Kveðjur

Kveðjur

Svona geta kveðjurnar sagt mikið um þau sem þær flytja. Og „gleðileg jól“ hvað merkir það? Þessi kveðja heyrist víða þessa dagana. Tímabundið tekur hún yfir þessar hefðbundnu sem við segjum oftar en ekki í hugsunarleysi vanans: „Hvernig hefurðu það?“; „er ekki allt gott?“ og svo auðvitað þessi: „Er ekki alltaf nóg að gera?“
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
25. desember 2023
Flokkar

Gleðilega hátíð kæru vinir.

 

Einu sinni bjó ég á Ísafirði. Það vakti fljótt athygli mína hvað heimamönnum var tamt að spyrja um flugið. „Verður flogið?“ var gjarnan upphafið að einhverju skrafi. Í framhaldi góndu menn til himins spáðu í áttir og skýjafar. Í fyrstu spurði ég hvort fólk ætti von á einhverjum eða væri sjálft á suðurleið. En það var sjaldnast. Þetta var kveðja samfélags þar sem einangrunin var hluti af veruleikanum og sjálfsmyndinni. Tækist fokkernum að lenda væri komið á samband við landið.


Hvað segir kveðjan um samfélagið?

 

Svona geta kveðjurnar sagt mikið um þau sem þær flytja. Og „gleðileg jól“ hvað merkir það? Þessi kveðja heyrist víða þessa dagana. Tímabundið tekur hún yfir þessar hefðbundnu sem við flytjum oftar en ekki í hugsunarleysi vanans: „Hvernig hefurðu það?“; „er ekki allt gott?“ og svo auðvitað þessi: „Er ekki alltaf nóg að gera?“

 

Óskin um gleðileg jól er af öðrum toga. Þessar spurningar sem við berum fram eru ekki alltaf settar fram af forvitni, í von um ærlegt svar. Og sjaldan er þeim svarað af hreinskilni, við reynum að bera okkur vel og viljum ekki láta fólk halda að við séum að slóra eitthvað á daginn.

 

Já gleðin? Erum við ekki gegnsósa í gleði, við sem lifum á þessum dögum. Við lesum frásagnir liðinna höfunda þar sem myrkur var myrkur. Ekki eins og skammdegið okkar sem við lýsum upp með ótal ljósum, teygjum okkur í rofann og herbergið er upp ljómað. Nei, þá sást ekki handaskil og ímyndunaraflið bjó til ógnarmyndir í hverju horni.

 

Fyrir þessu fólki var kveðjan um gleðileg jól samofin þeirri von að ljósið myndi skína í myrkrinu. Það þýddi langþráð hlé frá kulda og ógnum. Og í trúnni átti fólkið von um náð og fegurð sem var andstæð þeim þrautum sem tilveran krafðist. Vonin um ljósið kallaðist um leið á við upphafsorð Biblíunnar þar sem auðnin og tómið vakna til verundar í kjölfar orðanna: „Verði ljós!“

 

„Gleðileg jól“ hefur frá öndverðu haldist í hendur við vonina um að birti til og heimur hlýni.

 

Hún hefur verið sett fram að sama ákafa og vangaveltur einangraðrar byggðar um það hvort flugsamgöngur haldist þann daginn.


Gleðin í nýju samhengi

 

Hvaða erindi á þá kveðja til okkar í dag, okkar sem erum umkring ærandi birtu og gleðilátum nánast hverja vökustund?

 

Skjárinn sendir okkur skilaboð sem kalla fram sömu viðbrögð líkama okkar eins og þegar við höfum virkilega staðið okkur vel. Nema að þessi viðbrögð fáum við fyrirhafnarlaust, getum horft á myndskeið sem veita okkur vellíðan, þótt engin afrek hafi verið unnin. Fáum upprétta þumla við færslur okkar, eða jafnvel enn innilegri skilaboð við einhverjar færslur eða myndir. Andartak skynjum við einhverja sælukennd og svo dofnar hún vissulega fljótt.

 

En gleði á ekki að myndast í sálu okkar að ástæðulausu. Hún er drifkraftur, afleiðing þess að við höfum lagt okkur fram og barist fyrir því sem við teljum að skipti okkur máli. Gleði upplifum við á sigurstundu.

 

Jólin eiga sér margvíslegar rætur. Hátíðin tengist ljósinu á norðurhveli jarðar þar sem menn og málleysingjar teyga í sig birtuna og bíða þess að hún fái notið sín í meira mæli eftir því sem líður á árið. Kristnir menn tengja ljósið við Jesú og fæðingu hans. Þrír guðspjallamenn segja frá þessum atburði. Í gær lásum við frásögn Lúkasar af því þegar barnið var lagt í jötu og englar vitjuðu hirðanna úti í haga. Mattheus segir frá vitringnunum sem færðu barninu gjafir. En texti Jóhannesar er af allt öðrum toga.


Frumtákn jólanna

 

Guðspjallið sem við hlýddum á í dag, er engin saga, engin innsýn í huga þeirra sem tengdust hinum fyrstu jólum. Engin ótti, engin úrræði í húsnæðisleysi, ekki örvæntingafullur flótti til annars lands. Nei, Jóhannes hefur sig hærra í loft upp og lýsir allt annarri hlið á þessum stórkostlegu tíðindum: Hann horfir allt aftur til sköpunarinnar – upphafsins mikla og lýsir því hvernig það hófst allt með þessu magnaða Orði – Logos eins og frumtextinn kallar það. Og í því felst ekki bara orð heldur um leið sú guðlega skipan sem er forsenda þess að til er eitthvað fremur en ekki neitt.

 

Atburðina tengja þessir sögumenn við ákveðin frumtákn. Annars vegar er það ungabarnið sem allt hverfist um, barnið í jötunni og hins vegar er það sjálft ljósið. Hvort tveggja er tákn um líf og forsendur þess. Hvítvoðungurinn birtir vonina í brjóstum okkar og hann vekur kærleika í brjóstum okkar. Ljósið er svo hið mikla lífsins undur, án þess fengjum við ekki þrifist.

 

Hjá Jóhannesi takast á ljós og myrkur rétt eins og hæfir svo vel þeim tíma sem er nú við vetrarsólstöður þegar sól tekur á ný að hækka á lofti. Kristnum mönnum þykir sá tími hæfa vel sem umgjörð og vettvangur fyrir hátíðina stóru. „Ljósið skein í myrkrinu“ segir í frasögninni – „en myrkrið tók ekki við því“.

 

Þetta er upphaf fagnaðarerindisins sem kristin kirkja hefur miðlað til heimsins í allan þennan tíma og gerir enn. Það er þessi boðskapur sem hún vill svo gjarnan halda áfram að flytja og lætur einskis ófreistað til þess arna. Erindi kirkjunnar er af sömu rót spunnið og hátíðin sem við höldum núna. Það flytur okkur sömu skilaboð og við gerum hvert til annars með látbragði okkar og fasi á helgum jólum. Það er lögmál jólanna – fegurðin, kærleikurinn og endurtekningin sem veitir okkur festu og öryggi í ólgusjó daganna.


Gleðileg jól

 

Þess vegna getum við á öllum tímum óskað hvert öðru gleðilegra jóla. Hvort heldur það er í rafmagnsleysi fyrri kynslóða eða í sífelldu áreiti okkar daga – kveðjan er ósk um að líf okkar sé ríkt að tilgangi og innihaldi. Hún á ekki síðra erindi í dag en forðum – jafnvel enn meira ef við leiðum hugann að því.

 

Við fögnum því í hjarta okkar að fyrirgefningin er merkilegri og heillavænlegri hefndinni. Að auðmýktin er meiri hrokanum. Að samfélagið sé fegurra einsemdinni. Verum sæl mitt á tímum óvissu og vanmáttar yfir því að eiga þá von að broddur dauðans hefur verið afmáður og lífið hefur sigrað. Um það fjallar kveðjan um gleðileg jól.