Heimsljós og Tate

Heimsljós og Tate

Eru jólin þín sýning, sem varir aðeins um tíma? Tekur þú svo niður stjörnur og ljós og pakkar þér, jólabarninu í þér og dýpstu tilfinningum þínum niður í pakka, sem bíður næstu jóla?
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
25. desember 2006
Flokkar

Undrun barnsins og óravíddir Oft hugsaði ég um það sem barn, að undarlegt væri að Guð skyldi skipta sér af okkur mönnum, sem værum óþekk og lítt guðleg í lífinu. Hvaða máli skiptum við, þessi peð? Hvað máli skiptir Guð þessi jarðarkúla og líf á þessum hnetti? Okkur verður svimhætt á vetrarkvöldum þegar við leggjumst á bakið og horfum upp í stjörnuhvelfinguna. Við verðum smá. Og merkilegt er, að við hættum að mæna upp í himininn á þann hátt, þegar við eldumst. Er smæðartilfinningin of stór fyrir lítinn huga?  

Sólin og leikurinn Ég varð fyrir djúpri reynslu fyrir þremur árum, þegar ég skoðaði sólarsýningu Ólafs Elíassonar í Tate-safninu í London. Sýningarstaðurinn var og er gamall túrbínusalur orkuvers, sem búið er að umbylta í menningar – og listamiðstöð. Við feðgar hlupum inn úr desembersuddanum og vissum ekki hvers við áttum von í þessu stóra húsi á suðurbakka Thames. Það var eins og að verða fyrir hamskiptum að fara um dyrnar. Inni var mistur, mannfólkið skrapp saman í gríðarlegu rými. Fyrir enda var risasól. Við gengum hægt inn, sáum að fólk var hugfangið, og fórum til að skoða hvernig sólarflekinn væri unninn. Við uppgötvuðum okkur til undrunar, að sólin var aðeins hálf og hitt var speglun. Ólafur hafði í fundvísi sinni hækkað túrbínuhúsið. Hann hafði látið hengja spegla í loft þessa mikla gímalds og tvöfaldað þannig upplifun hæðarinnar. Þar með var aðeins nauðsynlegt að hafa sólin hálfa. Speglahallinn var réttur við enda salarins og sólin virtist heil. Hugvitið heillaði.

Sólarverk Svo fórum við að gefa fólkinu gaum. Á einum stað var hópur kátra háskólanema. Þeir skríktu þegar hnjáliðir þeirra kiknuðu og þeir létu sig falla á gólfið. Svo horfðu þeir upp í loftið, sáu sjálfa sig eins og smáverur í sandkassa, sprikluðu, spörkuðu fótum upp og til hliða, mynduðu bylgjur og mynstur. Á öðrum stað voru nokkrir virðulegir karlar að benda upp í loftið. Svo hljóp skyndilega strákurinn í þá og þeir dönsuðu lítillega um leið og þeir horfðu upp í loftið og sáu spegilmynd sína. Hópur pelsklæddra kvenna kom líðandi. Þær hnigu útaf í hláturgusu, lögðust í miljónaflíkum sínum á slípaða steinsteypuna og sprikluðu. Þær höfðu kastað hamnum, voru eins og 9 ára gamlar. Það var heillandi að sjá hamskiptin, umskiptin.  

Barnið vaknar Sólarverk Ólafs var hugsað sem veðurverk. En það á sér líklega dýpsta merkingu í að vera leikverk, listaverk, sem kallar á viðbrögð, laðar fram barnið í fólki, leyfir því að kasta belgnum, af hvaða tagi sem hann er, leika sér sem barn. Einu gildir þótt höfundur hafi ekki gert sér grein fyrir því við hönnun þess. Listaverk eiga sér eigið líf eins og dæmin fyrr og síðar sanna.  

Sólin fór á loft í Tate og barnið vaknaði. Mér fannst þessi sýning vera stórkostlegur undirbúningur fyrir jólin. Góð aðventusýning fyrir mig, sem var að stilla sálarstrengi fyrir Jesúkomuna. Jólasólin skín þegar barnið í okkur vaknar, vitundin, sem er í dróma lifnar, kætin brýst um og við þurfum ekki annað en kikna í hnjáliðum, láta okkur falla aftur á bak, horfa upp í himininn, sprikla og taka við. Það er undursamlegt að leyfa lífinu og leiknum þannig að koma til okkar. Eða hvað? Í leiknum er ekkó eilífðar.  

Guð sem kemur Guð elskar svo takmarkalaust, að Guð kemur og tekur á sig mynd mannsins í sinni varnarlausustu mynd. Svo er Guði í mun að koma til þín, kalla til þín, vekja athygli þína á kjörum þínum og tilgangi allrar tilverunnar, að hann kemur sem ungt líf. Kallar til alls þess, sem innst er í þér, kallar þig til eigin sjálfs, til þess sem er kjarnlægast í hugskoti þínu og brjósti. Guð vill tala við þig, eiga fund með þér. Hann kemur aftur og aftur, talar við þig um hver jól, kallar fram eitthvað undarlegt, sem við náum ekki að skýra og skilgreina. Yndisleiki, tvíræðni og torræðni jólanna er slík.  

Jólin eru þó ekki árlegur og einangraður atburður. Guð er ekki eins og starfsmaður stórfyrirtækis, sem er á þönum milli útibúa og útstöðva fyrirtækisins og kemur einu sinni á ári. Guð er alltaf nærri, alltaf viðstaddur, alltaf hjá þér og er ávallt til reiðu þegar á bjátar.  

Stærðir veraldar og maðurinn Sólin í Tate var stór, stærri er vetrarhimininn, þegar maður verður skelfilega lítill. En þá fyrst verður maðurinn smár gagnvart lífinu, þegar fer að daga á mann stærðir veraldarinnar allrar, sem gefa okkur tilfinningu fyrir hvílíkur títuprjónshaus jörðin okkar er og að við mannfólkið erum sem örsmælki í óravíddum geimsins.  

Af hverju ætti Guð alls að koma til okkar? Er nokkur glóra í, að skapari sólmilljóna líti til manna og komi jafnvel sjálfur. Allra sérkennilegast er þó boðskapurinn um, að Guð velji að koma í mynd barns við hinar erfiðustu og niðurlægjandi aðstæður. Í þessu er fólgin þverstæða jóla og hins kristna boðskapar, að Guð hafi valið þessa aðferð til að koma til þín.  

Sól í Tate – jólasól í heimi Hugvitsamleg mannasól reis upp í Tate-safninu og fólkið fór að leika. Á jólum rennur sól Guðs upp á himinn heimsins og þá er allri heimsbyggðinni boðið til bernsku og leika. Tilefni leiks var ærið í Tate, en tilefnið er gríðarlegt í tilverunni sjálfri. Guð er kominn, Guð er barn í heimi, Guð fæðist til að koma til mín, okkar, þín. Þú mátt varpa öllu frá þér, getur speglað þig í öllum speglum himinsins.  

Tate-sýningin opinberaði þarfir manna, til að vera í samræmi við sitt innra eðli, en einnig að sjá sig í speglum sem sýna fólk. Þeir speglar eru hin kristna hefð. Við megum spegla okkur í mynstri og formum. Þar er kirkjan að starfi í safnaðarlífinu. Við megum spegla gildi okkar og langanir í trúarlífi og túlkun aldanna.  

“Hver gerði þetta?” spurði lítill enskur strákur pabba sinn. “Some Icelander” svaraði faðirinn. Sýningin var svo tekin niður. Þessi tjöld um bernskt líf og veður hurfu. Eftir sat vitneskjan um list, ávirkni og líf okkar.  

Eru jólin þín eins og listsýning, tímasett tilfinningareynsla. Eru þau sýning, sem varir aðeins um tíma, og svo tekur þú niður stjörnur og ljós og pakkar jólabarninu þínu, sjálfum þér, tilfinningum þínum niður í pakka, sem bíður næstu jóla?  

Betlehemsjól og Jesúkoma hversdagsins Þetta er hin hlið jólasögunnar. Jesús kom ekki aðeins í mynd lítils barns á hinum fyrstu jólum, óx og dafnaði. Hann kemur alla daga. Guð kemur til þín, talar við þig, mætir þér alls staðar, þegar þú hefur samskipti við samstarfsfólk, í vinnunni, í glímu við siðferðiskrísur, á álagstímum, þegar þú heyrir einhver neyðaróp. Þá er Kristur á ferð, þá er Jesús Kristur að koma til þín. Jólin, koma Guðs til manna, eru því alla daga.  

Í lok þessarar messu hefur presturinn upp hendur sínar og blessar þig og segir: "...Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið." Það er jólakveðjan, sem mætir þér ávallt fyrir altari Drottins, einnig í hversdagslífi þínu heima. Guð er þér nærri.  

Guð gefi þér og fjölskyldu þinni gleðileg jól og blessi þig alla daga. Amen.

Flutt í Neskirkju 25. desember, jóladag, 2006  

Lexía Jes.62.10-12

Gangið út, gangið út um borgarhliðin! Greiðið götu lýðsins! Leggið, leggið braut! Ryðjið burt grjótinu! Reisið merki fyrir þjóðirnar!

Sjá, Drottinn gjörir það kunnugt til endimarka jarðarinnar: Segið dótturinni Síon: Sjá, hjálpræði þitt kemur! Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum!

Og þeir munu kallaðir verða hinn heilagi lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú munt kölluð verða hin fjölsótta, borgin, sem eigi var yfirgefin.

Pistill Tít.3.4-7

En er gæska Guðs frelsara vors birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja. Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist, frelsara vorn,til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall Jh.1.1-14

Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.Hann var í upphafi hjá Guði. Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.