Predikun flutt í Háteigskirkju 10. mars 2019, fyrsta sunnudag í föstu.
Krossferli’ að fylgja þínum
fýsir mig, Jesú kær,
væg þú veikleika mínum,
þó verði’eg álengdar fjær (Passíusálmur 11 f.hl.)Ég heilsa ykkur með orðum postulans, náð sé með ykkur og friður.
Í dag er fyrsti sunnudagur í föstu. Hvað þýðir það, hvað gerist þá?Síðastliðin vika var þessi skemmtilega vika með bolludegi, sprengidegi og öskudegi. Hér í Háteigskirkju eru bænastundir fyrir hælisleytendur sem við héraðsprestarnir og prestur innflytjenda sjáum um. Við hittumst á fimmtudögum hér við altarið, lesum úr Biblíunni, deilum sögum og reynslu og biðjum saman. Síðasta fimmtudag töluðum við um þessar íslensku hefðir. Að borða bollur á mánudegi, borða yfir sig af saltkjöti og baunum á þriðjudegi og svo um öskudaginn. Hvernig hann var og hvernig hann er og svo hvernig þessir dagar tengjast trúnni og upphafi föstunnar. Ég held reyndar að mín kynslóð sé búnin að gleyma þeirri tengingu. Hópurinn hefur sjaldan verið jafn áhugasamur, mörg höfðu þau verið að klóra sér í kollinum yfir krökkunum sem ráfuðu um Kringluna á miðvikudaginn í búningum og bolluæðinu á mánudag. En nokkur þeirra smökkuðu þó bollu. Það fellur alltaf vel í kramið að tala um íslenskar hefðir og mat, þá lifnar yfir mörgum og við deilum sögum að matarhefðum landanna sem við komum frá.
En hefur fastan einhverja þýðingu á okkar tímum? Ég er ekki viss. Það er reyndar í tísku að fasta, 5-2 og 16/8 eru vinsælir föstukúrar þar sem fólk borðar ekkert eða minna ákveðna tíma vikunnar eða sólarhringsins og hvílir þannig líkaman á því að vera endalaust að melta. Vísindamenn hafa nefnilega komist að því að það er hollt að líða skort einhvern hluta dags. Þá nær líkaminn að sinna viðhaldi og við lifum lengur. Nýlegar rannsóknir sýna líka að fasta hefur góð áhrif á andlega heilsu. En kannski eru vísindin aðeins að staðfesta eitthvað sem við vissum nú þegar.Fastan á sér mun lengri sögu og í trúarhefðum heims hefur fasta öðlast mikilvægan sess. Gyðingar föstuðu í 40 daga fyrir páska og þaðan er langafasta í kristinni hefð upprunin. Á fyrstu öldum kristni var föstutíminn aðeins tveir dagar og svo tvær vikur en í upphafi miðalda tóku kristnir upp 40 daga föstu eins og gyðingar. Í kristinni trú hefur fastan verið undirbúningur páskanna, innri hreinsun og helgun. Sá tími sem við hugum að krossferli Krists. Hér á Íslandi eru Passísálmarnir lesnir og við göngum með honum sem dó á krossi píslargönguna og endum upp á Golgata hæðinni á föstudaginn langa.
Trúin er aldrei fullkomlega skiljanleg, hún er ekki eitthvað sem við getum bara hugsað upp eða útskýrt heldur er hún lifuð, skynjuð með hjartanu. Þess vegna er mikilvægt að gera allt sem hjálpar okkur að skynja og skilja okkar innri veruleika. Það hjálpar að neita sér um eitthvað, finna það hvernig það er að skorta og hungra og lifta þannig huganum á hærra stig.Fasta fyrir umhverfið
Ég held að það sé líka aldrei mikilvægara en einmitt núna að fasta. Í kvöld í Ríkissjónvarpinu verður sýndur fyrsti þáttur í íslenskri þáttaröð sem heitir Hvað höfum við gert? sem fjallar um loftlagsbreytingar á jörðinni. Ég fékk að sjá fyrsta þáttinn í vikunni í forsýningu og hann vakti mig af værum svefni. Þó svo að ég hafi pælt í umhverfismálum um nokkurt skeið, flokki og hafi minnkað plastnotkun, þá var það töluvert áfall að átta sig á því hver staðan raunverulega er. Þar segir meðal annars að við höfum um það bil 17 ár til þess að snúa við þeirri þróun sem orðin er á hlýnun jarðar áður en við missu algerlega stjórn á aðstæðum. Ef við höldum áfram eins og ekkert sé þá hækkar meðalhiti jarðar um meira en 2° frá iðnbyltingu. Þá verður staðan grafalvarleg, þá súrna höfin, kóralrif deyja út, stormar verða tíðir og tegundir deyja hratt út. Halldór Björnsson veðurfræðingu segir í þættinu að þetta snúist ekki um að bjarga jörðinni, hún lifir af, en það er ekki víst að við mennirnir gerum það við þessar aðstæður. Ég hvet ykkur til þess að horfa á þáttinn í kvöld og næstu sunnudaga, þó svo að hann sé óþægilegur, því við þurfu að leggjast á eitt. Næstu þættir gefa okkur svo hugmyndir um það hvað við getum gert og vekja þannig von.Syndin
Í guðspjallstextanum sem við heyrðum áðan segir Jesús við Símon Pétur að satan hafi viljað sæld hann eins og hveiti svo hismið kæmi í ljós. Það er umdeilt innan guðfræðinnar hvernig skilja eigi þennan satan. Hvort hann sé raunveruleg persóna og leiðtogi hins illa ríkis eða aðeins tákn fyrir andstæðu alls þess sem Guð og Jesús standa fyrir. Þekktasti íslenski guðfræðingurinn sem heldur hinu síðara fram er líklega Davíð Þór Jónsson en í lokaritgerð sinni skoðaði hann þá texta Nýja testamentisins þar sem andskotinn og helvíti koma fyrir og komst að því að satan sé í raun aðeins persónugervingur til að stilla upp sem mótvægi við boðskap Jesú. Að það þjóni frásagnarlistinni að óvinir Jesú séu ekki aðeins óhlutbundin hugtök eins og græðgi, lygar, fáfræði og þröngsýni. Samkvæmt honum er satan ekki persóna, ekki raunverulegt verufræðilegt fyrirbæri heldur persónugervingur alls þess sem Jesús frá Nasaret er ekki.
Hvort sem við sjáum satan sem persónu eða táknmynd freistinga þá er Jesús að segja við Símon Pétur að hans verði freistað. Þannig að hismið, sá hluti af honum sem er ómerkilegur, komi í ljós.Að bregðast
Satan er þá holdgerfing þess þegar við bregðumst, þegar við vitum hvað er gott og rétt en leiðum þá hugsun eða tilfinningu hjá okkur og gerum það sem er þægilegt. Við þekkjum sögu Péturs eftir að Jesús var tekin höndum. Þá afneitaði hann meistara sínum þrisvar sinnum. Það er vel hægt að setja sig í spor Péturs. Flest þekkjum við þessa tilfinningu að hafa brugðist, að hafa ekki verið eins hugrökk og við vildum vera. Við mannkynið höfum einmitt verið og erum kannski ennþá í sporum Péturs eftir að Jesús var handtekin. Við sjáum hvernig í pottinn er búið í umhverfismálum og höfum tækifæri til þess að gera það rétta en gerum það ekki. Heldur afneitum Jesú, sannleikanum, hinu góða og rétta og höldum áfram að gera það sem er þægilegt og auðvelt.
En Jesús veit að Pétur muni bregðast, hann segir honum það, en hann biður líka fyrir honum og fyrir því að trú hans þrjóti ekki. Að hann styrki trúsystkini sín þegar hann er snúin við, komin aftur á rétta braut. Og það verður. Þá frásögn getum við lesið um í upphafi Postulasögunnar þegar Pétur stendur upp og stappar stálinu í trúsystkini sín og finnur nýjann lærisvein í hópinn í stað Júdasar.Yður fæ ég ríki í hendur
Í þessari sömu ræðu og við heyrðum áðan úr Lúkasarguðspjalli segir Jesús líka ,,Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér” Nú er kominn tími til þess að við snúum við eins og Pétur gerði, frá syndinni og að því sem rétt er. Stöndum með bræðrum okkar og systrum sem þegar hafa fengið að finna fyrir loftslagsbreytingum og stöndum með framtíðar kynslóðum svo þeirra líf verði bærilegt.
Við höldum ennþá uppá matarveisluna fyrir föstu, bolludag og sprengidag, en þurfum núna að dusta rykið af föstunni. En það er ekki langt síðan Íslendingar vissu hvað það var að fasta. Það er heldur ekki langt síðan fólk hafði rétt svo í sig og á og nýta gæði jarðar vel. Þá var allt nýtt sem kom af skepnunni, mat var ekki hent, fólk gerði við föt þegar þau voru götótt og við hluti þegar þeir biluðu. Mín kynslóð þekkir þetta ekki nógu vel. Við leysum málin með því að fara út í búð. Jú, nema kannski úr sögum frá ömmu og afa. Amma mín og afi á Akureyri áttu til að mynda fallegasta jólaskraut í heimi. Það var jólaskrautið sem þau höfðu keypt þegar þau byrjuðu að búa, afi var rafvirki og gerði við allt sem bilaði og endurnýtti það sem öðrum fannst gamallt drasl.Nú þurfum við, eyðsluseggirnir af minni kynslóð, á visku ykkar sem eldri eru að halda. Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar og læra að nota gjafir jarðar betur. Við þurfum að læra að elda úr afgöngum, nýta föt og hluti lengur og hætta að kaupa. Við þurfum líka að læra neita okkur um eitthvað, til dæmis mat og lystisemdir. Þá er góð hugmynd að fasta. Það hefur í för með sér mikla kosti fyrir heilsuna. Það styrkir andann og gerir okkur brennandi í trúnni.
Jesús færði fyrir okkur mikla fórn. Hann dó á krossi svo við mættum lifa. Það er alls ekki gamaldags eða úrelt að íhuga það rækilega. Íhuga þann leyndardóm sem fellst í þjáningunni. Staldra við og íhuga hvernig lærisveinar við erum eða ætlum að vera. Ætlum við að vera eins og Pétur og snúa við frá villu vegar. Styrkja hvort annað í neyð, taka við náð og kraftaverki Krists.Þá trú og þol vill þrotna,
þrengir að neyðin vönd,
reis þú við reyrinn brotna
og rétt mér þína hönd.
(Passíusálmur 11 s.hl.)Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Predikun flutt í Háteigskirkju 10. mars 2019
Lexía: 1Mós 4.3-7
Pistill: Jak 1.12-16
Guðspjall: Lúk 22.31-34