Prédikun sunnudaginn 17.janúar 2010 Jóh.2.1-11
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen
Væntingar til hvers?
Lífið og hvernig við lifum því er að miklum hluta á okkar eigin ábyrgð þegar umönnunarárum æskunnar eru að baki. Fram að því er lífið að mestu í föstum skorðum og ferkantað. Dregin skörpum línum þess sem annaðist okkur og á okkar fyrstu árum sáu fyrir daglegum þörfum. Á fyrstu andartökum lífsins er byrjað að gera væntingar til okkar eða setja okkur í “kassa” ferkantaða kassa sem síðar meir opnast upp á gátt til sjá með eigin augum að tilveran er allt önnur en ferköntuð. Hún er oftar en ekki straumlínulöguð, bogadregin, andstæða þess sem við ætlum að hún sé – tilveran. Tilveran er óútreiknanleg, hún getur eina stundina verið blíð og þá næstu ótuktarleg.
Mynd tilverunnar lætur sig ekki myndast vel því að hún er síkvikul eins og barn sem lætur fjörkipp hugans fara með sig þangað sem hugurinn hverju sinni tyllir sér á grein augnabliksins sem er ekki akkúrat þá stundina eins og við ætluðum eða væntingar stóðu til. Því hvað væri lífið ef við vissum morgundaginn þótt við leyfum okkur að gera væntingar til hans. Væntingar eru allstaðar fyrir fótum okkar í okkar daglega lífi og störfum. Án væntinga værum við sem rekald, stefnulaus á hafi lífsins. Við geymum með okkur væntingar um svo margt eins og heilbrigði, fjárhagslega afkomu, að íslenska landslið stákarnir okkar í handbolta massi Evrópumótið sem hefst á þriðjudag á meðan einhver annar meðal okkar hefur ekki einusinni hugmynd um að mótið er að detta inn á skjáinn heima og gerir sér væntingar um eitthvað allt annað. Það er nauðsynlegt að eiga sér væntingar eins og að geta auðveldlega sleppt af þeim höndum þegar það á við. Foreldri gerir væntingar til barns síns oftar en ekki væntingar sem hófu göngu sína í þeirra huga til að mæta væntingum barnsins síns ungu og þær heilsast ekki þegar þær mæta hver annarri á jafnréttisgrunvelli því að þær þekkjast ekki og það sem meira er, oftar eiga ekki samleið. Við hvert og eitt okkar getum ekki lifað eftir væntingum annarra til okkar. Það kemur að þeirri stundu í lífi hverrar manneskju að ákveða fyrir sjálfa sig hverning ætlunin er að lifa lífinu sjálfstætt án fyrirfram gefina hugmynda foreldra um það.
Í dag er okkur er boðið í brúðkaup og við mætum í athöfnina og á eftir i veisluna með væntingar um að eiga gleðilega stund með glöðum. Brúðkaupsgestirnir sem sagði frá í Jóhannesarguðspjalli höfðu væntingar til þess sem þar færi fram og yrði á borð borið, ekkert nema heilbrigt um það að segja. Það gerðist sem ekki voru væntingar til að vínið þraut í veislunni. Það þótti þá og þykir enn í dag ekki góður búskapur að veita ekki vel þegar gesti ber að garði. Sá og sú sem í veislu er boðið skal frá henni fara fyllt af lífsins veigum um stund.
Móðir Jesú er í veislunni og rennur til rifja andvaraleysi gestgjafans að hafa ekki nóg af fljótandi veigum á borðum. Þess ber að geta að brúðkaupsveislur á dögum Jesú var ekki ein kurteis kvöldstund heldur var ekki óalgengt að þær stóðu yfir í heila sjö daga. Þegar Jesús og lærisveinar hans koma til veislunnar eru liðnir einir þrír til fjórir dagar frá því að veisluhöldin hófust. Tekið tillit til þess er ekki að undra að veigar voru að ganga til þurrðar. Hvað er betra en að hafa strákinn sinn við borðið og deila með honum áhyggjum sínum og hneisu þeirri sem óneitanlega gestgjöfunum væntanlega ungum höfðu kallað yfir sig. Það sem ekki voru væntingar til að gerðist – gerðist. Í ljósi þessa segir móðir Jesú einfaldlega við son sinn væntanlega með áhyggju röddu. “Þeir hafa ekki vín.” Svar Jesú er merkilegt, kannski ekki svarið sjálft heldur hvernig hann ávarpar móður sína: “Hvað viltu mér, kona.” Hljómar ruddalega í eyru, reyndar eftir því hvernig blæbrigð Þá er því til að svara og má sjá og lesa samskonar tilsvör Jesú í hinum guðspjöllunum að þetta er kurteisislegt ávarp hans til kvenna. Segir síðan að hans tími væri ekki kominn.
11
Hvað sem Jesú þótti um var reyndin sú að tími hans var kominn, en hann vissi ekki af því. Ekkert ólíkt því sem gerðist með okkar ágæta forsætisráðherra fyrir ekki svo löngu síðan örlög hennar ekki ráðin. Horft til þess sem á undan er gengið og það sem framundan er, er allt að því vel hugsanlegt að hún hafi viljað hafa það þannig áfram. Hennar tími væri ekki kominn þá eins og nú eru væntingar annarra um að tíminn væri kominn. Þetta er í gamni sagt en öllu gamni fylgir alvara.
Í mínum huga er alvarleiki samtímans sá að allir vilja svara að eiga svar við væntingum annarra og eru tilbúin að gera allt sem mögulega gæti uppfyllt væntingar annarra en sjálfa sín. Afhverju er það okkur svo mikilvægt að svara væntingum þeim sem aðrir gera til okkar en eiga kannski ekkert skilt við okkar eigin væntingar? Afhverju erum við tilbúin að yfirgefa sjálfið okkar til að mæta jafnvel einhverjum sem við þekkjum ekki neitt? Afhverju er ekki hægt að hvíla hugan við þá staðreynd að við eigum ekki svör við öllum væntingum og það sem meira er að við þurfum ekki allrajafna að leggja huga að því? Hreinlega segja það og viðurkenna með sjálfum sér og öðrum að okkur er ekki skylt að mæta þeim, en gerum það samt. Með því erum við að tína sjálfinu. Ein er stétt manna sem sérstaklega er ofurseld þessari kröfu um væntingar eru stjórnmálamenn og þeir einstaklingar karlar og konur sem einhverra hluta vegan lenda í þeim ósköpum að vera kallaðir til í viðtal með þær væntingar á herðum hvert sinn sem einhver - leysir. Vindáttin óljós hjá fyrirspyrjanda og þeim sem situr fyrir svörum en eins og áður segir með þær væntingar í huga að verða svara samkvæmt væntingum einhverra annarra. Þrýstihópa eða þeirra sem telja sig hafa meiri hag af en einhver annar eða aðrir. Sértaklega hefur þetta verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni að undanförnu og þá sérstaklega eins og áður segir hjá stétt stjórnmálamanna þótt þeir sitji ekki að “glæpnum” einir má þar nefna hagfræðinga svo einhverjir séu nefndir þeim til samsætis.
Þeir sem hafa fylgst með umræðu undanfarinna missera komast ekki hjá því að heyra að svör stjórnmálamanna eru samkvæmt fyrirfram gefnum væntingum sem eru komin í hring. Enda skiptir það engu máli því þeir svara yfirleitt ekki þeirrri spurningu sem að þeim er beint. En það er ekki hörgull á svörum.
Hver var spurning móður Jesú? “Þeir hafa ekki vín.” Þetta er ekki spurning heldur fullyrðing um að eitthvað vantar. Jesús fann þunga væntingar móður hans leggjast á hann með fullum krafti. Svar Jesú: “Hvað viltu mér kona?” er spurning og svar ekki aðeins sonar til móður heldur til okkar á öllum tímum sem í dag lifum og tökumst á við daglegan veruleika sem oftar en ekki að okkur finnst að það hafi verið “vitlaust gefið” eins og eitt okkar ágætu skálda komst að orði á öldinni sem leið. Það er alltaf þannig að það vantar eitthvað og við leitumst við að svara þessu einhverju. Þótt svarið sem slíkt eigi sér ekki vísan stað í huga leyfum við okkur að máta okkur í þeim og sjá hvernig þau passa okkur og hvaða stærð við þurfum á að halda svo vel fari.
Við erum þannig samansett manneskjurnar að við spyrjum spurninga og við leitumst við að svara spurningum um efstu og hinstum rök tilverunnar. Þá hugsun tjáum við á margvíslegan hátt í verkum okkar. Á meðan einhver setur hugsanir sínar á blað er einhver annar sem skilur sínar eftir á striga eða klappaðan í stein eða skilur eftir hugsanir sínar í skýjum á himinhvolfi lífs okkar í þeirri veiku von að einhver einhverstaðar nái að nema þær og eigna sér.
Sonur minn einn spurði mig einhverju sinni þar sem við feðgar lágum í mjúku beði mosa í faðmi sveitar umvafin sumri og endalausu pirrandi suðandi flugna og horfðum til himins í þögn “hvert fara skýin frá okkur?” Þögnin á eftir fyllti sveitina svo að ekki varð pláss fyrir suð flugna eða syngjandi fugla um stund. Það var sem að náttúran umhverfis okkur héldi niðri í sér andanum til að hlýða á svari við spurningu sem náttúran geymir í sér og er fús að gefa okkur svar, ef aðeins við gefum okkur tíma til að staldra nógu lengi við. Spurningu sem margoft hefur verið spurð og verður spurt um svo lengi sem við látum okkur veröldina varða. Heilu fjölskyldur skýja og kynjavera höfðu liðið hjá fyrir ásjónu okkar og ég sagði “þau fara þangað sem þú vilt að þau fari.” Stráksi stökk á fætur og hrópaði upp til skýjanna á hraðferð sinni um himinblámann “ég vil að þið farið þangað sem rignir aldrei“ og með því var hann farin að huga að einhverju öðru meira og jarðbundnara.
Þrá manneskjunnar að geta haldið utan um að geta skilgreint tilveruna þær aðstæður sem umlykur hana er eldri en elstu menn muna. Þá þrá er ekki hægt að setja í ferkantaða hugsun. Við leitumst við að geta skilgreint umhverfi okkar og auðvitað leitum svara. Vegna þess að okkur er gefið að hugsa og kalla fram myndir sem færa okkur nær svari því sem manneskjan leitast við að finna innra með sér.
111
Glögglega má sjá í verkum Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar myndlistamanns í listsýningu sem ber yfirskriftina “Sjö himnar” og er unninn sérstaklega fyrir Árbæjarkirkju; og opnar formlega eftir guðsþjónustuna, þessa viðleytni að tjá innri hugsun og gera hana úthverfa. Það er að segja að gefa öðrum þá þeim sem skoða verkin sjö - hlutdeild í upplifun listamannsins, án þess þó að væntingar hans við sköpun verksins hindri væntingar og upplifun okkar sem einstaklinga. Með því framlengjum við hvert og eitt okkar þá hugsun og viðleitni listamannsins til að svara eða kannski miklu frekar að deila með áhorfandanum “hvað er náttúrann að segja okkur,” spyrja okkur um og eins og listamaðurinn sjálfur segir meðal annars í inngangi að verkum sínum sem lesa má í síðasta jólasafnaðarblaði Árbæjarkirkju “að túlka þau skilaboð og frá hverjum eru þau?” og áfram heldur hann og segir “óski þess að upplifun áhorfenda verði ekki ekki köntuð og “himnarnir sjö” geti opnað fyrir vangaveltur af fjölbreyttum toga.”
Í mínum huga er þetta mjög mikilvægt ekki aðeins í ljósi þeirra verka sem sýnd eru í anddyri kirkjunnar heldur og lífinu almennt. Vangaveltur að fjölbreyttum toga. Að við leyfum okkur að sleppa frá væntingum annarra og hleypum inn í líf okkar vangaveltum af fjölbreyttum huga laus við band væntinga hvort heldur okkar og eða annarra.
Ljóst má vera að Jesú fékk ákveðin skilaboð frá móður sinni í þeim fólust og væntingar um svör. Hann túlkaði þau svo að væntingar voru um að hann opinberaði sig sem Messías. Sjálfum fannst honum ekki tíminn kominn hvað sem vangaveltum móður hans áhræðri. Kraftaverkið að breyta vatni í vín er í sjálfu sér ekki kraftaverk. Án vatns verður ekki vín. Hefur þú kirkjugestur velt því fyrir þér? Eins er það með lífið. Án vatns er ekkert líf, lífið er kraftaverk. Spurningin er hvað við hvert og eitt gerum við það kraftaverk? Gerum okkar besta. Lífið seytlar áfram eins og vatnið finnur sér farveg, beinan, bugðóttan, ofsafengið, kyrrlátt. Laus við væntingar þær sem við hugsanlega höfum til lífsins.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen
Takið postullegri blessun:
Náð Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen