" alt="" />
Ég vaknaði í gærmorgun hér í Tromsö, þessum fallega stað, dásamlegt útsýni; Íshafskirkjan og fjöllin með snævi þakta tinda, kölluðust á í sínum hvítu tónum. Ég fór með bæn til Drottins í huga mér og þakkaði fyrir þessi fallegu fjöll, fyrir kirkjuna, fyrir birtuna og fyrir það lán sem yfir mér er að fá að þjóna hér í Noregi, að fá að ferðast um og flytja fólki boðskapinn góða. Mér varð samt hugsað til fjölskyldunnar sem ég sakna alltaf líka þegar ég er á þessum ferðum, það er stundum erfitt að vera að heiman. Það þekkja margir sem þurfa að vera fjarri sínum nánustu. Það er ekki allt fengið og það er gott að hvíla í öruggri hendi Guðs sem segir við mig: “Sjá, ég hef rist þig í lófa minn”. Það er svo mikil öryggistilfinning sem fylgir því að hvíla í þessum orðum.
Með bæn Drottins á vörum opnaði ég dyrnar á hótelherberginu mínu á leið í morgunmatinn. Standa þar þá tveir fílelfdir karlmenn í jakkafötum, beint fyrir utan herbergisdyrnar, með einhverja græjur í eyrunum og talstöðvar í hendinni, beinir í baki og valdsmannlegir. Mér dauðbrá og ég hrökklaðist til baka. Á sekúndubroti skynjaði ég þó bros þeirra og góðvild þegar þeir segja við mig. “Don´t worry, we are just here to make sure that you are OK.” Svo brostu þeir góðlátlega.
Þetta voru auðvitað ekki mínir öryggisverðir, heldur komst ég að því að Hillay Clinton gisti að öllum líkindum á sömu hæð.
Það fór eiginlega um mig ónota tilfinning. Er ég ekki örugg? Er ég í einhverri hættu hér? ------ Dagurinn í dag er einmitt tileinkaður sérstakri ferðamannastétt, sjómönnum sem svo sannarlega þekkja það að horfast í augu við raunverulegar hættur. Það má merkja á tungutaki sjómennskunnar sem er samofið málvenjum okkar. Við notum orðatiltæki þegar við lendum í vanda og segjumst ekki vera “á lygnum sjó”. Við lendum “í ólgusjó”, eða þurfum að “sigla í gegnum brimskafla” eða “siglum gegn stríðum straumi” svo eitthvað sé nefnt af því myndmáli sem íslenskan er svo rík af. Svo “leggjum við á djúpið” þegar við tökum að okkur þung verkefni. Við erum tengdari sjónum og þeirri björg sem sjórinn gefur en við höldum í gegnum tungumálið. En það er einmitt tungumálið okkar sem ber með sér djúpa undiröldu sem er full af sársauka sem fylgir þeim fórnum sem færðar hafa verið á hafi úti. ---- Guðspjall dagsins, sjómannadagsins og lestrarnir einnig tala þannig beint inn í aðstæður sjómanna og líka til okkar hinna sem þekkjum sjóinn og störf tengd honum minna. Í lífsins ólgu sjó, í óöryggi, í hættu, í vanda, í hvers konar ölduróti tilfinninganna þá getur þessi texti talað til okkar. Einmitt vegna þess að tungumálið okkar, íslenskan, ber með sér Biblíumyndir, í orðtökunum og málvenjum er falin boðun vonar sem vísar hér inn í guðspjallið um Jesú í storminum.
Það er sama hvers eðlis sá stormur er sem við finnum okkur í, þegar við segjum eins og lærisveinarnir í bátnum: “Drottinn, bjarga okkur, við förumst,”. Þá er hann þar þó hann virðist sofa. Bíður þolinmóður eftir því að við áköllum hann í trú. Hvenær eða hvernig hann bjargar okkur, vitum við ekki. Traust okkar er á að hann er nálægur í anda sínum og stillir storma hugans hvernig svo sem veröldin breytist eða hringsníst allt í kringum okkur. Þetta trúartraust vitna einmitt margir sjómenn um. Í hræðslu og erfiðleikum þá upplifum við svo oft að Drottinn hafi yfirgefið okkur, sé sofandi, sé hvergi nærri, hafi snúið við okkur bakinu. En einmitt þá ber hann okkur á örmum sér. Hann lofar ekki að engin sorg snerti okkur, hann lofar ekki að þjáningin og óréttlætið láti okkur í friði. Hann lofar einungis því að vera mitt í þessu öllu með okkur. Því er okkur óhætt að trúa og biðja um af heilum hug.
Að eiga bænarstund þar sem Jesú Kristur er ávarpaður og Orð hans íhuguð, kyrrir öldurót hugans og við finnum nærveru anda hans sem segir: “Ég er hér hjá þér, ég yfirgef þig ekki” Þessa bæn höfum við látið ganga kynslóð fram af kynslóð. “Drottinn veri hjá þér” þegar við merkjum börnin okkar heilagri þrenningu, en í dag er einmitt líka hátíð heilagrar þrenningar. Við signum yfir enni og brjóst barna okkar og okkar sjálfra og segum “Í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.” Já, þetta er falleg bæn sem felur það í sér að við treystum því og trúum að Guð er nærri, verndar, blessar, auðgar og gleður.
Á þrenningarhátíðarinni eru eiginleikar Guðs íhugaðir. Nafn hátíðarinnar, þrenningarhátíð, vísar í það að Guð birtist okkur í föður, syni og heilögum anda. Bænin sem felst í signingunni er því sterk bæn í nafni heilgarar þrenningar og felur í sér mikið trúartraust og hún gefur öryggistilfinningu.
Guð er samt svo miklu meira en andlegur öryggisvörður sem á að passa upp á það að ekkert hendi okkur, enginn háski mæti okkur, engin sorg verði á vegi okkar. Guð er nefnilega líka sem kærleiksríkur vinur og vinkona, eins og faðir okkar eða móðir sem styrkir okkur og hjálpar til að gefast ekki upp þegar á móti blæs, hjálpar okkar að rísa upp aftur þegar við föllum, gerum mistök, fyrirgefur okkur og hrósar okkur, segir okkur að grafa ekki talentur (hæfileika) okkar og gefur okkur trú í hjarta. Mætir okkur svo með útbreiddan faðminn þegar dagar okkar eru taldir hér á jörðu. ---- Útsýnið hér er Guðsutsýni. Fegurðin hér í Tromsø er predikun í sjálfu sér og að horfa á Íshafskirkjuna gefur tilefni til djúparar íhugunar um eðli Guðdómsins. Hvað sem fyrir arkitektinum vakti þegar hann teiknaði kirkjuna þá sá ég í gær fallegt tákn þrenningarinnar, tákn þríeins Guðs sem er svo dularfullur og óútskýranlegur og svo miklu meira en við getum nokkurntíma reynt að útskýra eða greina. Íshafskirkjan er marglaga þríhyrningur í mismunandi stærðum. Þannig er kannski Guð. Við munum alltaf sjá einhvern hluta, skilja og skynja einhvern hluta og annað er og verður okkur hulið.
Þannig er lífið á sjó og á landi. Fullt af þversögnum sem leysast aðeins upp í trúartraustinu sem gefur sátt við lífið og tilveru okkar eins og hún er. Við siglum í þessu lífi hvern dag og hverja nótt og enginn sér fyrir hvernig ferðin verður, vitum aðeins að ferðinni fylgja gleði og sorgir, jafnvel á sama tímapunktinum.
Við getum líka vitað að þegar tímanum og rúminu sleppir erum við komin í höfn, komin heim, því að; Guð hefur rist þig í lófa sinn og mun aldrei yfirgefa þig.
Dýrð sé Guð föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.