Sálmabók

653. Ver hjá mér, Drottinn

1 Ver hjá mér, Drottinn, dagsins birta fer,
dimmir nú óðum, vertu, Guð, hjá mér.
Þá annað bregst mér enginn hjálpað fær,
þú athvarf hjálparlausra, kom mér nær.

2 Lífdagar hverfa ört sem fjúki fis,
fölnar sem blómið heimsins skart og glys,
hverfult er allt og valt í veröld hér,
ver þú sem aldrei breytist, Guð, hjá mér.

3 Á hverri stund sem líður þarf ég þín,
án þinnar náðar blindast augu mín.
Hvar á ég skjól ef hönd þín frá mér fer?
Fylg mér á nótt sem degi, vak hjá mér.

4 Í þinni nánd ég óttast ekkert fár,
allt verður blessun: raunir, kvöl og tár,
og sjálfan dauðann sigra ég með þér,
ég sigra allt ef þú ert nærri mér.

5 Skín þú til mín nær húmar hinsta sinn,
handan um myrkrið lýsi krossinn þinn,
þá ljómar dagur, ljós sem aldrei fer.
Í lífi´ og dauða vertu, Guð, hjá mér.

T Henry F. Lyte 1847 – Sigurbjörn Einarsson 1987
Abide with Me: Fast Falls the Eventide
L William H. Monk 1861 – BÞ 1912
EVENTIDE/ Abide with Me: Fast Falls the Eventide
Sálmar með sama lagi 633

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is