Ég kynntist eitt sinn ágætum eldri systrum sem voru einkar nánar og stóðu fallega saman í lífinu. Önnur var í hjónabandi og átti sex börn og stýrði sínu heimili með myndarbrag, hin var alla tíð ógift og barnlaus og vann lengstum í Kassagerðinni harðdugleg og vellátin af öllum. Ástvinir þeirra hafa gaman af að rifja upp þá minningu nú eftir að báðar eru fallnar frá að iðulega heyrðust þær segja hvor um aðra þegar hin heyrði ekki til: „Hún systir mín! – hún er gjörsamlega óslitin manneskja.”
Báðar voru þessar systur hvor á sinn máta öndvegis konur sem stóðu vel að sínu þótt viðfangsefni þeirra væru ólík, og jafnvel þótt þær hefðu e.t.v. ekki fulla innsýn í líf hvor annarar voru þær góðar systur.
Það býr í okkur öllum sterk tilhneiging til þess að hafa okkar eigið líf og aðstæður í meiri forgrunni en líf annarra. Okkar lífsbarátta, okkar áhyggjur, okkar sigrar og áföll eru einhvern veginn það sem næst okkur stendur og við sjáum það bara skýrar en aðstæður annars fólks þótt við vitum ósköp vel að veruleiki hvers um sig er ekki meiri veruleiki en annara líf. Orð Jesú í guðspjalli þjóðhátíðardagsins hvetja okkur til þess að gera ráð fyrir þessari innbyggðu misvísun. Það býr húmorísk þekking á manneðlinu í orðum Jesú er hann segir: Allt sem þið viljið að aðrir menn geri ykkur, það skuluð þið og þeim gera. Gullna reglan, eins og þessi orð jafnan eru nefnd, er svo gullin og góð sem raun ber vitni af því að hún ber með sér að það er í alvöru verið að fatta hvernig fólk hugsar. Við erum öll egóistar og ef við viðurkennum það ekki fyrir sjálfum okkur erum við í sífelldum vandræðum.
Systurnar góðu voru sannar systur og reyndust hvor annarri mikils virði á lífsgöngunni og það er ekki eins og líf þeirra hafi einkennst af einhverri sjálflægni, öðru nær. En það breytti ekki því að í augum beggja var hin gjörsamlega óslitin manneskja og ólíku saman að jafna hvað hvor um sig hafði á sig mátt leggja í lífinu. Síðan höfðu ástvinir þeirra bara nægan húmor fyrir lífinu og stórfjölskyldan elskað þær og naut þeirra og gat unnt þeim þess að vera manneskjur með sína innbyggðu misvísun eins og allt annað fólk.
Og nú er þjóðhátíðardagurinn, dagurinn þegar okkar þrasgjarna þjóð minnist stofnunar lýðveldisins 1944. Haldið þið í alvöru að til séu meiri þrasarar en við Íslendingar? Um hvað er ekki þrasað? Yfir hverju er ekki býsnast? Samt erum við góð þjóð, gott fólk í yndislegu landi og gætum aldrei hugsað okkur annað en þetta land með sínu dýðrlega vori, leysingum og mófuglasöng. Við elskum sögurnar okkar, ljóðin okkar, fjöllin okkar. Hvaða Íslendingur myndi hafa málverk í stofu sinni með útlensku fjalli? Ef þú kemur inn í stofu hjá fólki og við blasir norskur fjörður eða þýskur bóndabær þá kallar það á skýringar. Við viljum íslensk fjöll á okkar veggi. Þau veita okkur öryggi og vekja með okkur stolt á allt annan máta en nokkuð annað myndefni. Og svo má ganga út frá því sem vísu að fjallið er umdeilt. Hver á fjallið fyrir það fyrsta? Hver á afréttinn? Hvar liggja hreppamörkin? Hversu hátt er fjallið í rauninni? Og hver kleif það fyrst þarna að norðanverðu? Er nafnið sem fest hefur við það hið rétta nafn eða heitir fjallið í raun því nafni sem alltaf var notað í byggðunum austanvert eins og ótal heimildir greina en menn hafa bara ekki viljað viðurkenna!? – Sitt sýnist hverjum en samt eru allir sammála um það að hér er mikið fjall og hið merkasta kennileiti í Íslenskri náttúru og hvað sem öllu eignarhaldi, nýtingu og hreppamörkum, mælingum eða örnefnum líður þá er fjallið skuldlaust allra fjall.
Það er þetta sem gerir okkur að þjóð. Við eigum fjallið öll þótt það einmitt aðskilji okkur og við sem búum hérna megin séum síst að skilja hvað þau meina þarna hinu megin. En svo þykir okkur undur vænt um þau þarna fyrir handan ekki síst þegar á bjátar, enda löng hefð fyrir því að menn leggi niður allt þras og þrætur þegar í nauðirnar rekur og hvað þá ef menn rekast sveitunga í útlöndum. Fólk sem vart kinkar kolli í Kringlunni faðmast ef það hittist á götuhorni í stórborg eða rangalar óvart inn á sama spánarbarinn. Við erum góð þjóð, gott fólk í góðu landi og innst inni vitum við það því að veggirnir í stofum okkar tala einum rómi og minna okkur á að fjallið er eitt þótt byggðirnar séu margar og viðhorfin misvísandi.
Því er okkur hollt að staðnæmast við gullnu regluna sem er svo ísmeygilega fyndin í hógværð sinni og minnir okkur á hina fyrirframgefnu misvísun mannshjartans sem alltaf tekur sinn pól í fjallinu og getur ekki að því gert. Hvernig vil ég að þau fyrir handan komi fram við mig? E.t.v. líður þeim bara eins og mér. Og e.t.v. slær hjarta þeirra eins og mitt og von þeirra er vísast bundin sömu þrám um hamingju og farsæld?
Þess vegna skulum við vanda okkur við það að vera lýðveldi. Við skulum heyra og ígrunda aðstæður í öllum byggðum og um fram allt gæta þess að komandi kynslóðir eigi fjallið og gæði þess ósködduð þegar við erum farin en þau komin.
Amen.
Guðspjall: Matt 7.7-12