Er hægt að rækta mildina?

Er hægt að rækta mildina?

Já, í gegnum andlega iðkun, getur mildin og trúin verið sem sól í brjósti okkar. Lífinu má lýsa sem sönnum loga, sem nærist af ósýnilegri sól í brjósti okkar. Megi sú sól lýsa skært í þínu lífi. Megi sú sól veita þér hreinsun, góðan anda og gæfu, mildi og von, nú og ætíð.

Biðjum:
 
Lifandi Guð, lifandi Guð,
láttu mig finna þig. Amen.
 
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
 
Mildi
 
Mildi er sá boðskapur sem Biblían kennir.
 
Mildi, lítillæti og hógværð.
 
Hvernig er hægt að rækta mildina?
 
Hvernig getum við ræktað mildina í okkar eigin lífi, mildina í samfélaginu?
Mildina gagnvart náunganum, mildina í eigin garð?
 
Kirkjan getur verið vettvangur andlegrar iðkunar, andlegrar heilsuræktar, þar sem við
tileinkum okkur að horfa inn á við, ræktum okkar innri mann, tökumst á við
bjálkann í eigin auga, í stað þess að einblína á flísina í auga náungans.
 
Að rækta mildina, er eitt af hlutverkum kirkjunnar í samfélaginu, þ.e. að vera
vettvangur til slíkrar heilsuræktar, að auka mildi sem stuðlar að friði í
samfélaginu, friði í hjartanu, friði í heiminum.
 
Andlegir erfiðleikar
 
Guðspjallatexti dagsins fjallar um veikindi og andlega erfiðleika. Frásagan er um það er Jesús
læknar dreng sem líklega hefur verið flogaveikur, af lýsingunni af dæma og
miðað við okkar nútíma þekkingu á þeim veikindum. Hins vegar segir í textanum
að hann hafi verið haldinn illum anda. Það hefur verið stimpill samtíma Jesú,
og drengurinn var stimplaður þeim stimpli, að hann væri haldinn illum anda.
 
Það er okkur svolítið fjarlægt í dag að tala um illa anda, eða hvað?
 
Andleg veikindi eru hins vegar eitthvað sem við flest þekkjum, þ.e.a.s. við þekkjum
flest til einhverra sem eiga í slíkri glímu og kannski þekkjum við slíkt á
eigin skinni. Sem betur fer er umræða um andleg veikindi meira uppi á borðinu í
dag, heldur en hér fyrrum, andleg veikindi eru ekki eins mikið tabú í dag og
fyrir einhverjum árum. Við vitum að nauðsynlegt er að tala um andleg veikindi,
eins og önnur veikindi, því erfiðast er þegar ofan á veikindin bætist,
einangrun, þegar fólk einangrast með sjúkdómi sínum, finnur sig eitt og einmana.
 
Það er erfitt að vera einn í slíkum aðstæðum, finna sig einan í glímunni við
heilsuleysið, mikilvægt getur verið að finna stuðning samfélagsins, njóta
læknismeðferðar, lyfjameðferðar, samtalsmeðferðar, og annars konar stuðnings,
sem okkur stendur til boða, þegar við glímum við andleg veikindi. Framþróun í
þessum fræðum og þjónustu allri hefur verið mikil á undanförnum árum og fært
fagfólk veitir ómetanlegan stuðning og lækningu.
 
Andlegar úrlausnir
 
Andlegum veikindum þarf hins vegar einnig að mæta með andlegum lausnum.

 
Í frásögu dagsins úr guðspjallinu svarar Jesús einmitt viðmælendum sínum á þá
leið að bænin sé stundum eina svarið.
 
Hvar njótum við slíkrar þjónustu, fyrirbæna og andlegs stuðnings?
 
Ég veit ekki til þess að geðlæknar, félagsráðgjafar og sálfræðingar bjóði upp á
slíkt, en mér kann að skjátlast. Auðvitað geta þær starfsstéttir sinnt slíku,
líkt og allir menn. Öll getum við tekið þátt í því að biðja fyrir hvert öðru,
heiminum, friði og gæsku, andlegri heilsu fólks.
 
Það er hins vegar kannski ekki beint hlutverk félagsráðgjafa, geðlækna og
sálfræðinga í samfélagi okkar. Þeirra hlutverk snýr kannski meira að lyfjum,
samtalsmeðferðum, hugrænni atferlismeðferð og slíkum aðferðum öllum, sem eru
ómetanlegar fyrir okkur, þegar við þurfum á slíku að halda. Margir öðlast
lækningu, verða heilbrigðir, með aðstoð félagsráðgjafa, lækna, sálfræðinga og
annarra fagstétta.
 
En stundum þarf einnig fleira. Stundum þarf einnig annað, eins og Jesús svarar í
þessum lestri dagsins. Stundum þarf bæn.
 
Yfirleitt fer þetta hvoru tveggja saman, eins og segir í eftirfarandi orðum Norman
Cousins, í lauslegri þýðingu:
 
Þyngdaraflið virðist toga mannslíkamann í átt til vonar. Það er ástæðan fyrir því að vonin er
leynivopn læknanna. Vonin er hið leynda efni í hverri lyfjablöndu.
 
Kirkjunni ber einmitt að vera vettvangur vonarinnar, vettvangur bænarinnar. Kirkjunni ber
að bjóða upp á slíkt, það er hennar hlutverk, að biðja fyrir öðrum, fyrir þér
og hverjum manni, biðja fyrir friði í heiminum, biðja fyrir því að mildin megi
ríkja í samskiptum okkar hvert við annað. Biðja fyrir sjúkum að þeir hljóti
lækningu, biðja fyrir sorgmæddum að þeir hljóti huggun, biðja fyrir þeim sem
finna sig eina, að Guð hjálpi okkur að rjúfa einangrun þeirra. Biðja fyrir því
að góður andi ríki, biðja fyrir því að slæmur andi víki, að friðurinn og
kærleikurinn verði reynsla allra manna. Að við biðjum Guð að gera okkur að
verkfæri friðar síns og mildi. Biðja Guð að hreinsa fólk, samfélag og heim af
illum anda.
 
Þetta er meðal mikilvægustu hlutverka kirkjunnar. Án bænarinnar er kirkjan ekkert. Bænin
birtir sérstöðu kirkjunnar. Kirkjan skal vera vettvangur þess að bænir eru
beðnar, að bænarljós logi, að bænarandinn lifi, því þar geta kraftaverkin
gerst.
 
Kraftaverk
 
Frásaga dagsins úr Postulasögunni fjallar einnig um þetta. Hún fjallar um það er
postular Jesú lækna lamaðan mann. Það segir frá því er þeir mæta manni,
betlara, í dyrum helgidómsins. Hann biður þá um aðstoð. Pétur svarar og segir
honum að þeir eigi hvorki silfur né gull, en býður honum svo að gefa honum það
sem hann hefur að bjóða, þ.e. hann veitir honum lækningu. Í nafni Jesú Krists
frá Nazaret, vinnur hann það kraftaverk að lækna manninn, segir í textanum.
 
Það virðist einhvern veginn alltaf vera þannig með Jesú og lærisveina hans, að
aðstoðin sem þeir veita er hjálp til sjálfshjálpar. Hver einstaklingur er heill
og nægur. Virðing er borin fyrir hverjum einstakling, hverjum manni, þér og
mér. Í frásögunni öðlast maðurinn lækningu fyrir orð Péturs, sem hann mælir í
nafni Jesú. Pétur biður þarna í Jesú nafni og maðurinn öðlist lækningu,
samkvæmt frásögu textans.
 
Þessar frásögur er erfitt að sannreyna, en þær miðlar miklum styrk, huggun og von. Því
þessar frásögur eru hluti af frelsunarfrásögunni sem Biblían í heild miðlar. En
hún hefst á sköpun heimsins á fyrstu síðum Biblíunnar og lýkur á orðum
postulans er hann segir á síðustu síðum Biblíunnar: Sjá ég geri alla hluti nýja
nýja.

 
Frelsunarfrásagan fjallar um samhengi lífsins, þar sem þú ert hluti af heildinni, þú ert
þátttakandi í frelsunarsögu Guðs í heiminum. Með skírninni fær einstaklingurinn
áþreifanlega hlutdeild í því samhengi. Guð kallar okkur með nafni og gleymir
okkur aldrei. Kallar okkur til þjónustu, til ákveðinna verkefna hér í heimi. Guð
man þig og þekkir þig og hefur veitt þér og okkur hlutverk hér í heimi, hvert
gagnvart öðru, sem er meðal annars það, að miðla mildi og kærleika með orðum
okkar og framgöngu.
 
Stundum þurfum við að breyta háttum okkar til að ná því marki. Oft er það eitt af því
erfiðasta sem við gerum, þ.e. að breyta háttum okkar og venjum.
 
Breyta háttum okkar, að snúa við
 
Í elsta textanum af þessum þremur sem lesnir voru hér áðan, það er textanum frá
Jesaja spámanni hvetur spámaðurinn viðmælendur sína til að hætta að gera illt, læra að gera gott, leita réttarins, hjálpa hinum kúgaða illt, læra að gera gott, leita réttarins, hjálpa hinum kúgaða, og svo heldur hann áfram að tala í boðhætti og segir: 
 
Rekið mál munaðarleysingjans, verjið mál ekkjunnar.
 
Það er svo merkilegt með þessa texta, sem eru sumir hátt í 3000 ára gamlir, að þeir
eru síungir. Því þeir tala inn í samtíðina á hverjum tíma, einnig í dag. Þarna
er nefnilega verið að tala um hin sameiginlegu verkefni okkar, það sem er
nauðsynlegt, það er, að huga að þeim sem stuðning þurfa, veita þeim bakland sem
ekkert hafa, vera til staðar fyrir þá sem hafa misst og verja stöðu þeirra sem
eru varnarlausir.
 
Það virðist vera nauðsynlegt að hvetja til þessa á hverri tíð, þ.e. að maðurinn fái
hvatningu til að setja sig í annarra spor, að við hugum að þörfum annarra.
 
Því þegar einstaklingurinn fer að snúast í kringum sjálfan sig, þá er hætta á
ferðum. Við sjáum það í öðru samhengi, í öðrum stærðarhlutföllum, þegar hnettir
geimsins fara að snúast of hratt í kringum sjálfa sig, þá er hætta á ferðum, þá
stefnir einfaldlega í tortímingu.
 
Eins virðist það með samfélag manna, að mælistika góðs samfélags er það hvort
samfélaginu beri gæfa til að halda vel utan um þá sem þurfandi eru, utan um þá
sem stuðning þurfa, utan um þá sem misst hafa, utan um þá sem ekkert eiga. Enn
er þetta mælistikan og áskoranir samtímans, okkar samfélags í þessum efnum, eru
óteljandi.
 
Hvort sem við lítum til öryrkja, flóttafólks eða þeirra sem finna sig eina. Alltaf er
þörf, alltaf getum við gert betur.
 
En Jesús og lærisveinarnir hans hjálpuðu ætíð til sjálfshjálpar. Reistu við hina
föllnu, héldu þeim ekki í stöðu ölmusufólks, heldur reistu þau við, læknuðu,
svo þau gætu sjálf lifað lífinu með fullri sæmd, líkt og í frásögu
Postulasögunnar. Í þessu sambandi er það vitanlega auðveldara að segja en gera,
en ljóst er að í málefnum ýmissa hópa í samfélagi okkar í dag, er verið að gera
byltingarkennda og góða hluti, en betur má, ef duga skal.
 
Við þurfum stöðugt að vera tilbúin til að breyta háttum okkar, öðrum til gæfu. Við
þurfum stöðugt að vera tilbúin til að „snúa við“, eins og sagt er, snúa til
baka, gefa öðrum gaum, setja okkur í annarra spor, biðja fyrir öðrum, en einnig
huga að okkar andlegu velferð, huga að því að við njótum uppbyggilegrar
hvíldar, sem er mikilvægur þáttur í andlegri heilsurækt.
 
Þrír textar, sem skal útleggja
 
Í hinu hefðbundna helgihaldi þjóðkirkjunnar eru ávallt lesnir þrír textar í
guðsþjónustum sunnudagsins. Texti úr Gamla testamentinu, texti úr bréfum Nýja
testamentisins og svo texti úr einu af fjórum guðspjöllum.
 
Miðlun kirkjunnar hefur síðan í gegnum aldirnar þróast á þann máta að ákveðnar
textaraðir liggja til grundvallar því sem lesið er hvern helgan dag. Þið takið
eftir því að jólin eiga sína texta um fæðingu Jesú, páskarnir eiga sína texta
um upprisu Jesú frá dauðum, og eru þeir textar ávallt lesnir á þeim hátíðum í
kirkjum landsins. Þannig er það einnig með alla hina helgidaga ársins. Hver
sunnudagur á sína texta, þar sem við gerum tilraun til að útleggja, hvað
textarnir þýða fyrir okkur í dag.
 
Það er einmitt eitt af einkennum þjóðkirkjunnar að við útleggjum textana. Við tökum
ekki bara textana hráa og beitum þeim beint, heldur erum við ávallt spurð,
hvernig skilur þú þennan texta? Hvaða erindi á hann við samtímann?
 
Þetta gerði Jesú einnig, eins og við þekkjum af öðrum textum og frásögum guðspjallanna.
Hann spurði: Hvernig lest þú? Hvernig skilur þú þessa texta? Þannig vill hann
draga viðmælendur sína til ábyrgðar á túlkuninni.
 
Á sama máta spyr hann þig, hvernig túlkar þú? Hvernig skilur þú textana og
boðskapinn?
 
Við berum ábyrgð á túlkuninni, þú berð ábyrgð og ég ber ábyrgð. Það er heilmikil
ábyrgð sem felst í því að nálgast þessa fornu texta og hvernig við notum þá og
túlkum, því þeir hafa áhrif á líf okkar og samfélag. Biblíuversin megum við
ekki nota til að lemja aðra í hausinn með. En þrátt fyrir það talar
boðskapurinn sannleika inn í mannlífið, boðskapurinn lýsir upp allt sem í felum
er. Boðskapurinn hreinsar út allt illt og vont. Boðskapurinn fjallar um
kærleika og mildi, og gerir alla hluti nýja. 
 
Iðkun
 
Það er eins með þetta eins og allt í mannlífinu að betri árangur fæst með
reglulegri iðkun. Boðskapinn skiljum við betur ef við gefum okkur tíma til að tileinka
okkur hann í bæn. Ýmsar leiðir eru til slíkrar andlegrar iðkunar. Kyrrðarbæn,
centering prayer, Biblíuleg íhugun, kyrrðarstundir ýmsar. Margt slíkt er í boði
á vettvangi Grensáskirkju og Bústaðakirkju og víða í kirkjum landsins. Einnig
er hægt að koma sér upp slíkum siðum á heimili sínu. Kerti, Biblía og bænabók,
frátekinn tími og stund til að líta inn á við, en einnig uppávið, til
Guðs. 

 
Iðkun trúarinnar á þessum nótum eykur mildina í samfélaginu. Mildin dregur úr
dómhörku. Mildin vaknar er manneskjan lítur í eigin barm, mildin kviknar þegar
okkur lánast að setja okkur í annarra spor, þegar við tökumst frekar á við
bjálkann í eigin auga í stað þess að einblína á flísina í auga náungans.
 
Trúin reisir okkur við
 
Þeir þekkja það sem reynt hafa að trúin reisir okkur við. Í frásögu guðspjallsins
segir Jesús: … að sá geti allt, sem trúi.

 
Það eru stór orð, máttarorð. Trúin flytur fjöll, segir á öðrum stað. Trúin getur
nefnilega verið sú uppspretta sem gerir gæfumuninn, sem gefur líf, þar sem allt
stefnir í dauða, sem gefur birtu þar sem dimman hefur ríkt, sem reisir okkur
við er við föllum.
 
Í gegnum andlega iðkun og mildi getur trúin verið sem sól í brjósti okkar. Lífinu
má lýsa sem sönnum loga, sem nærist af ósýnilegri sól í brjósti okkar.
 
Megi sú sól lýsa skært í þínu lífi.
Megi sú sól veita þér hreinsun, góðan anda og gæfu, mildi og von, nú og ætíð.
 
Fyrir nærveru sína og náð, huggun og styrk, sé Guði dýrð, í Jesú nafni. Amen.
 
Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag
heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Prédikun þessi var flutt í Bústaðakirkju 1. október 2023. Einnig var henni útvarpað á Rás eitt.