Alþjóðlegur bænadagur kvenna er haldinn fyrsta föstudag í mars ár hvert um allan heim og víða hérlendis. Sú hefð hefur skapast á liðnum árum að guðsþjónusta á vegum Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi sem lengi hefur verið útvarpað á skírdagsmorgni er tileinkuð efni bænadagsins. Að þessu sinni senda konur á Filipsseyjum frá sér efni, frásagnir og bænir og þeim er umhugað um efnahagslegt réttlæti. Hér fer á eftir stutt lýsing á aðstæðum á Filippseyjum þar sem bil á milli ríkra og fátækra fer stækkandi ár frá ári og það eru einkum konur og börn sem gjalda þess.
Kristið fólk í meirihluta Lýðveldið Filippseyjar er fimmta stærsta eyríki heims. Eyjaklasinn samanstendur af yfir 7000 eyjum. Þar af eru 880 eyjar í byggð. Að flatarmáli eru eyjarnar samtals þrisvar sinnum stærri en Íslands en íbúafjöldinn er yfir 100 milljónir. Filippseyjar fengu sjálfstæði frá Bandaríkjunum árið 1946 eftir hersetu Japana í heimstyrjöldinni síðari. Á annað hundrað tungumál eru töluð á eyjunum en enska er opinbert mál ásamt filipinó. Eins og Ísland eru eyjarnar á mörkum tveggja fleka og þar eru mörg virk eldfjöll. Jarðvarmaorka stendur undir tæplega þriðjungi rafmagnsnotkunar líkt og hérlendis. Árið 1991 varð stórgos í eldfjallinu Pínatúbó á Lúzón. Meðalhiti í heiminum lækkaði við það um 1,5° í fleiri mánuði en gosið í Pínatúbó var eitt allra mesta gos 20. aldar og 875 manns biðu bana. Aðrer ógnir af nátturunnar hendi eru jarðskjálftar og fellibyljir, til dæmis fellibylurinn Haiyan sem reið yfir í nóvember 2013 og er fólk enn heimilislaust af hans völdum.
Filippseyjar er hlutfallslega fjölmennasta kristna land í Suðaustur-Asíu fyrir utan Austur-Timor. Um 80% landsmanna tilheyra Rómversk-kaþólsku kirkjunni sem barst með Spánverjum til eyjanna fyrir fimm hundrað árum. Nær allt þjóðfélagið í landinu er undir áhrifum kaþólskrar trúar. Næststærsti trúarhópur landsins, 5-10%, eru múslímar, einkum í suðurhluta eyjaklasans svo sem á Mindanao en þaðan er Duarte núverandi forseti Filippseyja. Önnur trúarbrögð, eins og búddismi og hindúismi, hafa ekki náð festu í landinu að ráði. Árið 1611 var kaþólskur háskóli stofnaður í Manila (Universidad de Santo Tomas) en hann er elsti starfandi háskóli Asíu.
Staða kvenna á Filippseyjum Fram kemur í efninu sem landsnefnd bænadagsins á Filippseyjum sendi að á fyrri tíð höfðu konur og karlar í samfélögum innfæddra sömu stöðu t.d. hvað varða arf og menntun. Eftir að spænskir nýlenduherrar tóku völdin á eyjunum á 16. öld varð takmarkaðist menntun og staða kvenna við kirkjustarf, eldamennsku og uppeldi. Á tímum bandarískra yfirráða, á fyrri helming tuttugustu aldar, bættist við skipulagt vændi, sem tók á sig mynd skefjalauss og skelfilegs ofbeldis undir japanska hernáminu, og fjöldi landsbyggðakvenna fluttist til borganna til að starfa við húshjálp. Í dag starfa margar filippseyskar konur erlendis við heimilishjálp og senda peningana heim til fjölskyldunnar.
Tvær konur hafa verið forsetar á Filippseyjum, Corazon Aquino og Gloria Macapagal-Arroyo. Báðar áttu þær uppruna sinn í stjórnmálafjölskyldum feðraveldisins. Þrátt fyrir áherslu stjórnarskrárinnar á jafnrétti og ýmsa löggjöf sem tryggja á öryggi kvenna búa konur á Filippseyjum almennt við ójöfnuð og kúgun, bæði heima, á vinnustöðum, í kirkjum og þjóðfélaginu almennt. Fátækt og launamisrétti gera konum erfitt fyrir að rísa gegn ofbeldi og misnoktun. Ein af hverjum fimm konum á Filippseyjum á frjósemisskeiði hefur orðið fyrir líkamlegu ofbeldi. Þá eru hernaðarátök milli stjórnarhersins og múslimskra sjálfsstæðissinna orsök þess að tólf þúsund manns eru heimilislaus á Mindanao. Landbúnaður er megin atvinnuvegurinn en atvinnuhættir eru gamaldags og viðkvæmir fyrir átökum og sviptingum í veðurfari. Því er stöðug hætta á hungursneyð. Í höfuðborginni Manilla og fleiri stórborgum búa börn á götunni við illan aðbúnað. Samstaða kristinna kvenna og ungs fólks Konur í kirkjustarfi á Filippseyjum, bæði kvenkyns guðfræðingar, djáknar, prestar og aðrar kristnar konur hafa tekið höndum saman um að uppfræða kirkjur og samfélag um réttindi kvenna. Þær berjast gegn ofbeldi og valdbeitingu og styðja konur sem orðið hafa fyrir efnahagslegu misrétti, til dæmis í störfum sínum sem húshjálp, heima og heiman. Samkirkjuleg samtök kvenna og ungs fólks sýna virka samstöðu með bændum, fiskimönnum, verkamönnum, konum, ungu fólki, börnum og samfélögum innfæddra sem oft og tíðum eiga í vök að verjast.
Listakonan Rowena hefur gert listaverk fyrir bænadag kvenna 2017 sem hún lýsir með eftirfarandi orðum: „Guð gaf Filippseyjum gnægð auðlinda, bæði mannauð og náttúru. Guð gefur ríkullega og annast um sköpun sína. Þannig er efnahagslegt réttlæti fyrir alla innbyggt í Guðs ríki ólíkt efnahagskerfum þar sem þeir sterkustu og valdamestu hrifsa til sín auðlindir Guðs, sjálfum sér og fjölskyldum sínum til framdráttar. Ríki Guðs, á hinn bóginn, er fyrir alla, jafnvel þá sem ekki viðurkenna það.“