Samkeppni er hugtak sem felur í sér bæði neikvæða og jákvæða merkingu. Samkeppni á vinnumarkaði er sögð vera jákvæð fyrir okkur neytendur, stuðla að betri þjónustu, meira vöruúrvali og lægra verði. Samkeppni er líka víða notuð til að ýta undir að fólk bæti sig eða skapi eitthvað nýtt, til dæmis í íþróttum og listum. Við sem eigum systkini könnumst vel við hvernig samkeppni við yngri eða eldri systkini gerði okkur kleift að gera enn betur en áður í viðleitni okkar til að standast samanburð við þau eða þá bekkjarfélaga og seinna vinnufélaga.
En einmitt þar, í persónulegum samskiptum, koma slæmar hliðar samkeppni oft í ljós. Öfund eða afbrýðisemi, jafnvel fals og lygar geta gert vart við sig sem sjaldan bætir líf okkar heldur dregur úr lífsgæðum.
Í guðspjalli dagsins heyrum við um samkeppni sem kemur heldur betur af stað leiðindum í lærisveinahópnum, gremju og leiðindum: „Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við bræðurna tvo,“ segir í guðspjalli dagsins (Matt 20.20-28).
Það er reyndar metnaður mömmu bræðranna Jakobs og Jóhannesar Sebedeussonar sem kemur þessu öllu af stað.
Þá
kom móðir þeirra Sebedeussona til Jesú með sonum sínum, laut honum og vildi
biðja hann bónar.
Jesús spyr hana: „Hvað viltu?“
Hún segir: „Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu hvorn til
sinnar handar, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri.“
Við mömmurnar getum alveg sett okkur í spor þessarar nafnlausu móður, mömmu Sebedeussonanna. Við höfum alveg metnað fyrir hönd barnanna okkar, er það ekki? Alla vega viljum við þeim allt hið besta. Og þessi kona heldur raunverulega að það sé það besta, að sitja við hlið Jesú í ríki hans.
En þarna er um örlítinn misskilning að ræða. Líklega héldu þeir bræður og mamma þeirra að ríki Jesú væri veraldlegt valdaríki. Og þau voru ekki ein um það. Gyðingar almennt biðu eftir sínum Smurða, Messíasi, sem myndi endurreisa Ísraelsþjóðina og losa þau undan yfirráðum Rómverja. Það var á þeim forsendum sem Jesús var tekinn af lífi enda látið að því liggja að hann hyggði á vopnaða uppreisn gegn hernámsliðinu.
En Jesús er ekki þess konar konungur. Ríki hans er ekki af þessum heimi. Og hann sýndi með lífi sínu að valdastaða í ríki hans er staða þjónsins, ekki staða sem veitir heiður, ríkidæmi og virðingu. Jesús kom ekki í heiminn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt fyrir okkur.
En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá sem vill fremstur vera meðal ykkar sé þræll ykkar. Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“
Þetta er það sem Jesús á við með orðum sínum um kaleik:
Jesús
svarar: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik sem ég
á að drekka?“
Þeir segja við hann: „Það getum við.“
Hann segir við þá: „Kaleik minn munuð þið drekka en ég ræð því ekki hver situr
mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem faðir minn hefur
ákveðið.“
Þeir bræður eru góðir með sig: „Það getum við“ en vita auðvitað ekki hvað hann á við. Að drekka kaleik Jesú er að ganga með honum inn í þjáningu og dauða, þangað inn en svo út aftur, út til lífsins. Það varð hlutskipti lærisveinanna að þjást með Jesú. Sum úr fylgjendahópi Jesú voru hreinlega tekin af lífi, sum með hryllilegum hætti. Þann kaleik drukku þau vegna ástar sinnar á frelsara sínum.
Hins vegar er þetta með heiðurssætin alveg óljóst. Pabbi ræður, sagði Jesús, og þar með þarf ekkert að ræða það frekar. Málið er: Ertu tilbúin að fylgja mér út í rauðan dauðann, án þess að ég lofi þér sérstökum kjörum þegar takmarkinu er náð? Væntanlega svöruðu þeir bræður því játandi því þeir voru áfram með Jesú þó að ríki hans væri ekki það sem þeir og mamma þeirra höfðu haldið. Og það er einmitt fegurð þess ríkis, veruleika Guðs, að við erum öll jöfn, ekkert okkar er eitthvað merkilegra eða valdameira en annað í augum Guðs, hvorki hér í þessu lífi né í því sem mætir okkur eftir veraldlegan dauða.
---
Ég hef í vetur átt erindi á fleiri dvalar- og hjúkrunarheimili aldraðra en oft áður. Ellin er einhvern vegin komin nær mér, bæði í fjölskyldulífinu og eins vegna þjónustu minnar fyrir Grensássöfnuð. Stundum kem ég þegar fólkið sem hefur fótavist er að fá sér síðdegishressinguna. Þarna sitja þau, misvel á sig komin, en öll jafndýrmæt. Einn hefur verið forstjóri hjá fyrirtæki, svo er konan sem var framarlega í sínu verkalýðsfélagi en átti bágt með að láta enda ná saman fyrir sig og sinn barnahóp.
Þarna er líka vel menntuð kona með mikla reynslu úr atvinnulífinu, hún sem var yfirmaður á sinni deild og hann sem stundaði erfiðisvinnu alveg fram að eftirlaunaaldri. Alls konar fólk með alls konar sögu og lífsreynslu. Sum þeirra fá margar heimsóknir, önnur færri, oft óháð fjölskyldustærð.
Þarna sitja þau þá, öll í sama báti. Ekkert er öðru fremra, öll jöfn í sínum aðstæðum. Sum áttu metnaðarfulla foreldra sem komu þeim á framfæri í námi eða atvinnu, önnur brutust áfram af eigin rammleik. Þegar ævin er að renna sitt skeið skiptir þetta engu máli lengur: framarlega í atvinnulífi, heiður og virðing og stöndugur efnahagur, hægri eða vinstri hönd forstjórans. Ekkert af þessu skiptir máli.
Það eina sem skiptir máli er að hafa verið heiðarleg manneskja og geta horft yfir líf sitt með sátt og í friði. Við prestar hittum líka oft fólk sem er komið í mikla nánd við dauðann. Þá er svo áþreifanlegt hvað sáttin skipti miklu máli. Óafgreidd persónuleg mál, vond samviska, beiskja í huga, slíkt verður til þess að gera síðasta skeiðið hér á jörð mun erfiðara en ella. Þau sem nálgast dauða sinn með Jesú, Jesú sem færir sátt og fyrirgefingu, sátt við okkur sjálf, fólkið okkar og Guð, Jesú sem drakk kaleik þjáningar og dauða fyrir okkur og með okkur, hafa hugarró sem ekkert fær frá þeim tekið.
Óheilbrigð samkeppni og afleiðingar hennar getur verið eitt af því sem veldur slíkum óróleika í nánd dauðans, samkeppni sem hefur eitrað samskipti við fjölskyldumeðlimi til dæmis eða það hugarfar sem keppnisfólk á stundum erfitt með að gefa eftir, að þurfa alltaf að gera betur og hafa aldrei gert nóg. Þessi sífelldi innri óróleiki, metnaður og eftirsókn eftir meiru (Prédikarinn í Biblíunni talar um eftirsókn eftir vindi, 2. kafli, vers 11) er ekki bara tengd nálægð við dauðann; hún getur gert okkur lífið leitt hvenær sem er ævinnar en líka verið hreyfiafl til góðra verka.
Leyfum okkur – með Guðs hjálp - að sleppa tökunum á því að þurfa alltaf að vera mest og best – og látum Jesú sjá um rest.
Drottinn, hver fær að leita hælis í tjaldi
þínu,
hver má dveljast á þínu heilaga fjalli?
Sá sem gengur í flekkleysi
og ástundar réttlæti
og talar sannleik af hjarta,
sá sem ekki ber út róg með tungu sinni,
gerir náunga sínum ekki illt
og leiðir ekki skömm yfir nágranna sinn,
sá sem fyrirlítur þann sem illa breytir
en heiðrar þá sem óttast Drottin,
sá sem heldur eiða sína
þótt það sé honum til tjóns,
sá sem ekki lánar fé sitt gegn vöxtum
og þiggur ekki mútur í máli gegn saklausum.
Sá sem þetta gerir
er óhultur að eilífu.