Í dag lútum við höfði í bæn og blygðun vegna synda mannkyns sem leiddi frelsara sinn til dauða. Í dag verðum við vitni að því hvernig vald mannanna leiðir af sér klofning, ofbeldi og dauða. Í dag sjáum við hvernig vald Jesú færir lækningu, endurreisn, frelsi og líf. Í dag skynjum við valdið í valdaleysinu, heilindin sem felast í því að vera brotin og berskjölduð, styrk Guðs sem tæmir sjálfan sig krafti til að fylla okkur kærleika.
Í fyrstu Mósebók sjáum við Guð skapa manninn í sinni mynd: „Vér viljum gera manninn eftir vorri mynd, líkan oss [...] og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu“.
Og við heyrum Guð bjóða manninum, karli og konu, að „drottna yfir fiskum sjávarins, fuglum loftsins, búfénu, villidýrunum og allri jörðinni og öllum skriðdýrum sem skríða á jörðinni.“ Svo blessar Guð þau og býður þeim að vera frjósöm og fylla jörðina og gera sér hana undirgefna.
Guð gefur manninum, konu og karli, hlutdeild í valdi sínu, gefur þeim umboð til að annast jörðina, yrkja hana og gæta hennar (1Mós 2.15). Og við vitum hvernig sú saga fór og verðum vitni að því hvern dag í ofbeldisfullum samskiptum og níðingsskap gagnvart sköpunarverkinu sem frá greinir í fjölmiðlum.
Vald Guðs – vald mannsins. Vald Guðs felst í varnarleysinu sem við verðum vitni að í dag, á föstudaginn langa. Vald Guðs er vegur kærleikans, umhyggjunnar. Að drottna yfir og gera sér undirgefið eru orð sem þarf að skoða í ljósi orðanna um að yrkja og gæta. Ef við heyrum bara fyrri hlutann er hætta á misskilningi. Vald sem drottnar yfir og gerir sér undirgefið getur orðið vald sem meiðir, vald sem eyðir. Vald sem yrkir og gætir er hugarfar góða hirðisins, hans sem tæmdi sjálfan sig.
Heyrum hvað Páll postuli hefur að segja hugarfar Jesú:
Fyrst Kristur
veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag,
fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera
einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni
eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið
ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem
Kristur Jesús var.
Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði
líkur.
Hann
svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.
Vald Jesú er vald kærleiks kraftsins hljóða. Vald Jesú færir kjark og uppörvun, vald Jesú er vald samfélags hlýju og samúðar. Vald Jesú er hógværð og lítillæti hjartans.
Á dauðastund Jesú afhjúpar vald Guðs vald ofríkis og kúgunar, lýsir það dautt og ómerkt. Þá kallaði Jesús hárri röddu (Matt og Mark): „Faðir í þínar hendur fel ég anda minn!“ (Lúk) / hneigði höfuðið (Jóh) og gaf upp andann, segja guðspjöllin.
Þegar Jesús gefur upp andann, leysir hann heilagan anda Guðs til heimsins, fyrir okkur, fyrir mig og þig. Jesús felur okkur hvert öðru og anda sínum. Vald Guðs verður okkar að nýju, ekki til að afbaka og misskilja og mishöndla heldur til að yrkja og gæta.
Hjá Matteusi (27.51 og áfram) lesum við um undur og stórmerki sem urðu við dauða Jesú og upprisu. Fortjald musterisins rifnaði í tvennt, ofan frá og niður úr, og þar sjáum við kraft anda Guðs sem leystur var úr læðingi, kraft kærleikans sem lét jörðina skelfa og björgin klofna, grafir opnast og heilaga menn rísa upp. Vald dauðans er brotið á bak aftur. Vald lífsins hefur sigrað.
Hundraðshöfðinginn og hans menn, fulltrúar valdsins blinda sem er gersneytt allri samúð og sannri mennsku, sáu og fundu landskjálftann og klakinn í hjartanu þiðnaði: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs,“ sögðu þeir. Sannlega var þessi maður sonur Guðs. Guð á máttinn til að leysa bjarg vantrúarinnar í hjartanu, leysa hjartað undan oftrú á mannsins mátt og megin, leysa vald kúgunar til valds kærleikans.
Við sjáum líka í frásögu Matteusarguðspjalls „margar konur sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum. Meðal þeirra var María Magdalena, María, móðir þeirra Jakobs og Jósefs, og móðir Sebedeussona“ (Matt 27.55-56, 61). Tvær þessara kvenna urðu síðan fyrstu vitni að upprisu Jesú (Matt 28.1-10). Frásögn þeirra lagði grunn að boðun kirkjunnar um valdið nýja sem nú ræður himni og jörð, vald lífsins, vald kærleikans. En meira um það á páskadagsmorgun.