Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús en þér hafið gert það að ræningjabæli.“ Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann. Lúk 19.41-48
Ein aðalfréttin á visir.is á föstudaginn var fjallaði um komu þekkts leikara hingað til Reykjavíkur. Mel Gibson hafði fengið sér kaffi, þrefaldan latte, meira að segja, á kaffihúsi hér í miðborginni og svo hafði líka sést til hans við Hallgrímskirkju. Ekkert okkar sem hér störfum hafði reyndar séð kappann, en sama er um: Hann var hér.
Í eldhúsumræðunni var fleygt fram þeirri spurningu – í gamni að sjálfssögðu - hvort kirkjan væri þá ekki söm á eftir. Þessi mikil leikari og leikstjóri hlyti að hafa markað einhver þau spor sem óafmáanleg væru, í andrúmsloftinu, að minnsta kosti. Ég held reyndar að spor leikarans séu ekkert meira virði en ykkar spor, kæru vinir, sem hingað komið trúfastlega sunnudag eftir sunnudag, jafnvel þegar sumarleyfistíminn stendur sem hæst. Og mest um vert er að Guð er hér. Hann er hér í heilögum anda sínum og vitjar þín.
Harmur Ritingarlestrarnir sem okkur eru úthlutaðir í dag eru ekki beinlínis á léttu nótunum. Orðið harmur er það sem kemur helst upp í hugann við lestur þeirra. Í lexíunni er því lýst hvernig Guð getur iðrast áforma sinna, breytt áætlunum sínum, allt eftir breytni okkar mannanna. Pistillinn greinir frá hryggð Páls postula yfir fólkinu sínu, Gyðingunum, vegna afstöðu þeirra til frelsarans.
Og í guðspjallinu er sagt frá því að Jesús grætur yfir Jerúsalem og fólkinu hennar, sem kom ekki auga á hið eina sem gæti orðið þeim til frelsunar um tíma og eilífð, návist Guðs í Jesú Kristi. Þar er einnig lýst reiði Jesú yfir misnotkun helgidómsins, að hjarta Guðs, tilbeiðslustaðurinn, er haft að verslunarvöru.
Erfið mál En hvers vegna fjalla um svo erfið mál þegar sumarið leikur um lautir og engi og fléttar blómsveig um bæ og dali? Eða – hvers vegna ekki? Orðin til okkar í dag eru áminning, hvatning til þess að líta í eigin barm. Áminningin á alltaf við, vetur, sumar, vor og haust, því Guð fer aldrei í sumarfrí og heldur ekki sjálfsskoðun okkar mannanna.
Nú er verslunarmannahelgin framundan með því sem henni tilheyrir. Í blaði fyrir ferðamenn sem ég rakst á í vikunni er þeirri helgi lýst sem mestu gleði- og ofbeldishelgi íslenska sumarsins. Þar höfum við það. Reyndar finnst mér full mikið gert úr þessari fyrstu helgi í ágúst, í ljósi þess að allar helgar sumarsins eru nú orðið miklar ferðahelgar og fólk á ferð og flugi flesta daga ársins.
Komum heil heim En eitt veit ég: Það er vilji Guðs að við komum heil heim þessa helgi sem aðrar. Höfum gleðina í fyrirrúmi og hættum öllu ofbeldi, þar með talið áfengisakstri. Ökum ekki undir áhrifum hvorki áfengis né lyfja. Með því setjum við okkur í þá áhættu að brjóta fimmta boðorðið: Þú skalt ekki mann deyða.
Já, Guð vill að við komum heil heim. Hann grætur yfir okkur þegar misbrestir verða og grætur með okkur þegar harmurinn nístir hjartað.
Ritingartextarnir sem við heyrðum áðan eru okkur áskorun að skoða líf okkar í ljósi þeirra, hvort harmur nístir hjarta Guðs okkar vegna. Þeir eru líka hvatningarorð, uppörvun til að koma auga á nærveru Guðs í lífi okkar. Guð er í heimsókn, alla daga, allt árið um kring.
Visitasía Biskup Ísland heimsækir þetta árið nokkur prófastsdæmi að vanda, meðal annars okkur hér í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra. Hér í Hallgrímskirkju tókum við á móti honum í febrúar síðast liðnum og var mikið við haft eins og vera ber. Gerð var skrá yfir muni, starf og sögu kirkjunnar, undirbúin vegleg messa og húsið stóra fágað og prýtt frá kjallara upp í turn. Visitasían, eins og slík heimsókn tilsjónarmanns, biskups eða prófasts, heitir, stóð yfir í vikutíma og gerði biskupinn sér far um að kynnast sem flestum þáttum safnaðarstarfsins og ræða við fólk um gæði starfanna.
Gríska orðið sem þýtt er sem vitjunartími í guðspjalli dagsins er að stofni til sama orð og íslenska tökuorðið biskup (episkope - episkopos). Það þýðir einfaldlega heimsókn. Biskup er þá sá sem heimsækir, vitjar um, hefur tilsjón með fólkinu sínu. Hér í guðspjallinu segir samhengið okkur að um er að ræða heimsókn Guðs, húsvitjun höfundar lífsins. Ef mikið er við haft áður en biskup eða prófastur vísiterar, hversu mjög þurfum við þá ekki að undirbúa heimsókn Guðs sjálfs?
Líkami okkar – musteri heilags anda Í fyrra Korintubréfi bregður Páll postuli upp þessari velþekktu líkingu: Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði keypt. Vegsamið því Guð með líkama ykkar. 1Kor 6.19-20
Guð vitjar þín. Þú ert musteri hans. Er hús þitt raunverulega bænahús – eða hefur þú leyft einhverju því að setjast að sem líkja mætti við ræningja? Þarftu kannski að reka út eitthvað sem ekki á þar heima?
Leirker og villiolíuviður Önnur líking er gefin okkur í lexíu dagsins: Við erum í hendi Guðs eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins. Þessi líking er reyndar ætluð Ísraelsmönnum upprunalega, en samkvæmt kristinni guðfræði hefur kirkjan, þ.e. við kristið fólk, eignast hlutdeild í þeim andlega veruleika sem Gyðingunum var búinn frá upphafi. Við erum grædd á stofninn, eins og Páll postuli segir með enn einni líkingunni:
En þótt nokkrar af greinunum hafi verið brotnar af og hafir þú sem ert villiolíuviður verið græddur inn í þeirra stað og fáir með öðrum greinum að njóta rótarsafa olíuviðarins, skaltu ekki stæra þig gegn hinum.... En hinir verða og græddir við, ef þeir láta af vantrú sinni, því að megnugur er Guð þess að græða þá við á ný. Sjá Róm 11.17-24
Ávarp Guðs til Gyðinga í Gamla testamentinu megum við því taka til okkar. Það er bæði fagnaðarefni – þar sem við fáum hlutdeild í fyrirheitum Guðs ásamt með Gyðingunum - en fyrirheitunum fylgir einnig mikil ábyrgð, sú ábyrgð að reynast Guði trú í hverjum aðstæðum.
Orð spámannsins eiga við okkur Orðið sem Jeremía spámaður flytur frá Drottni í dag er þannig til okkar sem á það hlýðum í trú. Líf okkar er sem leirker, brothætt, vandmeðfarið, en öruggt í hendi hins mikla leirkerasmiðs. Lexían er þessi: Guð hefur áætlun fyrir líf okkar, sér fyrir sér fagurt ker, sem óhlýðni okkar kann síðan að skemma. Líf okkar er ekki líf strengjabrúðunnar, eins og ég hef áður talað um hér úr þessum prédikunarstóli, strengjabrúðunnar sem ekkert gerir án hreyfingar meistara síns. Við höfum okkar eigin vilja, sem er ekki alltaf í samræmi við vilja Guðs, hið góða, fagra og fullkomna (Róm 12.2). Því getur Guð iðrað þess góða sem hann hafði heitið okkur, ef við gerum það sem illt er í augum Guðs. Hann getur líka iðrað ógæfunar og fært lífið í samt lag aftur, hverfum við frá illri breytni okkar.
Nú er það svo að ef annar aðili samnings brýtur samninginn hlýtur hinn aðilinn að vera frjáls að því að taka nýja ákvörðun um framhaldið. Samningsrof hefur orðið og nýjar aðstæður skapast. Allar hugmyndir um að hvert okkar skref sé fyrirfram ákveðið hljóta að skoðast í þessu ljósi. Í huga Guðs býr líf okkar eins og það getur best orðið. Okkur – og fólkinu í kring um okkur – verður hins vegar ýmislegt á sem breytir þessum farvegi. En Guði er enginn hlutur um megn. Hann getur leiðrétt það sem afvega hefur farið, mótað kerið upp á nýtt ef skörð hafa komið í glerjunginn, gert nýtt úr gömlu. Hann leiðir okkur heil heim.
Líkami, sál og andi Þessar þrjár myndir af manneskjunni sem hér hafa verið dregnar upp í samræmi við Biblíuna, af musteri, leirkeri og grein á olíuviði, hafa skírskotun til þeirra þriggja sviða sem ófrávíkjanlega mynda heild, gera manninn heilan. Líkami okkar er heilagur af því að hann er bústaður heilags anda, musteri Guðs. Sálarlíf okkar og tilfinningar, persóna okkar er heilög og lífshlaupið ætti að fá að mótast sem fagurt ker í hendi Guðs. Andi okkar, sá þáttur manneskjunnar sem megnar að skynja hið yfirnáttúrulega, vaknar til síns heilaga tilgangs við að vera græddur á stofninn, sem er Jesús Kristur.
Og að því urðum við vitni í dag þegar litli drengurinn þeirra Ágústar og Láru Bryndísar var borinn til skírnar. Hann er nýjasti græðlingurinn á það lífsins tré sem tekur á sig form hér í söfnuðinum. Hlúum að þessum nýja sprota í bænum okkar, kæri söfnuður, umvefjum hann elsku Guðs eins og við gerum hvert við annað, andlega talað, heima á bænastund og hér í samfélagi trúaðra í kirkjunni.
Endurbætur Notum þessar sumarvikur sem eftir eru, hvort sem er í önnum hversdagsins eða hvíld og endurnýjun sumarleyfisins, til að skoða líf okkar, hvert um sig. Hvernig er ástand musterisins? Þarf að takast á við gagngerar endurbætur eins og hér í helgidóminum okkar, Hallgrímskirkju, jafnvel með hávaða og látum, en með frið og fegrun fyrir augum? Hvernig lítur kerið okkar út, lífshlaupið, persónan? Þarf að bæta glerunginn eða eru jafnvel sprungur í leirinn sjálfan? Og hvernig er ágræðslan við stofninn? Er greinin okkar föl og visin – eða full af safaríku lífi, ávaxtarsöm, endurnærð af krafti Guðs?
Guð vill að við lifum og lifum vel. Hver dagur lífs okkar hefur tilgang og þann tilgang heilagastan að lofa Guð í öllu því sem við erum, segjum og gerum. Verum hverja stund í tengslum við tilgang okkar, hvar sem við erum stödd á lífsleiðinni. Verum ekki völd að harmi Guðs heldur bjóðum nærveru hans og leiðsögn velkomna í líf okkar. Þekkjum hann þegar hann vitjar okkar.