Sektin

Sektin

Leikritið Allir synir mínir eftir Arthur Miller fjallar um hugarangur iðjuhöldsins Joe Keller. Það er eitt af sígildum verkum tuttugustu aldar og virðist sífellt eiga erindi til leikhúsgesta einnig nú þegar það er sýnt í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Stefáns Baldurssonar.

Við fyrstu sýn virðist Joe Keller lifa hamingjusömu lífi en undir yfirborðinu nagar sektin líf hans. Í síðari heimsstyrjöldinni auðgaðist hann á framleiðslu hergagna, m.a. á vélahlutum í herflugvélar, og fyrirtæki hans varð risavaxið að stærð. En samviska hans lætur hann ekki í friði þótt stríðið sé löngu af staðið vegna þess að gallaðir vélarhlutar fóru út úr verksmiðjunni og urðu 21 hermanni að bana, þeirra á meðal var sonur hans. Í reynd varð hann syni sínum að bana. Engum er þetta betur ljóst en honum sjálfum en út á við er hann sakleysið uppmálað.

Sektin í hjarta mannsins verður ekki bæld niður. Hún er förunautur hans frá morgni til kvölds alla daga lífsins, kvelur hann og pínir, þangað til hann getur ekki lengur horfst í augu við lífið. Skothvellur í lok sýningar tekur af allan vafa um hvernig glímu Joe Keller við eigin sekt lauk.

Sektin fylgir reyndar ekki aðeins iðjuhöldum, sem hafa breytt gegn betri vitund, hún er þáttur í tilvist mannsins. Sektarvitund þekkir hver maður; glíma við eigin sekt er engum manni framandi. Fátt er eins sammannlegt og vitund um sektina, kannski bernskuminningar, eða minningar um samskipti við vini, svik við systkini eða foreldra, við samherja, samstarfsmenn, vanræksla í samskiptum við aldraða ættingja, eða þegar gengið var framhjá þurfandi manneskju. Sektin er aldrei langt undan.

Þess vegna á þetta leikrit svo greiða leið að hverjum áhorfanda, kynslóð eftir kynslóð. Efnið hittir í mark og raunar er sektin ein meginuppistaðan í bókmenntum heimsins, allt frá forsögulegum tíma, allt frá Kain og Abel, sögur um sterka, óafmáanlega vitund mannsins um að hafa breytt gegn betri vitund.

Um árabil hef ég fylgst með frásögnum þekktrar þýskrar blaðakonu af dómsmálum í þýskum réttarsölum. Gisela Friedrichsen nýtur mikillar virðingar fyrir greinar sínar sem birtast í Spiegel, þekktasta fréttatímariti Þýskalands og einu virtasta fréttatímariti meginlandsins. Undanfarið hefur þessi kona verið mér ofarlega í huga vegna viðtals sem birtist við hana, meðal annars um hennar eigin baksvið, lífssögu, fjölskylduhagi og lífsviðhorf.

Í greinum sínum fylgist hún ítarlega með einu dómsmálinu eftir annað. Hún hefur einstakan hæfileika til að lifa sig inn í aðstæður hverju sinni þar sem hún virðir fyrir sér hinn seka og fórnarlambið, veltir fyrir sér uppvaxtarsögu, félagslegum samböndum, spáir í svip þeirra frammi fyrir lögmönnunum og hugleiðir trúverðugleika þess sem flutt er frammi fyrir dómurunum.

Og lögmönnunum veltir hún einnig fyrir sér: hvað gengur þeim til, er það réttlætið eitt, er það sanngirni, er það mannúð? Og dómararnir, sem hlusta og spyrja, draga sig í hlé, ráða ráðum sínum og fella síðan dóm yfir einni manneskju. Hún öfundar þá ekki: hvílík byrði er lögð á herðar þeirra að vega og meta sekt mannsins og sakleysi.

Svo horfir hún í eigin barm, hvernig lítur þetta sérstaka umhverfi út í hennar augum, skyldu dómararnir ekki stundum hafa dæmt saklausan mann til langrar vistar í fangelsi eða lýst yfir sakleysi einhvers sem var að hennar dómi sekur? Þannig veltir hún fyrir sér hlutunum hverju sinni. Í viðtalinu var hún spurð hvort hún hafi einhvern tíma verið alveg sannfærð um að saklaus maður hafi verið dæmdur sekur. Hún svarar því játandi, það var í kynferðisafbrotamáli, þar telur hún að fólkið í réttarsalnum hafi verið sama sinnis, saklaus maður var dæmdur til fangavistar, þar fóru ekki saman lögin og réttlætið.

Á sama hátt var hún í öðru kynferðisafbrotamáli sannfærð um að sekur maður hafi verið sýknaður af allri sekt, einnig þar áttu lögin og réttlætið ekki samleið. Þannig eru þeir dómar sem felldir eru. Hver veit sannleikann í erfiðum málum? En hún er sannfærð um að dómurum takist oft að kalla fram iðrun hinna seku, stundum fá þeir sekan mann til að horfast í augu við afbrot sitt og hjálpa honum með þeim hætti til að finna aflausn og leita fyrirgefningar á gjörðum sínum.

Hin forna gyðja réttlætisins í Grikklandi og Róm hefur bundið fyrir augun, réttlætið horfir ekki á málavöxtu út frá manneskjunni heldur út frá lögunum, út frá lagabókstafnum eða út frá anda laganna. Í báðum tilvikum standa allir jafnir fyrir lögunum. Dómarar fella ekki geðþóttadóma; þar verður allt að lúta bókstafnum. En eins og tveir lögfræðingar sögu við mig í vikunni þá þarf dómurinn ekki alltaf að endurspegla sanngirni, dómarinn er bundinn lögunum sem allir verða að lúta, hverjar sem aðstæður þeirra kunna að vera.

Þrátt fyrir alla dóma situr eitt eftir: sektin sem býr í hjarta mannsins, hún hefur sjaldnast farið fyrir dómstól mannanna, og jafnvel þótt dómstólar landsins dæmi um sekt og sakleysi hverfur sektin, sem maðurinn hefur unnið til, ekki úr hjarta hans. Hún tekur sér bólfestu innst í vitund hans, rétt eins og hún bíði þar efsta dóms. Þannig er sektin, hún fylgir manninum, hún er Kainsmerkið í hinni ævafornu sögu um bræðurna Kain og Abel, hún er sú þjáning sem fylgdi Kain líf hans á enda: sektin yfir því að hafa ráðið bróður sínum bana. En sektin snýst ekki alltaf um glæpi, hún snýst í eðli sínu um að breyta gegn betri vitund.

Nú eru vissulega margir sem segja að sektarvitund mannsins sé oft óraunhæf og eigi ekki rétt á sér, hún sé sjúkleg og stafi af röngu sjálfsmati. Hún stafi af uppeldi þar sem sífellt hefur verið hamrað á sekt, á skyldu barnsins eða unglingsins, þar sem refsingar eru daglegt brauð, jafnvel fyrir smæstu og einskisverðustu hluti. Þannig uppeldi móti barnið svo að sektin verður leiðandi í sjálfsmynd þess, hvaðeina sem það gerir sé rangt, jafnvel svo að á efsta degi muni Guð gera upp þessa ógurlegu sekt sem hefur hrannast upp á langri ævi og þá verði grátur og gnístran tanna. Það uppgjör bíður að leiðarlokum.

Hitt er svo einnig sjúklegt, segja okkur sálfræðingar og geðlæknar, að hafa enga samvisku, telja sjálfan sig alltaf saklausan, hafa enga sektarvitund hvað sem á dynur, hvernig sem breytnin er. Sá sem ekki iðrast illra verka sinna er ekki síður illa á vegi staddur en sá sem líður vegna sjúklegrar sektarvitundar.

Sekt Joe Keller var raunveruleg sök. Hann hafði í reynd drepið son sinn sem hann unni þó mest af öllu á þessari jörð – að ekki sé minnst á alla hina flugmennina sem létu lífið vegna verksmiðjugalla í flugvélunum, hann segir undir lokin að þeir hafi í raun allir verið synir hans líka. Þannig er vitund hins heilbrigða sem lítur á öll börn sem sín eigin börn sem hann eigi að annast og vernda, láta sér annt um og leiða til góðs. Allir þessir synir hans urðu fórnarlömb gróðafýknar sem varð betri vitund hans yfirsterkari. Fyrir þau mistök greiddi hann með sektarkvöl sinni uns skothvellurinn kvað við í leikhúsinu. Í réttarsalnum lærir maðurinn ekki aðeins eitt og annað um sekt og sakleysi annarra. Reynsla Giselu Friedrichsen var athyglisverð, þar lærði hún sitthvað um sjálfa sig. „Ég hef komist að því,“ segir hún, „að ég get þolað talsvert mikið. En í upphafi var það ekki þannig, þá kom það fyrir að ég varð jafnvel að hringja í ritstjórn blaðsins í hádegishléi og boða forföll, ég gæti ekki setið lengur í réttarsalnum, svo skelfilegur var sá mannlegi harmleikur sem þar átti sér stað.“ Það sem hún lærði meðal annars á langri starfsævi var að vera þakklát fyrir eigið líf, fyrir að henni hafi fallið í skaut það sem alls ekki er sjálfsagt og svo margir fara á mis við: að hafa alist upp á góðu heimili, að eiga sjálf gott heimili, tvö börn sem henni þykir óendanlega vænt um. Og hún er þakklát fyrir að hafa alist upp við víðsýni, við að henni var kennt að njóta þess sem fagurt er, njóta lista, bókmennta, tónlistar.

Svo er hún spurð hvort kristin trú skipti hana einhverju máli, hvort viðhorf kristinnar trúar til sektar og fyrirgefningar hafi einhver áhrif á líf hennar og starf. „Já, heldur betur“, svarar hún. Og bætir við: „Kristinn mannskilningur hjálpar mér til þess að fást við erfiðustu mál og óhugnanlegustu glæpaverk. Jafnvel hinn mesti glæpamaður er og verður sköpun Guðs, rétt eins og allir aðrir menn er hann einnig skapaður „í Guðs mynd“. Og hvað fyrirgefninguna varðar merkir það einfaldlega fyrir mér“ – heldur hún áfram – „að hinn seki er hreinsaður af sekt sinni þegar hann hefur bætt fyrir brot sitt, jafnvel þótt minningin eyðist ekki úr huganum, minningin um að hafa breytt gegn betri vitund eyðist ekki úr minningarsjóði persónunnar. Því að barn, sem hefur verið myrt, lifnar ekki aftur til lífsins þegar morðinginn hefur verið dæmdur, sama hversu þung refsingin verður.“ Þannig lætur hún hugann reika um eitt og annað sem tengist þessu stóra þema, mannlegri sekt.

Í réttarfari vesturlanda er gengið út frá frjálsum vilja mannsins, samkvæmt því eigum við að geta valið og tekið ákvörðun, við eigum sjálf að standa ábyrg gerða okkar, við verðum sjálf að standa fyrir máli okkar sé þess krafist. Á þessu byggir réttarfarið. En í reynd er málið ekki svo einfalt, það vitum við. Vilji mannsins er vissulega frjáls – en er hann ekki einnig mótaður af aðstæðum, af erfðum, af uppeldi, af vinum, samfélagi, tilviljunum? Eru kjör barna sem alast upp í þessu þjóðfélagi sem öðrum ekki óendanlega mismunandi? Um slíkt þarf ekki að fjölyrða.

Sektin er grimmur veruleiki sem sækir alla heim í ýmsum myndum. En skyldi hún ekki sækja þá heim af mestum þunga sem aldrei lærðu að sýna ástúð og elsku vegna þess að slíkt stóð þeim sjálfum aldrei til boða í bernsku og æsku? Og hver er svo sekt hinna látnu? Hversu langt nær grimmd mannsins? Þeim sem hefur orðið á í lífi sínu: hvað um þá eftir andlát þeirra, eigum við að fordæma þá og líf þeirra, troða góðar minningar niður í svaðið vegna hinna vondu verka sem unnin voru? Er allt flekkað sem þeir komu nálægt, hver hugsun, hvert handtak, hver stund? Á að sýna þeim það miskunnarleysi sem við þekkjum víða úr sögu mannsins: að grafa þá utangarðs, að afskrifa þá um aldur og ævi, að má út nöfn þeirra? Á hinn seki sér enga réttlætingu í heimi sem telur sig þess umkominn að benda og dæma að lyst, sem telur sig þess umkominn „að kasta fyrsta steininum“?

Eitt frægasta bókmenntaverk tuttugustu aldar heitir Flekkaðar hendur, það er leikrit franska skáldsins Jean Paul Sartre og var frumsýnt í París árið 1948. Þótt Sartre hafi ekki talið sig kristinn mann var boðskapur verksins þó kristinn í anda sögunnar um bersyndugu konuna sem átti að grýta. Hann er einfaldlega þessi: við höfum öll flekkaðar hendur. Það á ekki aðeins við um iðjuhöldinn Joe Keller heldur einnig hina sem svifust einskis til að koma ár sinni fyrir borð, skara eld að sinni köku, vanrækja ástúð og mildi í daglegri breytni sinni, vera börnum og unglingum slæm fyrirmynd. Þannig má lengi telja, í stóru sem smáu þarf ekki lengi að leita til að finna flekki á höndum okkar allra.

Í ritum Marteins Lúthers er gerður sterkur greinarmunur á verkum mannsins og persónu hans. Verkin eru ekki aðeins það sem maðurinn gerir heldur einnig það sem hann gerir ekki, það eru athafnir hans eða aðgerðarleysi, breytni hans, ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, samviskan í brjósti hans að ganga ekki framhjá barni í neyð, að heyra andvarp hins þjáða, að rétta þurfandi manneskju hjálparhönd. Þannig birtast verk mannsins. Verk hans eru einnig starf hans, einn er bóndi, annar sjómaður, þriðji dýralæknir.

Hitt er svo persóna hans, hvað hann er innst inni, trú hans: mótast líf hans af vitund og trú á að hann sé skapaður í Guðs mynd í hvaða merkingu sem hann leggur í það myndmál, að hann nýtur umhyggju Guðs og á fyrirgefingu hans vísa, hvernig sem allt fer eða fór á langri ævi? Lög og reglur hins mannlega samfélags mótast af tíðarandanum hverju sinni, við þurfum ekki að lesa lengi í sögu þjóðarinnar til að sjá hversu stutt sporið var einlægt í mannlega grimmd: bálkösturinn og drekkingarhylur voru sjaldan langt undan, auk þeirra ótal ósýnilegu pyntingartækja í mannlegu atferli sem saga og samtíð kunna frá að greina.

„Við getum ekki öll verið eins og Jesús Kristur,“ segir Joe Keller sér til varnar undir lokin. Það er rétt, við getum ekki öll verið eins og Jesús Kristur, hann var ekki flekkaður af synd heimsins heldur þvert á móti, hans faðmur var opinn fyrir hverjum iðrandi og biðjandi syndara, einnig fyrir hinum seku, einnig fyrir þeim sem átti að grýta, einnig fyrir þeim sem samfélagið fordæmdi og það sem verra er: þeim sem líður vegna eigin fordæmingar, vegna þunga eigin sektar. „Við getum ekki öll verið eins og Jesús Kristur.“ En við getum öll hjúfrað okkur í faðmi hans, einnig þeir sem sekastir eru, þar er þeim borgið um alla eilífð, einnig Joe Keller.

1Mós 4.3-7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“