Jesús kenndi í brjósti um ekkjuna sem missti einkason sinn og hófst þegar handa við að hjálpa henni. Hann hikaði ekki við að snerta líkbörurnar þótt hann yrði þar með óhreinn að skilningi samtíðar sinnar.
Þessi frásögn er eins og stefnulýsing kristinnar kirkju. Við eigum að láta okkur annt um fólk og bregðast við vanda þess. Neyð annarra á að knýja okkur til athafna. Óhikað og óhrædd eigum við að snerta það sem talið er óhreint. Sérstaklega eigum við að sinna þeim sem eru afskipt og eiga sér ekki málsvara. Ef við viljum fylgja fordæmi Jesú ber okkur að sýna samhug í verki.
Móðir Theresa helgaði þeim umkomulausu líf sitt. Fréttamaður á bandarískri sjónvarpsstöð fylgdist með henni þrífa saur fársjúks fátæklings, sneri sér undan með hryllingi og sagði í hljóðnemann: „Þetta myndi ég ekki gera fyrir milljón dollara.“ Móðir Theresa svaraði að bragði: „Það myndi ég heldur ekki gera.“
Kærleiksverk hennar og allra hinna í aldanna rás vitna um að Drottinn okkar er ekki fjarlægur, upphafinn og afskiptalítill heldur nálægur, kærleiksríkur og starfandi.
Á dögum Jesú gátu barnlausar ekkjur ekki sótt í neitt opinbert velferðarkerfi. Framfærslan var ótrygg og engar bætur af neinu tagi. Framundan var ekkert líf, þær komust á vonarvöl.
Enn er það þannig víða um heim. Systkini okkar í öðrum heimshlutum myndu þakka fyrir að eiga aðgang að íslenska velferðarkerfinu sem okkur finnst meingallað.
Þjóðflutningar nú á tímum felast aðallega í sókn fólks að sunnan og austan til Vesturlanda. Eðlilega þykir eftirsóknarvert að komast hingað því hér eru lífskjör betri en þar og önnur viðmið ráða í samfélaginu, byggð á kristnum gildum.
Það er óvefengjanleg staðreynd að best er hlúð að þeim veiku og viðkvæmu í okkar heimshluta þar sem kristin trú á lengsta samfellda sögu og dýpstar rætur.
Mestur jöfnuður er í þeim ríkjum sem lengst hafa byggt á kristnum merg. Staða kvenna er þrátt fyrir allt best á áhrifasvæðum kristninnar. Minnihlutahópar hafa hvergi meiri réttindi en í svokölluðum kristnum löndum.
Umræðan undanfarna daga staðfestir sem betur fer að stór hluti íslensku þjóðarinnar sættir sig ekki við kynþáttahyggju og árásir á fólk vegna uppruna eða litarháttar. Og almennt ríkir umburðarlyndi gagnvart trú, menningu og sérkennum þeirra sem kjósa að flytjast hingað og setjast að meðal okkar. Það skulum við varðveita og hvergi gefa eftir eða slaka á í þeim efnum.
Stundum gleymist hins vegar að þetta umburðarlyndi gagnvart öðrum viðhorfum er mjög einhliða. Kristið fólk sem örsmár minnihlutahópur á Indlandi og í ýmsum ríkjum Norður-Afríku þekkir ekki af eigin raun það trúfrelsi og tjáningarfrelsi sem við teljum eðlilegt.
Um daginn fór heimurinn nánast af hjörunum af því að einhver hrokagikkur í Bandaríkjunum auglýsti Kóran-brennu en það þykir ekki einu sinni fréttnæmt þótt Biblíur séu brenndar á áhrifasvæðum annarra trúarbragða - og jafnvel kirkjurnar með.
Við skulum átta okkur á því að margt það fegursta og besta í siðgæðishugmyndum og almennum hugsunarhætti er sprottið af rót kristinnar trúar og iðkað þar sem hún hefur áhrif.
Frá upphafi var boðskapur kristinnar trúar kallaður fagnaðarerindi. Það þýðir gleðiboðskapur, góðar fréttir.
Góðu fréttir trúarinnar eru þær að Guði er annt um okkur öll og við megum hvíla í náð hans. Grunntónn kristninnar er bjartur, vonarríkur, fagnandi ómur upprisunnar. Hún er sérkenni trúarinnar sem mótar alla hugsun og öll viðmið. Ávöxturinn lætur ekki á sér standa.
Þó standa þau kristnu ekki öðrum framar að neinu leyti. Það að vera kristinn er ekki siðferðisleg einkunn heldur þýðir einfaldlega að við tilheyrum Kristi, með kostum okkar og göllum.
En allt frá dögum postulanna voru þau kristnu knúin af kærleika Krists. Þau létu sér annt um allt fólk óháð uppruna, kyni, efnahag, stétt og stöðu. Kærleikurinn var segulstál kirkjunnar. Sýnilegur kærleikur, sem gekk lengra en almenn vinsemd og meinlaust afskiptaleysi, laðaði fólk til Krists og í kirkju hans.
Jesús boðaði slíkan kærleika og iðkaði hann. Á dögum hans var alls ekki sjálfsagt að hann léti sér annt um ekkjuna í Nain en þannig er kærleikur Guðs. Hann tekur að sér þau sem eiga annars engan að.
Enn taka þjóðir fagnandi á móti þeim kærleika. Núna breiðist kristin trú hratt út í Afríku sunnan Sahara, í Kína og í Suðastur-Asíu. Þar sem kristnin festir rætur breytast viðhorfin í kjölfarið. Staða kvenna styrkist, kjör barna batna, hugað er að þeim sem minna mega sín.
En við á norðurslóðum erum góðu vön og sjáum ekki lengur orsakasamhengið, höldum að velferðin sé sjálfgefin og umhyggjan í garð þurfandi sjálfsögð. Allt slíkt verði áfram í himnalagi þótt trúnni sé ýtt til hliðar.
Hvílík skammsýni! Jurtin hættir fljótlega að bera ávöxt ef ræturnar eru klipptar undan henni. Það vita garðyrkjubændur.
En hér er hamast gegn kristinni trú eins og hún sé einhver pest eða plága sem þarf að læknast af eða losna við. Og þó hefur enginn getað bent á neinn raunverulegan ávinning þess að vera án kristinnar trúar og kirkju.
Krafist er frekari aðskilnaðar ríkis og kirkju sem í hugum sumra felur í sér að þrýsta trúnni út úr opinberu lífi. Er reynsla annarra af því góð og jákvæð?
Í Frakklandi varð fullur aðskilnaður ríkis og kirkju fyrir langalöngu. Þar er nú áberandi öfgafull kynþáttahyggja og umburðarlyndið gagnvart minnihlutahópum með því minnsta sem gerist í Evrópu. Þess gjalda bæði múslímar og sígaunar.
Í Bandaríkjunum má ekki mismuna trúarbrögðum og engin kirkjudeild eða söfnuður á að njóta forréttinda. Hvergi á Vesturlöndum eru þó eins mikil átök og samkeppni milli trúarhópa um hylli fjöldans. Oft ræður fjármagnið því hver verður ofan á og fjársterkir, trúarlegir minnihlutahópar hafa gríðarleg ítök.
Einhverjum hugnast best trúleysi á þeirri forsendu að tækni og vitneskja leysi trúna af hólmi. Á hinn bóginn sýnir reynslan að trúarþörfin hverfur ekki þótt hefðbundin trúariðkun sé bönnuð. Í trúlausum Sovétríkjum kommúnismans var mikil persónudýrkun. Fyrir miðja 20. öld var almenningur hvattur til að hugsa til Stalíns í vanlíðan og frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, það myndi hjálpa.
En þegar verst stendur á í lífinu hjálpar hvorki að leita í eigin brjósti né að horfa til stórmenna, lífs eða liðinna. Þegar á bjátar hjálpar hann einn sem er lifandi lausnari okkar, Guð sem gerðist maður, sá eini sem hefur efni á að segja „grát þú eigi“. Vegna hans eins eigum við alltaf von, hversu dökkt sem útlitið er.
Vonin er kraftur – ekki eingöngu kraftur til að sætta sig við ríkjandi ástand vegna þess sem bíður okkar í eilífðinni, heldur kraftur til breytinga hér og nú. Á tímum þrælahaldsins í Bandaríkjunum urðu til margir stórkostlegir negrasálmar. Þeir eru fullir af von um breytingu á ómögulegum kringumstæðum sem fléttast saman við hina eilífu von. Sálmarnir voru sungnir í margar kynslóðir áður en vonin um frelsi varð að veruleika.
Þannig er von upprisunnar sem er helsta sérkenni kristninnar. Hún gefur bæði styrk til að þrauka og kraft til að breyta.
En hefur þá ekki kristnin farið samfellda og hnökralausa sigurför um heiminn? Ó, nei – sannarlega ekki! Í nafni trúarinnar hafa verið gerð fjöldamörg mistök og ótaldar eru þær misgjörðir sem framdar eru undir formerkjum trúarinnar eða af hálfu forystumanna kirkjunnar. Það er sársaukafullt að þurfa að horfast í augu við slíkt.
Samt er heildarmyndin sú að almenn velferð, velmegun og framfarir er í langbestu horfi þar sem kristin trú hefur verið lengst við lýði. Saga kristninnar í heiminum er eins og fjallganga í lausum jarðvegi þar sem við förum tvö skref áfram en eitt aftur á bak. Okkur miðar í rétta átt – ekki vegna þess hver við erum heldur vegna kærleika Krists.
Sá kærleikur er meira en hlýlegt viðmót eða hughreystandi orð. Starfandi kærleikur hans „megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum“ (Efes. 3:20).
Bænasvarið getur orðið langt umfram bænina eða væntingarnar - eða eins og í guðspjalli dagsins bænheyrsla án bænar því ekkjan bað Jesú ekki um neitt. Kraftaverkið var alfarið að frumkvæði hans. Kærleikur Guðs kemur til okkar að fyrra bragði.
Eins minnir frásögn guðspjallsins á að við lifum hvert fyrir annað. Tilgangur lífsins er ekki sjálfhverfur heldur eigum við að þjóna öðrum eins og ungi maðurinn í guðspjallinu sem var endurlífgaður og gefinn móður sinni.
Jesús tók sér stöðu með henni. Hann kenndi okkur að virða konur til jafns við karla. Þegar fæðing frelsarans var boðuð birtist engill ungri konu, Maríu. Á krossinum hafði Jesús ekki áhyggjur af eigin dauða en vildi að María væri örugg og vel fyrir henni séð. Konur voru líka fyrstu vottar upprisunnar. Guð treysti þeim til að flytja körlunum fagnaðarboðin sem kristnin byggist á!
Og hér er sagt frá konu sem Jesús sýndi umhyggju og virðingu. Þau þekktust ekkert áður. Samt þekkti Jesús þessa konu, þekkti sorg hennar, örvæntingu, þörf og þrá.
Þannig sér Drottinn inn í hugskot okkar allra. Hann sér allt, líka örin eftir áföll og vonbrigði lífsins: Rofin sambönd, heilsubrest, atvinnumissi, eignatjón, vinslit og söknuð vegna látinna ástvina. „Grát þú eigi“ sagði Jesús við ekkjuna. Allt hefur sinn tíma. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að syrgja og gráta en svo kemur röðin að huggun og von.
Konan þáði hjálp Jesú. Okkar er valið. Í samfélagi sem mótast af kristnum gildum er viðurkenndur réttur til afneitunar og vantrúar – en auðvitað líka réttur til að trúa.
Stundum heyrast þær raddir að ekki sé rétt að trúa neinu nema sjá það og þreifa á því. En trúin er eins og öndunin. Við sjáum ekki súrefnið sem við öndum að okkur. Samt er það okkur lífsnauðsynlegt.
Eins sjáum við ekki Guð þótt nálægð hans sé okkur lífsnauðsynleg. Guð er okkur jafn nálægur og súrefnið í andrúmsloftinu.
Gefum okkur tíma til að þiggja þá nálægð. Á hvaða sviði lífsins þarftu mest á Guði að halda núna? Það veist þú og það veit Jesús. Meðan við eigum hann að er ekki öllu lokið.
Mörg okkar efast einhvern tíma um að góður Guð sé nálægur. Spurt er um Guð þegar verst stendur á í lífinu, í slysum og sjúkdómum eða þegar veröld okkar hrynur af öðrum ástæðum. Eins er spurt hvað Guði finnist þegar ógæfan dynur yfir og fólk stendur eftir ráðþrota og örvinlað. Og hvar er Guð þegar brenglaðir karlar misnota saklaus börn sem þeim er trúað fyrir, hvort sem það er innan fjölskyldna, á vettvangi kirkjunnar eða á vistheimilum á vegum hins opinbera?
Frá örófi alda hefur verið spurt um Guð þegar hið illa æðir og óréttlætið nær fram að ganga. Áðan var lesið úr Jobsbók. Guðhræddi sómamaðurinn Job missti fjölskyldu, eignir og heilsu og háði harða trúarbaráttu. Hvar var Guð þegar verst gegndi?
Því svarar Jobsbók ekki beint en von Jobs kemur fram í því að Guð á síðasta orðið. Þannig er hann almáttugur Guð. Að lokum er allt í hendi hans.
Það er einnig svar kristinnar trúar. Hún er ekki fræðileg útlistun á öllum tilvikum lífsins. Hún gefur hvorki einföld svör við flóknum spurningum né skjótvirkar lausnir í mannlegri neyð.
En kristin trú felur í sér nálægð Guðs sem aldrei bregst, hvernig sem á stendur í lífi okkar. Hann er alltaf hjá okkur og gengur með okkur til móts við hvaðeina sem mætir. Og hann kallar okkur og sendir til að vera með öðrum í neyð þeirra, bera byrðar þeirra, efla von þeirra, miðla kærleika Krists inn í líf þeirra.
Í guðspjalli dagsins er því svarað hvað Guði finnst um þjáninguna og hvernig hann er með í vanda og neyð. Svarið frelst í því að Drottinn kenndi í brjósti um ekkjuna í neyð hennar. Þess vegna hófst hann handa.
Eins hefst kirkjan handa gegn óréttlæti, ofbeldi og annarri neyð mannkynsins. Þannig er hún sönn, trú meistara sínum.
Því kærleiksverk Jesú eru fyrirmynd og vegvísir kirkjunnar. Við erum send til að láta okkur annt um fólk, breiða út von upprisunnar og gleði fagnaðarerindisins. Við erum kölluð til að óhreinka okkur í þágu sannleikans og kærleikans. Þótt við þolum ekki samanburð við móður Theresu erum við knúin af sama kærleika og tökum þátt í sama verki: Að miðla kærleika Krists sem bætir heiminn og auðgar mannkynið.
Dýrð sé Guði föður og syni og Heilögum anda. Svo sem var frá upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.