Bæn: Elsku Guð, við þökkum þér fyrir lífið og það sem við fáum að njóta. Við biðjum þig um að hreinsa okkur og gera okkur heil, heilbrigð. Í Jesú nafni. Amen.
Náð sé með yður og friður frá Guði skapara vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Viltu verða heil? - “ Viltu verða heill?” spurði Jesús sjúka manninn í guðspjalli dagsins. Athyglisverð spurning. Maðurinn var sagður sjúkur og sagður hafa beðið eftir hræringum vatnsins til að komast að því en hafði ekki mátt til þess. Jesús vissi að þessi maður hafði verið lengi sjúkur en samt spyr hann þesssarar spurningar: Viltu verða heill? Er það ekki alveg sjálfgefið að sjúkur maður vilji verða heill? Er það ekki alveg sjálfgefið að sjúkt samfélag vilji verða heilt? Eða kirkjan?
Nei það er ekki sjálfgefið. Hvort sem um er að ræða samfélag eða fólk. Hvort sem um er að ræða líkamleg veikindi, andleg veikindi, félagsleg veikindi eða siðferðisleg veikindi. Veikindi geta falið í sér völd eða ástand sem fólk vill ekki missa. Veikindi geta falið í sér vanmátt sem fólk er ekki tilbúið til að horfast í augu við og takast á við og berjast gegn. Stundum er fólk svo vant veikindum að það vill ekki breyta til og fara í eitthvað nýtt og óþekkt. Sumum finnst best að vera þar sem það er statt í tilverunni og þá skiptir ekki máli þó aðstæður séu slæmar því það fylgir því visst öryggi að þekkja sínar aðstæður þótt þær séu bágbornar og jafnvel mannskemmandi. Oft er fólk á flótta frá Eden, paradís, því einhverra hluta vegna og ástæðurnar eru margar, vill sumt fólk ekki í raun lifa í góðmennsku, kærleika, í jafnvægi. Svona mætti lengi telja. Það er því ekki sjálfgefið að fólk vilji verða heilt.
Viltu verða heill? spurði Jesú sjúka manninn sem lá í súlnagöngunum. Það getur vísað til þess að hann hafi á einhvern hátt verið lamaður. Hann hafði verið sjúkur í 38 ár. Það er mörgu hægt að venjast á styttri tíma en 38 árum. Þessi maður hefur að öllum líkindum verið komið þó nokkuð yfir fimmtugt þar sem ekki er þess getið að hann hafi alltaf verið veikur eða veikst sem barn. Og ekki var meðal líftíminn hár á þessum árum. Líklega var þessi maður komin langt á sín efri ár miðað við meðaltal þess tíma. Ætli hann hafi einhvern tímann hugsað eitthvað á þá leið að það tæki því nú ekki að bera sig eftir björginni? Eða voru möguleikar hans svo litlir að fá björgunina að það tók því ekki að reyna? Langaði hann í raun til að njóta lífsins – var ekki bara ágætt að vera fastur þar sem hann var, meðal sinna líka? Við vitum ekki svarið við þessum spurningum. En við vitum að Jesús sá ástæðu til þess að spyrja hann þessarar spurningar.
Og sjúki maðurinn svaraði honum: “Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinn fer annar ofan í á undan mér.” Sjúki maðurinn svarar með því að telja upp ástæðu eða afsökun þess að hann væri enn sjúkur. Eða var hann að tjá hjálparleysi sitt og vöntun á samfélagslegum stuðningi? Jesús þekkir hjörtu okkar og hjarta þessa manns og vissi að hann syndugur og að hann vildi verða heill. Og hann segir við hann: “Statt upp, tak rekkju þína og gakk!” Jafnskjótt varð maðurinn heill. Og sjúki maðurinn hlýddi Jesú. Jafnvel þótt hann vissi að hann gengi þá ekki troðnar slóðir og mundi skera sig úr hópnum vegna þess að hann hegðaði sér ekki eins og fjöldinn, og eins og ætlast var til. Sjúki maðurinn varð heill og Jesús bauð honum að syndga ekki framar. Við vitum ekki hvort hann breytti hegðunarmunstri sínu til langframa. Það eina sem við vitum er að sjúkur maður varð heill. Hvað hrjáði hann vitum við ekki. En við vitum að hann vildi verða heill og þess vegna gerði Jesús hann heilan.
Jesús kom til að lækna sjúka, því ekki þurfa þau sem heilbrigð eru læknis við heldur þau sem eru sjúk. Og þá skiptir ekki máli hvar við flokkum sjúkdóminn.
Vilt þú verða heill? Vilt þú verða heil? Þetta er spurning sem Jesús spyr okkur. Okkar er að svara honum. Jesús segir: ““Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðisdegi hjálpaði ég þér.” Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur.” (II.Kor.6:2) “Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: “Óttast eigi, ég bjarga þér.” (Jes.41:13) Þetta eru fyrirheit úr Biblíunni. Þetta eru orð Jesú töluð til okkar. Í þeim megum við hvíla og lifa, já lifa lífinu án mammons, án syndarinnar, því að Drottinn bjargar okkur, læknar okkur. Hann hefur máttinn til að gera okkur heil. En spurningin sem eftir stendur er: “Viltu verða heill?” Viljum við verða heil? Erum við ekki hér samankomin í kirkjunni af því að við viljum verða heil?
Dýrð sé Guði, föður og syni og Heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.