Prédikun flutt á jóladag
2023 á RUV. Jes. 62:10-12; Tít. 3:4-7;
Jóh. 1:1-14.
Við skulum biðja:
Guð, sem ert ljós í
myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur
gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þegar við þreifum okkur
áfram í myrkrinu og leiðir okkur til Jesú Krists sem er fagnaðarboði þessa heims
og ljós huggunarinnar fyrir augum okkar að eilífu. Amen.
Náð sé með yður og friður
frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Amen.
3. sunnudag í aðventu
fylltist Hallgrímskirkja í Reykjavík af fólki sem finnst gaman að syngja. Yfirskrift viðburðarins var „Syngjum jólin
inn.“ Um 100 manna kórsöngur fylli kirkjuskipið
og fólkið á bekkjunum söng með svo undir tók í þessari stærstu kirkju
landsins. Bæta þurfti við stólum svo
allir viðstaddir fengju sæti. Það var
bros á andlitum fólks sem út úr kirkjunni gekk í lok viðburðarins. Þessi
viðburður er einn af mörgum í kirkjum landsins í aðdraganda jóla.
Grindvíkingar söfnuðust
saman í þessari sömu kirkju á þriðja degi eftir að hafa þurft að yfirgefa bæinn
sinn. Þar áttu þeir ljúfa kærleiksstund með
Guði og hvert öðru á óvissutímum. Nú er
ljóst að Grindvíkingar halda ekki jólin heima.
Enn eitt eldgosið hefur hafist og á þessari stundu er ekki vitað um
afleiðingar þess.
Við stjórnum ekki
náttúruöflunum en við treystum vísindamönnunum til að fylgjast með og leiðbeina
þeim sem taka ákvarðanir um rýmingar og líf fólks.
Saga ein segir frá fornum
sagnfræðingi í allt öðru landi þar sem náttúran hegðar sér ólíkt því sem er hér
á landi. Íbúarnir voru þjáir af
sólarhitanum og þjáning þeirra fékk útrás með árásum á sagnfræðinginn. Þetta endurtók sig hvern morgunn sem sólin
reis upp. Við hér á norðurslóðum
heimsins gleðjumst við komu sólarinnar sem færir okkur birtu og yl.
Ljósið er okkur kærkomið. „Í honum var líf og lífið var ljós mannanna“
segir Jóhannes guðspjallamaður um barnið sem fæddist hin fyrstu jól.
Ljósið er ljúft að sjá og
hafa og það er alltaf ánægjulegt þegar sólin skín. Sól réttlætisins skín í frásögum
guðspjallamannanna af fæðingu Jesú. Það
eru ekki allir sem gleðjast yfir skini þeirrar sólar. „Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á
móti því“ segir í guðspjallinu. Enn er
það svo að til að sjá ljósið og meðtaka það þá þarf að stilla hugann til að
vera móttækilegur fyrir það. Þá sem og
nú tekur fólk á móti Kristi eða hafnar honum.
Nú er jóladagurinn þegar
kristið fólk um allan heim safnast saman í kirkjum sínum til að heyra boðskap
jólanna, syngja saman og biðja saman.
Fréttir eru sagðar af boðskap helstu kristinna trúarleiðtoga heims og
Heims um ból er sungið á fjölmörgum tungumálum.
Í gærkveldi heyrðum við
frásögu Lúkasar guðspjallamanns af fæðingu Jesú. Í dag höfum við fengið að
heyra aðra frásögn og allt öðru vísi af Orðinu sem varð hold. Jóhannes guðspjallamaður sá er ritaði þann
texta var undir áhrifum af grískum hugsunarhætti og framsetningu. Hann talar um Orðið með stórum staf sem varð
hold. Orðið lífgar heiminn. Orð Guðs skapaði líf og ljós. Lífið er dýrmætt það verður okkur ekki síst
ljóst þegar við kveðjum þau sem okkur voru kær. Sérhver manneskja ber með sér neista af lífi
og ljósi Guðs og það hefur afleiðingar fyrir siðferði okkar.
Stundum er sagt að orð
séu til alls fyrst. Þau skapa eitthvað
nýtt. Með orðum tjáum við okkur, gefum
hlutum nafn og öllu því sem í kringum okkur er.
Við gefum börnum nafn og leitum að orði ársins sem endurspeglar umræðuna
í þjóðfélaginu á ári hverju.
Jólin boða kærleika,
elsku Guðs til manna. Flestar manneskjur
reyna elsku til sín og finna elsku til annarra manna. Sjaldan birtist elskusemi mannfólksins jafn
skýrt og í aðdraganda jóla þegar við hugsum til vina og ástvina, sendum gjafir
og kveðjur. Sjaldan birtist elskusemi og
umhyggja fyrir þeim sem eru þurfandi skýrar en í aðdraganda jóla.
Hjálparstarf kirkjunnar
styður fjölda manns fyrir jólin með inneignarkortum og gjöfum. Inneignarkortin gefa þiggjendum tækifæri til
að velja sjálf jólamatinn eða hvað annað sem þau vilja og þurfa. Þannig eru þau ekki bara þiggjendur heldur
einnig gerendur í eigin lífi og það er það sem flestir vilja að geta sjálfir
stjórnað lifi og gjörðum.
Því miður er það ekki svo
í heimi hér að allir séu til þess bærir.
Á meðal okkar er fólk sem ræður ekki yfir eigin lífi heldur stjórna efni
lífi viðkomandi. Það er mikið böl sem
fylgir neyslu áfengis og fíkniefna, bæði fyrir viðkomandi einstakling og
fjölskyldu hans og samfélagið allt. Bæn
mín er sú að þau sem ánetjast hafa fíkninni og vilja losna undan henni fái til
þess styrk og hjálp. Þá mun ljósið skína
og myrkrið hopa fyrir því.
Saga ein fjallar um
kærleikstré. Það stóð nálægt Betlehem fyrir meira en 2000 árum. Það stóð við bæinn sem Jesús fæddist. Undir
þessu tré fengu flóttamenn skjól. Undir
ægivaldi Heródesar flúði unga parið með nýfæddan soninn. Eins og guðspjöllin greina frá boðaði Heródes
að lífláta skyldi öll sveinbörn í landinu upp að ákveðnum aldri. Hann hafði frétt af því að konungur væri
fæddur í Betlehem og ekki vildi hann missa völdin í hans hendur. María og Jósef flúðu með barnið Jesú til
Egyptalands og á leiðinni þangað fengu þó skjól hjá trénu sem nefndist
kærleikstré.
Heródes sendi hermenn
sína til að finna barnið nýfædda sem hirðarnir fengu fyrstir að sjá fyrir utan
foreldrana. Fólkið á flóttanum var
þreytt og mætt eins og gefur að skilja.
Gamla kærleikstréð skýldi þeim fyrir hermönnunum og þau sluppu frá
útsendurum Heródesar. Ef ekki hefði
farið vel hefði þessi flótti getað breytt sögunni, sögu mannkyns. Litli drengurinn var kominn til að frelsa
heiminn, til að veita birtu og yl inn í líf okkar.
Aldrei hafa fleiri í
heiminum verið á flótta, svangir, þjáðir eða óhamingjusamir. Gamla tré gat hjálpað og það getum við einnig
með því að taka á móti ljósinu sem lýsir dimma daga og nætur. Við getum fundið gleði og glatt aðra og
breytt heiminum með orðum okkar og gjörðum.
Við getum verið eins og kærleikstréð sem veitir skjól fyrir grimmd heimsins.
Megi boðskapur jólanna um
elsku til Guðs og manna taka sér bústað í hjörtum okkar og hugsunum því „Orðið
varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans,
dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum“ segir í jólaguðspjalli Jóhannesar. Guð er með okkur. Guð gefi okkur náð til að reyna það í dag og
alla daga, í Jesú nafni.
Gleðilega hátíð.
Dýrð sé Guði föður og
syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri kveðju:
Náðin Drottins vors Jesú
Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.