Sálmabók

178. Fyrst boðar Guð

1 Fyrst boðar Guð sitt blessað náðarorðið,
svo býður hann sitt ríka kærleiksborðið
og sendir einkason sinn til að kalla
til sinnar kvöldmáltíðar alla – alla.

2 En fyrsti' og annar afsökunar biðja
og eins fer fyrir boðsmanninum þriðja
og það er kunngjört Herra hefðarríkum
að heimsins börn ei sinni boðskap slíkum.

3 Þá spyr hann að hvort veikir ekki vilji,
hvort volaðir og blindir ekki skilji,
þá býður hann þeim bjargarlausu' og snauðu,
þeim breysku, særðu, föllnu, týndu' og dauðu.

4 Hvert orð er sterkast? Orðið hans er kallar.
Sjá, einnig dauðir ganga lífs til hallar,
þeir koma' í hópum heimurinn sem smáir,
en Herrann segir: „Þeir eru' enn of fáir.“

5 Hann býður enn þá: „Farið, laðið, leiðið
og leitið, kallið, biðjið, þrýstið, neyðið,
mitt kærleiks djúp á himins víðar hallir,
í húsi mínu rúmast allir – allir.“

6 Fyrst kallar Guð en bregðist þú því boði,
þá biður Guð og þó að hvorugt stoði,
þá þrýstir Guð og það er síðsta orðið,
ef því er neitað, hræðstu sálar morðið!

7 Ó, Drottinn, þú sem býður, biður, neyðir,
ég blindur er en sonur þinn mig leiðir
frá synd og hættum gegnum dauðans dalinn
í dýrðar þinnar fagra gleðisalinn.

T Matthías Jochumsson – Sb. 1886
L Andreas P. Berggreen 1828 – PG 1878
Et kors det var det hårde, trange leje
Sálmar með sama lagi 433a 497
Eldra númer 180
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Lúk. 14.16–24

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is