Amen. Kom þú, Drottinn Jesús, náðin Drottins Jesú sé með öllum. Amen
Gleðilegt nýtt kirkjuár í Jesú nafni.
Aðventa, orðið endurómar eftirvænting, tilhlökkun, vongleði. Fjölmiðlarnir segja að væntingavísitalan sé há um þessar mundir á Íslandi, menn vænti góðs af framtíðinni, af auknum vexti með bættum hag. Og væntingarnar vaxa hjá börnunum, sem telja daganna til jóla, og bíða í óþreyju þess er óskirnar rætast og uppfyllist allar. Og einhvern vegin snertir sú eftirvænting okkur flest. Enn heyrir maður sagt að kona sem eigi von á barni, „vænti sín“ – það er fallega orðað. Það vísar til vonar sem gagntekur, og minnir á sig, og stefnir að uppfylling sinni, þegar tíminn fullnast, stundin kemur. Og þannig er aðventan.
Þó að orðið „aðventa“ eigi sér þannig samsvörun í orðinu von og vænting og að vænta sín, þá er það tökuorð í íslensku máli, dregið af latínu. Sannarlega er orðið ekki verra fyrir það. Tilkoma, merkir það, eins og í faðirvorinu, „tilkomi þitt ríki!“ - „adventus domini,“ tilkoma Drottins. Og textar aðventunnar fjalla um það hvernig hann sem kom í heim á jólanótt kemur enn, „þú kemur enn til þjáðra í heimi hér, með huggun kærleiks þíns og æðsta von.“ segir í hugþekkum jólasálmi Jakobs Jóhannessonar Smára. Á það minnir aðventan, og eins það sem síðan segir:„í gluggaleysið geisla inn þú ber…“ þetta þekkjum við öll. Og við tökum undir það með því að setja ljós í glugga okkar og sem víðast til að storka myrkrinu og hamla gegn skammdeginu, og skuggum mannlífisins. Já, og að leitast við að dreifa góðvild og umhyggju kringum sig, og rétta út hlýja hönd til náungans. Og svo beinir aðventa sjónum okkar enn lengra fram, og ítrekar játningu okkar kristnu trúar að hann sem kom og kemur enn, hann mun koma um síðir og dæma heiminn. Já, við megum vita að hann mun eiga síðasta orðið, hann mun sigra allt, miskunnsemin, líknin, náðin mun sigra allt. Þegar ríkið hans kemur og vilji hans verður og sigrar, hið góða, fagra og fullkomna. Guðspjallið sem hér hljómaði áðan segir frá því er Jesús gekk í helgidóminn á hvíldardegi, eins og hann var vanur. Þá venju hafði hann tamið sér frá bernsku. Víst er að fjölskyldan litla í Nasaret hafi verið trúrækin, og sótt guðsþjónustur hvíldardagsins. Og þeim sið hélt Jesús alla tíð af tryggð við hefð og venju, og af virðingu við Guðs orð. Einn grunnþáttur í trú er tryggð, að halda tryggð við það sem heilagt er, og það samfélag og þá iðkun þar sem það er haft um hönd og því er miðlað.
Jesús gekk í helgidóminn á hvíldardegi eins og hann var vanur. Við höfum gengið í helgidóminn á hvíldardegi, við upphaf nýs kirkjuárs. Framundan er röð hvíldardaga, helgidaga og hátíða. Guði sé lof fyrir þau mörgu sem hafa að fordæmi frelsarans tamið sér þá góðu venju að sækja guðsþjónustur kirkjunnar reglubundið. Mikið eigum við því fólki að þakka.
* * *
Aðventa. Nýtt kirkjuár hefst. Með kirkjuárinu ritar kirkjan lífssögu lausnarans inn í almanakið. Rauðu dagarnir á dagatalinu minna á hann. Og það er ekki upprifjun liðinnar sögu frá horfinni tíð. Þar rætast fyrirheitin: Í dag!
Með helgum sínum og hátíðum leggur kirkjan árstíðunum og hversdeginum til yfirraddir eilífðarinnar. Hún lykur okkur bænarörmum á krossgötum ævinnar og signir lífsskrefin okkar himinsins náð Og athafnirnar við skírnarlaug og altarið, þar sem Jesús mælir sér móts við okkur, helgar vatn, og brauð og vín, og notar sem farvegi návistar sinnar og náðar. Vatnið, sem fellur af himni og vökvar jörðina, lífgar og nærir, og án þess væri ekkert líf. Brauð og vín, ávextir jarðar og afurðir iðju mannsins hugar og handa. Þetta helgar hann, sem vill helga mannlegt allt heilagri návist sinni. Og setur fram sem áminning og hvatning til okkar, að við sem erum öðrum háð um allt, hvort sem við viljum af því vita eða ekki, að við miðlum öðrum lífsins gæðum.
Helgar athafnir, heilög tákn og sögur snerta með einum eða öðrum hætti líf okkar flestra í þessu landi. Guði sé lof fyrir það. Kirkjurnar, gamlar og nýjar helga landið, á ystu annesjum og til innstu dala, og standa fyrir þúsund ára samhengi. Krossinn markar grafir þeirra sem á undan okkur eru gengin. Kirkjuklukkur óma yfir yfir götur og torg og lýsa friði yfir líf og heim. Víða má sjá kross eða helgimynd yfir rúmum landsmanna, og signingin, bænaversin, umfram allt Faðir vor, - bæn Drottins, eru flestum kunn, og mörgum töm. Í athöfnum, helgum og hátíðum finnur fólk sig borið uppi af því sem æðra er, af huldu samhengi sem styrkir og blessar. Hin heilaga siðvenja, - þökk sé öllum þeim sem gæta þess að kenna börnum sínum að hafa hana í heiðri. Allt er þetta hluti af hinum heilofna merkingarvef sem mótar siðinn í landinu. Já, og leggur til túlkunarmynstur til að takast á við hið óræða og stóra lífs og tilveru. Og þótt þessi vefur hafi um margt trosnað og siðurinn þokað í íslensku samfélagi, (- og sannarlega er að honum sótt), þá er hann samt til staðar. Fólk leitar til kirknanna þegar lífskreppurnar dynja yfir. En ekki bara þá! Hvaða sögu segja troðfylltar kirkjur á aðventu, tónlistin á stórhátíðum, bænaljósin? Hvaða sögu segir mikil fjölgun altarsgesta um land allt? Hvaða sögu segir eftirspurnin eftir fegurð og heilagleika sem aðventukvöldin, og ótalmargir tónlistarviðburðir mæta? Og hvaða sögu segir fjöldi þeirra sem í kirkjukórum landsins þessa dagana leggja ómælda vinnu og erfiði á sig að æfa og flytja sálma og söngva til að gleðja aðra, og vitna um jólanna óð og helgan boðskap? Mikið eigum við því fólki að þakka! Gleymum því ekki!
* * *
Guðspjallið segir frá því að Jesú var fengin Biblían til að lesa. Hann las kunnugleg orð og kær úr spádómsbók Jesaja: „Andi Drottins er yfir mér því hann hefur smurt mig, hann hefur sent mig að flytja fátækum gleðilegan boðskap….“ Og svo lauk Jesús aftur bókinni og settist niður og allra augu mændu á hann. Og hann sagði: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“
Jesús fullyrðir að í sér rætist ritningin, fyrirheit Biblíunnar, loforð Guðs, já, og fegurstu og sönnustu draumar og vonir mannkyns. Hann er gleðiboðskapur hinum fátæku. Hann, og það samhengi umhyggju og vonar, sem hann skapar og sendir. Mundu það, þú sem horfir til jóla og fagnar gleði þeirra og vilt gleðja aðra. Jólin eru gleðihátíð og gjafahátíð vegna hans. Af því að hann er gleðifréttin, hann er gjöfin sem Guð gaf. Ekki einu sinni, endur fyrir löngu, heldur í dag. „Í dag hefur ræst þessi ritning“ um gleði og von, um ljós í myrkri, um lausn úr fjötrum. Þú, sem heyrir þessi orð, hver sem þú ert, hvar sem þú ert staddur, hvar sem þú ert stödd. Jesús Kristur mætir þér í dag, í orði sínu, í máltíð altarsins, í bæninni í nafni hans. Því hefur hann lofað. Og hann mætir þér í þeim sem hann kallar sín minnstu systkin, þeim þarfnast hjálpar, þeim sem vonirnar hafa brugðist, og auðna snúið baki við, þeim sem eru í skugga, þeim sem þú getur lagt lið. Jesús Kristur „kemur enn til þjáðra í heimi hér, “ – alla jafna og umfram allt í umhyggju og kærleika góðs fólks. Og það vil ég leggja þér sérstaklega á hjarta nú í dag.
* * *
Inn um bréfalúguna hjá þér barst lítill seðill á dögunum, gíróseðill Hjálparstarfs kirkjunnar. Enn á ný kallar Hjálparstarf kirkjunnar á liðsinni landsmanna að koma hjálp til þeirra sem á þurfa að halda, neyðaraðstoð innanlands, sem mikil og brýn þörf er fyrir, og neyðar og þróunarhjálp erlendis. Með seðlinum fylgdi lítill vatnsdropi. Hann er til að minna þig á að framlag þitt skiptir máli. Það virðist ef til vill smátt, eins og lítill dropi í hafið, en dropinn holar steininn. Framlögin stóru og smáu, sem Hjálparstarf kirkjunnar leitar eftir um þessa jólaföstu, eru til að setja upp brunna og bæta aðgengi að vatni meðal örfátækra þjóða. Framlög stuðningsmanna Hjálparstarfs kirkjunnar í jólasöfnuninni í fyrra nægðu til að bæta úr vatnsþörf á þriðja hundrað þúsund manna. Það er undursamlegt þakkarefni.
Aðgangur að hreinu vatni þykir okkur sjálfsögð mannréttindi. Og við leiðum sjaldan hugann að því þegar við látum vatnið streyma úr krananum, hreint og ferskt og gott, að það er í raun dýrmætasta efni í heimi. Staðreyndin er að hreint vatn er sá örlagavaldur sem umfram allt mun gera út um framtíð okkar á jörð. Fullyrt er styrjaldir framtíðar muni framar öllu snúast um aðgang að vatni. Meir en milljarður manna hefur ekki aðgang að hreinu vatni. Næstum þrír milljarðar hafa ekki aðgang að klósetti eða kamri eða lágmarks hreinlætisaðstöðu. Getum við ímyndað okkur það? Eða þá staðreynd að á hverju ári deyja tæpleg tvær milljónir barna af völdum niðurgangs vegna óhreins vatns. Það eru um fimmþúsund börn á dag. Fimm sinnum fleiri börn deyja vegna óhreins vatns en úr alnæmi.
Þetta er hin nöturlega staðreynd sem við blasir í heiminum okkar í dag. Ef þetta fólk fengi þó ekki væri meir en tvær fötur af hreinu vatni á dag, þá myndi það gera stórkostlegan gæfumun. Að maður tali nú ekki um frárennsli og salerni. Á svona einfaldan og ódramatískan hátt má lýsa megin vanda mannkynsins í dag.
EN það sem til þarf til bjargar eru engin undur og hátæknibrögð. Tæknin er fyrir hendi, sáraeinföld og ódýr. Á þeim svæðum Úganda þar sem Hjálparstarf kirkjunnar starfar, þarf fólk iðulega að eyða yfir tveimur klukkustundum á dag í að sækja vatn, og iðulega í gruggug vatnsból. Það verkefni lendir helst og fremst á konum og börnum. Þarna hefur Hjálparstarf kirkjunnar getað séð fólki fyrir brunnum og vatnsdælum vegna framlaga Íslendinga, og hefur sá aðgangur að hreinu vatni nú þegar lækkað dánartíðni ungbarna verulega. Bætt heilsufar almennt, tryggt matvælaframleiðslu og bókstaflega fært þúsundum nýtt líf og von. Ég vil þakka heilum huga allan þann stuðning og velvild sem Hjálparstarf kirkjunnar nýtur af hálfu landsmanna, sem enn og aftur sýna samstöðu þegar kallað er eftir. Og ég treysti því að svo verði líka nú.
* * *
Aðventa. Við horfum fram til jólanna, þeirrar hátíðar sem fagnar því að Guð varð maður, orðið varð hold. Jólin eru hátíð sem játast mennskunni, jarðlífinu, heiminum sem Guð skapar og elskar. Náungakærleikur, umhyggja, miskunnsemi, eru grundvallarþættir kristinnar trúar. Trú okkar krefst því að við auðsýnum frumkvæði til góðs fyrir náungann, líf og heim. Að við leitumst við að vera með einhverjum hætti uppfylling fyrirheitanna um heim þar sem fjötur syndar og sjálfselsku er rofinn, þar sem myrkur eigingirni og kaldlyndis víkur fyrir kærleika, umhyggju og miskunnsemi, þar sem nýr dagur boðar fátækum gleðifréttir um lausn og framtíð. Guð gefi þann dag á dimma jörð. Amen. Kom þú, Drottinn Jesús, náðin Drottins Jesú sé með öllum. Amen