Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“ Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“ Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð. Lúk 24.44-53
Það er ánægjulegt að fá að vera hér með ykkur á þessum hátíðisdegi í fagurri Hafnarfjarðarkirkju. Síðast stóð ég í prédikunarstóli hennar á uppstigningardegi fyrir átta árum. Við erum stöðugt minnt á nið tímans og þegar við horfum til baka geta okkur þótt árin liðnu sem andrá ein. Þess vegna skiptir það okkur máli að geta staldrað við og gefið gaum að því sem hefur varanleg áhrif á líf okkar. Og við það hjálpar kirkjuárið okkur, hátíðir þess og tímabil.
Frá páskum hafa verið gleðidagar í kirkjunni. Dagurinn í dag eykur enn á gleðina. Guðspjallið greinir okkur frá því þegar Jesús var upp numinn til himins. ,,En það varð meðan hann var að blessa þau.” Hann hafði farið með þau út í nánd við Betaníu, hafið upp hendur sínar og blessað þau. Og það varð, meðan hann var að því, að hann skildist frá þeim. ,,Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.” Það megum við líka gera. Við hverja guðsþjónustu, hverja messu, megum við þiggja það að vera undir blessandi höndum hans, og Jesús er sjálfur með okkur hvar sem tveir eða þrír koma saman í hans nafni. Í því felst gleði okkar.
Það er alltaf heillandi að fylgjast með árstíðunum. Vor og sumarbyrjun hafa þó eins og iðulega fyrr orðið okkur umhugsunarefni. Það eru ávallt mikil tíðindi og alvarleg þegar tilkynnt er um eldgos eins og það sem nýverið hófst í Grímsvötnum. Það gos átti sér þó aðdraganda og jarðeðlisfræðingar áttu von á því að draga færi til tíðinda. Gosinu hefur á giftusamlegan hátt lokið og lýst hefur verið yfir goslokum. En þó svo að gosið stæði ekki í marga daga hafði það mikinn óskunda í för með sér og átakanlegt var að sjá og heyra í sjónvarpi viðtöl við bændur, sem máttu þola það að horfa á jörð sína öskugráa og búpening í nauðum.
Í mesta myrkrinu gat Vilhjálmur á Hnausum þó séð út úr sortanum. Það má leiða að því líkum, að himins ljósið hafi lýst honum. Það fylgir því blessun að tilheyra þeim frelsara, sem er ljós heimsins. Ljós og myrkur vega salt en ljósið skín í myrkrinu og hefur betur.
Það eru bjartir dagar í Hafnarfirði og það á margan máta. Við gleðjumst yfir himinbirtunni, þeirri síkviku birtu sem fellur á jörð og gerir gróðurinn grænan. Við höldum upp á afmælisdag Hafnarfjarðar og minnumst þess þegar bærinn fékk kaupstaðarréttindi þann 1. júní árið 1908. Þá hafði verið leitað eftir því oftar en einu sinni en því jafnan verið synjað. Hafnarfjörður var fimmta bæjarfélagið hér á landi sem fékk kaupstaðarréttindi. Íbúum hafði fjölgað ört í bænum úr 374 árið 1900 í 1351 árið 1907 og horfði því til vandræða, ef hann fengi ekki sjálfstjórn í eigin málum.
“Þú hýri Hafnarfjörður sem horfir móti sól / þó hraun þín séu hrjóstrug er hvergi betra skjól.“ Svo yrkir Guðlaug Pétursdóttir í ljóði sínu um Hafnarfjörð og víst er að margir eru sama sinnis. Mannlíf hefur hér hefur verið gott og stjórnendur bæjarins hafa jafnan sem best reynt að stuðla að velferð bæjarbúa. Fátækt fyrirfinnst samt hér í bæ eftir efnahagshrunið eins og annars staðar á landinu og á henni þarf að vinna bug með öllum tiltækum ráðum, því að sárt er og lýjandi að hafa ekki fyrir nauðþurftum og niðurlægjandi ef ekki er staðið að hjálp með mannsæmandi hætti svo að fátækir megi halda sinni mannlegu reisn. Vonin um betri tíð þarf að búa í brjóstum.
Í pistli dagsins úr Efesusbréfinu segir: ,,Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann... En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn, sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, ofar hverri tign og valdi og mætti ...ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi.”
Við játum að það sé sá sami andans máttur sem gefur vor, tendrar ást í barmi og glæðir samkennd og kærleika. Matthías Johannessen yrkir um vorið og lýsir sköpunarundrum þess og ástinni sem það glæðir þegar hann segir:
,,Hendur okkar eru greinar, fléttast saman, laufgast. Það er vor.”
Við vitum þó að enda þótt dagarnir séu bjartir á þessum árstíma þá hefur auðvitað vorað misjafnlega á Íslandi á liðinni tíð. Gleðin yfir birtu og vori hefur farið eftir líðan fólksins, hag þess og kjörum. Það er ömurlegt að geta ekki séð sjálfum sér farboða. Þegar það er kreppa ber vor með sér annan svip og brag en á góðæristíð en þörfin verður þá enn ljósari fyrir ábyrgðarkennd og elsku.
En hvers er að vænta í þá veru á nýju sumri og komandi tíð? Mun stjórnlagaráðið, sem nú er að störfum hvetja bæði til framtaks og framsækni og til brýnnar samstöðu að félagslegri velferð? Ekki er ljóst hver leiðarmerkin verða. Enn getum við spurt: Verða fleiri fallvötn virkjuð og álbræðslur reistar eða verður gætt að umhverfisvænni atvinnu- og efnahagskostum? Verður fiskveiðistjórnunarkerfið betrumbætt og gert hagsælla fyrir þjóðina? Verður heilbrigðisþjónustan öllum aðgengileg? Hrökklast vel menntaðir læknar úr landi? Eða verður kapp lagt á að halda þeim í landinu og búa þeim læknisvæn kjör? Eiga læknar að sinna þeim, sem geta borgað nóg fyrir læknisþjónustuna, en efnaminna fólk að fara mjög á mis við hana. Munu fjölbreyttir menntunarkostir standa öllum til boða, sem vilja nýta sér þá? Verður gætt að því að bæta kjör þeirra verst settu? Verða öryrkjar enn að líða skort, sem bætist við fötlun þeirra og annan vanda? Hvernig mun öldruðum farnast? Verða auðlindir þjóðarinnar nýttar öllum til gagns og gleði og samkennd ræktuð í samfélaginu?
Kristin trú gerir ekki upp á milli fólks, en hún gerir til okkar kröfu um að taka tillit til þeirra sígildu sjónarmiða, sem felast í trúnni á Guð í Jesú nafni. Þá varðar miklu að geta umbreytt hverfulum veraldar verðmætum í varanlegan auð.
Við berum þess merki að tíminn líður. Miklu varðar að geta treyst því og trúað að til einhvers sé og hafi verið að lifa. Guðsvitund og trú gefa og glæða þá sýn.
,,Þeir tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.” Þannig varð niðurstaðan af samskiptum þeirra við Jesú. Áþekk verða úrslitin hjá hverjum og einum sem fylgir Jesú Kristi og horfir til hans í von og trú. Ekki svik og brigðir heldur uppfylling fegurstu vona.
Jesús hvarf frá þeim. Þeir höfðu reynt svo margt með honum, líka upprisuundrin. ,,Allt var fullkomnað.” Hann hafði lokið ætlunarverki sínu, fært hina fullkomnu og endurleysandi fórn og lýst í gegnum og leyst fjötra syndar og dauða í sigrandi kærleikskrafti sínum líkt og ritningarnar vitnuðu um.
En þrátt fyrir það allt er samt ekkert að sjá hér í tímans hverfula heimi sem er fullkomið og heilt. Enn eru ummerki jarðarlífs oft bæði sár og mikil vonbrigði. Því varðar svo miklu að líta og sjá þá tæru mynd, sem fram kemur í vitnisburðinum um Jesú frá Nasaret, horfa í trú til hans og sögu hans, sem fyllt er anda og virkni Guðs.
Jesús hóf upp hendur sínar og blessaði þau. Blessandi hvarf hann frá þeim, og hann heldur því stöðugt áfram. Jesús hefur dregið mannlegt líf, veruleika og tilvist þess inn að hjarta Guðs. Hann er nú birting og ásjóna hins ósýnilega Guðs, sem að heiminum og að okkur snýr, hvarvetna tengdur nánd hans, veru og valdi.
Sú trú, sem þekkir Jesú og höndlast af áhrifum og blessun hans, er dýrmætur leiðarvísir alla ævileið. Biðja þarf fyrir uppvaxandi lífi og framtíð ekki síður en öldruðum. Mestu varðar að sálarsjónin sé upplýst af Guði eins og postulinn segir og biður í pistli dagsins:
,,Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er.”
Myndin af Jesú Kristi þarf að greipast í huga, nánd hans og blessandi hendur. Fái hann unnið sitt hjálpræðisverk á okkur, opinberast, að ,,Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, endurnýjast dag frá degi vor innri maður.” (11 Kor 4.16)
Það er dýrmætt að koma saman í kirkju og horfa undir blessandi höndum frelsarans yfir liðna tíð og einnig fram á veg og skerpa sálarsýn og lífsskilning, þakka og gleðjast. Það gerum við á uppstigningardegi og höfum góða ástæðu til. Við þökkum goslok, fögnum birtu og sólaryl, þökkum Guði fyrir lífið og endursköpun þess fyrir Jesú Krist, frelsarann krossfesta, upprisna og uppstigna.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.