Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og syni og heilögum anda.
Bæn:
Vertu hjá mér Drottinn,
varðveit mig og styrktu mig í störfum,
í hverri hættu og raun.
Blessaðu skipið og alla sem hér eru innanborðs.
Vertu með í för.
Hafðu hönd á stýri og leiddu alla heila heim.
Í Jesú nafni. Amen.Sigurbjörn Einarsson, biskup
Inngangur
Þeir stóðu við ströndina fiskimennirnir. Andvarann þekktu þeir, ströndina og öldugjálfrið. Þeir fundu gömlu netin, báturinn þeirra var þar, þeir bjuggu sig til fiskjar, eins og forðum, lærisveinar Meistarans frá Nasaret. Þeir höfðu verið í storminum á vatninu með honum. Þeir fylgdu honum píslargönguna, þeir brugðust allir. Svo birtist hann þeim. Undarlegt!
Nú drógu þeir fram gömlu veiðafærin og lögðu frá landi. Þeir köstuðu netunum og reyndu alla nóttina en fengu ekkert. Þá sáu þeir mann á ströndinni í morgunbjarmanum sem kallaði til þeirra: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?” Þeir svöruðu honum: “Nei.” Þá sagði hann við þá: “Kastið netinu hægra megin við bátinn og þér munuð verða varir.” Og þá gerðist undrið aftur við vatnið að þeir gátu ekki dregið netin svo mikill var aflinn.
Þá rann upp ljós fyrir þeim í morgunbjarmanum. “Þetta er Drottinn”, sagði sá yngsti í hópnum. Pétur sem stungið hafði upp á því að þeir færu að fiska kastaði sér í vatnið og synti í land og báturinn kom fast á eftir. Ljósið eilífa lýsti þeim í morgunbjarmanum á ströndinni.
Morgunstemmning sjómannsins lifir eflaust enn þó að vélarnir malli nú í stað þytsins í seglunum og áraskvampsins. Drottinn stendur enn á ströndinni, gengur á vatninu, sefur í bátnum í undarlegri ró þegar öldurnar rísa. Þrátt fyrir ýmis vitsmunaljós, nú vita menn nákvæmlega hvar þeir eru staddir með tækjum og tólum, þá er samt ljósið eilífa ofar því öllu. Á sjómannadegi skulum við minnast þess í kirkjunni, hugleiða afleiðingar þess, að Drottinn er með okkur, eins og forðum með lærisveinunum við vatnið.
I. Samstaða sjómanna og þjóðar – samstaða Guðs með fólkinu
Tilgangur sjómannadagsins er að efla samhug sjómanna og kynna þjóðinni starf þeirra. Hafið er eyþjóð eins og okkur ein mikilvægasta auðlindin, grundvöllur auðar okkar og velferðar. Ef fiskurinn hyrfi úr sjónum myndi fækka í landi. Hafið er saga okkar hálf í það minnsta. Á fleygi ferð yfir hafið komum við með Ingólf Arnarson í stafni. Kristinn kirkja var að hefja för sína yfir hafið norður í eyríki Norður-Evrópu um það leyti er land byggðist hér og kristni var lögtekin fyrir rúmum þúsund árum um 1000 e. Kr. Eflaust hefur einn og annar víkingur signt sig og farið með sjóferðarbæn áður en hann stýrði skipi sínu stjórnborðsmegin út til Íslands. Samfylgd kirkju og þjóðar í þúsund ár hefur mótað menningu okkar og sjómennsku. Og sjómennskan hefur mótað kirkjuna. Af einhverjum ástæðum tölum við um kirkjuskip, svo er salurinn nefndur, þar sem söfnuðurinn kemur saman. Með því er lögð áhersla á samstöðu í kirkjunni eins og á sjó hjá áhöfn. Og texti sjómannadagsins, “Jesús stillir storminn”, er að skilja í því sambandi.
Þeirri vegsemd að eiga auðug fiskimið fylgir mikill vandi. Á síðustu áratugum hefur mönnum orðið ljóst að tækin sem við menn höfum skapað til fiskveiða með hugviti okkar eru svo öflug að við getum gjöreytt fiskistofnum. Það er skelfilegt til þess að hugsa að við gætum dregið hvern sporð á land, plægt hafsbotninn og gert hafið lífsnautt þar sem ekki þrifist ein einasta branda. Það er skylda okkar allra að hugsa og erfiða, iðja og biðja þar til lausn er fundinn á því hvernig stjórna megi fiskveiðum þannig að gæði eyríkisins vari við til komandi kynslóða. Gefum alþingismönnum okkar engan frið fyrr en þeir hafa fundið þá lausn sem skapar samstöðu með þjóðinni allri og sátt. Við megum ekki láta sannast á okkur orðatiltæki frá frumbyggjum Ameríku: “Þegar síðasta tréð er fellt, síðasti fiskurinn veiddur og síðasta áin menguð uppgötvar þú að þú getur ekki étið peninga.”
Nú finnst eflaust einhverjum ég vera pólitískur og tala óviðeigandi orð á hátíðisdegi sem þessum. En hvergi hef ég hvikað frá texta dagsins aðeins bent á þann storm sem er hvað válegastur í samtíð okkar. Hér eru á ferðinni öfl sem kunna að verða okkur yfirsterkari. Guðs orð í gamalli bók Síraks sem lengi var í heiðri höfð með þjóð okkar segir: “Sá mun taka þung gjöld, er gullinu ann, og sá villist, er auðinn eltir.” (Sír. 31:5).
Sjómaður ann hafinu og öllu sem í því er. Auðvitað hlýtur hann líka að óttast eða í það minnsta að virða ógnir hafsins. Ástríðan getur verið hörð eins og saga sem ég heyrði nýverið um sjómann sem sótti sjóinn sex daga vikunnar og á þeim sjöunda fór hann niður á bryggju og dorgaði þar með strákunum.
II. Náttúrann og hafið, forðabúr velferðarinnar
Afstaða okkar til náttúrunnar endurspeglar samfélag okkar við Guð og trú á Guð. Stór fullyrðing en umhugsunarverð. Kristin trú hefur verið gagnrýnd fyrir það að aðgreina Guð frá sköpuninni og menn frá bæði Guði og sköpuninni. Bent er á sköpunarsögurnar og ekki síður 8. Davíðssálm í því sambandi:
Þú lést hann (manninn) verða litlu minni en Guð,
með sæmd og heiðri krýndir þú hann.
Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum,
allt lagðir þú að fótum hans.
…
fugla loftsins og fiska hafsins,
allt það er fer hafsins vegu.”Sálm. 8:6-7, 9
Auðvitað liggur hér meira undir en þetta litla ljóð. Vestræn menning er talin hafa þessa grundvallarafstöðu til náttúrunnar. Okkur mönnum er heimilt og skylt að drottna yfir sköpuninni. Það er mjög miður ef samfylgd kristni og þjóðar í þúsund ár hefur ekki skilið annað eftir. Gagnrýnin á rétt á sér, við eigum að láta hana vekja okkur til umhugsunar og nýrrar breytni, sköpunin er ekki dauður hlutur sem við getum nýtt okkur eins og okkur sýnist, við erum líka skepnur, við mennirnir, fyrirgefið þið, við erum sköpun Guðs, það er frummerking orðsins skepna. Það fer einfaldlega illa fyrir okkur ef við stjórnumst af græðgi. Það kennir Guðs orð okkur. Sjöunda daginn hvíldist Guð af verki sínu, sjöunda hvert ár átti að hvíla akra á landi, samkvæmt Guðs orði. Það má ekki þrautpína sköpunina, vegna þess að hún er LÍF, eins og við erum LÍF, við erum sama eðlis og öll sköpun, duft, sem þiggur LÍF frá Guði.
Matthías Jochumsson kenndi okkur þessa auðmýkt gagnvart lífinu í þjóðsöngnum. Við erum blóm, eitt eilífðar smáblóm, með titrandi tár. Því miður breytist kristindómurinn í voðalega drottnunarsýki ef menn gleyma seinni hluta í vísuorðum þjóðsöngsins, það sem sköpunarsögurnar kenna okkur. Smáblómið tilbiður Guðs sinn og deyr. Það er Guð sem gaf landið, hafið og himininn. Við stöndum í þakkarskuld við hann sem gaf lífið, notum það sem við þurfum til lífs en ekki meira.
Nægjusemi og guðsótti er ekki úrelt viðfangsefni eins og þið heyrið. Það er rétt afstaða til náttúrunnar sem endurspeglar afstöðu okkar til Guðs, tilbeiðslu, þakklæti og lofgjörð.
III. Kristileg afstaða til náttúrunnar
Okkur er ekki aðeins varpað inn í þessa veröld til að skynja hana með því sem okkur er gefið né heldur er náttúran aðeins eitthvað sem við reynum að ráða við og stjórna. Við verðum að átta okkur á því að náttúran er undirstaða lífs okkar og umlykur það eins og móðurlífið fyrstu níu mánuði mannlífsins. Sköpunarsögurnar og Davíðssálmarnir kenna okkur að við erum ábyrg gagnvart skaparanum, að við erum í skuld við hann, þakkarskuld, sem við gjöldum að lokum með lífi okkar svo að lífið haldi áfram. Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað sé nafn Drottins. Þannig erum við með náttúrunni allri lögð undir máttarvöld sem eru okkur æðri. Í því lærum við siðferðilega afstöðu til náttúrunnar og Guðs. Í texta sjómannadagsins ræður Jesús Kristur, Drottinn okkar og frelsari, yfir öldum hafsins og stormum loftsins.
Tvö dæmi vil ég tilfæra eitt neikvætt og eitt jákvætt til að sýna fram á það sem ég á við.
Jóní Vídalín í sinni húspostillu sannar að við prestar nútímans eru huglausar bleyður sem þorum ekki að sveifla orðsins brandi lengur en um leið er hjá honum skemmtileg líking, hárbeitt, og lærdómsrík um afstöðuna til lífsins. Líking Jóns er að hafið sé náðarfaðmur Guðs sem gefur:
Þegar þér róið til fiskjar látist þér biðja Guð fyrir yður en hvað mikill þar fylgir hugur máli er af því auðsær er þér talið og gjörið sumir hvörjir nær þér eruð undir vað sestir. Þá formælið þér yðar veiðarfærum, yðar verkfærum, yðar lagsmönnum, þegar ekki er allt eftir vild yðar. Og þar þér ættuð að biðja Guð að blessa segið þér að andskotinn skuli taka. Svo sáir nú fjandmaðurinn illgresinu bæði á sjó og landi. Þegar Guð sendir yður það á öngulinn er yður ekki líkar forsmáið þér það, blótið því og kastið því aftur í hans náðarfaðm sem hann er þá hvað mest að útbreiða til yðar.
Jón Vídalín (1995): 188-189.
Hitt dæmið er um andlitsþvott Gandhís, menn af öðrum trúarbrögðum geta kennt okkur ýmislegt um þessa virðingu fyrir lífinu, sannleikurinn er einfaldur, þau eru sláandi einföld rökin fyrir réttlætismálum samtímans, jörðin er ein, móðir alls lífs, í skauti náttúrunnar hvílumst við og hverfum aftur til jarðar, náttúran þarfnast ekki verndar það erum við menn sem þurfum að vernda okkur sjálfir fyrir okkur sjálfum. Biðjum Guð að leiðrétta verðmætamat okkar.
Atvikið átti sér stað í Allahabad, heimaborg Nehrus, sem var náin samstarfsmaður og vinur Gandhis. Þeim lánaðist ekki að halda saman þjóð sinni sem sundraðist í Indland og Pakistan. Þjóðir þeirra mættu líta til leiðtoga sinna og þjóðir heimsins. Einn morguninn var Gandhi að þvo hendur sínar og andlit og Nehru hellti vatni úr könnu og þeir ræddu hin ýmsu mál um framtíð Indlands. Þeir voru í djúpum þönkum í alvarlegum umræðum sínum svo að Gandhi gleymdi því að hann var að þvo sér og uppgötvaði það þegar hann átti eftir að þvo sér um andlitið að vatnið var þrotið. Nehru tók eftir þessu og sagði “Bíddu augnablik, ég sæki aðra könnu handa þér”. Gandhi sagði: “Hef ég klárað allt vatnið í könnuna áður en ég náði að þvo mér í framan”. Hann virtist miður sín. Nehru hughreysti hann og sagði: “Um borg mína Allahabad renna þrjár miklar ár, Ganga, Jamuna og Saraswati. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af vatni”. Svar Gadhis var þetta: “Nehru, það er rétt hjá þér. Þú hefur þrjár miklar ár í heimaborg þinni en hlutur minn í þessum ám er aðeins ein kanna af vatni að morgni og ekki meira”.
Jákvæð afstaða til náttúrunnar er með þessum hætti. Sönn lífsgæði er að njóta náttúrunnar, sköpunarinnar, í samræmi við Guð og menn. Það gefur okkur mesta lífsfyllingu, gleðistund í náttúrunni, þannig á lífið að vera. Það kallar Biblían blessun. Sönn karlmennska er að þekkja þessa blessun og gefa öðrum hlut í henni við fórn og starf. Himnaríki er oft lýst með fallegum náttúrumyndum. Þegar faðir minn var lagður til hinstu hvíldar í Fossvogskirkjugarði hughreysti það mig og föðurbróður minn sem var sjómaður að það sást út á hafið. Þannig tjáðum við von okkar í sorginni, von um himnaríki.
Meiri bjartsýnistrú hef ég ekki fundið sem byggir á því sem Guð hefur gert og gerir í sköpun sinni. Meistarinn frá Nasaret sem stóð á ströndinni í morgunbjarmanum og styllti storminn á vatninu er okkur ljósið eilífa, Drottinn okkar og frelsari, hann er Guð hafsins, landsins og himinsins. Minnumst þess í þökk og bæn.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Við Minningarstein horfinna sjómanna:
Lesin versin:
Varðveittu mig og veg minn greið
vernd þín yfir mér standi,
frá beiskri sorg og bráðum deyð
bæði á sjó og landi.
Jesús minn trúr,
eymd allri úr
einn kanntu mig að leysa,
vertu mér næst,
þá hér sem hæst
hafsins bylgjurnar geysa.Í Guðs nafni og ótta enn,
eftir hans náðarorði,
veiðarfærunum vil ég senn
varpa frá skipsins borði.
Þetta mitt verk,
miskunnin merk,
minn Herra Jesús, blessi,
veiti hann mér,
hvað vild hans er,
von mín og bón er þessi.Hallgrímur Pétursson
Í nafni Guðs, föður og sonar og heilags anda. Amen.
Vér þökkum þér, algóði faðir að þú hefir gefið oss auðug fiskimið. Vér biðjum þig að hjálpa oss að gleyma ekki hve dýrmæt sú gjöf er, og hversu lífsafkoma vor og velferð er háð vinnu þeirra sem sækja sjó. Vér minnumst sjómanna og biðjum þig að fylgja þeim á ferðum þeirra, vaka yfir þeim í hættum og erfiðleikum og bjarga úr öllum háska, og leiða þá heila heim til hafnar.
Blessa þá sem hlutu hina votu gröf, og hugga ástvini þeirra alla. Í hljóðri bæn skulum vér minnast þeirra hvert fyrir sig. … Himneski faðir varðveit minningarnar góðu með oss, gef öllum syrgjendum kjark til að horfa fram á veginn, veit oss af kærleika þínum að styðja hvert annað í sorginni í orði og verki. Gef oss náð þar til.
Biðjum öll saman með bænarversinu góða:
Vertu Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
Drottinn blessi þig og varðveit á öllum vegum þínum, hans náð og friður sé með þér. Amen.