Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Við höfum hlýtt á guðspjall þessa síðasta sunnudags kirkjuársins. Fram til þessarar stundar hefur Mattheusar guðspjall fjallað um það hvernig Jesús hefur þjónað fólki.
Nú kveður við nýjan tón því að guðspjallamaðurinn gefur til kynna að Jesús sé konungur sem situr í dýrðarhásæti sínu. Þessi staða hans nú virðist ganga í berhögg við það sem Jesús hafði auðsýnt með dagfari sínu þar sem kærleiksþjónustan sat í fyrirrúmi.
Hafði ekki Jesús reynt að forðast það að vera gerður að konungi? Hann, sem hafði þvegið fætur lærisveinanna? Hann, sem hafði sagt að barnið væri dýrmætara en allt annað í þessum heimi? Hann, sem hafði sagt lærisveinum sínum að höfðingjar létu fólkið kenna á valdi sínu?
Margt fólk segir í dag að tími konunga sé liðinn og taka ætti upp lýðræðislegra stjórnarfyrirkomulag. Þetta er satt en það var enginn fótur fyrir því á tímum gamla testamentisins.
Orðið konungur er eitt af þeim orðum sem kemur oftast fyrir í gamla testamentinu, meira ein 2500 sinnum. Á þeim tíma voru væntingar fólks afar miklar í garð konunga og þær voru mjög oft tjáðar. T.d. í 72. Davíðssálmi. Þar er beðið fyrir konunginum á þessa leið: ,,Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt, að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni. Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og líf þeirra er dýrmætt í augum hans”.
Þessa var vænst af konunginum á tímum gamla testamentisins. Og Jesús sem þekkti þetta bænarávarp sá sjálfan sig sem slíkan konung sem þar er lýst.
Leiðum nú hugann að áhrifaríku stundinni í samkunduhúsinu í Nazaret þar sem Jesú hafði alist upp. Hann sté þá fullþroska í stólinn og las eftirfarandi orð úr Jesaja handritinu:
,,Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn”.
Að lestri loknum dró hann að sér andann, leit á mannfjöldann og sagði: Í dag hefir þessi ritning ræst í áheyrn yðar. Allra augu mændu á Jesú. Það mátti heyra saumnál detta í samkunduhúsinu, slík var þögnin.
Svo að Jesús var þá konungur, og þó. Ef við íhugum guðspjall þessa drottins dags þá virðist umpólun eiga sér stað, algjör viðsnúningur. Því að í lýsingunni á dómsdegi í guðspjalli dagsins þá komum við ekki saman til þess að dæma um það hvort Jesús hafi verið góður konungur heldur er það hann sem dæmir okkur út frá sömu forsendum.
Hann, konungurinn, dæmir okkur þá út frá því hversu góðir konungar og drottningar við höfum verið. Hann hefur hlutverkaskipti og spyr okkur: ,,Hvað gerðuð þið fyrir hungraða, þyrsta, þjáða, þurfandi, eða fangelsaða”? Hann gengur jafnvel svo langt að samsama sig við fátæka.
Bræður og systur. Okkur ber að hugfesta að við eigum öll sem eitt að ríkja líkt og vænst var af konungum gamla testamentisins. Þess var vænst af konungum gamla testamentisins að þeir veittu sínu fólki nýja trú á lífið og tilveruna og hjálpuðu því að gera rétta hluti. Þess var vænst af þeim að þeir væru frelsarar og bjargvættir manna á ýmsa lund.
Mótmælin á Austurvelli, borgarafundirnir í Reykjavík og víðar um þessar mundir bera vott um að almenningur hefur risið upp gegn öflum auðhyggjunnar sem háværar raddir telja að hafi brugðist fólkinu í landinu með vitlausum stjórnvaldsaðgerðum á ögurstundum í fjármálalífi þjóðarinnar.
Hvar er rödd kirkjunnar á Austurvelli, á borgarafundunum? Kirkjan hefur alltaf staðið með þeim sem hafa verið beittir órétti á ýmsa lund. Hún hefur sínar aðferðir til að koma því á framfæri, m.a. prédikunarstólinn í kirkjum landsins. Það má þó aldrei misnota þennan stól í pólitískum tilgangi. Fagnaðarerindið um Jesú Krist er ætíð boðað í þessum stól með því að benda á hið góða, fagra og fullkomna í trú, von og kærleika. Hér er líka bent á það sem betur mætti fara í mannlegu dagfari og íslensku samfélagi. Og presturinn lítur þá jafnan í eigin barm með heimamönnum Guðs í kirkjunni.
Það er ekki að ófyrirsynju að við vorum öll smurð til prestsdóms, spámanna og konunga í skírn okkar. Okkur ber því skylda til að reynast hvert öðru góður og gegn prestur, ef ekki konungur eða drottning, ekki síst á erfiðum tímum í lífi þjóðarinnar.. Það er að sönnu kallað eftir svörum í þjóðfélaginu í dag og við skulum halda áfram að kalla eftir svörunum þangað til allt lítur dagsins ljós. Þá verður hægt að kalla þá til ábyrgðar sem hugsanlega hafa brotið af sér í starfi í aðdraganda fjármálakreppunnar. Við skulum jafnframt líta í eigin barm að þessu leyti og hugleiða möguleika okkar til að hafa áhrif á hvernig samfélag við viljum sjá verða að veruleika á Íslandi á næstu árum. Verum bjartsýn í kreppunni og vongóð.
Gerum við okkur ríkulegt far um að vera farvegir miskunnsemi og góðvildar, hjálpsemi og fyrirgefningar, gagnvart okkar nánustu, andspænis okkar samstarfsfólki, vinnuveitendum okkar, yfirvöldum? Berum við yfirvöld þessa lands á bænarörmum á þessum erfiðu tímum? Fjölmiðlafólk, útrásarvíkingana svonefndu, fólk sem er að missa atvinnuna, húsnæðið sitt, sparifé sitt? Þá sem hafa sundurmarið hjarta í kjölfar margvíslegra áfalla og missis? Saklaus fórnarlömb stríðsins í Írak? Í Kongó?
Höfum við rækt nógsamlega samfélagið við konung konunganna í einrúmi heima fyrir eða í samfélagi trúaðra í trú og gleði innan veggja helgidómanna sem eru fordyri að lífsins gleðisölum?
Þetta eru að sönnu áleitnar spurningar, sumar hverjar, sem knýja okkur til að líta í eigin barm er við leitum svara.
Við Íslendingar erum mjög dugleg að sækja guðsþjónustu safnaðarins, - einkum þegar við kveðjum látinn ættingja, samstarfsfólk og vini. Minningargreinar í blöðum bera það með sér að við viljum gjarnan muna hið góða sem einkenndi þetta fólk.
Eitt sinn í fjarlægu landi var gerð útför einstaklings sem hugsaði aðeins um viðskipti sín dag og nótt. Hann var svo upptekinn af þessu að hann leit næstum því út eins og peningaseðill. Enginn minntist á þetta meðan á útför hans stóð. Hann var, sagði fólkið, svo elskulegur húsbóndi og umhyggjusamur í garð barna sinna og hjálpsamur í garð þeirra sem voru hjálparþurfi.
Á þeirri stundu efaðist enginn um gæsku hans. Enginn efaðist um miskunnsemi hans. Hann eða hún myndi örugglega fara beint til himna.
Um síðir þegar tárin voru þornuð og kistan var þakin mold, þegar blómin voru byrjuð að sölna í sólinni, þegar síðasti gesturinn var farinn, þegar allir voru farnir til sinna starfa í þeim heimi þar sem þessi látni einstaklingur hafði lifað með þeim þá gerðu margir sér grein fyrir þeim harmi sem þessi enstaklingur hafði valdið á meðal þeirra þrátt fyrir að þess hafi ekki verið getið í ræðu eða riti.
Við erum í vanda stödd þegar við hugleiðum líf þessa einstaklings í ljósi guðspjalls dagsins. Var hann góður eða var hann vondur? Var hann sauður eða var hann hafur? Var hann dýrlingur eða var hann syndari? Tilheyrir hann þeim sem eru til hægri handar eða tilheyrir hann þeim sem eru til vinstri handar?
Hann gaf einhverjum að eta sem voru svangir en hann neitaði að gefa svo mörgum öðrum að borða sem voru svangir. Hann svalaði þorsta nokkurra en þeir voru svo margir sem hann gaf ekkert að drekka. Hann klæddi marga sem naktir voru en hann klæddi þá ekki alla. Hann mætti Kristi í nokkrum þeirra en neitaði oft að mæta honum í öðrum.
Hvað mun Kristur gera í þessu tilviki þar sem hann situr í dýrðarhásæti sínu sem dómari frammi fyrir mannkyni öllu og horfist í augu við þessa blöndu af gæsku og illsku, fegurð og eymd, hálfan sauð og hálfan hafur? Hvað mun hann gera?
Munum við ekki öll vera í þessum aðstæðum? Tilheyrum við ekki þessari blöndu mannlífsins? Vitum við ekki öll að við erum umlukt þeim sem eru hungruð, þyrst, nakin og í fangelsi meðan við hjálpum aðeins sumum þeirra af og til?
Sá konungur sem við þekkjum í Jesú Kristi er réttlátur. Við sjáum það af verkum hans. Hann hefur þegar tekið út dóminn fyrir okkur með því að deyja fyrir syndir okkar á krossinum. Í ljósi náðar sinnar og fyrirgefningar mun hann dæma lýð sinn, er hann kemur aftur, með réttvísi og hina þjáðu með sanngirni. Hann mun bjarga hinum snauða er hrópar á hjálp og hinum þjáða er enginn liðsinnir. Hann mun leysa sinn lýð frá ofbeldi og ofríki vegna þess að líf okkar allra er dýmætt í augum hans.
Í dag horfum við þess vegna vonaraugum fram til þess tíma að Jesús komi og frelsi okkur undan fjötrum syndar og dauða, endurleysi líkama okkar og taki okkur til sín. Hann kemur fyrr en varir. Hann kemur skjótt. ,,Í þessari von erum við hólpin”, segir Páll postuli í pistli dagsins. Og bætir við: ,,Von sem menn sjá fram komna er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði”.
Við íslendingar þurfum mikla þolinmæði um þessar mundir. Við megum til að þreyja þorrann og gott betur, já, allt þar til að Kristur kemur sem dómari. Hvort sem við verðum í flokki sauða eða hafra á efsta degi þá skulum við minnast þess að við eigum milligöngumann í Jesú Kristi er við þurfum að standa Guði reikningsskil. Guð mun þá skynja nærveru sonar síns í okkur. Því verðum við vonandi hólpin á efsta degi.
Á meðan lifum við biðtíma frá einni kynslóð til annarrar. Megi góður Guð gefa að íslenskar kynslóðir komi til með að feta í fótspor konungs konunganna Jesú Krists og beri djúpa réttlætiskennd fyrir málefnum líðandi stundar í samfélaginu á hverjum tíma og gleymi aldrei að sinna því fólki til líkama og sálar sem er berskjalda fyrir ágjöfum lífsins.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
sr. Sighvatur flutti þessa prédikun í Hvammstangakirkju Sunnudaginn 23. nóvember 2008 er hann söng þar messu ásamt Kirkjukór Húsavíkur og Kirkjukór Hvammstangakirkju