Sálmabók

111. Hirt aldrei hvað sem gildir

1 Hirt aldrei hvað sem gildir
að hætta' á ósatt mál,
hvort verja' eða sækja vildir,
verður það mörgum tál.
Munnur, sá löngum lýgur,
frá lukku' og blessun hnígur,
hann deyðir sína sál.

2 Hygg að og herm hið sanna
hvenær sem til er reynt,
hræðst ei hótanir manna,
halt þinni játning beint.
Gæt vel að geymir þetta,
Guðs orð og trúna rétta
meðkenndu ljóst og leynt.

3 Sú er mín huggun sama
sem þín var, Jesú minn,
krossinn þá að vill ama,
ofsókn og hörmung stinn.
Hjá þinni hægri hendi
hér þó nú lífið endi
fagnaðarnægð ég finn.

4 Andlegt vald einum rómi
úrskurðar dauðann þér.
Drottinn í náðardómi
dæmir því lífið mér.
Þakka ég elsku þinni,
þú keyptir sálu minni
fríun og frelsi hér.

T Hallgrímur Pétursson Ps. 13
L 15. öld – Erfurt 1524 – Gr. 1594 – Íslensk breyting
Herr Christ der einig Gotts Son
Sálmar með sama lagi 64b
Biblíutilvísun Mark. 14.55–59

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is