Það besta

Það besta

Jólin eru gengin í garð og fylla vitund okkar ómótstæðilegum kenndum. Um stund fáum við að njóta þess besta. Um stund fáum við að líta eigin augum þá veröld, þá tilveru sem við óskum okkur helst.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
26. desember 2006
Flokkar

Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss. Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt. Lúkasarguðspjall 2:15-20

Það er eitthvað sem gerist innra með mér og ekki aðeins mér heldur er sem umhverfið all sé íklætt dulúð á jólum. Kyrrðin svo mikil er hún stendur frammmi fyrir spegli ásjónu sinnar, segir ekki neitt, en þess heldur er nærvera hennar svo sterk að hún hreyfir við einhverju innra með manni. Kannski hafi hirðunum á Betlehemsvöllunum liðið eins. Helgin sem fyllir loftið er svo mikil að maður finnur óræða þörf til að vilja halda í við þá stund sem líður hjá og um síðir hverfur inn í nóttina – eilífðina. Tilfinning ótta sækir að hvort nóttin skili aftur því sem hún hefur og mun taka.

Andblær framandleika fyllir vitund og veruleika alls umhverfis. Ósjálfrátt sækir að knýjandi þörf til þess að leggja við hlustir og það eigum við að gera á jólum þeim dögum sem sestir eru að í mannheimum og veitir okkur hlutdeild í sér. Ekki venjulegir dagar. Þögnin, kyrrðin og ljúfir tónar hennar þjóna okkur til borðs og færa okkur ilmandi rétti hátíðarinnar. Ilmur sem er engu líkur. Ilmur sem gælir við og kitlar þrána eftir að eiga stund og eða stundir sem allrajafna eru okkur fjarlæg. Ekki vegna þess að hún vilji ekki vera með okkur. Nei, miklu frekar að við gefum okkur ekki tíma til að taka á móti henni – stundinni.Ilmur gengina jóla sameinast þessum dögum þannig að úr verður ómótstæðileg stund, því á jólum er vitjunarstund. Drottinn vitjar okkar hvert og eitt. Hann vekur með okkur löngun til að dvelja við aftanljós þau sem við höfum tendrað til að bægja frá hversdagsleikanum, sem um sinn verður að sætta sig við að standa fyrir utan.

Jólin eru gengin í garð og fyllir vitund okkar ómótstæðilegum kenndum. Um stund fáum við að njóta þess besta. Um stund fáum við að líta eigin augum þá veröld, þá tilveru sem við óskum okkur helst. Kyrrlátrar tilveru, sem talar við okkur hvert og eitt og segir okkur að undirbúningur þessa sem liðið er og þess sem er framundan er okkar. Jóladagana sem á eftir fara, að undirbúningur þeirra með tilheyrandi ys og þys voru til þess gerðir að umhverfast og eða ganga fram í hljóðri lotningu. Stundu sem á einhvern hátt er ekki hægt að festa hönd á. Stundu sem ekki var umvafin jólapappír fyrr tveimur kvöldum síðan. Tímalaus Atburður átti sér stað og stund sem er tímalaus. Jólaguðspjallið afhjúpar hið fegursta sem til er í veröld mannsins þegar birtu af veröld Guðs leggur inn í heim hinna smæstu.

Í einfaldleika sínum gengur hún fram sagan af fæðingu barnsins í Betlehem og sem á skjótri stundu verður veröldin ekki söm. Ekki frekar en þegar við hugsum til gærdagsins og lungan af deginum á undan. Börnin yfirmáta spennt og fullorðnir líka. Andrúmsloftið mettað af þykkri dulúð.

Þetta eitthvað sem ég talaði um hér áðan og er sveipað dúluð gæti verið það að jólaguðspjallið er innihaldsþrungin frásögn í tilveru yfirborðsmennsku í svo mörgu. Frásögn sem talar beint til okkar, á erindi við það dýpsta í vitund okkar. Frásögnin er samofin andstæðum sem hver maður þekkir án frekari skýringa og á þeirri stundu sem hún er heyrð veit sá eða sú hvar hann eða hún stendur í þessum heimi. Sagan vekur til vitundar um hið góða og fagra og fullkomna. Sagan er tímalaus, hún er enn að gerast, hún gerist á hverjum degi í ýmsum myndum m.a. þegar hið góða, fagra og fullkomna er fótum troðið og það gerist árið 2006.

Jólin flytja okkur boðskap í dimmum heimi um nýtt hugrekki sem tekur ekki óttann frá manninum heldur veitir honum nýja fullvissu, nýtt mótvægi, nýja sannfæringu. Jólin flytja okkur rétt eins og hirðunum nýjan fögnuð sem veitir þrótt í daglegu lífi. Síðast en ekki síst eiga jólin erindi til okkar með nýja von, án vonar getur engin maður lifað.

Allstaðar ljós vonar, meira segja stjörnur himinhvolfsins, sem einhverju sinni olli hugarangri í huga lítils drengs, sem þorði ekki að sofna af ótta við að bandið sem héldi þeim uppi mundi slitna – hvað þá – það var of skelfilegt til þess að hugsa.

Stjörnur himinhvolfsins sendu kveðju ljóssins á nóttu sem leið, til okkar. Blikka okkur, svo fjarlægar, en samt svo nálægar, að manni finnst að hægt sé að teygja sig í þær og snerta.

Blær þess sem var er gengin inn í kyrrð og helgi jólanna. Kyrrð og helgi sem ekki er hægt að færa í orð þannig að hægt sé að klæða í búning skilnings. Heldur er um að ræða andblæ, sem ekki er hægt að taka í lófa sér og fanga. Frelsi þess er algjört. Andblær sem umlykur allt umhverfi okkar, vitund alla. Andvari sem faðmar okkur að sér og við fáum ekkert um það ráðið, af eða á.

Það er sama hvert litið er, hátíð er í bæ og borg. Meira að segja húsin sem kúra í svörtu myrkrinu virðast fyllt lotningu, kyrrðar öll kvöld og reyndar þessa dagana stuttu í myrkrinu og snjóleysinu.

Andadráttur þess liðna

Það er sem heimurinn allur haldi niðri í sér andanum, til að raska ekki kyrrð myndarinnar. Þ.e.a.s. ef heimurinn er gatan og næsta nágrenni. Sem hann vissulega er þegar hægt er að telja lífárin á fingrum annarrar handar. Þá er veröldin aldrei stærri og undur hennar meiri.

Hvort heldur sem við erum ung eða öldruð, veröldin stór eða lítil í huga, þá sækir og kallar jólahátíðin fram barnið í okkur. Á jólum megum við láta eftir okkur að gleðjast sem börn. Á jólum hlustum við á sömu söguna aftur og aftur eins og börn.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því eigi var rúm fyrir hann í gistihúsi.

Sögu sem í einfaldleika sínum; en samt svo stórfengleg, talar til okkar, snertir okkur. Við lítum við og leggjum við hlustir. Leggjum frá okkur amstur og hversdagsleika dagana.

Ómur radda liðinna jóla beiðist inngöngu og við aldrei fúsari opnum gistihús hjartna okkar. Einfaldleiki hjartna okkar er í samræmi við þann einfaldleika og látleysi sem frelsari heimsins fæddist í. Í því látleysi talar jólahátíðin við okkur hvert og eitt - óháð aldri, óháð stöðu. Það lætur ekki hátt í röddu jólanna.

Myrkrið var yfir og allt um kring þegar frelsari heimsins, ljós heimsins fæddist í lágreistu fjárhúsi og lagður var í jötu eins og jólaguðspjall Lúkasar greinir frá. Heimurinn varð ekki samur aftur. Það er þessi kennd sem grípur okkur á jólum. Það er allt öðruvísi en venjulega er.

Veraldlegur kraftur jólanna er ekki mikill. Hátíðleiki jóla og kyrrð þess er vissulega í engu samræmi við dagana á undan. Undirbúningur okkar er í raun og sannleika okkar tjáning á því sem við viljum helst hvísla í eyru jólanna. Að við fáum að hleypa helgi þeirra og kyrrð ekki aðeins inn í híbýli okkar heldur og inn í vitund okkar.

Jata vitund okkar þarf ekki að afklæðast hversdagsleikanum til að íklæðast hátíðarklæðnaði til að taka á móti frelsara heimsins.

Frelsari heimsins fæddist í þennan heim. Á jólum minnumst við ekki þessa atburðar heldur tökum á móti gestinum sem stendur við dyrnar og knýr á. Hann knýr ekki fast á, því hann er hógvær eins og aðstæður fæðingarstaðar hans gaf fyrirheit um. Megi góður Guð gefa þér kirkjugestur góður og fjölskyldu þinni gleðiríka jólahátíð.

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú.