Manngildið

Manngildið

fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
25. desember 2007
Flokkar

Guðspjall: Jóhannes 1.1-14 Lexia: Pistill:

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Guð gefi ykkur gleðileg jól.

,,Maður nokkur hafði lengi velt fyrir sér málefnum trúarinnar án árangur. Hann hafði ekki náð að botna í Jesú og einréð það við sig að láta allt er hann varðaði afskiptalaust. Kona hans og börn voru því nú orðið vön því að fara ein til kirkju. Líka þetta aðfangadagskvöld. Hann sat heima og las í bók. Það hafði snjóað og frost var. Hann mundi allt í einu eftir litlu fuglunum og stóð upp til þess að gefa þeim á snjóinn.

Meðan hann horfði á litlu greyin í kuldanum fór hann að vorkenna þeim og hugsaði sér hvað hann gæti látið þeim líða vel inni í bílskúrnum. Hann opnaði bílskúrinn og kveikti ljós og fór að reyna að koma fuglunum inn með ýmsum ráðum allt án árangurs því fuglar himinsins vilja ekki lokast inni í húsum. Eftir mikla umhugsun komst hann að þeirri niðurstöðu að aðeins með einu móti væri það mögulegt að fá fuglana til að fara inn í hlýjan skúrinn. Hann sjálfur yrði að geta gerst fugl og leiða þá inn í birtuna og hlýjuna.

Sem honum dettur það í hug hringja kirkjuklukkurnar og þá er sem uppljómun verði í allri hans hugsun og boðskapur jólaguðspjallsins laukst upp fyrir honum í einni andrá. ,,Auðvitað”, sagði hann með sjálfum sér. ,,Þess vegna varð Guð að gerast maður”. Eins og hann sjálfur varð að gerast fugl til að leiða fugla þá varð Guð að gerast maður til að geta leitt mennina heim að föðurhjarta Guðs og frelsað þá, hjálpað þeim”.

Mig langaði til að byrja prédikun mína á þessari fallegu sögu vegna barnanna sem eru hér í kirkjunni í dag og hlusta á mig. Þessi litla saga er líka gluggi að himnaríki. Hún segir okkur líkt og guðspjöll helgra jóla að Guð hafi gerst maður í Jesú til þess að við gætum átt aðgang að sér. Hún kennir okkur jafnframt að Guð er kærleikur og að við eigum að láta mótast af kærleikanum í daglegu samneyti okkar.

Við þekkjum jólafrásögu Lúkasar. Sú saga er sérstaklega falleg og hreyfir við okkur í hvert skipti sem við heyrum hana lesna eða horfum á hana í helgileikjum barna á aðventunni. Þessa fregn flytur einnig guðspjallamaðurinn Jóhannes. Inngangsorð Jóhannesarguðspjalls tilgreina sömu tíðindi og jólaguðspjall Lúkasar. En Jóhannes lítur mun lengra og dýpra um öxl. Hann lítur til baka til upphafs veraldarinnar. Athugið það kæru heimamenn Guðs!

. ,,Í upphafi var Orðið”, segir hann, ,,og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð”. Þegar Jóhannes talar um Orðið á hann við Jesú. Hann er Orð Guðs. Jesús var því Guð fyrir upphaf aldanna og er Guð að eilífu. Þannig byrjar Jóhannes boðskap sinn. Síðan heldur hann áfram:,,Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð sem Sonurinn eini á frá Föðurnum”.

Áður ríkti fullkominn aðskilnaður milli Guðs og manna en nú eigum við samfélag við Guð rétt eins og við eigum samfélag við hvort annað með öllu sem því fylgir, nægtum og fátækt, gleði og sorgum, heilbrigði og sjúkdómum, nánd og afskiptaleysi, kærleika og kærleiksleysi, nærgætni og kulda, ræktarsemi og vanrækslu.

Það er að sönnu vandlifað í þessum heimi þrátt fyrir að Guð hafi gjörst maður í litlu barni sem þurfti frá fyrstu tíð að reiða sig á umvefjandi faðm jarðneskra foreldra. Líkt og þeir voru englar í mannsmynd eins og stundum er sagt um þá sem hafa til að bera styrka hjálparhönd á alla lund þá höfum við góða reynslu af þessum englum þó að árþúsund skilji okkur og jarðneska foreldra Jesú að.

Mér kemur ekki síst í hug starfsfólkið á sjúkrahúsinu og á dvalarheimilinu sem hefur með einum eða öðrum hætti auðgað líf okkar á Húsavík í gegnum árin. Ævinlega hef ég verið beðinn fyrir sérstakar þakkir til þessa fólks við útfarir ef þannig hefur háttað til að viðkomandi látni einstaklingur hafi notið kærleiksríkra arma þeirra. Rauði Krossinn með sína bráðaliða og björgunarsveitin Garðar með sína vösku hjálparsveit sem eru reiðubúin að koma okkur til bjargar á nóttu sem nýtum degi. Allt þetta fólk er reiðubúið að færa fórnir til að bera kærleikanum vitni líkt og Guð sem gaf okkur son sinn en sú gjöf verður þó aldrei endurgoldin sem skyldi af okkur, veikburða mannfólki. Þess vegna skulum við ekki gleyma að þakka Guði fyrir sína óumræðilegu góðu gjöf í okkar garð. Því að sonur Guðs gefur okkur hugrekki til að halda áfram þrátt fyrir ágjafirnar sem við verðum stundum fyrir í lífinu.

Við sjáum fátækt fólk róta í öskutunnum í Reykjavík, heyrum öryrkjana kalla eftir réttlæti í fjölmiðlum, sjúklingana kalla á heilbrigði, sorgmædda á huggun. Að sönnu leitast samfélagið við að auðsýna þeim virðingu og tryggja hag þeirra. Ýmis konar hjálparsamtök mæta þörfum fátækra og öryrkja allt árið um kring, ekki síst fyrir jólin til þess að allir megi eiga ofan í sig og á, ekki síst börnin. Ungur öryrki minnti okkur á það í fjölmiðli fyrir jólin að það mætti efla þennan þátt eftir að hafa sjálfur þegið aðstoð fyrir jólin. Hann sagðist ekki geta haldið jól án aðstoðar. Þessi áminning minnir okkur á það að það má aldrei slökkva á lampa okkar að þessu leyti.

Þarfirnar eru margar og margvíslegar í samfélagi okkar. Sem betur fer er hægt að mæta þeim flestum í okkar tæknivædda samfélagi þó að forgangsröðunin mætti vera betri oft á tíðum. Ég hef til dæmis áhyggjur af því að enn stendur til að skera niður í heilbrigðisgeiranum á næsta ári, t.d. á Landsspítalanum í Reykjavík. Hversu langt og hversu lengi getum við gengið í niðurskurði í heilbrigðisgeiranum? Á Landspítalanum þurfa t.d. sumir hjartasjúklingar að sofa í rúmum á erilsömum göngum sjúkrahússins í stað þess að búa við kyrrð og frið á sjúkrastofum í faðmi ættingja og vina. Eitt sóknarbarn mitt sagði mér þetta um daginn eftir að hafa reynt þetta á eigin skinni. Ekkert virðist bóla á nýju hátæknisjúkrahúsi í Reykjavík. Ég held að það sé mikilvægt að efla upplýsingaflæðið til almennings til þess að skapa ekki meiri óróleika um málið en orðið er.

Þá finnst mér mikilvægt fyrir okkur landsbyggðarfólk að flugvöllurinn í Reykjavík verði ekki færður t.d. til Keflavíkur eða upp á Hólmsheiði. Flugvöllurinn verður að vera staðsettur nálægt hátæknisjúkrahúsi, öryggisins vegna.

Í Reykjavík er miðborgin óðum að taka á sig nýja mynd. Nýtt tónlistarhús er að rísa og fleiri hús í nágrenninu allt út að Granda. Hér er um milljarðaframkvæmd að ræða. Á meðan róta fátæklingarnir í enn fleiri öskutunnum og öryrkjarnir kalla eftir meira réttlæti. Stéttaskiptingin er orðin að veruleika í íslensku samfélagi og ég spyr hvort við göngum þar til góðs? Öldruðum fjölgar sem aldrei fyrr og kalla eftir fleiri hjúkrunarrýmum. Biðlistar aldraðra eftir slíkum rýmum eru langir. Er þetta forgangsröðunin sem við viljum hafa í þjóðfélaginu?

Ég er ánægður með það að stórfyrirtækin eru í auknum mæli að vakna til meðvitundar um það hversu samfélagsleg ábyrgð þeirra er mikil. En þau hafa veitt auknu fjármagni til góðgerðarmála t.d. í þágu langveikra barna. Ríkisvaldið hefur einnig tekið sig á í þessum efnum og tryggt að allir foreldrar langveikra barna eigi rétt á aðstoð tiltekinn tíma hverju sinni. Að sönnu er að mörgu að hyggja. Ég sé fyrir mér að ríkisvaldið geti boðið mörg verkefni út í einkaframkvæmd, t.d. hvað byggingu og rekstur hjúkrunarheimila snertir.

Við Íslendingar teljum nú um 313 þúsund einstaklinga, þar af eru um 7% útlendingar. Ég tel að í því ljósi þá ætti að vera hægari vandi fyrir okkur íslendinga, en fyrir milljónaþjóðir, að mæta þörfum allra landsmanna til líkama og sálar. Það er vert forgangsverkefni að mínum dómi að minnka þannig stéttaskiptinguna.

Við verðum að standa heilagan vörð um manngildið á hverjum tíma fremur en auðgildið. Það tel ég vera lykilinn að farsæld þegnanna í veraldlegu tilliti. Auðmagnið eigum við að nota til að búa enn frekar í haginn fyrir manneskjuna hver svo sem hún er, óháð kynþætti, bakgrunni, menningu, trú og siðum.

Í sögunni sem ég las í upphafi prédikunar minnar er aðeins talað um fugla, þeim er ekki lýst nánar. Fagnaðarerindi helgra jóla er öllum mönnum ætlað Þar er ekki farið í manngreinarálit. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur sem höfum meðtekið þessar góðu fréttir að líta í eigin barm á hverjum tíma og leitast við að kynnast fólki af öðrum þjóðernum með opnum huga.

Pólverjar eru fjölmennir hér á Húsavík og hafa getið sér gott orð fyrir dugnað. Ég veit ekki hvort sóknarbörn gera sér grein fyrir því að hér í kirkjunni hefur verið sungin kaþólsk messa einu sinni í mánuði um langt skeið. Pólverjar hafa verið fjölmennir í þeim hópi, einkum konur. Samvinna kirkjudeilda er af hinu góða að mínum dómi vegna þess að Kristur er hinn sami þrátt fyrir að áherslur kirkjudeildanna séu ólíkar.

Það er mikilvægt að efla almenna trúarbragðakennslu því að slíkt slær á fordóma sem fara vaxandi í þjóðfélaginu. Heimili, skóli og kirkja eiga eftir sem áður að eiga gott samstarf, á forsendum allra skólastiga þar sem manngildið er haft að leiðarljósi. Verum samferða að því leyti vegna þess að sérhver manneskja er einstök og hefur sínar þarfir sem við verðum í sameiningu að mæta.

Þeir sem vilja ekki skipta sér af trúmálum eru oft þeir sem eru hvað mest leitandi. Efinn kallar á svör. Þú ert svarið, segi ég stundum, við þann sem efinn nagar. ,,Þar sem þú veist að þín er þörf, þar ertu svarið”. Getur þetta svar ekki átt við um okkur öll, óháð trú, menningu og siðum? Ég hygg að svo sé.

Í sjálfu sér eigum við auðvelt með að skilja að okkur beri að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf en það er stundum erfitt í framkvæmd vegna þess að það góða sem við viljum gera það gerum við stundum ekki. Við eigum nefnilega í stríði við holdið þar sem freistingarnar eru á hverju strái. Ævinlega er okkur boðið að reyna aftur ef við misstígum okkur á hálum stígum veraldarinnar. Við stríðum öll við einhverja lesti í okkar fari. Ég trúi því að flestir vilji bæta sig og tileinka sér hið góða, fagra og fullkomna í trú, von og kærleika.

Jólin eru tækifæri til þess að staldra við og hugleiða hvernig okkur sé unnt að verða heilli persónur, næmari á þarfir þeirra sem standa okkur næst og annarra samferðamanna. Í þessum efnum horfum við á Jesú barnið sem hvílir í jötunni. Þar hvílir það fullkomið í sakleysi sínu í leyndardómi trúar og tilbeiðslu.

Í þessu barni birtist vald kærleikans. Þegar við tökum á móti þessu barni í hjartað þá endurnærumst við í trúnni sem veik er fyrir. Þá langar okkur til þess að láta gott af okkur leiða með ýmsum hætti. Okkur langar til þess að bjarga fuglunum eins og maðurinn í sögunni gerði. Með því móti reynumst við sannir og trúir lærsveinar barnsins í jötunni á vegferð okkar í gegnum lífið. Guð gefi okkur náð til þess alla daga. Amen.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.