Á englavaktinni

Á englavaktinni

fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
01. desember 2014
Flokkar

Englar er eitthvað sem ég hef verið að velta fyrir mér og fjalla um m.a. í barnastarfinu síðastliðna viku. Upphafið er að við vorum að fjalla um Maríu og þegar engillinn vitjaði hennar. Hann átti að flytja henni þau góðu skilaboð að hún ætti von á barni sem væri sonur Guðs. Kannski voru skilaboðin til að byrja með ekki endilega svo góð skilaboð fyrir Maríu. Kannski meira að segja bara töluvert sjokk en engillinn reyndi að hughreysta hana með orðunum: ,,Óttast þú eigi María, því þú hefur fundið náð hjá Guði."

Ég fór að þessu tilefni að hugsa um englana allt í kringum okkur sem stöðugt eru að flytja okkur góðar fréttir og skilaboð, sem standa hjá okkur og með okkur þegar við einmitt verðum hædd eða kvíðin. Það er gott að husga um alla englana bæði himneska og ekki síður þessa mennsku allt í kringum okkur, alltaf á vaktinni. Sömuleiðs okkur sem engla þó vængirnir séu ekki sjáanlegir þá erum við líka á vaktinni fyrir okkur sjálf og aðra. Við getum einmitt verið góðir englar með góðar fréttir, góð skilaboð. Þetta geta verið skilaboð sem skipta máli þó sumum finnist þau ekki endilega merkileg.

Ég hvatti börnin í barnastarfinu til þess að vera góðir englar sem flytja góðar fréttir eða góð orð, gott erindi, fagnaðarerindi. Að segja einhverjum að okkur þyki vænt um viðkomandi, að segja vinkonu sinni að hún sé skemmtileg eða sniðug eru góðar fréttir. Boð í heitt kakó og piparkökur eru góðar fréttir. Það að vita og heyra að einhver hugsar til okkar eru góðar fréttir. Þegar við erum hrædd, kvíðin og finnum alls ekki löngum til þess að gera neitt fyrir jólin þá eru góðar fréttir að heyra að það skiptir nákvæmlega engu máli.

Gerðu bara það sem þú vilt og þú nennir, það eru góðar fréttir. Þegar við finnum svo mikinn sting í hjartanu af söknuði einmitt um jólin vegna þeirra sem eru ekki hjá okkur eða við of veik til að gera allt sem við erum vön þá eru góðar fréttir að heyra að það er í lagi að gráta, það er í lagi að hafa það skítt og vita að það er einhver sem fylgist samt með þér einmitt á þeim tímapunkti bæði mennskir og himneskir englar. Það eru góðar fréttir.

Ég fór um daginn til Reykjavíkur og það var eiginlega á samkomu engla. Því þetta var styrktarsamkoma haldin í Þjóðleikhúsinu til þess að safna fyrir og styðja við starfsmann þar, bekkjarbróðir minn frá því í gamla daga sem glímir nú við krabbamein. Nokkur úr gamla bekknum hittumst á undan og fórum saman á samkomuna. Það var gaman að hittast og ryfja upp gamla tíma og vita hvað væri að frétta í dag og enn dásamlegra var að verða vitni af því hvernig þessi bekkjarbróðir okkar virtist umlukin englum sem kepptust við að hjálpa honum og styðja bæði andlega og fjárhagslega. Það eru englar allt í kringum okkur.

Við eins og María höfum einnig fundið náð hjá Guði og Guð vill segja okkur að óttast ekki. Hann sendir okkur engla sem flytja sömu skilaboð og við erum englar sem eigum endilega að flytja öðrum þessi sömu skilaboð. Stundum er auðvelt fyrir okkur að vera þessir englar en svo koma tímar þar sem það er ekki svo auðvelt og við þurfum á englum að halda til að styrkja okkur og styðja. Það má sömuleiðis vel vera að einmitt núna viljum við ekki heyra eða séum ekki í stuði fyrir góð skilaboð og þá er það bara þannig, en það líður svo hjá.

Við erum umvafin englum og það er alltaf einhver á englavaktinni ef ekki við sjálf. Þegar við á næstu dögum tökum upp jólaenglana okkar skulum við minnast gamalla engla liðins tíma en gleyma alls ekki þeim sem eru hjá okkur núna eða gleyma að pússa og hugsa um vængina okkar . Reynum að finna frið til þess að heyra og miðla. Stöndum föst á því að við höfum fundið náð, frið, von, gleði hjá Guði og þá finnum við engla allt í kringum okkur og óttinn eða kvíðinn verður minni.