Að íklæðast Kristi

Að íklæðast Kristi

Mér er minnisstætt í fyrra í Staðarkirkju í Grunnavík þegar ég skrýddist skjálfandi af kulda snjáðum grænum hökli frá 1662. Hann er 349 ára gamall. Mér er það afar minnissstætt. Ég velti því fyrir mér í dag hvernig þessi nýi hökull og stóla muni koma til með að líta út árið 2360? Já, tíminn er afstæður.

Jesús Kristur, himininn stendur opinn og þú sýnir okkur jörðina. Þú ert hjá Guði og þú ert nálægt okkur. Þú hefur himinn og jörð í höndum þínum og þú heldur á okkur. Lof sé þér Kristur, Drottinn. Amen.  

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.  

Gjöfin er viðburður   

Nýi græni messuskrúðinn er fallegur og látlaus, fer vonandi vel á klerki hverju sinni í þessum fagra helgidómi  Við höfum gengið til fundar við Guð á 104 ára afmælisdegi Húsavíkurkirkju árið 2011. Guð blessi glaða gefendur ríkulega og ekki síst listakonuna fyrir sitt fallega handverk sem mun prýða þennan helgidóm næstu áratugina og löngu eftir að við höfum horfið af þessu jarðneska tilveruskeiði inn himnesk salarkynni. Mér er minnisstætt í fyrra í Staðarkirkju í Grunnavík þegar ég skrýddist skjálfandi af kulda snjáðum grænum hökli frá 1662. Hann er 349 ára gamall.  Mér er það afar minnissstætt. Ég velti því fyrir mér í dag hvernig þessi nýi hökull og stóla muni koma til með að líta út árið 2360? Já, tíminn er afstæður. Hann setur sitt mark á allt sem mölur og ryð eyðir en orð Guðs er lifandi og virkt enda innblásið af anda Guðs sem við tilbiðjum í anda og sannleika í dag í helgidómi Drottins líkt og gengnar kynslóðir hafa gert frá öndverðu. Við höfum upplifað kirkjusögulegan viðburð í Húsavíkurkirkju sem skráður verður í kirkjusögu Húsavíkur. Við erum öll órjúfanlegir hlekkir í sögu kristinna kynslóða allt frá þeim tíma er Kristur stóð sýnilega upprisinn í loftstofunni mitt á meðal lærisveina sinna, rétt eftir sjálfa upprisuna,og bauð þeim að fara út til fólksins með fagnaðarboðskapinn.   

Allt á áætlun  

Kristindómurinn er ekki grundvallaður á draumum andlega veiks fólks eða sýnum fólks með hitasótt. Kristindómurinn er grundvallaður á hinum sögulega Jesú sem gekk um og gerði gott, sigraði dauðann og reis upp frá dauðum. Í loftstofunni lýkur Jesús upp nauðsyn krossins fyrir lærisveinunum Hann bendir þeim á það að boðskapur krossins er uppfylling á fyrirheitum gamla testamentisins. Þetta fyrirheiti heimfærði hann upp á sig sjálfan svo lærisveinarnir skildu að hann var Messías, sá sem gyðingar höfðu beðið eftir öldum saman að myndi koma og setja á stofn konungsríki. Það tók sinn tíma fyrir lærisveinana að skilja að Jesús vildi fyrst og fremst ríkja í hjarta sérhvers manns, hjarta þeirra, í þínu hjarta. Krossinn var ekki þvingunarúrræði. Hann var ekki neyðarúrræði þegar allt annað hafði verið reynt og farið úrskeiðis. Krossinn var hluti af áætlun Guðs vegna þess að í krossi Krists skynjum við óendanlegan kærleika Guðs sem svo elskaði heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jesús þurfti að deyja þessum krossdauða til þess að geta bætt fyrir syndir mannanna.  

Að vera sendur út

 

Og nú liggur fyrir lærisveinunum þetta mikilvæga verkefni að vera sendir af stað með fagnaðarboðskapinn um náð Guðs í garð þeirra sem hafa sundurmarið hjarta, í garð þeirra sem væru tilbúnir að iðrast synda sinna frammi fyrir hinum upprisna Jesú Kristi.  Þannig mynduðu lærisveinarnir samfélag þeirra sem trúa, samfélag sem við nefnum í daglegu máli kirkjuna. Þessari kirkju var ekki ætlað að vera til eilífðar í lofstofunni forðum. Kirkjan var send til að fara út um allan heim. Dagar sorgarinnar voru liðnir, nú yrðu gleðifréttirnar fluttar öllum mönnum. Jesús bauð lærisveinum sínum að fara til Jerúsalem og bíða þar uns kraftur heilags anda kæmi yfir þá. Og þegar Jesús blessaði þá  var hann skilinn frá þeim og þeir sáu hann ekki framar.   Sá dagur hefur verið nefndur Uppstigningardagur. Þessi atburður markaði tímamót vegna þess að nú var Jesús óháður tíma og rúmi. Hann gat verið hjá hverjum og einum lærisveini sínum á jörðinni í anda og sannleika. Fram kemur í guðspjallinu að þegar Jesús hafi skilist frá þeim hafi lærisveinarnir fallið fram og tilbeðið hann. Eftir það voru þeir stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð. Svo hefur verið háttur lærisveina Jesú frá kynslóð til kynslóðar allar götur síðan að koma saman og lofa Guð í helgidómi.  Sérhver lærisveinn Jesú Krists ætti að geta tekið undir bænarorð Páls Jónssonar sem orti:  

Bæn til Drottins Vér horfum allir upp til þín, í eilíft ljósið Guði hjá, þar sem að dásöm dýrð þín skín, vor Drottinn Jesús, himnum á.

En styrk oss til að stríða hér, að stríða synd og löstum mót. Æ, veit oss náð að þóknast þér og þig að elska' af hjartans rót."  

Lífsbarátta til sjós og lands  

Íslendingar háðu erfiða lífsbaráttu fram eftir öldum til sjós og lands þar sem fólk mátti þakka fyrir að komast í gegnum hvern dag. Framtíðin í hugum þessa fólk var sérhvert andartak sem lifað var í skugga gleði og sorgar, lífs og dauða þar sem náttúran lét ekki að sér hæða frá einni árstíð til annarrar, óbilgjörn fram eftir vetri með miklum snjóum og frosti sem beit fólk sem fénað,  Það þurfti á hjálp að halda til þess að komast í gegnum daginn. Það þurfti á hjálp Guðs að halda til þess að geta lifað af. Kannski fékk trúin og bænin meiri hljómgrunn í lífi þessara kynslóða vegna þess fábreytilega og erfiða lífs sem þær lifðu. Margir hafa ugglaust óskað sér að losna undan byrðum lífsins og því getað tekið undir orð sálmaskáldsins Páls Jónssonar:

 ,,Vorn huga Drottinn, drag til þín, /  í dýrðarljómann jörðu frá, / því ekkert hnoss í heimi skín, / sem hjartað friða og gleðja má." 

Kirkjumunir Talið er að kirkja hafi verið á Húsavík á tólftu öld en 1231 kom Guðmundur biskup góði til Húsavíkur. Telja má líklegt að hann hafi gist hjá prestinum. Þá sem síðar komu húsvíkingar saman í helgidóminum til að lofa Guð að hætti lærisveina Jesú Krists á gleði sem sorgarstundum líkt og við gerum í dag.  Ég er þrítugasti presturinn á Húsavík frá 1431. Til eru nokkrir munir sem voru í gömlu Húsavíkurkirkju sem aflögð var eftir að þessi kirkja var helguð 2. júní 1907. Elstu gripir kirkjunnar eru án vafa tveir kertastjakar úr tini frá 1640 sem prýða altari Húsavíkurkirkju í dag, gefnir af dönskum kaupmanni, Peter Hansen. Þeir voru örugglega í gömlu Húsavíkurkirkju sem var torfkirkja fram eftir öldum í hefðbundnum stíl eflaust.  Síðan má nefna altaristöflu úr máluðum tréfjölum sem varðveitt er í Safnahúsinu. Þá skal getið rennds skírnarfonts sem var þeirrar náttúru að hægt var að tappa vatninu af honum en hann fannst nýverið í turni Húsavíkurkirkju. Í afhendingargjörðinni sem gjörð var þegar nýja kirkjan var helguð kemur fram að tveir höklar hafi verið fyrir í gömlu kirkjunni. Enginn hökull sem var í gömlu Húsavíkurkirkju er varðveittur á Safnahúsinu. Að vísu er þar varðveittur einn hökull sem er óskráður og annar frá Lundarbrekkukirkju. Nú á Húsavíkurkirkja hökla í öllum litum kirkjuársins nema svartan sem eingöngu er notaður á föstudaginn langa en Hallgrímskirkja á Skólavörðuhæð á einn slíkan.  Húsavíkurkirkja á jafnframt þrjá græna hökla og þrjár grænar stólur. Ég hyggst leggja til við sóknarnefnd að elsti græni hökull kirkjunnar verði afhentur Safnahúsinu á Húsavík til varðveislu.  En hökullinn upplitaðist óvart af sólarljósi fyrir nokkrum árum. Þá finnst mér nauðsynlegt að búa hátíðarhöklinum hvíta sem Sigrún Jónsdóttir óf veglega umgjörð í kirkjunni í virðingarskyni við það sem prýðir þennan fagra helgidóm rúmhelga daga sem helga.  

Táknmál hökulsins og stólunnar  

Páll postuli talar víða í bréfum sínum um þrá sína eftir að íklæðast hinu himneska. Þó veit hann að hann er þegar íklæddur því sá sem er skírður í Kristi hefur þegar íklæðst Kristi (Gal. 3.27) og er kallaður til að íklæðast honum stöðugt að nýju ( Róm 13.14), afklæðast syndinni og íklæðast réttlætinu, og að vera í honum sem er réttlæti, heilagleiki og frelsi. Skrúði prestsins er ekki þörf prestsins að draga sjálfan sig fram og punta sig. Heldur þvert á móti. Með skrúðanum er presturinn hulinn, einstaklingurinn er hulinn af því hlutverki sem hann á að gegna. Það stendur ekki og fellur með krafti hans eða veikleika, verðleikum eða mistökum. Skrúði prestsins er táknræn tjáning þess að hin helga þjónusta er ekki verk prestsins heldur verk Krists í kirkju hans.  Messuskrúðinn táknar kærleika, réttlæti, heilagleika og auðmýkt, samkvæmt áminningu postulans. Þetta tákn er ekki fólgið í skrauti og glysi skrúðans. Fegurðin og listin er góð í sjálfu sér og ber vitni um snilli listamannsins og kærleika gefandans en hún má þó aldrei taka völdin og skyggja á hið eiginlega, hina eiginlegu merkingu þess sem fram fer sem er návist Guðs í orði og sakramentum.  

Í upphafi þegar lærisveinarnir komu fyrst saman í helgidóminum til að lofa Guð var enginn sérstakur skrúði. Síðar bar presturinn sín daglegu ígangsklæði sem voru hvítur skósíður kyrtill, alba sem hér var gjarna nefndur serkur og yfirhöfn, möttull, sem síðar nefndist hökull. Orðið hökull er dregið af latneska orðinu ,,casula” sem merkir ,,lítið hús.” Sumir telja að kyrtill Krists sem hermennirnir köstuðu hlutum um við krossfestinguna hafi verið þess konar athöfn, hökull. Undir höklinum ber presturinn borða sem kallast stóla og var upphaflega eins konar handklæði. Á latínu kallast stóla, ,,orarium,” munnþurrka. Þjóninn ber handklæðið á öxl sér, það sjáum við enn í dag á veitingahúsum. Í kirkjunni varð þetta handklæði smám saman prýtt og sett kirkjulegum táknum, helgitákn til helgrar þjónustu. Þetta er skemmtileg tenging. Prestar og biskupar báru og bera hana um háls en djáknar yfir vinstri öxl og er hún krosslögð undir hægri armi.  

Stundum er farið með bæn þegar prestur skrýðist höklinum og sú bæn lýsir tákngildi hökulsins:,,Íklæð mig Drottinn, sem þinn útvaldan, heilagan og elskaðan, hjartans meðaumkvun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.” Þegar prestur stígur í stól og prédikar þá afklæðist hann höklinum. Þá flytur hann sinn persónulega vitnisburð, túlkar orðið og boðar.              Tákn stólunnar er ok Krists. Þegar prestur setti á sig stóluna til forna þá fylgdi þessi bæn: ,,Drottinn, legg ok þitt á herðar mér, kenn mér að byrði þín er létt og gjör mig mildan og auðmjúkan af hjarta.”  

Táknmál trúarinnar  

 

Atferli Jesú hafði táknræna merkingu. Þegar hann skildist frá þeim þá blessaði hann lærisveinana að hætti Móse með uppréttum höndum og óskaði þeim þannig tímanlegrar og eilífrar blessunar og friðar.  Allt frá skírninni og til þess er þrjár rekur moldar falla á kistulokið þá er trú okkar tjáð með alls kyns táknrænu atferli. Það er eðliegur og sjálfsagður hluti af tilveru okkar og samskiptum, rammi sem settur er um líf okkar og trú. Trúin verður að leita annarra leiða að sálu manns en orðanna einna. Hún höfðar til innsæis sem er annað en rökleiðsla og vangaveltur. Þess vegna hefur boðun kirkjunnar frá upphafi verið byggð inn í umgjörð helgisiða og tákna, boðun sem tjáir þann sannleika að Guð er með okkur í blíðu og stríði.Við erum hvert og eitt send út til að vera erindrekar Krists í orði og verki, send út til að vera erindrekar hins góða, fagra og fullkomna, í trú, von og kærleika. Megi Guð gefa að nýi messuskrúðinn sem helgaður hefur verið til þjónustu í Húsavíkurkirkju í dag megi höfða til trúarlegs innsæis sóknarbarna á komandi áratugum og tala sínu máli um leyndardóma guðsríkisins. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen  

Við samningu prédikunarinnar studdist ég við bókina ,,Táknmál trúarinnar”, eftir Karl Sigurbjörnsson sem hann gaf mér.