Sálmabók

773. Nú bráðum vetrar byrja él

1 Nú bráðum vetrar byrja él,
nú bliknar grund og hlíð.
Með fegurð þína far þú vel,
þú fagra sumartíð.

2 Senn stynur vetrarvinda raust,
nú visna blómin skær.
Þótt visni sérhvað hér um haust
í hjarta vonin grær.

3 Þótt lækki sól og lýsi skammt
ei lækkar Drottins náð,
þótt vaxi nótt ei villist samt
Guðs vísdóms eilíft ráð.

4 Þótt fölni sérhvert blóm og blað
og blikni hvert eitt strá
Guðs elska – víst vér vitum það –
ei visna þannig má.

5 Þótt falli hvert að hausti blóm
ei hverfur gleðin mér.
Frá Betlehem ég heyri hljóm
er huggun ávallt lér.

6 Ég veit hvar best mín blómgast von
er bliknar jörðin hér:
Það tré, hvar líf sitt lét Guðs son,
mér lífsins ávöxt ber.

7 Þótt fölni grös um fjall og dal
og frjósi vötn og lönd
mín trú á hann ei hverfa skal
sem heljar leysti bönd.

8 Um eilíft vor hann von mér gaf
er vetur ævi þver,
sjálft lífið gröf er gengið af.
Það gleði dýrst mér er.

T Caspar J. Boye 1833 – Valdimar Briem – Sb. 1886
Dybt hælder året i sin gang
L William Tans‘ur 1734 – Sb. 1997
BANGOR (Tansur)
Sálmar með sama lagi 209
Tilvísun í annað lag 482
Eldra númer 485
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is