Nú er tíminn kominn sem við flest njótum best um leið og við óttumst mest um þau sem við elskum, einkum um unga fólkið okkar. Nú standa björtu sumardagarnir þegar við Íslendingar tökum pásu frá alvöru lífsins og slökkvum svolítið á okkur.
Ég gleymi aldrei sumrinu þegar ég varð sautján. Þá var gaman að lifa. Ég átti skellinöðru sem ég þeyttist á um borg og bý, var að vinna uppi í Mosfellsdal og jafnan þegar ég kom akandi niður Ártúnsbrekkuna reyndi ég að setja nýtt hraðamet. Hæst náði ég upp í 95 km. hraða á klukkustund, liggjandi fram á stýrið á litla græna Honda SS50 hjólinu mínu, og svo tók ég beygjuna til hægri inn á Sæbrautina og lagði metnað minn í það að hægja ekki á fyrr en í fulla hnefana. Ég dýrkaði hraða - alveg þar til dag einn...
Í þá daga var enn hægt að taka beygju til vinstri á afreininni frá Ártúnsbrekkunni því þarna hafði áður staðið beínsínstöð eins og margir muna. En það tók aldrei neinn þessa beygju, eða þannig. Og kvöld eitt þegar ég kom hvínandi í fimmta gír liggjandi fram á stýrið og lagðist inn í beygjuna á 90 km. hraða var bíll fyrir framan mig sem ég hugðist taka fram úr. En þá gerist það í þann mun sem ég kem aftan að honum að hann beygir í veg fyrir mig til vinstri. Ég vék mér ögn í sömu átt og smaug fram hjá honum á leifturhraða um leið og ég straukst við ljósastaurinn sem þar stóð. Enn stendur staurinn á sínum stað og iðulega þegar ég ek fram hjá honum renni ég huganum til þessa augnabliks þegar unggæðingshátturinn hafði næstumþví dregið mig í dauðann.
Það er eitthvað í manneðlinu sem gerir það að verkum að það er ekki nóg að eiga græjur og kunna á þær. Auk tækja og tóla og allrar kunnáttu og færni er okkur bráð nauðsyn á því að rækta með okkur skynsemi. Annars fer bara illa.
Þess vegna erum við svo hrædd um unga fólkið okkar á sumrin. Þá eru margir á faraldsfæti og þegar maður er unglingur, er að byrja að smakka á lystisemdum lífsins og heldur ennþá að maður sé eilífur þá geta aðstæður svo auðveldlega snúist manni í óhag vegna þess að mann skortir þetta eina; dómgreind.
Dómgreind vex með árum ef allt er í lagi hjá manni. Ætli það sé nú ekki reynsla okkar flestra.
Við hlýddum hér áðan á ritningarorð bæðu úr gamla og nýja Testamenntinu, auk guðspjallsins sem flutt var – söguna um fátæka manninn Lasarus sem lá við dyr ríka mannsins sem skeytti ekkert um aðstæður hans og tók afleiðingum gjörða sinna þótt seint væri.
Textinn úr Mósebókum leggur áherslu á gildi þess að rækta með sér virðingu fyrir almannahag. „...ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.” (5Mós 15.7-8, 10-11)
Og orðin sem lesin voru úr bréfi Jóhannesar hvetja okkur til að íhuga hvað það raunverulega er sem drífur okkur áfram. Hvort við gerum það sem við gerum af ótta eða í umhyggju? “Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni... Og þetta boðorð höfum við frá [Guði], að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.” (1Jóh 4.16-21)
Ég var að tala um dómgreind. Dómgreind vex með árum og reynslu. Þessir textar, Biblíuminnin öll, eru félagsleg dómgreind. Þeir eru hluti af langtímaminni samfélagsins.
Hvað gerir þú þegar þú stendur frammi fyrir vanda í lífi þínu? Ætli við förum ekki öll svipað að. Maður hugsar aftur á bak. Maður fer inn í sjóði minninga og reynslu, rifjar upp atvik og aðstæður sem maður hefur kynnst og íhugar stöðu dagsins í ljósi reynslunnar. Stundum þarf maður líka fá lánaða skynsemi hjá öðrum.
Iðulega þegar ég þarf að vinna einhver viðhaldsverkefni í húsinu mínu eða bílnum þá hringi ég t.d. í pabba minn. Hann hefur sparað mér mörg glappaskotin í gegnum árin með sinni yfirvegun og reynslu. Þegar kemur að garðyrkjumálum á ég ágætan kunningja sem ég alltaf hef samband við. Eða tölvumálin sem oftast eru í klúðri hjá mér! – þar á ég að ungan mann sem kann allt og nennir að leiðbeina mér í gegnum síma. Flest eigum við svona „þekkingarbanka” hér og þar á ýmsum ólíkum sviðum. Við hvern talar þú þegar þú þarft t.d. að vanda viðbrögð þín í samskiptum við fólk? Hvar færðu lánaða dómgreind? Af hverju haldið þið t.d. að Kaffi Flóra blómstri sem fyrirtæki? Jú, kaffið er gott og veitingarnar hennar Marentzu eru frábærar en hversu mörg mál úti í samfélaginu haldið það að séu leyst hér við þessi borð á allskyns óformlegum fundum? Hversu mikið af lánaðri skynsemi haldið þið að svífi hér yfir vötnunum í daglegu lífi? Þess vegna þurfum við kaffihús og krár. Fólk þarf að eiga staði til að hittast, deila reynslu, hlæja saman, safna upplýsingum og taka farsælar ákvarðanir. Til þess eru m.a. kaffihús.
Það barst alla leið inn í Laugarneshverfið blásturinn úr þokulúðrum fiskiskipaflotans sem lá í höfn hér á fimmtudaginn þegar haldinn var þessi mikla samkoma á Austurvelli. Það gildir um sjávarútveginn líkt og önnur svið lífsins að ekki er nóg að hafa tæki og tól og kunna með þau að fara. Tækin og verkvitið eitt er ekki nóg. Dómgreindin verður að fylgja. Og því stærri og afkastameiri sem tækin okkar verða því meiri dómgreindar er þörf.
Inn í það búkk er m.a. gott að taka grundvallarþætti úr langtímaminninu eins og spurninguna um það hvað það er sem drífur mann áfram. Ef ótti tengist því sem gert er þá má segja sem svo að aðvörunarljós bliki á mælaborðinu. „Ótti er ekki í elskunni” segir postulinn. Það þarf að vera alveg á hreinu að samskipti útgeðrarmanna og sjómanna feli ekki í sér óttastjórnun af hálfu eins eða neins og það er heldur ekki gott ef fiskveiðistjórnunarkerfið okkar mótast í hótandi andrúmslofti milli hagsmunaaðila í samfélaginu. Óttastjórnun er léleg aðferð og leiðir aldrei til góðs á endanum segir langtímaminnið.
Eins er mikilvægt þegar við erum að hugsa um atvinnurekstur og nýtingu auðlinda að hafa hugfasta þá fornu visku að ekki skuli bera almannahag fyrir róða og þá sé það góð aðferð að horfa á ókunnugt fólk svo sem þau væru bræður manns eða systur. Allt þetta biblíulega systra- og bræðratal sem oft virkar eins og síbylja er einmitt síbylja og á að vera stöðug ævarandi áminning sem heyrist hærra en þokkulúðrar allra hafskipa: Þið eruð öll bræður og systur! Hugmyndin um sameign á auðlindum hvílir á þessari einföldu vitneskju.
Verum alveg róleg. Við munum aldrei draga af Biblíunni einhverjar útfærslur á flóknum kerfum, hvort heldur þau tengjast hagstjórn, stjórn fiskveiða, heilbrigðiskerfis, menntakerfis, velferðarkerfis eða öðrum viðlíka þáttum. En Biblían og trúin á Jesú, já kirkja Krists í samfélagi okkar er þarna líkt og öldruð ættmóðir sem á og geymir svo margt sem varðar samhengi lífsins og illt er án að vera í hita leiksins.
Það er grundvallaratriði í umferðinni að maður fer ekki framúr á gatnamótum alveg sama hversu gaman kann að þykja að aka hratt. Það sýnir reynslan. Eins er það reynsla genginna kynslóða að farsælast sé til langframa að nota ekki óttastjórnun heldur elskusemi og umhyggju. Á endanum er umhyggjan fyrir lífinu það afl sem sigrar. Ekki óttinn. Eins er það hluti af langtímaminni samfélagsins að mest hagsæld verði þegar hugað er að almannahag. Í því sambandi er það góð þumalfingursregla að horfa á ókunnugt fólk svo sem þau væru bræður manns eða systur. Það hjálpar heilan helling. Líka í sjávarútvegi.
Amen.
Textar dagsins:
5Mós 15.7-8, 10-11
1Jóh 4.16-21
Lúk 16.19-31