Lexía Jer: 7:1-7, Pistill Róm 14:7-13, Guðspjall Lúk 6:36-47 ............ Lágafellskirkja
Náð sé með yður og friður frá Guði vorum og Drottni
Jesú Kristi.
Þema
dagsins er: Kallið sem bjargar… sem betur fer hafa flestir það svo gott
að þeim finnst þeir ekki þurfa á björgun að halda… en kallið
sem bjargar er ekki fyrir þetta líf… Kallið sem bjargar er fyrir eilífa
lífið… Við erum öll kölluð til Guðs Ríkis en það er á okkar persónulegu ábyrgð
hvort við svörum kallinu... Í dæmisögum Jesú um hið týnda fengum við að heyra
hvílíkur fögnuður er á himnum fyrir hvern þann sem finnur trúna á Guð… Þegar
við týnum einhverju og höfum ekki von um að það finnist, teljum við það vera
glatað… Jesús sagði sjálfur að hann var sendur til að leita að hinu týnda og frelsa
það því að
Guð vill ekki að neinn glatist. Hann kom til að flytja
fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og gefa blindum sýn[..]… Sá
sem á ekki trúna í hjartanu er fátækur í anda og blindur á boðskapinn um Ríki
Guðs. Sá sem svarar ekki kallinu er týndur. Jesús kom ekki til að láta þjóna sér heldur til að þjóna
og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.... já
fyrir alla, því mannkynið er hin týnda hjörð… lausnargjaldið er Guðs gjöf sem
við þurfum að þiggja… í versi dagsins segir einmitt: af
náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs
gjöf. en guðspjallið í dag, kennir okkur að við getum gert
meira en að þiggja þessa gjöf frá Guði… við getum leyft Guði að vinna í gegnum
okkur… eins og Símon lánaði Jesú bátinn sinn, getum við einnig gefið Guði tíma
og rúm til að breiða út boðskapinn… En fyrst og fremst þurfum við að svara
kallinu sem bjargar okkur… Í trúmálum gildir sama lögmál og með súrefnisgrímuna
í flugvélinni, við þurfum fyrst að bjarga okkur áður en við getum aðstoðað
aðra…
Það eru
ekki bara dæmisögur Jesú sem innihalda myndmál eða samlíkingar sem við getum
nýtt okkur dags daglega.. heldur getum við séð þær í öllum frásögnum
Biblíunnar…
Í guðspjallinu er Jesús
staddur við Genesaretvatn, hann hefur hitt Símon áður, það var þegar hann
læknaði tengdamóður hans af sótthita en Jesús var ekki búinn að velja hann sem
lærisvein.. Mannfjöldinn er farinn að fylgja Jesú eftir til að hlusta á Guðs
orð… og þarna við vatnið þrengdi fólkið svo að honum að Jesús fer út í bát
Símonar… þessi Símon er sá hinn sami sem Jesús gaf síðan nafnið Pétur og sagði
þá við hann: ,,Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti
mun ég byggja kirkju mína...
þegar Jesús var kominn út í bátinn, var ýtt frá landi og þarna úti á vatninu
verður fátæklegur fiskibátur að ræðupúlti sem Drottinn alheimsins talar út frá…
Hvar sem Jesús fór notaði hann þá aðstöðu sem var fyrir hendi, ekkert var honum
ósamboðið og enginn staður svo óverðugur, að hann gæti ekki miðlað
fagnaðarerindinu til fólksins… og í orði sínu kallar hann alla til sín.. Hann
sagði: Mér ber að flytja fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var
ég sendur … aðstaðan skipti hann ekki máli.
Jesús notaði bátinn sem til að kenna fólkinu um
Guðs Ríki… Á eftir segir hann Símoni hvar þeir félagar eigi að leggja netin, en
þeir höfðu ekki fengið bein um nóttina, eins og sjómenn orða það stundum…
Símon Pétur var reyndur fiskimaður og þrátt fyrir þreytu segir hann: fyrst
þú segir það!… eða, fyrir þín orð, skal ég leggja netin… og þeir lögðu út,
fullir trausts… frá örygginu við ströndina.. út á djúpið… eða út fyrir þæginda-
rammann eins og við segjum í dag… og þeir fylltu netin…
Aftur getum við séð samlíkingu, að við getum þurft að brjóta
upp hið vanabundna mynstur sem við höfum byggt upp í kringum okkur, til að
hljóta blessun… OG einnig, að ef við tökum leiðbeiningum þá farnast okkur vel…
Aflinn var svo mikill að netin byrjuðu að rifna, og báturinn að sökkva… blessun
Guðs yfirflæddi… eins og segir í sálmi 23, bikar minn er barmafullur.. og
í sálmi 37 segir: Treyst Drottni og ger gott, þá
muntu óhultur búa í landinu. Njót gleði í Drottni, þá veitir hann
þér það sem hjarta þitt þráir. Fel Drottni vegu þína og treyst
honum,hann mun vel fyrir sjá....
Það er huggun og hughreysting sem felst í því að leggja allt í Drottins hendur
og upplifa að blessanir hans umvefja okkur… hann mun vel fyrir sjá.
Hinn mikli afli opnaði augu fiskimannanna fyrir dýrð Jesú… sem
segir Símoni að héðan í frá, muni hann menn veiða… Þarna valdi Jesús Símon sem
klettinn fyrir kirkjuna og Jakob og Jóhannes sem lærisveina sína og þeir
svöruðu allir kallinu… eða eins og textinn segir: ,,þeir lögðu bátunum að
landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum”...
Þema þessa sunnudags er:,,Kallið sem bjargar - Send mig”...
Í GT eru nokkrar frásagnir af því þegar Guð kallaði menn til starfa… Þegar
Samúel var kallaður svaraði hann einfaldlega: Hér er ég „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“… Samúel var
til þjónustu reiðubúinn… Lexía dagsins segir frá köllun Jeremía spámanns… Þar
er sagt að Guð valdi hann áður en hann fæddist… en Jeremía hafði
áhyggjur af því að valda ekki hlutverkinu, svo Guð sagði við hann:,,Þú
skalt fara hvert sem ég sendi þig og boða hvað eina sem ég fel þér. Þú skalt
ekki óttast þá því að ég er með þér til að bjarga þér,“ segir Drottinn.
Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn Jeremía og sagði við hann: „Hér
með legg ég orð mín þér í munn. Ég veiti þér vald yfir þjóðum og ríkjum
til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og
gróðursetja.“
Við sjáum á þessum texta að vald spámannsins var mikið… En hlutverk allra spámanna
var að fá fólk til að snúa sér aftur til Guðs.. því maðurinn er gjarn á að
gleyma Guði þegar vel gengur… Spámenn Guðs voru sendiboðar sem fengu misjafnar
móttökur…
Orðið engill merkir líka sendiboði… sá sem er sendur af
Guði… sendiboði er staðgengill þess sem sendir hann… og á að fá
sömu virðingu og sá sem sendi hann hefði fengið, ef hann hefði mætt sjálfur…
Jesús sagði
að hann væri sendur… sendur af Guði til týndra sauða af
Ísraelsætt… Hann var sendur til að kalla saman hjörð Guðs og bjarga hinu týnda…
og enn í dag er fagnaðarerindið boðað.. til að hver sem trúir á Jesú, glatist
ekki heldur hafi eilíft líf. Fagnaðarerindið er kallið
sem bjargar… Jesús er hinn dýrmæti hyrningarsteinn, hornsteinn
trúarinnar…
Við segjum oft að það sé óþarfi að við séum öll að
finna upp hjólið en í trúmálum er nauðsynlegt að ALLIR finni upp hjólið…
hver og einn þarf að svara kalli Guðs… en til þess að kallið nái eyrum okkar,
þarf einhver að boða orð Guðs, eða eins og Guð sagði við Jeremía, það þarf að
gróðursetja… og það er hlutverk þess sem er sendur… að gróðursetja trúarfræið
í hjörtum fólks… Jesús sendi lærisveinana út tvo og tvo til að boða að ,,Guðs
Ríki væri í nánd” og trúboðið heldur áfram því enn er Guðs Ríki í nánd…
Það er oft talað um prestsstarfið sem köllun… og presturinn kallaður
sálnahirðir… því frá því að Jesús gekk hér á jörðu er hlutverk okkar það sama
og lærisveinanna forðum… að boða, uppörva og fræða svo fleiri svari kallinu…
Við eigum að breiða út boðskapinn, svo áheyrendurnir geti leyft honum að nærast
og blómstra í hjarta sér og vera handbók þeirra í lífinu… eins og Páll sagði í
bréfinu til Filippimanna: við þurfum að keppa að markinu, til verðlaunanna á
himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.
Þema dagsins er: Kallið sem bjargar og svarið sem Guð vill heyra er: Hér
er ég - send mig!
Dýrð
sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um
aldir alda. Amen