Von

Von

Það er dýrmætt að eiga sér von bæði innra með sér og sem nær út fyrir tíma og rúm. Það er dýrmætt að eiga trú á Guð sem færir manni vonina. Og Jesúbarnið færir okkur vonina eilífu.

Bæn:  Elsku Guð, þakka þér fyrir vonina sem þú gefur okkur.  Fylltu hjörtu okkar af helgi jólanna.  Í Jesú nafni.  Amen.

     Náð sé með yður og friður frá Guði skapara vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Hvað bregður fyrir í huga okkar þegar við sjáum mynd af Maríu og Jósef með Jesú nýfæddan?  Líkast til eru hugmyndir okkar jafn margar og við sjálf og mótast af aðstæðum okkar að einhverju leyti.

Þegar ég fór í Orlofsferð húsmæðra í Eyjafirði, til Suður Englands, nú í október, þá sá ég styttu af Maríu og Jósef og saman héldu þau á Jesúbarninu í fanginu.  Neðst á styttunni stóð aðeins eitt orð stórum stöfum – VON.

Við skulum velta þessu fyrir okkur um stund.   Við sjáum fjölskyldu.  Og fjölskylda sem slík, er tákn vonar.  Því barn þýðir nýtt líf, framtíð, að kynstofn okkar mun halda áfram að vaxa og dafna.  Fjölskylda táknar líka kærleika og umhyggju, samstöðu og samhjálp.  Það eru fleiri orð sem koma upp í hugann eins og stuðningur, ást og vinátta.  Öll fela þessi orð líkast til í sér þær væntingar sem við gerum til heimilislífsins.  Já að við verðum ríkari af því að bindast böndum og tengjast og eignumst athvarf og skjól í faðmi fjölskyldunnar.

Fjölskylda lifir ekki í tómarúmi.  Umhverfi og aðstæður hafa áhrif á hana.  Þjóðfélagsástand hefur áhrif á andlega heilsu fjölskyldunnar ásamt undirliggjandi þáttum, eins og erfðum og atferli o.s.frv., sem hafa áhrif á andrúmsloft á heimili sem utan heimilis. Einnig hafa vinir áhrif á okkur, fólkið á vinnustaðnum og í félagslífinu.  Já nærumhverfið.  Við erum félagsverur og því höfum við einnig þörf á að umgangast annað fólk og fara í annað umhverfi, skipta um staði til þess að láta ólíka vinda blása um okkur og auka okkur víðsýni.

     Við sjáum fjölskyldu á ferðalagi.  Og hægt er að segja það að hver fjölskylda sé á ferðalagi bæði í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu – til aukins þroska, til framtíðar o.s.frv.      Við sjáum fjölskyldu við hrörlegar aðstæður en andlegum ljóma bregður af henni.  Fjölskyldan á sér innri styrk  og sá styrkur kemur frá Guði.  Þau eiga sér innra ljós sem á upphafi sitt í Guði.      Við sjáum fjölskyldu sem þarf að flýja heimkynni sín því henni er ekki stætt á að fara heim til sín þar sem Heródes situr um líf barnsins, vegna ótta um að missa völd.  Já hér sjáum við baráttu hins veraldlega valds og andlega valds og skilningsleysi á mikilvægi andlegs ríkdóms. Fæðing Jesú færði heiminum von.  Hún rétti af samband Guðs og manns með því að byggja brú á milli, þannig að menn hefðu færa leið að nálgast Guð.  Jesús  er von heimsins, ljósið sem lýsir upp sálarlíf okkar.

Já þegar við sjáum Maríu og Jósef með ungbarnið Jesú, þá sjáum við von.  Von þýðir samkvæmt orðabókinni „eitthvað (hugstætt) sem maður þráir, óskar, væntir að verði eða það sem hægt er að vænta, búast við, horfur, líkindi.“ (Íslensk orðabók, Reykjavík 1988)  Við þekkjum sögu Jesú og vitum að þetta barn átti eftir að gefa fjölda fólks líf og ljós.  Þráin eftir þessu lífi og ljósi gefur von og með tilkomu Jesú öðlumst við nýja von.  Og þetta ljós og líf bregður birtu sína yfir jólin og fyllir þau af von og kærleika.

Það er dýrmætt að eiga sér fjölskyldu, að vita að maður er hluti af heild.  Það er dýrmætt að eiga vini og kunninga og vita að maður sé hluti af enn stærri heild.  Það er dýrmætt að vita að maður er elskaður og að maður er fær um að elska aðra.  Það er dýrmætt að eiga sér andlegt bakland.  Það er dýrmætt að eiga sér von bæði innra með sér og sem nær út fyrir tíma og rúm. Það er dýrmætt að eiga trú á Guð sem færir manni vonina.  Og Jesúbarnið færir okkur vonina eilífu.

Jólin færa okkur von.  Þau færa okkur andlegan stöðugleika.  Það er Guð sem gefur jólin.  Opnum hjörtu okkar fyrir kærleika hans og umföðmum hvort annað með kærleikanum svo að við hvert og eitt finnum að við séum hluti af heild, hluti af fjölskyldu.  Já hluti af stærri heild sem er kirkja Guðs – samfélag trúaðra.  Guð er hér og hann elskar þig og þú ert barnið hans.

Þökkum og metum það sem við höfum.  Hugsum hlutina í stærra samhengi.  Biðjum Guð um að fylla líf okkar af von og kærleika.  Það er í góðu lagi að þarfnast Guðs, í heimi sem segir að við eigum ekki að þarfnast eins eða neins og vera sjálfum okkur nóg.  Það er í góðu lagi að þarfnast annars fólks, þarfnast ástar, virðingar og umhyggju.  Því við erum hluti af heild, hluti af fjölskyldu.  Við erum félagsverur og þurfum á hvert öðru að halda.

Fögnum yfir fæðingu frelsarans, krjúpum við jötu hans í huganum og meðtökum blessun hans og helgi jólanna.  Jesúbarnið færir okkur von og birtu.  Opnum hjörtu okkar fyrir ljósi Guðs, leyfum því að fá pláss og dvalarstað í hjörtum okkar svo það megi lýsa til annara manna, til fjölskyldu okkar og gera heimilislífið ánægjulegt og kærleiksríkt og fullt, fullt, fullt af birtu og von.  Þá koma jólin til mín og þín.