497. Skín, guðdóms sól ♥
1 Skín, guðdóms sól, á hugarhimni mínum
sem hjúpar allt í kærleiksgeislum þínum.
Þú, Drottinn Jesú, lífsins ljósið bjarta,
ó, lýs nú mínu trúarveika hjarta.
2 Þú varst mér það sem vatn er þyrstum manni,
þú varst mitt frelsi' í dimmum fangaranni
og vængjalyfting vona barni lágu
og vorsól ylrík trúarblómi smáu.
3 Þú ert það lyf sem lífsins græðir sárin,
sú ljúfa mund sem harma þerrar tárin,
minn hugarstyrkur, hjartans meginmáttur
og minnar sálar hreini andardráttur.
4 Í lífsins hretum fýkur flest í skjólin
og frænda' og vina myrkvast kærleikssólin.
Þú, Drottinn Jesú, hrelldum huga mínum
átt hlífð og skjól í náðarfaðmi þínum.
5 Þú vegur eins hinn vesala og smáa
og virðir jafnt þeim auðuga og háa,
þú telur ei í tugum sljórra manna,
þín tala' er eitt á hjörtum þúsundanna.
6 Ef einhver þig ei enn þá fundið hefur
sem öllum ljós í dauðans myrkrum gefur,
ó, veit þá áheyrn veikum bænum mínum
og vísa þeim að náðarfaðmi þínum.