Í myrkrum ljómar lífsins sól.

Í myrkrum ljómar lífsins sól.

Jólahátíðin er umbreytingartími. Hinn dapri verður glaður, hinn smáði fær nýjan styrk, hinn háleiti horfir niður. Það er inntakið í lofsöng Maríu sem verður að veruleika á jólanótt, og veruleikinn er lítið barn, í engu frábrugðið öðrum litlum hjálparvana börnum.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
25. desember 2006
Flokkar

Bæn Guð, þú sem ert ljós í myrkri, og lætur renna upp dag hinnar djúpu gleði. Þú kemur á móti okkur þar sem við þreifum okkur áfram í myrkrinu og sýnir okkur Jesú Krist, ljós heimsins, hann sem er fagnaðarboði þessa heims og ljós huggunarinnar fyrir augum okkar að eilífu. Amen Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Ekki fer hjá því að myrkrið sé svartara í skammdeginu þegar snjórinn stendur stutt við og hjálpar ekki tunglinu til að lengja daginn og gefa okkur þá dásamlegu vetrarbirtu sem nóttin langa getur glatt okkur með. Þörfin fyrir ljósið er ennþá augljósari fyrir vikið.

Í guðspjallstextum jólanna kallast á tveir textar:

Lúkas skrifar:

En í sömu byggð voru englar úti haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði í kringum þá.Lúk.2:8-9
Jóhannes skrifar:
Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Jh. 1
Og nú höfum við sungið:
Í myrkrum ljómar lífsins sól þér Guð sé lof fyrir gleðileg jól. Sb.73 v.9
Ljósið og myrkrið. Hinar algjöru andstæður.

Kæri söfnuður. Fáum dylst hugur um hversu mikil og margvísleg áhrif jólahátíðin hefur í okkar íslenska samhengi. Með einum eða öðrum hætti halda langflestir íbúar þessa lands jól. Flestir halda kristin jól, sumir halda heiðin jól, flestir halda fjölskyldujól með kristnu ívafi, aðrir gera það ekki, og sumir halda jól af því einu að það eru aukafrídagar. Jafnvel fólk sem hefur allt aðrar trúarskoðanir en kristnar heldur jól á Íslandi, með sínum hætti, góðum mat og gjöfum. Og svo eru allir þeir sem gjarna myndu vilja halda heilög jól, en geta það ekki af einhverjum ástæðum af því að þau eru í fjötrum sinna kringumstæðna, vegna starfa sinna, sjúkleika, sorgar, fíknar eða fangavistar.

Við tökum eftir því að í allri þessari fjölbreytni jólahaldsins er núorðið hægt að sneiða alveg hjá hinum kristna boðskap, án þess að mikið beri á, og það er sömuleiðis hægt að halda heilög jól í nafni trúarinnar án þess að beri á. Þannig er enn á mörgum heimilum talið sjálfsagt og fastur liður fjölskyldunnar að hlusta á messu í útvarpi eða sjónvarpi og eiga þannig sína helgistund heima fyrir en leita ekki út til kirkjunnar og safnaðarins og verða ekki sýnilegur með þeim hætti sem hluti kristinnar kirkju. Fjöldi þeirra sem miðar hátíðina við hið kristna upphaf hennar og inntak er því stærri en sá tölulegi fjöldi sem sækir kirkju. Þannig hefur það löngum verið hér á landi.

En það hefur orðið mikil breyting á skömmum tíma frá því að íslenskt samfélag var mjög svo einsleitt og tilheyrði hinni lúthersku kirkju eða öðrum kristnum kirkjudeildum, yfir í það sem nú er, þegar áhrif fjölmenningarinnar setja æ meir mark sitt á þjóðlífið, hefðir, siði og venjur og í miklum mun meira mæli en sem svarar tölulegum fjölda þeirra sem eiga annan uppruna en í íslenskri menningu.

Um leið og þeim fjölgar sem taka ekki mið af hinum kristnu gildum í jólahaldi sínu verða kringumstæður jólahátíðarinnar nú ekki óáþekkar aðstæðum hinna fyrstu kristnu safnaða. Að öðru leyti eru þær algjörlega frábrugðnar. Meðan hinir fyrstu söfnuðir kristninnar voru þess fullvissir að frelsari mannanna, Jesús Kristur væri frelsari heimsins og að heimurinn myndi um síðir allur frétta af því, vegna þess að það væri frétt allra frétta, fjölgar nú þeim sem telja að kristin kirkja og söfnuðir hennar séu deyjandi stétt og boðskapur kristninnar víkjandi sjónarmið. Ekki er fráleitt að fullyrða að þessi áhersla sé sú sem hæst heyrist á þessum tímum við upphaf tuttugustu og fyrstu aldar, og að jafnvel hin kristnu sjálf taki undir þær raddir sem svo kveða. Nú er mjög í fréttum hversu dvínandi áhrif kristninnar eru í lífi fólks í Evrópu og hversu margir segja sig frá kristinni trú. Það eru alvarleg tíðindi fyrir okkur sem viljum veg kristninnar meiri en ekki minni.

Vissulega má benda á að kenningar um hinn deyjandi kristindóm hafi komið fram með reglulegu millibili síðustu tvær aldir án þess að hafa beinlínis verið krafnar um rökstuðning eða verið á rökum reistar. En það er lítið gagn að því að benda bara á það. Spyrja má frekar hvort þessar fullyrðingar endurómi ekki bara ákveðinn hroka hins vestræna heims, eða kannski heldur hins vestræna manns, sem byggir á því að það sem gildir hér, hljóti að gilda um allan heim eða sé í það minnsta hið leiðandi sjónarmið.

Tvennt vekur sérstaka athygli: Hið fyrra er þetta: Kristnu fólki fækkar á Vesturlöndum. Það er alveg satt. Því fækkar uggvænlega ört. En því fækkar ekki í heiminum öllum. Hið síðara er þetta: Aðeins hér á Vesturlöndum má finna fólk sem tekur þátt í kristnu jólahaldi án þess að trúa á inntak þess. Í Afríku eða Asíu er það ekki svo.

Hér á Vesturlöndum getur hinn skyniborni maður sett fram hugleiðingar í samhengi jólanna eitthvað á þessa leið: Hvernig skil ég sjálfan mig og hvernig skil ég Guð? Svarið við því er afstaða mín til trúarinnar.

Svona svar hefur ekkert með kirkju að gera vegna þess að hún er samfélag, en hitt er einstaklingshyggja. Kristin manneskja, sem er ótímasett vera, hefur allt aðra nálgun: Að játa trú á Guð er að geta borið fram játningu eitthvað á þessa leið: Ég er sköpun Guðs, ég er hér að vilja hans sem hefur allt mitt ráð í hendi sér, og það sem hann vill það verður og ég treysti honum, líka þegar ég skil hann ekki, og líka þegar ég skil ekki einu sinni sjálfan mig.

Tapast eitthvað, almennt og menningarlega skoðað í samfélaginu, við að tapa inntaki jólanna. Breytir það áherslum samfélagsins, áherslum þeirra sem ráða fyrir löndum og þjóðum, ef þeir trúa því ekki að Jesús sé sonur Guðs, og fæddur af Maríu mey, og getinn af heilögum anda, án þess að hún væri við karlmann kennd, eins og við höfum játað rétt í þessu í trúarjátningunni.

Heyra má fullyrðingar eins og þessa: Ég trúi því ekki að Jesús sé Guð, en ég trúi því að hann hafi verið einstakur maður og að kenningar hans séu grundvallandi í siðmenningu vesturlanda. Þetta telst vera jákvæð nálgun jólanna, - en hafnar þeim þó.

Í dag er glatt í döprum hjörtum, því Drottins ljóma jól. Það er alveg augljóst að það er hægt að halda því fram að skáldpresturinn Valdemar Briem hafi haft hjörtun döpur vegna þess að hann hafi þurft að nota d í stuðla fyrst að hann vildi hafa höfuðstafinn d í Drottins ljóma jól. En hvað nú ef fyrsta línan fæddist svona alveg án þess: Í dag er glatt í döprum hjörtum.

Kæri söfnuður það er einmitt það sem er miklu líklegra. Jólahatíðin er umbreytingartími. Hinn dapri verður glaður, hinn smáði fær nýjan styrk, hinn háleiti horfir niður. Það er inntakið í lofsöng Maríu sem verður að veruleika á jólanótt, og veruleikinn er lítið barn, í engu frábrugðið öðrum litlum hjálparvana börnum.

Hann er bjargarlaust barn í reifum. Hann er gjörsamlega ofurseldur öllum hugsanlegum viðbrögðum mannshugans og mannshjartans. Hvað segir það okkur?

Í grunninn eru allar mannverur eins, í grunninn er fullt jafnræði milli allra manna, við fæðumst nakin og bjargarlaus og á dauðastundinni erum við hjálparvana, enginn megnar að spyrna móti dauðanum með árangri nema um stund.

Frammi fyrir barninu í jötunni eru hirðar og vitringar hlið við hlið. Hirðarnir hlupu út til að segja tíðindin. Vitringarnir fóru aftur heim. Engum sögum fer frekar af þeim. Þeir voru þess svo fullvissir að þessi atburður hefði breytt heiminum að þeir höfðu engar frekari áhyggjur af honum og ekki heldur sjálfum sér.

Sumir hlaupa af stað til að segja öllum heiminum Aðrir njóta þess sem þeir hafa séð og heyrt og segja engum nema sínum nánustu

Frammi fyrir jötunni falla allar grímur, öll rök og öll speki. Eftir stendur aðeins ein spurning: Getum við tekið á móti frelsaranum ?

Ég er kominn að frelsa þig, segja augu barnsins í jötunni.

En ég finn ekkert sem þarf að frelsa mig frá og ekkert sem ég vil láta frelsa mig frá. ég er í fínu samhengi við allt,

ég hef nóg að bíta og brenna, ég hef ágæta afkomu, fjölskyldumálin eru í jafnvægi, framtíðardraumar mínir eru innan skynsamlega marka

Hversvegna þarf ég frelsara?

Ég þarf hann líkast til alls ekki neitt.

Kæri söfnuður. Fréttirnar um dvínandi áhrif kristinnar trúar á Vesturlöndum byggja á því að sífellt fjölgar þeim sem telja sig ekki hafa neina þörf fyrir Jesú Krist.

Jólaljósin varpa óvenjulegri og sumpart óraunverulegri birtu á umhverfi sitt. Hið raunverulega í óraunveruleikanum er hulið. Gestgjafinn sem vísaði Jósef og Maríu frá, sá bara tvo ferðalanga, Augu hans voru haldin, eins og stundum er sagt um þau sem ekki sáu undur Jesú Krists. Raun -veruleiki jólanna er ekki af þessum heimi. Og svarið við spurningunni um frelsarann finnst ekki ef eingöngu er leitað að því sem er af þessum heimi og þó er hann í þessum heimi. Kæri söfnuður þetta er auðvitað svona setning sem maður á ekki að segja í predikun. En merking hennar er þessi:

Hann var í jötu lagður lágt. Guð sjálfur. Til þess að sjá það þarf meira að opnast er augun ein. Hjartað. Og þegar hjartað opnast fyrir því sem er hulið og Guð gefur, streymir þaðan út gleðin og lofgjörðin og löngunin til að gleðja. Þannig verða jólin okkar til.

Því að hann sem er fæddur er frelsari þinn. Hann frelsar frá myrkrinu. Eins og sólin sem nú hefur nýja sigurgöngu uppá himininn og hrekur myrkur náttúrunnar burt, er Jesús Kristur ljós heimsins, sú sól sem hrekur burt myrkrið umhverfis manninn og í manninum, og frelsar hann.

Myrkrið. Hvað er það? - Myrkrið er sambandsleysið við Guð. Myrkrið er lífið án hans.

Til þess er hann kominn í heiminn, til að frelsa frá myrkrinu. Til þess gaf hann jólin, sem sjálf skína í myrkrinu með okkar eigin ljósum, með tiltektinni í húsinu, og með betri fötunum og jólabaðinu. Og eins og líkaminn laugast í vatninu, hreinsar jólabarnið sálina og andann, og gerir þig að betri manneskju sem man eftir öðrum, man eftir vinum og vandamönnum og man eftir bágstöddum. Þannig hjálpar hann þér til að verða smám saman líkari sér, smám saman hæfari til að reynast náunganum í stað hans, að þú sért þeim sem þarf sjálf eða sjálfur, Jesús Kristur.

Til þess er hann líka fæddur. Hann sem kom og dvelur æ síðan hér með börnum sínum. Til þess. Og til þess berum við börnin til hans, svo að í skírninni laugist ekki aðeins líkaminn heldur einnig sálin og andinn eftir orði hans. Það er laug hins nýja lífs með honum, sem hófst hin fyrstu jól.

Þess vegna hefur kirkjan frá upphafi lagt áherslu á að lesa skuli bæði jólaguðspjöllin, bæði frásögnina um fæðingu Jesúbarnsins og frásögn Jóhannesar um frelsunarverk Guðs í Jesú Krists sem hófst í fæðingu hans og stendur enn yfir. Til þess að við gleymum okkur ekki bara í fjárhúsinu einu sinni á ári, heldur fylgjum honum sem við heitum fylgd í fermingunni og fylgjumst með honum að verki alla tíð.

Ljósið skín í myrkrinu.Og eyðir því. Dýrð sé Guði, Föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.