Kæri söfnuður er hægt að koma með magnaðri skilaboð í upphafi árs en þessi sem lesin voru hér úr Rómverjabréfinu:
„Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. [...] Leggið stund á gestrisni. Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.” (Róm. 12. 6-15)
Það er svo magnað með orð Biblíunnar hvað þau virka á breiðu tíðnisviði. Í fáum orðum er gjarnan sett fram djúpstæð viska sem umfaðmar lífið og gefur því samhengi. Ef við t.d. skoðum tvær helstu fréttir dagsins í ljósi þessara orða, náttúruhamfarirnar á Haítí þar sem 35 Íslenskir rústabjörgunarsveitarmenn eru að störfum fyrir okkar hönd og átökin og óvissuna um Icesave og viðskiptalífið, þá er okkur hér gefin tillaga að verklagi sem vert er að taka mark á. „Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu.”
Það er ástin á lífinu og virðingin fyrir raunverulegum verðmætum sem ræður því að rústabjörgunarsveit skuli yfir höfuð vera til. Rústabjörgunarsveit verður alltaf rekin með halla frá sjónarhóli Exelskjalsins. Niðurstaða fjárhagslegra útreikninga slíks fyrirtækis verður alltaf stór mínus. Samt viljum við Íslendingar fjármagna þessa sveit því við þekkjum eðli náttúruhamfara, hið þrúgandi merkingarleysi þeirra og vanmáttinn andspænis blindum náttúruöflum og við kunnum líka skil á því hvernig vonin fæðist. Hún fæðist þegar maður horfist í augu við eigin vanmátt, afhendir Guði aðstæðurnar og gerir svo það sem í valdi manns stendur. Hvernig væri það ef forsíður blaða og fréttatímar ljósvakamiðla segðu einungis frá hörmungunum á Haítí en birtu engar fregnir af björgun mannslífa og hetjudáðum hjálparsveita? Þær skoðanir hafa raunar heyrst í fjölmiðlum að hjálparviðbrögð séu svo sjálfsögð að um þau þurfi ekki að fjalla og talað hefur verið um ofstolt og fréttafréttir í því sambandi en fullyrt að hin stóra frétt sé þjáning þúsundanna. Þar er vissulega borin fram ein hlið á sannleikanum sem ekki má gleymast en sýn kristinnar trúar samt víðari, hún sér það sem satt er að frétt allra frétta er ekki þjáningin og dauðinn, heldur gleðin í voninni, þolinmæðin í þjáningunni og staðfestan í bæninni. Bölið er í eðli sínu merkingarlaust, þjáningin hefur ekki tilgang í sjálfri sér en vonin sem fæðist í böli og þjáningu þegar við leyfum hinu góða að komast að er undur lífsins. Þess vegna er krossinn sigurtákn kristinnar trúar. „Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni.” Segir postulinn.
Hversu margar bænir og andvörp eru borin fram fyrir Guð í dag fyrir íbúum á Haítí og fyrir björgunarfólkinu sem leggur sig í hættu og erfiði? Það má Íslenska rústabjörgunarsveitin okkar vita að þau eru borin á bænarörmum. Og tókuð þið eftir því þegar greint var frá evrópskum og bandarískum þegnum sem fluttir voru á brott eftir hörmungarnar, að upp til hópa voru þetta fulltrúar kristinna kirkna og hjálparsamtaka af öllum sortum. Hvað var þetta fólk að gera þarna áður en hörmungarnar riðu yfir? Þau voru að taka þátt daglegum aðstæðum fátækra íbúa þessa langþjáða lands. Og haft var eftir manninum sem skipulagði heimflutning fólksins að aldrei hefði hann verið jafn oft blessaður og við það tækifæri.
Hugtakið rústabjörgun hefur borið fyrir í fjármálaumræðu bankahrunsins. Nú höfum við spegil að horfa í. Hversu fjarri veruleika okkar var tilvera Haítíbúa í efnalegu tilliti áður en jarðskjálftinn reið þar yfir? Þar er land sem vegna óstjórnar og yfirgangs var þegar rúið miklu af félagsauði sínum og almannahagur löngu fyrir borð borinn í innri átökum svo að allur þorri fólks bjó við mikla fátækt áður en náttúruhamfarirnar urðu. Hér uppi á Íslandi einblínum við á fjárhag þjóðarinnar og óttumst skort á peningum. Og vissulega er það ekki að ástæðulausu, margt fólk sem stendur í rekstri fyrirtækja eða veitir stofnunum forstöðu er mjög áhyggjufullt og kvíðið vegna þeirrar óvissu sem við blasir.
Hlustum nú aftur á orð Páls postula með áhyggjur Íslensku þjóðarinnar í huga:
„Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. [...] Leggið stund á gestrisni. Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.”
Þjónið Drottni segir Páll. Sá sem þjónar Drottni þjónar ekki sjálfum sér eða þröngum hagsmunum. Það er kjarni þessa máls. Ég get vel ímyndað mér að kristnu trúboðarnir og hjálparstarfsmennirnir sem flogið var með til síns heima eftir hörmungarnar á Haítí hafi verið frekar sundurlaus og litríkur hópur, og raunar var það gefið í skyn í fréttum. En það er eitthvað með kristindóminn, eitthvað með trúna á Guð í Kristi Jesú sem algerlega virkar og gerir það að verkum að menn stíga út fyrir sjálfa sig til þess að þjóna öðrum með gleði. Og þegar við verðum glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni og staðföst í bæninni er það óbrigðul reynsla að hið góða vex fram. Þá vex fram virðing og brennandi áhugi fyrir hinu góða lífi og þörfum allra manna.
Þess vegna er því haldið til haga í Jóhannesarguðspjalli að fyrsta kraftaverk Jesú var sprottið af virðingu fyrir hinu góða lífi. “Þeir hafa ekki vín!” sagði María við Jesú. Já, einmitt! Það var þá það sem helst vantaði!? Hversu alvarlegt er það miðað við allar hörmungar heimsins að vín þrjóti í einni brúðkaupsveislu? Nógu alvarlegt greinilega til þess að Guð í Kristi lætur sig málið varða og „opinberar dýrð sína” eins og það er orðað í sögunni með því að breyta vatni í hið besta vín.
Það er martröð hvers gestgjafa að birgðir þrjóti. (Jóna: Ég var alin upp við það sem barn á prestsheimili í sveit sem var afar gestkvæmt og matarreikningurinn var jafn hár þrjá sumarmánuði ársins eins og yfir allan vetrartímann, að versta staða sem hægt væri að lenda í væri sú að hafa ekki nóg handa gestum.) Öll pör sem ganga í hjónaband óska þess að dagurinn þeirra verði minnistæður heiðursdagur og þau vilja geta horft til hans þegar árin líða í þakklæti, gleði og stolti. „Þeir hafa ekki vín” sagði María við soninn og á bak við orðin voru áhyggjur af heiðri ungu hjónann. Og það er athyglisvert að fylgjast með samskiptum Jesú við móður sína. Hann svarar henni kuldalega og er vægast sagt ópersónulegur: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“ Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“ Og við verðum bara að lesa á milli línanna, ímynda okkur hve mikið innsæi Maríu var á hlutverk og styrk sonar síns. Framhaldið þekkjum við, vatnið sem orðið var að víni var borið fram og veislan hélt áfram án þess að veislugestir yrðu nokkurs varir.
Virðingin fyrir hinu góða lífi er að sem hér um ræðir. Virðingin fyrir sóma annars fólks og viðurkenningin á því að hin stóra frétt er ekki sú hvernig allt getur farið úrskeiðis heldur hin hvernig lausnin fæðist.
Nú eru slíkir tímar í lífi Íslensku þjóðarinnar að við verðum að bera virðingu fyrir lífsgæðum og sóma hvers annars og efla okkur í þeirri list að leyfa lausn mála að birtast og þróast. Já, þau eru sannarlega ekki slæm skilaboðin sem við fáum úr guðsorðinu í dag.
Amen.