Hundrað dagar

Hundrað dagar

Eitt hundrað dagar. Hundrað dagar af hlátri og gráti, lasleika og lækningu, fæðingum og dauða, dansi, söng og hljóðum stundum, dálitlum skammti af nöldri og óþolinmæði en vonandi meira af umhyggju og uppbyggjandi samtölum og tengslum. Og alls konar næringu fyrir sál og líkama.

Í dag eru jafndægur að hausti og liðnir 266 dagar af því Herrans ári 2024 sem að þessu sinni er 366 dagar vegna hlaupársins. Það eru því eitthundrað dagar eftir, dálítið gaman að því. Stundum er talað um hundrað daga sem hveitibrauðsdaga, til dæmis fær ný ríkisstjórn gjarna eitthundrað daga til að sanna sig áður en verkin þurfa að vera farin að tala.  

 

Eitt hundrað dagar þar til nýtt ár gengur í garð. Hvernig ætlum við að nota þessa hundrað daga? Hverju viljum við koma til leiðar þessa daga? Er eitthvað sem við viljum breyta, eitthvað nýtt sem við viljum vinna að, láta verkin tala eða sveigja hugarfarið til betri vegar?

 

Eftir 100 daga er daginn tekið að lengja, jólahátíðin komin og því sem næst farin, gamla árið að kveðja og nýtt að taka við. Ég verð hér í Þorpinu næstu hundrað daga og sný þá til baka í þjónustuna í Fossvoginum og heimili mitt í Grafarvoginum. Eitt hundrað dagar. Margt getur gerst og víst er að á einhvern hátt verð ég önnur en þegar ég kom hingað norður fyrir rúmum fimmtíu dögum.  


Tíminn er allskonar

Tíminn er sérstakt fyrirbæri. Við heyrum í dag um að hver hlutur hafi sinn tíma. „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma,” segir í spekiritinu sem nefnist Prédikarinn (3. kafli).  

 

Að fæðast hefur sinn tíma  og að deyja hefur sinn tíma,

að gróðursetja hefur sinn tíma  og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,

að deyða hefur sinn tíma  og að lækna hefur sinn tíma,

að rífa niður hefur sinn tíma  og að byggja upp hefur sinn tíma,

að gráta hefur sinn tíma  og að hlæja hefur sinn tíma,

að harma hefur sinn tíma  og að dansa hefur sinn tíma,

að kasta steinum hefur sinn tíma  og að tína saman steina hefur sinn tíma,

að faðmast hefur sinn tíma  og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,

að leita hefur sinn tíma  og að týna hefur sinn tíma,

að geyma hefur sinn tíma  og að fleygja hefur sinn tíma,

að rífa sundur hefur sinn tíma  og að sauma saman hefur sinn tíma,

að þegja hefur sinn tíma  og að tala hefur sinn tíma,

að elska hefur sinn tíma  og að hata hefur sinn tíma,

stríð hefur sinn tíma  og friður hefur sinn tíma.

 

Að fæðst og deyja, gróðursetja og rífa upp, deyða og lækna, rífa niður og byggja upp, gráta og hlæja, harma og dansa, geyma og fleygja, rífa sundur og sauma saman, þegja og tala, elska og hata. Allt hefur þetta sinn tíma og lýsir lífinu eins og það er, skin og skúrir, birta og myrkur, gleði og sorg – og allt þar á milli.  

 

Og Prédikarinn lýsir því sem hann sér og þekkir úr mannlífinu: “Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.”

 

Lífið er gjöf

Að vera glöð og njóta lífsins meðan það endist. Það er markmið í sjálfu sér. Carpe Diem, segir máltæki ættað frá Rómverjum. Gríptu daginn. Lífið er núna, stendur á armbandinu sem við berum mörg. Lífið er Guðs gjöf og dásamlegt að fá að gleðjast með því að njóta góðrar máltíðar í góðra vina hópi á veislukvöldi eða með fjölskyldunni yfir fiski og kartöflum – og rúgbrauði með smjöri. Lífið er ekki bara stórir viðburðir eða miklir sigrar heldur aðallega litlu hlutirnir, hversdagurinn í allri þeirri fegurð sem við getum glætt hann með jákvæðu hugarfari og trausti til Guðs.  

 

Eitt hundrað dagar. Hundrað dagar af hlátri og gráti, lasleika og lækningu, fæðingum og dauða, dansi, söng og hljóðum stundum, dálitlum skammti af nöldri og óþolinmæði en vonandi meira af umhyggju og uppbyggjandi samtölum og tengslum. Og alls konar næringu fyrir sál og líkama.

 

Páll postuli minnir okkur á að lífið snýst ekki bara um að borða og drekka: „Guðs ríki er ekki matur og drykkur heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda“ (Róm 14.17). Eins og heilnæm máltíð með glasi af vatni er líkamanum heilsulind, þannig er nærvera Guðs okkar andlega lífi. Nærvera Guðs, heilagur andi, færir réttlæti, frið og fögnuð og eykur þannig góðu dagana og hamingjustundirnar.  


Matarboð

Í guðspjalli dagsins (Mark 2.15-17) heyrum við um máltíð. Víða í guðspjöllunum er sagt frá því að Jesús borðaði með alls konar fólki, ekki bara „fína fólkinu“ heldur gjarna þeim sem „fína fólkið“ leit niður á. Jesús sá dýpra inn í sál fólks, hann horfði ekki bara á yfirborðið. Jesús horfir á okkur og sér okkur eins og við erum og býður okkur vináttu sína. Hvaða fólk er það sem við borðum með svona yfirleitt? Það er fjölskylda okkar, vinir, skólafélagar, vinnufélagar, fólk sem við umgöngumst öllu jafna og eru okkar jafningjar, ef svo má segja. Jesús býður okkur að borða með sér, horfist í augu við okkur, gerir okkur að jafningjum sínum, vinum og fjölskyldu.  

 

Að þessu sinni er það maður að nafni Leví Alfeusson sem býður Jesú heim. Hann hafði mætt í vinnuna þennan morgun eins og alla aðra morgna og átti varla von á því að líf hans myndi breytast svo rækilega sem raun bar vitni. Vinnan hans var óvinsæl meðal fólksins því hann innheimti skatta og tolla fyrir erlend yfirvöld sem höfðu hernumið landið hans. Og tollheimtumenn voru líka þekktir fyrir að smyrja aðeins aukalega ofan á þannig að landar þeirra þurftu að borga meira.

 

Þarna sat hann Leví og sá Jesú nálgast. Hugsanlega hafði Leví heyrt Jesú prédika við vatnið en var varla viðbúinn því að þessi kröftugi farandprédikari myndi ávarpa sig beint: „Fylg þú mér!“ sagði Jesús við Leví eins og fleiri lærisveina.

 

Dagurinn sem allt breyttist

Fylg þú mér – og líf Leví breyttist að eilífu. Þetta var dagurinn sem ekki varð aftur snúið til gamla lífsins. Þegar hann stóð upp frá borðinu sínu við tollbúðina gat hann aldrei aftur orðið tollheimtumaður, samvisku sinnar vegna, því ekki gat hann haldið áfram að svíkja þjóð sína og pretta fólk eftir að hann mætti Jesú, kærleikanum sjálfum. Hans tími sem innheimtumaður ranglætis var liðinn og kom aldrei aftur, enginn hundrað daga reynslutími, ekkert hálfkák. Fylg þú mér – og líf hans varð Guðs.  

 

Og svo bauð hann heim í veislu til að fagna nýja lífinu og til að leyfa vinum sínum og kunningjum að hitta Jesú. Kannski reiknaði Leví Alfeusson líf sitt út frá einmitt þessum degi sem öllu breytti, eins og AA fólk telur dagana sína, mánuðina og árin út frá þeim degi sem þau hættu að neyta áfengis eða annarra vímuefna. Nýtt tímatal, fylg þú mér.

 

Allt hefur sinn tíma

Já, í dag 22.9. eru 100 dagar eftir af árinu sem og jafndægur að hausti. Við söknum án efa sumarsins – og hefðum viljað njóta fleiri sólríkra og hlýrra daga – en haustið með rökkrinu og fallegu litunum hefur líka sína fegurð. Allt hefur sinn tíma, njótum þess besta sem hver árstíð gefur og leyfum því sem er að vera það sem það er á hverjum tíma: að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma, að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma.  

 

Við þurfum ekki að vera jafn vel upplögð alla daga, hress og kát, sama hvað á gengur. Við megum líka finna til, sakna og sjá eftir því sem er liðið, kvíða því sem framundan er og hugsa hverju við viljum breyta, til dæmis næstu 100 dagana. Það er hluti af lífinu. En við erum líka hvött til að leyfa hverjum tíma að hafa sinn gang og sína fegurð.  

 

Og það er Guðs gjöf að gleðjast af öllu erfiði sínu, eins og Jesús gladdist með vinum sínum og vinkonum yfir góðri máltíð. Hér á eftir verður altarisganga sem líka er kölluð máltíð Drottins. Sú máltíð leyfir okkur að ganga inn í veruleika Guðs, þar sem tíminn er ekki til og engin landamæri skilja að. Samfélagið um Guðs borð er samfélag við andleg systkini okkar, þvert á tíma og rúm, þar erum við eitt í Kristi, umvafin fyrirgefningu Guðs eins og Leví Alfeusson og María Magdalena, sameinuð í kærleika Guðs sem gefur lífið.