Prédikun flutt í
Hallgrímskirkju 1. sd. í aðventu 3. des. 2023.
Jes. 42:1-4; 1. Þess. 3:9-13; Mark. 11:1-11.
Við skulum biðja:
Guð sem kemur til okkar í
syni þínum Jesú Kristi, ekki í valdi og krafti, heldur auðmjúkur og allslaus,
ert máttugri en allt vald á jörðu. Gef
öllum náð til að þekkja þig og taka á móti syni þínum þegar hann kemur svo að
nótt okkar verði björt eins og dagur í ljósi hans. Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Fyrir fólk á mínum aldri
er árið fljótt að líða. Stutt er síðan
við komum saman hér í kirkjunni á 1. sunnudegi í aðventu í fyrra. Nú er aftur kominn 1. sunudagur í aðventu. Aðventan í ár er stutt, nær aðeins yfir 3
vikur því 4. sunnudagurinn er aðfangadagur jóla.
Með nýju kirkjuári horfum
við fram á veginn. Á aðventunni, öðru
nafni jólaföstunni undirbúum við komu jólanna meðal annars með því að kveikja á
aðventukransinum og minna okkur á spádómana um komu frelsarans í heiminn, á
fæðingarstaðinn hans Betlehem sem er á Vesturbakkanum í landinu helga en
Betlehem þýðir brauðhús. Með ljósi á
þriðja kertinu minnum við á hirðana sem fyrstir heyrðu boðskapinn um fæðinguna
og loks erum við minnt á englana sem fluttu hin himnesku boð.
Í sumum löndum er rík
hefð fyrir því að halda sérstaklega upp á 1. sunnudag í aðventu. Þýsk fjölskylda kynnti fyrir mér þann sið að
ganga í kringum pott með heitu vaxi, syngja um leið og kveik var dýpt í
pottinn. Þannig varð til myndarlegt
kerti sem smátt og smátt bætti á sig vaxi og vexti eftir því sem hringirnir
urðu fleiri. Fjölskyldur halda stíft í
sína siði og kynslóðirnar erfa þá hver af annarri. Mest um vert er þó að eiga hvert annað að í
lífins ólgu sjó.
Guðspjallstexti fyrsta
sunnudags í aðventu segir frá innreið Jesú í Jerúsalem. Hann, ásamt lexíu og pistli fjalla um það
hver Jesús er. Er hann Messías sem
Gyðingarnir væntu sem konungs síns? Já,
hver er Jesús?
Orðið Messías er að
nokkru leyti titill, sem konungar notuðu.
Það er bebreskt orð, sem þýðir „hinn smurði“. Við embættistökuna var konungurinn smurður
olíu. Talið var að konungurinn öðlaðist
þá brot guðlegs anda, visku til þess að stjórna og leiða þjóð sína og mátt til
þess að ráða við óvininn.
Við urðum vitni að þeirri
hefð að smyrja konung á þessu ári við embættistöku Karls III konungs
Breta. Margt í þeirri seremóníu allri á
sér rætur í Biblíulegum hefðum sem sýnast óskiljanlegar án útskýringa í þessar
gömlu hefðir.
Ein mikilvægasta skoðun
Nýja testamentisins er að Jesús sé Messías.
Jesús var af ætt Davíðs og fæddist í Betlehem, borg Davíðs. Hann sjálfur talaði ekki opinberlega um sig
sem Messías. En þegar æðsti presturinn
spurði: „Ert þú Messías?“ sem er
hebreskt orð og þýðir Kristur á gísku, svaraði hann „ég er sá.“
Kristin kirkja er því ekki
í vafa um að Jesús er Messías, sonur yngismærinnar Maríu sem Jesaja spámaður
segir frá í riti sínu.
Samkvæmt frásögu Markúsar
guðspjallamanns reið Jesús inn í Jerúsalem á ösnufola sem enginn hafði áður
komið á bak. Slík dýr voru ekki hátt
skrifuð, mesta lagi notuð til flutninga.
Hér var því ekki konungur á ferð með vald né stríðsherra með vopn. Hér var auðmjúkur þjónn á ferð ásamt
fylgjendum sínum. Sjálfsmynd Jesú
birtist þarna sem þjónn en ekki herra. Valdið
hans fólst ekki í yfirráðum eða að sýna vald umfram aðra viðstadda. Og fólkið sem viðstatt var hafði þá sýn á
manninn þegar það hrópaði: „Hósanna,
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Blessað sé hið komandi ríki föður
vors Davíðs! Hósanna í hæstum
hæðum““ Jesús var konungurinn,
bjargvætturinn, leiðtoginn.
Jesús fór inn í
borgina. Hann fór inn í
helgidóminn. Þetta er ekki eina frásagan
af því þegar fjöldi fylgid honum. Þær
eru nokkrar í guðspjöllunum. Þetta er
heldur ekki eina frá sagan af því að Jesús færi inn í helgidóminn. Þar hafði hann rekið út alla sem voru að
selja þar og kaupa, hrundið við borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna. Þar fundu foreldrar hans hann eftir þriggja
daga leit og móðir hans sagði við hann:
„“Barn, hví gerðir þú okkur þetta?
Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“ Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi
föður míns?““
Jesús hafði snemma skýra
sjálfsmynd. Og þekkt eru þau orð hans um
sjálfan sig þegar hann segir: Ég er góði, hirðirinn. Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Ég er dyr sauðanna. Ég er ljós heimsins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri
heldur hafa ljós lífins.
Ljós og myrkur. Það þarf ekki að segja okkur hér á Fróni
muninn á ljósi og myrkri. Myrkrið varir
meira en hálfan sólarhringinn á þessum árstíma.
Ljósin sem kveikt hafa verið um allan bæ og allt land lýsa svo
sannarlega upp skammdegið. Fyrir kristið
fólk minna ljósin á þann sem sagðist vera ljós heimsins. Minna á að þrátt fyrir myrkrið í umhverfinu
og myrkrið sem sest getur á sálina á stundum þá er von um að ljósið og birtan
taki yfir eins og í hringrás náttúrunnar.
Það ljós er öllum ætlað, stórum sem smáum, heilbrigðum sem veikum, öllum
mönnum. Réttlætið sem lexía dagsins
talar um felur í sér öryggi sem allir einstaklingar þrá og vona.
Í dag 1. sunnudag í
aðventu hefst hin árlega jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Hjálparstarfið sýnir trú í verki og stendur
fyrir margþættu hjálparstarfi hérlendis sem erlendis. Fyrir síðustu jól nutu mörg hundruð börn 3.140
jólagjafa fyrir milligögnu Hjálparstarfsins og hátt í 1.800 fjölskyldur fengu
þá aðstoð. Samkvæmt fréttum er þörfin
síst minni í ár. Margar konur sem leitað
hafa hér skjóls hafa tekið þátt í virkniverkefninu Saumó, tau með tilgang þar
sem þær koma saman og sauma, læra íslensku og njóta öryggis og félagsskapar
hver annarrar. Þetta verkefni er í
samstarfi Hjálparstarfsins og Hjálpræðishersins. Í Úganda hefur Hjálparstarfið reist 190 hús á
nokkrum árum. Skjólstæðingar þess
verkefnis eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum
alnæmis og búa ein en líka HIV smitaðir einstæðir foreldrar og ömmur sem hafa börn
á framfæri og búa við sára fátækt.
Enid er ein þeirra sem hafa fengið afhent múrsteinshús sem
stórbætir lífsgæði fjölskyldu hennar. Enid er 67 ára og býr í þorpi með þremur
barnabörnum sínum sem eru sex, sjö og tíu ára. Þau eru öll í skóla en hafa
aldrei getað sótt hann eins og skyldi. Ástæða þess eru skólagjöld og skólagögn
sem Enid hefur ekki getað greitt fyrir. Þau bjuggu í hreysi þar sem engin
aðstaða er til að matreiða og þar er heldur engin salernisaðstaða.
Húsið sem þau hafa búið í um langt árabil
heldur hvorki vatni né vindum. Þegar veður var óhagstætt, sérstaklega ef
rigndi, var útilokað fyrir Enid og börnin að sofa í húsinu. Draumur Enid í
þessu lífi er að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því hvaðan næsta máltíð kemur,
en til þessa hefur það ætíð verið verkefni dagsins.
Fleiri verkefni
mætti telja svo sem Skjólið sem rekið er undir hatti Hjálparstarfs kirkjunnar
fyrir konur sem eru heimilislausar og/eða búa ekki við það öryggi sem hverjum
einstaklingi er nauðsynlegt. Og ekki mál
gleyma aðstoð með matarkaup, lyfjakaup, föt og fjölmargt annað sem telst til
daglegra nauðsynja. Á annað hundrað
barnafjölskyldur leituðu stuðnings hjá Hjálparstarfinu í upphafi yfirstandandi
skólaárs og eru börnin hátt í 300 sem nutu þessarar aðstoðar.
Og ekki má gleyma
þeirri félagslegu ráðgjöf sem Hjálparstarfið veitir allt árið um kring. Nú, á aðventunni, jólaföstunni erum við minnt
á og hvött til að hjálpast að heima og heiman.
Ein leiðin til að bregðast við kalli Hjálparstarfsins er að greiða
valgreiðslu í heimabankanum.
Hjálparstarfið minnir okkur líka á að allir geta hjálpað einhverjum en
enginn getur hjálpað öllum. Margt smátt
gerir eitt stórt.
Við sem nóg höfum
getum því lagt þeim lið sem minna hafa.
Það mettar ekki aðeins svanga munna heldur veitir gleði og styrk þeim er
njóta. Í ár eru 37 ár frá því þekktustu
söngvarar þjóðarinnar sungu um von og frið, bæn um betri heim.
Búum til betri
heim. Sameinumst hjálpum þeim sem minna mega sín. Þau eru systkin mín. Vinnum að friði á jörð. Lífsréttin stöndum vörð. Öll sem eitt.
Þessi bæn á við enn
í dag þegar saklausir borgarar líða, þjást og deyja í stríðshrjáðum
löndum. Þegar fólk á okkar góða landi
glímir við óöryggi, heimilisleysi, fátækt, ástleysi.
Sameinumst, hjálpum
þeim. Tökum þátt í söfnun Hjálparstarfs
kirkjunnar á aðventunni nýbyrjuðu og biðjum Guð um að blessa glaða gjafara og
þakkláta þiggjendur.
Dýrð sé Guði föður
og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir
alda. Amen.
Takið postullegri
kveðju:
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og
samfélag heilags anda sé með yður öllum.
Amen.