Þetta er ekki svona hættulegt. Þetta er ekki svona alvarlegt. Það er allt í lagi að prófa, eitt skipti sakar engan. Höfum bara á hreinu: Ef illa fer ber ég enga ábyrgð.
Samt ber oftast einhver annar ábyrgðina á því sem hendir mig, einhver sem fékk mig til þess arna. Ég get ekkert að því gert að svona fór. Adam var fórnarlamb og Eva var fórnarlamb. Hann hafði látið hana tala sig til. Hún hafði fallið fyrir fagurgala höggormsins.
Hann notaði alþekkta aðferð: Hálfsannleika. „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré...“? Nei, það hafði Guð aldrei sagt. Þegar fræi vantraustsins hefur verið sáð er auðveldara að gera lygina sennilega.
Í framhaldinu kemur höggormurinn því á framfæri að Guð sé hræddur við að Adam og Eva nái of langt, verði of vitur. Skilaboð höggormsins eru að það sé alls ekki hættulegt að eta forboðna ávöxtinn heldur spennandi og vænlegt til þroska.
Freistarar á öllum tímum beita sömu rökum. Höggormar samtímans segja óhörðnuðum unglingum iðulega að neysla vissra víumuefna sé sárasaklaus. Og nú hafa þeir hrundið af stað herferð til að auka framboð á slíkum efnum og auðvelda aðgengi að þeim. Það er kallað að afglæpavæða neyslu fíkniefna.
En það er aldrei seljendum að kenna ef illa fer, ef ungmenni missir fótanna í neyslu vímuefna, leiðist út í afbrot, selur sig, situr uppi með laskaðan líkama og brostna geðheilsu eða gefst jafnvel upp á lífinu og bindur enda á það. Slíkt þjakar ekki samvisku þess sem otaði eitrinu að ungmenninu, gerði sér veikleika þess að féþúfu.
Það er oft svo freistandi að stytta sé leið í lífinu, auðveldara að fá hlutina upp í hendurnar en hafa fyrir þeim. Handhægt væri að geta breytt steinum í brauð. Oft er það reynt og tekst stundum.
Í nýliðinni viku voru seldir miðar á tónleika með Justin Timberlake í sumar. Þeir seldust upp á augabragði. Strax í kjölfarið voru miðar komnir í sölu á svörtum markaði á uppsprengdu verði. Snjallt eða siðlaust? Sjálfsbjargarviðleitini eða græðgi?
Freistarinn manaði Jesú til að sýna sjálfsbjargarviðleitni: „Ef þú ert sonur Guðs...“. Þú þarft ekki að svelta. Sýndu hvað þú getur. Margir falla fyrir þessu, misnota aðstöðu sína í eigin þágu, í stóru eða smáu, með klíkuskap og kunningjatengslum. Freistingar ná best til okkar þar sem við erum veikust fyrir.
Jesús var banhungraður eftir langa föstu. Samt stóðst hann þá freistingu að breyta steinum í brauð. Vissulega gat hann breytt steinum í brauð og gefið fjöldanum mat endalaust - en hann vildi ekki vera slíkur brauðkonungur. Þá hefði hann eingöngu tekið burt einkennin sem fylgja fallinni veröld án þess að ráðast að rót vandans. Þá hefði fólkið fylgt honum á röngum forsendum.
Þar með er hann ekki sloppinn. Freistingarnar stigmagnast. Næsta freisting er að vekja eftirtekt með hreinni fífldirfsku. Sé hann sonur Guðs getur hann reitt sig á englavernd ef hann kastar sér fram af þakbrún musterisins.
Jesús gat notið aðdáunar fyrir tákn og undur en hann kom ekki í veröldina til þess að sýna þau og átti mikilvægara erindi en að njóta hylli fjöldans fyrir slíkt fánýti.
Það er andstætt vilja Guðs að lenda viljandi í klípu og ætlast svo til að hann bjargi málum. Það er ekki traust heldur vanvirðing.
Það er mikill munur á trausti með ábyrgð og ábyrgðarlausri fífldirfsku sem þó er ótrúlega algeng. „Þetta reddast“ er býsna áberandi hugsunarháttur. Við kaupum of dýrt húsnæði í þeirri vissu að þetta bjargist, - með lottóvinningi, ef ekki öðru.
Við reykjum, drekkum og étum okkur til ólífis, fullviss um að það sé í lagi hjá okkur þótt einhverjir aðrir taki afleiðingum þess að ástunda óheilsusamlegt líferni.
Við látum reka á reiðanum varðandi uppeldi barnanna í þeirri sælu vissu að það sé allt í lagi með börnin okkar en einhver önnur börn fari í hundana. Þannig fleygjum við okkur ítrekað fram af þakbrúninni og ætlumst til að forsjá Guðs tryggi okkur mjúka lendingu.
Jesús féll ekki fyrir þessu og þá spilaði freistarinn út stóra trompinu: Þú þarft bara að tilbiðja mig og þá ræðurðu yfir öllum heiminum.
Einræðisherrar og harðstjórar á öllum tímum hafa sóst eftir slíku valdi. Aðrir láta sér nægja vald yfir einni þjóð, einu fyrirtæki, einu félagi, einni fjölskyldu. Valdafíknin er víða og stundum beinist hún fyrst og fremst að einni manneskju sem ég vil að þjóni mér og uppfylli vilja minn. Sorglega mörgum finnst ekki mikið mál að selja Djöflinum sál sína fyrir völd og yfirráð.
Hefði þetta ekki einfaldað margt hjá Jesú? Hann kom í heiminn til að sigra og ríkja. Með þessu móti hefði hann losnað við þjáningu og dauða á krossi.
En þá hefði hann heldur aldrei verið frelsari okkar og ekki einu sinni frjáls sjálfur heldur varanlega skuldbundinn Djöflinum.
Freistingasögur endurtaka sig, aftur og aftur. Eins og í dæmi Jesú snúast þær iðulega um græðgi, hégómagirnd og valdafíkn. Oft er freistandi að kaupa sér vinsældir. Unglingar stunda slík friðkaup með því að hegða sér gegn betri vitund í hópi félaga, sýnast svalir og ganga gegn foreldrunum.
Fullorðnir uppalendur freistast til að fría sjálfa sig með því að beina spjótum að skólunum og gera endalausar kröfur til þeirra um almenna ábyrgð á uppeldi barna og ungmenna. Foreldrar kaupa sér líka frið með leiktækjum og tómstundum handa börnunum í stað þess að sinna þeim, veita þeim ástúð og aga.
Engin vandamál hverfa við slíkar yfirborðsaðgerðir og þær taka ekki burt ábyrgð okkar sjálfra þegar tekin er áhætta. Ævinlega er viðkvæðið að þetta muni allt fara vel að lokum og áhættan sé þess virði. Svo fer illa og allir benda áfram: Adam á Evu og Eva á höggorminn. Eftir hrunið benti líka hver á annan: Stjórnmálamenn, bankastjórar, eftirlitsstofnanir og almenningur. Adam og Eva freistuðust til að stytta sér leið að betri stöðu í tilverunni. Þau féllu fyrir falsi óvinarins.
Hálfsannleikur og vafi henta vel til að telja manninum trú um að ekkert sé honum æðra, ekkert algildara en mannleg viska og ekkert réttara en ákvörðun hans hverju sinni. Alvarlegasta freisting mannkynsins er að vilja verða eins og Guð, koma í stað hans.
Mannkynið hefur tilhneigingu til að teygja sig eins langt og það kemst. Siðferðisleg viðmið víkja fyrir þörfinni að vita, geta og ráða yfir. Allir tæknilegir möguleikar eru framkvæmdir. Þannig eignaðist mannkynið gereyðingarvopn sem nú er lagt kapp á að útrýma. Þannig varð klám á netinu að veruleika sem hart er barist gegn núna. Þannig kom einræktun til sögunnar þótt flestum sé orðin ljós áhættan sem fylgir henni.
Því í okkur öllum er innri rödd - samviska. Þótt sumir þaggi niður í henni er hún rödd Guðs í hjörtum okkar sem lætur vita þegar við höfum farið yfir strikið. Þá sjáum við okkur eins og við erum, nakin, og reynum að fela okkur fyrir Guði.
Við viljum ekki að Guð sjái okkur þegar við getum heldur ekki horfst í augu við okkur sjálf og reynum að afneita staðreyndum. En maðurinn ber ábyrgð á eigin lífi og gjörðum. Val okkar er afgerandi, hefur afleiðingar - og rangt val kemur fyrst niður á okkur sjálfum. Það er alvara syndafallssögunnar sem endar með því að mannkynið fer úr sælu Eden og erfiði lífsbaráttunnar tekur við.
Upp frá því fæðist sérhver maður syndugur og guðvana en Jesús kom í heiminn til að gefa okkur á ný samfélagið við Guð, ekki í jarðneskum Edensgarði, heldur von eilífs lífs og himneskrar dýrðar.
Frelsarinn er hinn nýi Adam, kominn til að bæta fyrir syndafallið og færa allt í samt lag milli Guðs og okkar. Ævina á enda mætum við freistingum en við eigum frelsara sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu (Hebr.2:18).
Orð Guðs gefur okkur styrk til að mæta freistingum. Með það að lífsgrundvelli mun Jesús leiða okkur gegnum freistni og hættur til sigurs. Ungur maður heldur vegi sínum hreinum með því að gefa gaum að orði Drottins. Það er lampi fóta okkar og ljós á vegum okkar (Sálm. 119:9 og 105). Svo getum við búið okkur undir að mæta tilteknum freistingum, verið á verði, sett okkur lífsreglur sem við ætlum ekki að víkja frá. Það er mikill munur á að ætla svo sem ekki að svíkja undan skatti eða ákveða að svíkja ekki undan skatti. Það er mikill munur á að ætla svo sem ekki að halda framhjá eða ákveða að halda ekki framhjá. Það er mikill munur á að ætla svo sem ekki að tala illa um aðra eða ákveða að tala ekki illa um aðra. Maðurinn lifir ekki á brauðinu einu, heldur á orði Guðs. Ef við snuðum okkur um þá andlegu næringu bíður okkar á endanum andlegur dauði. Látum það ekki henda okkur!
Látum heldur ekki takmarka aðgang uppvaxandi kynslóðar að lífgefandi og uppbyggjandi orði Guðs. Það reynist mörgum haldbesta og endingarbesta veganestið út í lífið. Þegar mest á reynir munu hvorki tölvuleikir né töfrasímar gefa styrk og ráð.
Iðkum líka bænina þótt við skiljum ekki alltaf ráðsályktun Guðs og fáum önnur svör en við væntum. Bænin er alls engin pöntunarþjónusta. Svarið er alltaf háð vilja Guðs, þeim vilja sem er ofar skilningi okkar. Því þrátt fyrir viðleitni Adams og Evu náðu þau ekki að verða Guði lík eins og höggormurinn hélt fram.
Samt berum við ábyrgð á eigin lífi, eigin vali. Samanburður við aðra bætir ekki stöðu neins. Enginn verður hvítari þótt annan sverti. Forðumst sjálfsvorkunn fórnarlambsins. Við erum ekki leiksoppar heldur fullgildar manneskjur með eigin vilja.
Syndafallssagan endurtekur sig því miður á margvíslegan hátt í lífi okkar. Þetta eina, sem ekki má, er oft svo miklu meira spennandi en allt sem má. En okkur er óhætt meðan við föllum ekki úr náðinni.
Jesús gefur okkur styrk til að mæta freistingum og hann einn hefur vald til að fyrgefa þegar við misstígum okkur samt, hrösum og föllum. Hann er frelsari okkar og dó vegna synda okkar.