Áföllin sem koma

Áföllin sem koma

Margir keppast við að þjálfa líkama sinn með útivist eða í líkamsræktarstöðvum. Of margir huga ekki að andlegu heilsunni. Áfallahjálp er nokkuð sem margir þurfa og ýmsir geta veitt. Að geta talað um áföll og hafa einhvern til að hlusta er mikilvægt. Í öllum kirkjum landsins eru starfsmenn sem vilja hlusta og veita hjálp. Það ætti að vera eins sjálfsagt að vinna úr áföllum sínum með góðri hjálp eins og að mæta til einkaþjálfarans til að byggja upp líkama sinn. Geðlæknar og sálfræðingar hjálpa, áfallateymi Rauða krossins og sjúkrahúsa líka. En svo má einfaldlega koma við hjá prestinum í kirkjunni þinni, það gæti verið gott fyrsta skref.
fullname - andlitsmynd Arnaldur Arnold Bárðarson
17. janúar 2020



Þegar áföll mæta okkur þá finnum við öll til. Við finnum til með aðstandendum ferðalanganna sem létust á Sólheimasandi nú á dögunum. Okkur langar að taka utan um og faðma fast og lengi þau sem hafa misst. Við finnum til með þeim sem fengu snjóflóð yfir þorpið sitt. Það vakti upp gamlan harm og sáran missi.


Við skiljum að til að komast í gegnum áföll verðum við að vinna saman, vera saman og sjá hvert annað. Þegar ógnin er nógu stór sjáum við best hvað gríðarlegur styrkur, örlæti og kærleikur býr í okkur. Þorpið verður stórt og borgin minnkar með sínu afskiptaleysi og fjarlægð verður minni. Með því að gefa öðrum líður okkur betur og við megum vera þess viss að þeim sem þiggja mun líka líða betur.


Það kemur næstum á óvart hversu viljugt fólk er til að hjálpa þegar einhver þarf á því að halda. Af því að fólk vill virkilega hjálpa og styðja, það þarf bara að vita að þess sé þörf. Við þurfum ekki að halda að fólkið í næsta húsi sé ófúst að hjálpa grönnum sínum eða hafi ekki tíma til að sjá hvað er að gerast í kringum það. Að samfélag nútímans sé kalt og lítið mannlegt. Ég veit að það er ekki þannig. Ég trúi virkilega að nágranninn, kærastan, amma, mamma, pabbi, frændi eða frænka taki þá ábyrgð sem þau eru fær um þegar einhver þarf á þeim að halda. Það er ekki þar sem vandamálið liggur þegar talað er um úrræðaleysi. Úrræðaleysið er hjá fagstofnun hins opinbera vegna peningaskorts fyrst og fremst.


Við þurfum opinbert heilbrigðiskerfi sem virkar og það er á ábyrgð samfélagsins og okkar sem myndum það að krefja stjórnmálamenn um efndir um góða heilbrigðisþjónustu líkt og þeir lofa fyrir kosningar. Við þurfum að þrýsta á þau sem fara með stjórn okkar mála. Segja þarf oft og rækilega að við viljum láta setja fjármuni okkar í að hjálpa fólki sem glímir við fíkn. Ástand ungra fíkla er óbærilegt og úrræðaleysið þar blasir við öllum. Í öllum fjölskyldum þessa lands er einhver sem glímir við fíkn. Áhyggufullir foreldrar, afar og ömmur og að jafnaði öll fjölskyldan undirlögð af ótta og kvíða. Stórefla þarf forvarnir og fjölga meðferðarplássum strax. Við viljum láta fjármuni til að hjálpa þeim er misst hafa lifsvilja sinn. 40 sjálfsvíg á ári að jafnaði er afar há tala. Okkur þætti tilhugsunin óbærileg að missa slíkan fjölda ef þau yrðu úti í óveðri eða græfust undir í snjóflóði.


Pieta samtökin eru afar mikilvæg og dýrmæt þeim sem eru í sjálfsvígshugsunum og aðstandendum þeirra, það er líka gott starf unnið hjá Rauða krossinum og hjálparlínu hans. Það starf ættum við flest að styðja með fjármunum ef ekki með öðru. Kirkjan hefur langa hefð innan kristinnar sálgæslu. Þar er engum hafnað. Margir prestar og djáknar hafa sérfræðiþekkingu á sálrænum áföllum og lífskrísum og allir eru þeir vanir að hjálpa syrgjendum. Kirkjan hefur á að skipa hópi fólks sem myndar hjálparnet um allt land á svipaðan hátt og hinar lífsnauðsynlegu björgunarsveitir okkar.


Margir keppast við að þjálfa líkama sinn með útivist eða í líkamsræktarstöðvum. Of margir huga ekki að andlegu heilsunni. Áfallahjálp er nokkuð sem margir þurfa og ýmsir geta veitt. Að geta talað um áföll og hafa einhvern til að hlusta er mikilvægt. Í öllum kirkjum landsins eru starfsmenn sem vilja hlusta og veita hjálp. Það ætti að vera eins sjálfsagt að vinna úr áföllum sínum með góðri hjálp eins og að mæta til einkaþjálfarans til að byggja upp líkama sinn. Geðlæknar og sálfræðingar hjálpa, áfallateymi Rauða krossins og sjúkrahúsa líka. En svo má einfaldlega koma við hjá prestinum í kirkjunni þinni, það gæti verið gott fyrsta skref.