Náð og friður Drottins sé með okkur öllum, í Jesú nafni. Amen.
Hljóðlátt og dreymandi hafið við ströndina niðar, huganum geymandi ljósblik hins eilífa friðar, mislynt á blessun og bölvun við ríkan og snauðan, breyzkt eins og hjarta, sem elskaði vin sinn í dauðann. Daggir að djúpinu renna. Kossar á kinnum þess brenna. Kvöldsólar augum það lokar, er sezt hún til viðar.
Þannig yrkir skáldkonan frá Mosfelli, Rósa B. Blöndals, í upphafi á kvæðabálki sínum, „Pourquoi pas?“ eða „Hvers vegna ekki?“. Eins og nafn kvæðisins gefur til kynna fjallar það um örlög franska rannsóknarskipsins Pourquoi pas?, sem fórst við Íslandsstrendur árið 1936. Þá var Rósa 23 ára gömul og orti kvæðið sama ár í minningu skipverjanna 40, sem allir nema einn drukknuðu.
Rósa minnir okkur í kvæðinu á, að hafið tekur á sig ýmsar myndir. Það er „mislynt á blessun og bölvun,“ það er að í því getur búið í senn lífsbjörg og hel manneskjunnar. Í dag niðar það hér við höfnina, „hljóðlátt og dreymandi,“ með orðum skáldsins, en í annan tíma getur það orðið sem „brimstuna öskruð í myrkri, sem veit ekki af degi,“ eins og segir annars staðar í kvæðabálknum.
Það er sjómannadagurinn. Við Íslendingar minnumst í dag þeirra sem fara og hafa farið um hafsins vegu. Kirkjan tekur þátt í hátíðahöldunum um land allt með helgihaldi eins og þessu hér við höfnina. Þar biðjum við í söfnuðunum fyrir sjófarendum og þökkum þjónustu þeirra og fórnfýsi við að draga björg úr greipum sjávar. Við minnumst líka gjafa Guðs og tökum undir með höfundi Davíðssálma í lexíunni hér áðan, segjum: „Þakkið Drottni, því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.“ Við þökkum þá miskunn Guðs, að þjóð okkar getur sótt bjargræði sitt til sjávar. Við þökkum einnig vernd og hlíf Drottins yfir sjómönnum, því að hvert skipti sem bátur skilar sér heill til lands er sannarlega þakkarefni.
En um leið hvarflar hugurinn til allra hinna sjóferðanna, þessara sem ekki lauk með heillum; til Pourqoui pas? og allra hinna skipanna og áhafna þeirra, sem hlutu sömu örlög. Við minnumst á sjómannadegi þeirra sem látið hafa líf sitt á hafi úti. Um leið og við felum þá í Guðs hendur í bæn, vakna áleitnar spurningar um nærveru Drottins og mátt hans í neyðinni. Hvar er Guð þegar öldufaldar í ofviðri taka völdin af skipstjórnarmönnum? Hvar er Guð þegar skipi slær á sker og brotsjórinn flæðir inn í það?
Þegar trúkonan Rósa lifir sig í kvæðinu inn í síðustu sjóferð franska skipsins, leggur hún áhöfninni í munn bænamál á örlagastundu:
Þeir báðu í Drottins nafni, og hrintu út í sjóinn báti af bát með björgunarvon í stafni.
Björgunarvonin dofnaði skipverjunum og hvarf að lokum, og þeir hlutu vota gröf, allir nema einn. Guð bænheyrir okkur ekki alltaf á þann veg, sem við helst hefðum kosið. Og hérna megin grafar fær enginn maður skilið, hvers vegna því er þannig farið.
En hitt megum við vita, þegar við spyrjum okkur sjálf: Hvar er Guð í neyðinni?, - að þá er Guð einmitt þar, þrátt fyrir allt. Oft finnst okkur hann hulinn, en þó er hann nær okkur en okkar eigin andardráttur.
Lærisveinar Jesú töldu í frásögn guðspjallsins að það væri úti um þá á vatninu þegar tók að hvessa, þar sem meistari þeirra væri sofandi í bátnum. Á sama hátt skynjum við ekki alltaf nálægð og mátt Guðs í þeim erfiðleikum, sem að okkur steðja.
Þegar sjó brýtur á skipsflaki og áhöfn heyr baráttu upp á líf og dauða í brimrótinu, þá er Guð þar.
Þegar unga konan í landi fær þær fréttir til sín og barnanna sinna, að hún sé orðin ekkja, þá er Guð þar hjá þeim.
Og í djúpi og myrkri hafsins, þar sem drukknaðir sjófarendur hvíla, þar eru þeir heldur ekki einir, því að Guð er hjá þeim.
Skáldið segir:
Sæbrim hjá sandsins strönd sofnar við morgunrönd. Hægt, eins og líði líf, lokast þess brár. Bláalda, svíf þú, svíf, sorghafsins tár. Andi Guðs einn er hlíf, einn græðir sár.
Eitt af fermingarbörnum vorsins á Héraði spurði mig í vetur, hvers vegna talað væri um salinn í kirkjunni sem kirkjuskip. Þetta minnir okkur á að kirkju Krists er gjarnan líkt við skip, fley þar sem Jesús stendur í stafni og leiðir til hafnar. Myndin hér í messuskránni af krossinum með skipsmyndinni getur einnig vakið upp slík hugrenningatengsl.
Segja má að íslenska þjóðkirkjan gangi í gegnum öldurót þessi misserin og það gefi á bátinn hjá henni. Næsta föstudag verður birt skýrsla rannsóknarnefndarinnar, sem var falið að kanna hvort embættismenn kirkjunnar hefðu brugðist rétt við þegar fyrrverandi biskup Íslands var sakaður um kynferðisbrot.
Ég veit ekki frekar en þið hvað í þeirri skýrslu kann að standa. Við þurfum hins vegar öll að vera viðbúin því að innihald hennar kunni að vera mjög alvarlegt, jafnvel upplýsingar um skipulagða þöggun á æðstu stöðum í kirkju og stjórnkerfi.
Það er mikilvægt að við öll, skipverjarnir á kirkjuskipinu, treystum fyrst og fremst skipstjóranum Jesú Kristi og anda hans í þessum málum, fremur en þeim mannlegu stýrimönnum sem kirkjunni eru gefnir á hverjum tíma.
Það er bæn mín að ef niðurstöður nefndarinnar reynast alvarlegs eðlis, verði ekki gripið til sjálfsréttlætingar eða meðvirkni með þeim sem þar koma við sögu, heldur hugað að hagsmunum kirkjunnar í heild, samfélags lærisveina Jesú Krists. Sú skúta gegnir nefnilega svo mikilvægu hlutverki, að heiðarleiki stýrimanna hennar og ræðara þarf að vera hafinn yfir allan vafa, til að sárin geti gróið og skipið náð réttri stefnu á nýjan leik.
Bláalda, svíf þú, svíf, sorghafsins tár. Andi Guðs einn er hlíf, einn græðir sár.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Flutt í útiguðsþjónustu við smábátahöfnina á Borgarfirði eystra á sjómannadaginn, 5. júní 2011