Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er hann sá mannfjöldann, kenndi hann í brjósti um þá, því þeir voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir, er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. Matt. 9. 35-38
Það er kristniboðsdagur. Guðspjall kristniboðsdagsins heyrðum við lesið hér við vígslulýsinguna. Kirkjan er svarið við bæn og ákalli Jesú: biðjið herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar. Kirkjan er sendiför hans með fagnaðarerindið. Samvera okkar hér í dag, þegar þið, kæru vinir, Haukur Ingi, Hólmfríður Margrét og Sigfús takið heilaga vígslu er framhald þeirrar sendifarar. Þið eruð send, verkamenn til uppskerunnar, til að boða trúna á frelsarann Krist.
Guðspjall dagsins samkvæmt kirkjuárinu ber yfirskriftina „Trúin bjargar.“ Söguna þekkjum við öll:
"Meðan Jesús var að segja þetta við þá, kom forstöðumaður einn, laut honum og sagði: „Dóttir mín var að skilja við, kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna.“
Jesús stóð upp og fór með honum og lærisveinar hans.
Kona, sem hafði haft blóðlát í tólf ár, kom þá að baki honum og snart fald klæða hans. Hún hugsaði með sér: „Ef ég fæ aðeins snert klæði hans, mun ég heil verða.“
Jesús sneri sér við, og er hann sá hana, sagði hann: "Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér." Og konan varð heil frá þeirri stundu. (Matt.9.18-26)
Þegar Jesús kom að húsi forstöðumannsins og sá pípuleikara og fólkið í uppnámi, sagði hann: "Farið burt! Stúlkan er ekki dáin, hún sefur." En þeir hlógu að honum. Þegar fólkið hafði verið látið fara, gekk hann inn og tók hönd hennar, og reis þá stúlkan upp. Og þessi tíðindi bárust um allt það hérað." Þannig hljóðar hið heilaga orð.
Sagan dregur upp tvær myndir af trú: Neyðaróp hins sterka, forstöðumannsins sem leitar til Jesú vegna dóttur sinnar, og fálmandi hönd nafnlausrar konu sem felur sig í mannfjöldanum.
Við sjáum forstöðumanninn, Jaírus, er hann nefndur í öðru guðspjalli, ögunin og virðuleikinn sem embættinu fylgir er fokinn út í veður og vind. Nú sjáum við aðeins örvinlaðan föður, sem setið hafði við dánarbeð dóttur sinnar: "Kom og legg hönd þína yfir hana, þá mun hún lifna!" hrópar hann. Auðvitað eru menn örvita á slíku andartaki, alls ekki með sjálfum sér. Hugsa ekki, hjartað brestur og örvæntingin flýtur út. En á næsta andartaki er svo hugurinn snauður og dofinn og lamaður af sorginni og vonleysinu og etv í beiskju út í þann Guð sem sagður er kærleikur og almáttugur en lætur sér fátt um finnast þótt tárin flói og hjörtun bresti af harmi og dauðinn hremmi augastein manns og eftirlæti.
Nei, maður er ekki með sjálfum sér þegar bænin um hið ómögulega brýst fram.
Eða hvað?
Er það ekki einmitt í slíkum aðstæðum sem maður er með sjálfum sér? Já, maður sjálfur í miklu ríkara mæli en nokkru sinni þegar róleg yfirvegun og skynsemi fær að halda um tauma sálar og anda? Það er einmitt á þessum andartökum þegar hjartað, já hinn innri, innsti maður, opnast í sjálfkrafa viðbrögðum og allir varnarhættir kaldrar yfirvegunar víkja að maður er maður sjálfur, í öllum sínum vanmætti og allsleysi. Og þegar þessi vanmáttur hrópar, andvarpar: "Komdu, þá lifnar hún!" eða "Frelsa oss, vér förumst!" Eða: "Guð minn, Guð minn, hví hefur þú....!" þá er það TRÚ sem frelsar, gerir heilan, einmitt þetta allsleysi og vanmáttur, fátækt andans.
Hin myndin er hin ósýnilega trú. Konuna sjáum við ekki. Hún dylst í fjöldanum. Hún hefur lifað við blygðun sína nógu lengi til þess að kunna að vera ósýnileg. Hún laumast að baki Jesú í von um að vera óséð. Við tökum ekki eftir neinu, fyrr en meistarinn nemur staðar og snýr sér að henni.
Jaírus fær að bíða, fylgdarliðið og fólkið, sem í forvitni sinni þrengir sér að. Það er aðeins þetta sem skiptir máli, þessi orðvana örvænting sem teygir sig til hans sem er FRELSARINN, og það er TRÚ, trú sem frelsar, trú sem gerir heilan, einmitt þetta allsleysi, einmitt þessi titrandi tóma hönd. Og Jesús snýr sér að henni: "Vertu hughraust, dóttir, trú þín hefur bjargað þér!"
En hvaða trú var þetta, að minnsta kosti borið saman við trúarhetjur og fólk sem okkur finnst höndlað af Guðs anda, - þessi ótti, óframfærni, hugleysi nafnlausu konunnar? Þessi hjartsláttur milli vonar og ótta, sem teygði titrandi hönd til að snerta klæðafald meistarans?
Ég gleymi aldrei orðum prests sem sagði: ´"Ég trúi ekki á mátt bænarinnar!" 'Áheyrendum brá við. En svo bætti hann við:" En ég trúi á þann mátt sem hvetur mig til að ákalla sig í bæn." Á hann megum við treysta. Hann megnar allt. Hann sem er hinn trúi, sem aldrei bregst og engum gleymir sem á hann kallar og til hans teygir sína trúarhönd. Að trúa á Krist er að varpa byrðum sínum á hann og vita hann ganga með sér veginn, gæfu og rauna - veginn. Myndir guðspjallsins af Jaírusi og nafnlausu konunni varpa ljósi á hið sama: Trú og bæn er ekki orð, ekki hæfileikar, náðargáfur. andans styrkur, sem einum er gefið en ekki öðrum. Við viljum flokka og vega og meta trú og andans styrkleik. En horfum til Krists, sem nemur staðar og svarar neyð manns og angist. Við fáum að sjá hvernig hann er, sá Drottinn sem líknar og læknar og við megum festa trú okkar á. Trú á Krist er að treysta honum og vilja hans að hjálpa, að ákalla hann í neyðinni og storminum, og halda tryggð við hann í blíðunni.
Þið, góðu systkin, sem í dag þiggið heilaga vígslu til þjónustu djákna og prests. Þið eruð kölluð til að boða þá trú, sem guðspjallið vitnar um, hinn trúa sem aldrei bregst, þið eruð kölluð til að segja söguna um Jesú Krist og máttinn hans með orðum ykkar, viðmóti og verkum. Þið eruð kölluð til að vera trú- boðar, sem boðið trú, kristni- boðar sem boðið Krist. Í heilagri vígslu þiggið þið umboð kirkjunnar, biðjandi, boðandi og þjónandi þjóðkirkju, til þjónustu orðsins, orðs lífsins. Oft finnst okkur meira bera á hinni nafnlausu, orðvana trú í okkar samtíð. Hlutverk ykkar verður að hlusta eftir henni og ljá henni róm. Bera áfram orðið: "Vertu hughraust, dóttir!" "Óttastu ekki!" "Rís þú upp!" Í nafni Krists, frelsarans, læknisins. Ykkur er falið að vitna um söguna af Jesú og koma auga á sögu hans, og spor hans og návist í lífi þeirra sem á vegi ykkar verða, leiða þau til fundar við hann, eða benda á klæðafald hans, að þau megi öðlast trú á lífið og líf í trú.
Kirkjan fagnar ykkur, og gleðst yfir ykkur, og gleðst yfir því að fá að njóta krafta ykkar á vettvangi þjónustunnar. Þið sem djákni og prestar, verðið hlekkir í þeirri stóru keðju vitnisburðarins um Jesú Krist og lífið í hans nafni, sem er kirkjan á Íslandi, órofa samhengi í þúsund ár. Guði sé lof fyrir það. Guð blessi ykkur, ástvini ykkur og væntanlegt samstarfsfólk, sóknir og stofnanir. Guð gefi ykkur styrk í þjónustunni, Guð gefi ykkur hugrekki til að standa við þá trú og játningu sem þið berið fram hér í dag, og standa traust í því samhengi sem umlykur ykkur í fyrirbæn sinni, leggur nú yfir ykkur hendur, að hætti postulanna, og sendir ykkur út til helgrar þjónustu orðsins sem læknar og leysir og reisir á fætur.
Djákna og prestsvígsla 10. Nóv. 2002 Hólmfríður Margrét Konráðsdóttir, djákni, Haukur Ingi Jónasson, sjúkrahússprestur, Sigfús Kristjánsson, prestur í Hjallaprestakalli.