Sagan af Kain og Abel (1Mós 4) hefur alltaf valdið mér nokkrum heilabrotum. Hvers vegna gaf Drottinn gaum að Abel og fórn hans – frumburðum hjarðar hans og feiti þeirra – en leit ekki við Kain og fórn hans – ávexti jarðarinnar? Er eitthvað merkilegra að vera hjarðmaður eins og Abel en akuryrkjumaður eins og Kain?
Að taka ábyrgð á líðan sinni og lífi – eða ekki Við þessum spurningum eru engin svör gefin, nema ef vera skyldi almenn áhersla gamlatestamentistímans á kjöt- og feitifórnir. Þetta er hins vegar ekki aðalatriðið í sögunni. Það sem okkur er ætlað að læra af henni er að taka ábyrgð á okkar eigin líðan. Sagan er sögð út frá hinu mannlega sjónarhorni. Reynsla Kains er reynsla margra sem finnst að þeirra framlag sé minna metið en annarra, hvort sem það er af Guði eða mönnum. Sagan lýsir þeirri leiðu tilfinningu öfundinni, afbrýðiseminni sem kviknar þegar okkur finnst fram hjá okkur gengið á einn eða annan hátt.
Kjarni sögunnar um Kain og Abel eru þessi orð Drottins:
Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni (1Mós 4.6-7).
Í þessum orðum er enginn dómur fólginn um hvort eitthvað rangt hefði verið við fórnina sem Kain færði fram. Kain þurfti að læra að halda ró sinni þó að viðbrögðin sem hann fengi væru ekki þau sem hann hefði vænst. Ef hann var að gera rétt gat hann verið upplitsdjarfur, óháð því hvort hans framlagi væri hampað eða ekki. Ef hins vegar byggi ranglæti að baki gjörðum hans yrði hann að gá að sér að verða ekki eigin ranga hugarfari að bráð.
En það var einmitt það sem gerðist í tilfelli Kains. Við þekkjum áframhald sögunnar. Kain lét varnaðarorð Drottins sem vind um eyru þjóta. Öfundsýki hans leiddi til bróðurmorðs og útskúfunar í kjölfarið. Kain tókst ekki að sigrast á þeirri synd sem lá við hans hjartadyr. Í stað þess að standa gegn henni lét hann afbrýðisemina taka frá sér öll völd. Hann tók ekki ábyrgð á sínu eigin lífi.
Manneskjan er enn við sama heygarðshornið Þessi ævaforna saga lýsir sístæðu stefi í mannlegum samskiptum. Sama viðfangsefni er að finna í Jakobsbréfinu (1.12-16).
Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða. Villist ekki, elskuð systkin.
Þarna er lífsafstöðu hans eða hennar sem stenst freistingu, sigrast á syndinni, lýst sem sælu. Kain hefði getað reynst hæfur ef hann hefði vísað öfundunni á bug, ákveðið að gleðast yfir sínu eigin framlagi og samgleðjast um leið bróður sínum sem einhverra saka vegna fékk hrósið sem Kain þráði svo mjög. En hann gerði það ekki.
Þarna er talað um synd og um girnd. Okkur er ekkert vel við þessi orð, nútímafólki. Við viljum helst afneita því að til sé eitthvað sem sundrar okkur frá okkar sanna mannlega eðli sem birtist í Jesú Kristi. Og þó við viðurkennum að okkur verði stundum á afsökum við það með því að við séum „bara mannleg“ og gleymum því að hinni sönnu mennsku fylgir að taka ábyrgð á sjálfri sér. Af orðalagi Jakobsbréfsins sjáum við að við getum ekki sífellt skellt skuldinni á eitthvað utanaðkomandi. „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns...“. Það er eitthvað í okkur sem við þörfnumst hjálpa við að takast á við. Þá hjálp veitir heilagur andi Guðs sem stendur með okkur á stundu freistingarinnar, ef við áköllum hann.
Dæmi: Framhjáhald Það er mikil viska í þessum orðum Jakobsbréfsins um girndina sem verður þunguð og elur synd og leiðir síðan til dauða. Ef við tökum framhjáhald sem dæmi, sem eins og öfundin er sígilt stef í mannlegu lífi, þá sjáum við að einmitt þetta á sér stað. Tilfinningar kvikna innra með karli eða konu, hrifning af annarri manneskju en maka viðkomandi. Það getur alltaf gerst. Það er þetta „bara mannlega“ í okkur.
Málið er bara hvað við gerum við það. Leyfum við þessari tilfinningu að taka sér bólfestu í okkur? Leyfum við okkur að verða „þunguð“ af ástartilfinningu til annarrar manneskju en þeirrar sem við höfum heitið tryggð fyrir augliti Guðs? Kannski gerist það – og ekki er nútíminn að draga úr því að „fylgja tilfinningum sínum“ eða hvað það nú heitir allt saman, oft á kostnað tilfinninga annarra. Hrifning sem fær leyfi til að taka sér bólfestu elur oftast af sér synd, ef hinn aðilinn er sama sinnis, og verði framhjáhaldið að veruleika leiðir það yfirleitt af sér einhvers konar dauða, dauða hjónabands, trúnaðar, upplausn heimilis.
Þannig má heimfæra orð ritningarlestra dagsins í dag yfir á fyrirbæri sem fylgt hafa mannkyni frá upphafi vega, afbrýðisemi og framhjáhald. Lærdómurinn er þessi: Sama hverjar tilfinningar okkar eru eigum við sem viti bornar manneskjur að taka ábyrgð á þeim, hugsa þær til enda og – með Guðs hjálp, því ég er ekki að segja að þetta sé auðvelt – koma í veg fyrir að eigin girnd leiði til syndar og síðan dauða. Villumst ekki, elskuð systkin.
Metorðagirndin Í guðspjalli dagsins, Lúk 22.24-32, er það metorðagirndin sem kastljósið beinist að:
Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn. En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“
Meira að segja lærisveinar Jesú létu meting og þar með öfund ná tökum á sér. En með hjálp Jesú varð þeirri mannlegu tilfinningu vísað á bug og hann minnti þá á að fylgja sínu fordæmi: „Samt er ég meðal yðar eins og þjóninn“. Í þjónustunni er lykilinn að hinni sönnu upphefð að finna. Sértu reiðubúin(n) að leggja þig fram í samskiptunum við aðra, óháð heiðurstitlum eða virðingarstigum mun þér einmitt hlotnast hin mesta virðing: Að sitja við borð Jesú í ríki hans, hlotnast sú kóróna lífsins sem Guð veitir þeim sem elska hann (Jak 1.12).
Mörg okkar fengu einmitt þetta orð við ferminginuna okkar: „Vertu trú/trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu“ (sbr. Op Jóh 2.10). Að vera trú gildir um öll tengsl okkar, bæði við annað fólk og við Guð. Að reynast trú Guði er að vera tilbúin að þjóna í trú, von og kærleika í öllum kringumstæðum lífsins og feta þannig í fótspor Mannssonarins, sem „er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla“ (Mark 10.45). Það er hann, Jesús Kristur, sem birtir okkur hina sönnu mennsku og gefur okkur frelsi frá öfund og trúnaðarbresti. Orð hans til Símonar tala líka inn í okkar líf: “En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki”.
Fastan hafin Og nú er fastan hafin. Passíusálmalesturinn fór af stað fyrir nokkru í útvarpinu. Nú lesa ungmenni sem unnið hafa til verðlauna í Stóru upplestrarkeppninni undanfarin ár, en þau lásu eimitt hér í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa í fyrra. Auk heildarflutnings sálmanna þann dag lesum við hér úr sálmum sr. Hallgríms við daglegt helgihald safnaðarins. Í dag les ég síðustu fimm versin í í 5. Passíusálmi. Hann fjallar um komu Gyðinga í grasgarðinn og tengist vel efni dagsins, en það guðspjall sem byggt er á (Lúk 22.47 og áfram) er að finna rétt á eftir guðspjalli 1. sunnudags í föstu.
6 Þá ég fell eður hrasa hér, hæstur Drottinn vill reiðast mér, þá segir Jesús: Eg em hann, sem endurleysti þann syndarann með mínu blóði og beiskri pín. Bræði, faðir kær, stilltu þín. Eflaust er það afsökun mín.7 Djöfull, synd og samviskan ill sálu mína þá kvelja vill, eins segir Jesús: Eg em hann, sem afmá þína misgjörð vann, líka sem vindur léttfær ský langt feykir burt og sést ei því. Á mig trú þú, svo ertu frí.
8 Þegar mig særir sótt eða kvöl, sorgleg fátækt og heimsins böl, ég veit þú segir: Eg er hann, Jesús, sem lækna vill og kann. Auðlegð á himnum áttu víst. Eymd þín og hryggð í fögnuð snýst. Heiminn sigraði eg. Hræðstu síst.
9 Á dauðastund og dómsins tíð, Drottinn, það skal mín huggun blíð, orð þitt er sama: Eg em hann, sem inn þig leiði í himnarann. Þjónn minn skal vera þar ég er. Því hefur þú, Jesú, lofað mér. Glaður ég þá í friði fer.
10 Ég segi á móti: Ég er hann, Jesú, sem þér af hjarta ann. Orð þitt lát vera eins við mig: Elska ég, seg þú, líka þig. Eilíft það samtal okkar sé upp byrjað hér á jörðunni. Amen, ég bið, svo skyldi ske.