Sálmabók

95. Þú varst leiddur út af anda

1 Þú varst leiddur út af anda
einn í freistni, Jesú minn,
svo ég fengi' í sama vanda
sigur fyrir kraftinn þinn.
Andi heimsins ásækir,
andi Drottins varðveitir,
andi heimsins afli beitir,
andi Drottins styrk mér veitir.

2 Hvað er lysting heimsins gæða
heimsins andi' er býður mér?
Holdsins mettun, holdsins fæða
hjartanu' enga næring lér.
Engan stoðar eintómt brauð,
ei má sálin líða nauð,
lifir hún á ljósi hreinu,
lífsins orði Drottins einu.

3 Hvað er tign og hefðarbragur
heimsins andi' er lofar mér?
Svikagylling, fölskvi fagur,
fánýtt hismi, brothætt gler.
Drottins freista ei ég á,
aldrei hátt ég keppa má.
Ei mig nokkrir englar stoða
ef ég svo mér fer í voða.

4 Hvað er auður heims og blómi
heimsins andi' er sýnir mér?
Verður allt að hismi' og hjómi,
hjaðnar skjótt og deyr og þver.
Vík þú frá mér, freistari,
flæk mig ei í snörunni.
Drottins eins er dýrðin sanna,
Drottins eins er þjónkun manna.

5 Hvað er prjálið heims og blómi?
Hvað er gengi jarðar valt?
Það er tál og töfraljómi,
trú því engu, smá það allt.
Drottin treystu einan á,
engin freisting grandar þá.
Ef þú vakir, ef þú biður
ei mun saka, Guð þig styður.

T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Johann Schop 1642 – Paradísarlykill 1686 – Sb. 1751
Werde munter mein Gemüte
Sálmar með sama lagi 184 235 3 514 523 69 794
Biblíutilvísun Matt. 4.1–11

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is