, vatn kom í stað gass og hópurinn komst frá Auschwitz og lifði.

Ljóshvarfið í gasklefanum var eitt eftirminnilegasta atvik myndarinnar og minnti mig í aðventubyrjun á mikilvægi ljóssins. En óttinn býr og dafnar í myrkrinu.

Ljóstákn

Ljós í NeskirkjuLjós eru tákn um sjálft lífið. Við höfum nóg af ljósum til að sjá til, bætum við ljósum til að rjúfa þrúgandi myrkur miðsvetrarnátta á norðurslóð, höldum í skreytingar jólanna fram eftir þorra til að stytta myrkrið svolítið. En svo hefur ljósið dýpri merkingu en hvað varðar hagnýtingu. Ljósið hefur lífsgildi, ekki síst titrandi kertaljós, sem í viðkvæmni sinni tjáir að lífið er auðsæranlegt, ekki má mikið út af bregða til að illa fari. Kertaljós aðventunnar skírskota til dýpri veruleika og verða tilefni íhugunar.

Tilgangur aðventuljósa, ljósskreytinga, allra kertakveikinganna er að kveikja þrá barnsins í okkur, tendra skynjun ljóskomunnar í veröldina, sem sagan um Jesúbarnið tjáir með öllu sínu hlaðna táknmáli, reykelsislykt, heylyktandi jötu, flakkandi stjörnu og konunglegum vitringagjöfum.

Aðventuljósin

Aðventukransar eiga sér ekki langa sögu á Íslandi, þeir fyrstu komu í nokkur hús á stríðsárunum, en breiddust hratt út á sjötta og sjöunda áratugnum. Aðventukransar eiga sér þó orðið 180 ára sögu.

Börnin á munaðarleysingjahælinu Rauhes Haus í Hamborg fengu sögustund á kvöldin. Á aðventunni datt sr. Jóhanni Hinrik Wichern í hug að setja kerti á mitt borð til að gera börnunum dagamun á aðventunni. Börnin sóttu í ljósið, færðu sig nær og stimpingar urðu í hópnum. Þá var brugðið á það ráð, að allir krakkarnir fengju sitt kerti hvert. Ekki var það þó betra, þau brenndu sig og slettu vaxinu. Prestur ákvað því að búa til grenikrans og setti á hann kerti fyrir hvert barn. Þannig varð til hinn fyrsti aðventukrans á árinu 1833.

Síðan hafa kransahefðir þróast og fjögurra kerta kransinn er einn af mörgum krönsum. Við kveikjum á fjórum kertum, eins og fermingarbörnin áðan, til að minna okkur á hið spámannlega samhengi, Betlehemsnándina, að venjulegt fólk fékk að heyra um fæðingu drengsins og svo barst gleðileikurinn upp í himininn til englanna, sem dönsuðu norðurljósadans með söng til dýrðar Guði í upphæðum.

Ljósið

Í forkirkjunni eru bænaskálar sem hægt er að setja kerti í. Þar loga kertin, sem tákn um bænir. Það er gott að sjá að fleiri og fleiri setja kertin sín í skálarnar og senda andvörpin með loga og ljósi langt inn í himininn.

Á altarinu eru logandi ljós til að minna okkur á lífið, sem Guð er og gefur. Sigrún Ásta lifnaði sem ljós á himnum áðan. Nú er hún ekki aðeins lítið barn í heimi, heldur Guðsbarn líka. Líf hennar er ekki aðeins jarðneskt heldur himneskt. Svo fékk fjölskyldan hennar skírnarkerti til að minnast þessa lífs. Eftir messu verður svo önnur stúlka skírð og hún er sama ljósbarn himinsins. (Hið ótrúlega var að hún heitir sama nafni, býr í nágrenni alnöfnu sinnar og skírð á sama degi! Ekki veit ég hvað lindin eru mikil fyrir slíku, en þetta var ótrúlegt stemma).

Aðventan

Það er íhugunarvirði að kynslóðir fyrri tíma álitu tímann fyrir jól undirbúningsmánuð til að undirbúa sig fyrir jólakomuna, notuðu föstur til að magna innri eftirvæntingu og njóta enn betur hátíðarinnar. Áar og eddur notuðu jafnvel ævintýri um jólasveinana til að brýna andann. Hinir fullorðnu trúðu ekki að sveinarnir væru til, heldur voru þessir vondu jólasveinar fremur tákn, sögurnar um þá voru kennslusögur til að minna á að sótt væri að dýrum, atvinnuvegi og heimilum fólks. Fólk þyrfti að gæta sín og gæða sinna. Síðasti jólasveinninn ætlaði að stela ljósinu úr húsunum. Við getum túlkað það sem svo, að það hafi verið hinsta tilraun til að hindra jólakomuna, stela jólunum.

Getur verið að táknmál jólasveinanna gömlu sé einhvers virði á þessum tíma, þegar sótt er stíft í buddurnar okkar, vegið er að friði og yfirvegun fólks. Líklega eru jólasveinarnir gengnir aftur og séu mun svakalegri en þeir gömlu. Verst er ef þeir búa innan í okkur og meina okkur að undirbúa okkur fyrir komu jólanna. Er jólasveinn innan í þér?

Öryggi og aðveitulínan

Klaustur voru stundum staðsett hátt í klettum og illt að komast að þeim. Saga var sögð af ferðamanni, sem vildi komast í spennandi klettaklaustur í Grikklandi. Honum leist ekki á lyftubúnaðinn, karfan var léleg sem hann og munkurinn stóðu í. Enn verri virtist vírinn vera, sem þeir héngu í og dró þá eitt hundrað metra upp í bjargið þar sem klaustrið stóð. Ferðamaðurinn spurði óttasleginn. “Hvenær er þessi vír eiginlega endurnýjaður?” Munkurinn horfði á manninn og svaraði þurrlega: “Þegar hann slitnar!”

Aðventutíminn er tími fyrir endurnýjun, skoðun á hinum andlega búnaði, svo ljósið slokkni ekki heldur fái að lifa vel og lýsa niður í hin andlegu klungur okkar. Hvað er innan í þér? Er eitthvað sem rænir þig jólastemmingu, eitthvað sem þrúgar þig, eitthvað sem sækir að þér, eitthvað sem megnar að skyggja á lífsljósið þitt?

Í lífinu er betra að endurnýja þráðinn uppá við reglulega. Um hann kemur orkan fyrir lífið. Kveiktu svo á perunni í lífinu, alla daga, líka á aðventunni. Þá sérðu vel stjörnuna á jólanótt og þá er lyftubúnaðurinn í lagi í lífinu. Hafðu kveikt á trúarperunni!

Í Jesú nafni. Amen.