Þessi prédikun var flutt við útvarpsguðsþjónustu frá Grensáskirkju 10. september 2023:
https://www.ruv.is/utvarp/dagskra/ras1/2023-09-10/5241692
Í dag er Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna og allur mánuðurinn er tileinkaður eflingu andlegrar heilsu undir formerkjunum Gulur september. Þjóðkirkjan er meðal fjölda samtaka sem taka þátt í þessu verkefni í því skyni að hvetja okkur öll til að sýna hvert öðru umhyggju og hlú að hvert öðru. Það er von samstarfshópsins að Gulur september auki meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna og minni á að sýna kærleika, aðgát og umhyggju. Sem tákn um þann vilja okkar og samstöðu með þeim sem þjást erum við hvött til að klæðast gulu. Guli dagurinn var 7. september en hvatningin um að klæðast gulu gildir allan mánuðinn.
Gulur merkir líf og aðgát
Um allan heim tengir fólk gulan lit við sólina, birtuna og lífgefandi ylinn sem streymir frá henni. Gulur felur líka í sér aðvörun, eins og við sjáum af umferðarskiltum víða í veröldinni. En fyrst og fremst kallar guli liturinn fram bjartsýni og gáska og minnir á sólríka daga. Hann eykur orku og stuðlar að auknum samskiptum á milli fólks, segja þau sem vit hafa á litafræðum, örvar taugakerfið og eykur athygli og sköpunargáfu.
Gulur er litur sjálfsvígsforvarna, ef til vill út af öllu þessu. Gulur minnir okkur á birtuna og hlýjuna, á lífið sjálft, því ekkert fær lifað án sólarljóss, hvetur til gleði og aukinna samskipta. En gulur getur líka verið okkur áminning um að þegar birtan í hjartanu fölnar og lífsmagnið dvín þurfum við að staldra við og hlú að sjálfum okkur og hvert að öðru og sækja okkur faglega aðstoð þegar svo ber undir.
Tímabil sköpunarverksins
Allur september og fram til 4. október er líka Tímabil sköpunarverksins í kirkjum víða um heim. Litur kirkjuársins um þessar mundir er grænn, sem á auðvitað vel við þegar við fögnum fegurð jarðar og minnum hvert annað á að annast og gæta að lífríkinu. Sumar kirkjur hafa þó bætt við rauðgula litnum – appelsínugulum – sem er litur uppskeru, frjósemi og gleði og var notaður í kirkjulegu samhengi til forna. Sá litur minnir okkur á sólarlagið sem sífellt færist framar þegar daginn tekur að stytta og laufin sem skipta litum í hringrás árstíðanna.
Rauðgulur er - eins og gulur - táknmynd fyrir þrek og styrk, jákvæða orku og andlega örvun. Hann er litur elds og loga, rauður litur ástríðunnar, mildaður af gula lit viskunnar, segir á einum stað. Sem litur haustsins myndar rauðgulur brú milli tveggja andstæðra þátta, sumarhita og vetrarsvala. Eins og gulur styrkir hann félagsleg tengls og endurspeglar hlýju og glaðværar tilfinningar, hefur jákvæð áhrif á hormónabúskapinn okkar og svo eru appelsínugul matvæli einstaklega holl.
Það fer vel á því að lyfta upp Gulum september og samtímis minnast rauðgula Tímabils sköpunarverksins. Gulur september er okkur hvatning til að hlú að tengslum við hvert annað. Rauðgula tímabil sköpunarverksins felur í sér hvatningu og áminningu um að hlú að tengslum okkar og umgengni við Jörðina, okkar sameiginlega heimili.
Leitum hjálpar
Því hættumerkin eru víða, lífríkið lætur á sjá, heilu tegundirnar hafa tapast, umhverfisváin vekur ugg í brjósti. Umhverfiskvíði bætist ofan á aðra vanlíðan okkar og barnanna okkar. Því er svo mikilvægt að við höldum vöku okkar og leitum aðstoðar ef við sjálf eða einhver í umhverfi okkar, heima, í skóla, á vinnustað, sýnir merki um vaxandi vanlíðan og minnum okkur á að biðja um kjark til gera það sem við getum gert og æðruleysi gagnvart því sem við fáum ekki breytt.
Á heimasíðunni sjalfsvig.is segir: „Ef þér finnst lífið stundum ekki þess virði að lifa því, leitaðu þá hjálpar. Ef þú hefur áhyggjur af ástvini, vini eða vinnufélaga ræddu það við viðkomandi. Það hjálpar að deila líðan sinni með öðrum.“
- Símaráðgjöf Heilsuveru 1700 og netspjallið á vefnum heilsuvera.is (opið alla daga frá 8-22)
- Hjálparsími Rauða krossins 1717 og netspjallið á 1717.is (opið allan sólarhringinn)
- Píetasíminn 552 2218 (opið allan sólarhringinn), sjá pieta.is
- Ef hætta steðjar að hringjum við í 1-1-2
Við getum líka leitað á vettvang kirkjunnar, til presta og djákna og í ýmiskonar hópastarf sem víða er í boði. Við erum mörg sem leitum styrks í kristinni trú í gleði og sorg og öllu þar á milli. Bænin er bæði samtal og samfélag við Guð. Þegar við tökum frá tíma til að hvíla og gleðjast í Guði, í einrúmi eða með öðrum, erum við að hleypa lækningu Guðs inn í líf okkar. Nærvera Guðs eflir og hreinsar, endurreisir og byggir upp.
Lækir lifandi vatns
Í Biblíunni er vatn gjarna notað sem líking yfir lækningu Guðs og endurnýjun. Í Jóhannesarguðspjalli talar Jesús um ,lifandi vatn´ (Jóh 4.10-11) og ,læki lifandi vatns´ (Jóh 7.38). Og í Opinberunarbók Jóhannesar (21.6) segir Jesús: „Ég mun gefa þeim ókeypis, sem þyrstur er, af lind lífsins vatns.“
Hjá Jeremía spámanni er Guði lýst sem ,uppsprettu lifandi vatns´ (Jer 2.13) og ,lind hins lifandi vatns´ (Jer 17.13) og í Davíðssálmum sem ,uppsprettu lífsins´.
Jeremía spámaður gefur okkur mynd af tré við læk (Jer 17.7-8):
Blessaður er sá maður sem treystir Drottni,
Drottinn er athvarf hans.
Hann er sem tré, gróðursett við vatn
og teygir rætur sínar að læknum,
það óttast ekki að sumarhitinn komi
því að lauf þess er sígrænt.
Það er áhyggjulaust í þurru árferði,
ber ávöxt án afláts.
Guð er uppspretta lífsins
Guð er uppspretta lífsins, okkar lífgefandi lind, segja þessir textar okkur og trúarreynslan tekur undir þá sýn. Í því trausti eykst okkur von og bjartsýni og það sem áður virtist óyfirstíganlegt verður einhvernvegin léttara og bærilegra, bæði lífríkisvandinn og lífsvandinn hið innra. Það þýðir ekki að við eigum að sitja með hendur í skauti og aðhafast ekkert heldur að við finnum léttinn í að fela þetta allt í hendi Guðs sem eflir okkur til dáða og eykur lífskraftinn svo að við berum ávöxt, gerum það sem er á okkar færi að gera. Já, Guð er okkar uppspretta.
Yfirskriftin að Tímabili sköpunarverksins er að þessu sinn sótt til Amosar spámanns (5:24): „Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur.“ Og áðan heyrðum við lesið frá Jesaja spámanni:
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Þarna er að finna traustið og vonina sem getur verið okkur grundvöllur góðra verka í þágu alls sem lifir.
Laugin Betesda
Guðspjall dagsins er úr fimmta kafla Jóhannesarguðspjalls (Jóh 5.1-15):
Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“
Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“
Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.
En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“
Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“
Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“
En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum.
Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“
Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.
Guð er okkar uppspretta. Í þessu guðspjalli heyrum við um laug nokkra við Sauðahliðið í Jerúsalem sem kennd er við Betesda. Þetta hebreska orð (beth hesda) merkir hús náðar, gæsku, umhyggju. Við þessa laug beið maður sem hafði átt við vanda að stríða, verið sjúkur, í 38 ár. Það er langur tími, jafnvel heil mannsævi á þeim tíma. Hann hafði glímt við veikindi frá því áður en Jesús fæddist.
Jesús sér og veit
Þrátt fyrir langt veikindaferli gaf maðurinn ekki upp vonina. Hann mætti vongóður hvern einasta dag að lauginni – eða var þar dag og nótt, hver veit – og treysti því að að röðin kæmi að honum. Hann var hins vegar ekki að leita að Jesú. Hann vissi ekki einu sinni hver Jesús var. Það var Jesús sem kom til hans, leitaði einmitt hann uppi. Hvað hrjáði manninn nákvæmlega vitum við ekki. En við vitum að hann var fastur í aðstæðum sínum, ófær um að halda áfram eða breyta kringumstæðum sínum. Eitthvað íþyngdi honum sem honum var um megn að takast á við í eigin mætti.
Jesús sá manninn þar sem hann lá og vissi um aðstæður hans, að hann hafði verið lengi sjúkur. Þeir þekktust sem sagt ekkert en við lesum á öðrum stöðum í guðspjöllunum að Jesús hafði vitneskju um hluti án þess að einhver segði honum það. Jesús sér og veit.
Viltu verða heill?
Og svo spurði Jesús: „Viltu verða heill?“ Hvernig spurning er það, Jesús? Viltu verða heil? Auðvitað vil ég verða heil!
Jesús spyr. Jesús vill heyra frá okkur að við viljum verða heil, að við séum tilbúin að komast af mottunni okkar, fara frá því sem við þekkjum út til þess nýja, óþekkta. Og í svari sínu viðurkenndi maðurinn vanmátt sinn: „Mig vantar aðstoð.“ Kannski vonaðist hann til að nú væri maðurinn kominn sem gæti hjálpað honum að komast á undan öðrum í laugina.
Hjálparlaust gat hann ekki leyst vanda sinn en hann sýnir Jesú dýpi örvæntingar sinnar: „Enginn hjálpar mér. Ég megna ekki að lyfta sjálfum mér upp úr eymd minni.“ Þegar við erum niðurdregin, föst í sársaukafullum aðstæðum er eins og við verðum lömuð. Aðstæðurnar eru lamandi og við sjáum enga leið út.
Motta sársaukans
En Guð veit og Guð sér. Ef við höldum okkur á mottu sársauka okkar erum vð kannski ekki tilbúin að láta hræringu heilags anda breyta lífi okkar. Ef við erum föst í rekkjunni, á mottunum okkar, andlega talað, erum við kannski ekki tilbúin til að taka á móti kraftaverkinu sem Jesús er þegar búinn að vinna í lífi okkar.
Hjálpin sem Jesús kom með inn í líf veika mannsins var ekki sú sem hann vænti, einhver sem myndi bíða með honum þar til engillinn hræðri vatnið næst og koma honum ofaní áður en einhver annar sigraði lækningakapphlaupið. Þess í stað gerðist eitthvað óvænt: Tak rekkju þína og gakk!
Oft einblínum við á eina lausn á vanda okkar. Við sjáum bara það sem við viljum sjá. En gjafir Guðs takmarkast ekki við fábrotið ímyndunarafl okkar.
Við erum ekki þjáning okkar
Og svo verður hræring vatnsins. Ekki í lauginni sem kennd er við hús umhyggjunnar. Hún verður innra með manninum við það að mæta Jesú, sem er umhyggja Guðs holdi klædd. Það stendur ekkert um að trú mannsins hafi bjargað honum. Hér er ekkert rætt um trú en trúin sést í verkinu, að maðurinn stóð upp, tók sæng sína og gakk, treysti orði Jesú, þvert á sína fyrri reynslu.
Þarna erum við minnt á að við erum ekki þjáning okkar, eymd okkar. Við erum elskuð börn Guðs. Við getum þraukað í gegnum þá freistingu að missa von eða falla í örvæntingu. Guð mun hjálpa okkur að halda áfram í gegnum þreytu langvarandi þjáningar. Frelsari okkar vill hressa okkur við með því að hræra í laug sálar okkar þegar við komum til hans í bæn.
Við eigum öll okkar "38 ár" - okkar sársaukafullu tímabil í lífinu. Einnig þau getur Guð leyst. Við getum aðeins þekkt þá endurlausn ef við höldum í traustið og vonin. Bjóðum Jesú, umhyggju Guðs, uppsprettu okkar, lífsvatninu sjálfu, að hræra í vatni sálar okkur og treystum á það sem Guð hefur í vændum fyrir okkur.
Syndga ekki framar
Hvað með síðustu orð Jesú til mannsins? „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Hvernig eigum við að skilja þetta? Er þá sjúkdómur afleiðing syndar? Það var almenn trú á tímum Jesú að svo væri, eins og orð lærisveina hans í 9. kafla Jóhannesarguðspjalls minna á:
Á leið sinni sá Jesús mann sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“
Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“
Þarna andmælir Jesús tenginguna á milli syndar og sjúkdóms. Hann segir: Það er þannig, að þessi maður er blindur. Það hefur ekkert að gera með syndir hans eða foreldra hans. Hvað orsakaði þessa fötlun vitum við ekki. Það sem við vitum er að þegar hægt er að bæta úr aðstæðum einhvers gerum við það. Það er verk Guðs að beina ljósi inn í myrkur. Verum þátttakendur í því verki.
Aðvörun Jesú
Hér, í tilviki læknaða mannsins frá Betesda-laug, kemur Jesús með áminningu um að forðast að syndga. Gríska orðið að syndga merkir að missa marks, taka ákvarðanir sem leiða til ills en ekki góðs, stunda myrkraverk en ekki ljóssins verk, fólskuverk en ekki góðverk. Jesús hefur séð eitthvað í lífi mannsins sem olli því að hann þurfti á þessari áminning að halda. Eitthvað var það sem maðurinn hafði tilhneigingu til að gera sem Jesús sá og vildi vara hann við.
Íslenska orðið synd er skylt orðinu sundrung. Stundum er eins og verði sundrung í lífi okkar, fjarlægð við annað fólk, við náttúruna, við okkur sjálf, við Guð. Hvers kyns sundrung, ekki síst þegar kemur að tengslum á milli fólks, getur leitt til miður góðra hluta. Firring er annað orð, fjarlægð á milli fólks, fjarlægð við Guð, fjarlægð við okkur sjálf, fjarlægð við náttúruna, sköpunarverkið.
Að viðurkenna vanmátt sinn
Sundrung og firring eru fyrirbæri sem við öll þekkjum og sem standa í vegi kærleikans og hindra vöxt og grósku í líf okkar, annars fólks og náttúrunnar. Stundum er eins og við stöndum magnþrota frammi fyrir vanda, eigin eða annarra, og getum ekkert aðhafst. Þá er mikilvægt að viðurkenna vanmátt sinn, leita sér aðstoðar. Við erum öll samtengd hvert öðru – og öllu sem lifir. Við þurfum á hvert öðru að halda. Við erum hvert öðru háð og þurfum á gagnkvæmum stuðningi, bera saman byrðina og deila bjargráðum.
En ákvarðanir sem ekki byggja á kærleika og góðvilja geta leitt til slysa og sjúkdóma. Augljósasta dæmið er að aka farartæki undir áhrifum áfengis eða annarra fíkniefna. Ekki aðeins eigum við á hættu að skaða okkar eigin líf heldur einnig líf annarra. Hvers kyns áhættuhegðun getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur sjálf og aðra.
Áhættuhegðun
Á heimasíðunni 112.is eru nefnd dæmi um áhættuhegðun: Vímuefnaneysla, sjálfskaði, ofbeldi gagnvart öðrum og afbrot. Áhættuhegðun á sér yfirleitt einhverja forsögu. Vanlíðun, geðrænir erfiðleikar, skortur á viðeigandi aðstoð og vanhæfni í samskiptum er meðal þess sem talað er um sem orsakir slíkrar hegðunar. Þar að baki geta legið ýmis konar áföll, einelti, höfnun, ofbeldi, vanræksla, lélegt sjálfstraust, lágt sjálfsmat. Brotin tengsl eru líka nokkuð sem getur átt þátt í að hindra allt það góða sem í okkur og börnunum okkar býr til að ná að blómgast og dafna.
Þegar um börn og ungmenni er að ræða er ábyrgð okkar foreldra og annarra umönnunaraðila mikil. Stundum hefur myndast munstur sem líkt og erfist milli kynslóða. Barn sem beitt er ofbeldi er líklegra til að beita ofbeldi sjálft þegar það verður fullorðið. Til að rjúfa það munstur þarf mikinn kærleika, umhyggju og góðan vilji margra aðila.
Björgun úr óvæntri átt
Stundum dugar það ekki til. Stundum er það þannig að við stöndum ráðþrota gagnvart vanda í eigin lífi eða annarra. Þá skiptir ástæðan kannski ekki öllu máli. Þetta er bara svona. Við komumst ekki af mottunni, ef svo má segja, erum föst á sama stað, á okkar rekkju, og bíðum þess að einhver bjargi okkur.
Ef til vill erum við að bíða eftir að einhver bjargi okkur. Guðspjallsfrásaga dagsins kennir okkur að þessi einhver gæti komið úr óvæntri átt, einhver, hann eða hún eða hán, sem við þekkjum sem sýnir á sér nýja hlið, einhver sem við tengjumst á nýjan hátt eða alveg upp á nýtt. Annað fólk getur miðlað snertingu Guðs sem við vorum áður ekki meðvituð um, nú eða að við sjálf verðum öðrum til heilla á einhvern hátt – sem oftar en ekki gefur vöxt og grósku inn í okkar eigið líf. Höfum augun opin og missum ekki traustið og vonina. Eitthvað gott á eftir að gerast í dag – jafnvel 38 árum síðar.
Fimm leiðir að vellíðan
Á síðunni heilsuvera.is má finna Fimm leiðir að vellíðan. Þær eru eftirfarandi - í lauslegri endursögn og heimfærslu inn í kirkjulega samhengið:
1. Myndaðu tengsl – og ræktaðu tengslin við fólkið í kring um þig, fjölskyldu, vini, samstarfsfólk og nágranna, heima, í vinnunni, í skólanum – og kirkjunni. Gefðu þér tíma til að hlú að tengslum við annað fólk, að gera eitthvað saman og skapa góðar minningar, til dæmis með góðu spjalli yfir kaffibolla eftir messu, á foreldramorgnum, í karlakaffinu, eldriborgarastarfinu, prjónaklúbbnum, kvenfélaginu. Það styrkir þig og auðgar líf þitt – og þeirra sem þú tengist.
2. Hreyfðu þig: Farðu út að ganga eða í sund. Njóttu útivistar. Hjólaðu. Farðu í leiki. Ræktaðu garðinn. Dansaðu. Hreyfing færir þér vellíðan. Það er mikilvægasta er að finna hreyfingu sem þú hefur gaman af og hentar líkamlegu ástandi þínu og getu. Svo má efla tengslin með því að fá vin eða fjölskyldumeðlim með í hreyfinguna, til dæmis að ganga saman eða hjóla til kirkju í fjölbreytta starfið okkar!
3. Taktu eftir: Haltu í forvitnina. Taktu eftir hinu óvenjulega. Veittu árstíðabreytingum athygli. Njóttu augnabliksins, hvort sem þú ert úti að ganga, að borða hádegismat eða tala við vini þína. Vertu vakandi fyrir veröldinni í kringum þig og hvernig þér líður. Að leiða hugann að því sem þú upplifir hjálpar þér að meta það sem skiptir þig máli. Á kyrrðarbænastundum hér í Grensáskirkju á fimmtudögum kl. 18.15 æfum við okkur í að hvíla með Guði og opna okkur fyrir ást Guðs og verki í lífi okkar. Það eflir einhug okkar, eftirtekt og samstöðu með öllu sem er. Svo er hægt að fara inn á Fésbókarsíðu Grensáskirkju og finna þar myndbönd með leiddri núvitundaríhugun sem miðar einmitt að því að vera vakandi í augnablikinu núna og taka eftir líðan sinni og skynjun.
4. Haltu áfram að læra: Prófaðu eitthvað nýtt. Rifjaðu upp gamalt áhugamál. Skráðu þig á námskeið. Taktu að þér ný verkefni. Lærðu að spila á hljóðfæri eða elda uppáhaldsmatinn þinn. Settu þér markmið sem þú munt hafa gaman af að ná. Það er skemmtilegt að læra nýja hluti og eykur sjálfstraustið. Hér í kirkjunni bjóða samtökin Vinir í bata upp á 12-spora starf fyrir öll þau sem vilja styrkja sjálfsmynd sína og efla tengslin í gefandi hópastarfi. Opnir fundir eru núna í nokkur skipti í september á fimmtudagskvöldum kl. 19.15.
5. Gefðu af þér: Gerðu eitthvað fallegt fyrir vin þinn eða ókunnuga manneskju. Sýndu þakklæti. Brostu. Gefðu af tíma þínum. Taktu þátt í félags- eða sjálfboðastarfi, til dæmis í kirkjunni þinni í messuhópi eða öðru hópastarfi. Horfðu út á við og líka inn á við. Að líta á sig og hamingju sína sem hluta af stærra samhengi getur verið einstaklega gefandi og eflir tengslin við fólkið í kringum þig.
Þannig segir á síðunni heilsuvera.is – með smá heimfærslu til kirkjustarfsins. Í Gulum september erum við öll hvött til að hlú að eigin geðheilsu og annarra og þetta eru góð ráð til þess. Sérstaklega mikilvægt er að minna á að ef við eða einhver í umhverfi okkar glíma við sjálfsvígshugsanir, eða ef við erum í þeim þungu sporum að hafa misst ástvin í sjálfsvígi, ættum við ekki að hika við að leita okkur faglegrar aðstoðar. Á heimasíðu Landlæknisembættisins er að finna mikilvægar upplýsingar um sjálfsvígsforvarnir og ástvinamissi vegna sjálfsvígs og eins á síðu Sorgarmiðstöðvar, sorgarmidstod.is.
Umhyggjan
Gulur september, rauðgula Tímabil sköpunarverksins. Þetta tvennt er samtengt, umhyggja fyrir sköpunarverkinu og umhyggja fyrir náunganum. Kærleiksþjónustan sem við töluðum um síðastliðinn sunnudag nær yfir hvort tveggja, já, allan hnöttinn okkar, okkar sameiginlega heimili, öll og allt sem á honum býr.
Verkefnin eru vissulega stór og mörg. Heimili okkar, jörðin, líður fyrir bæði verk og vanrækslu okkar. Sama gildir um okkur sjálf og aðrar manneskjur. Við líðum fyrir bæði eigin verk og vanrækslu og verk og vanrækslu annarra. Við þurfum öll á áminningu Jesú að halda, áminningunni um að vinna ljóssins verk meðan dagur er. „Réttvísi skal streyma fram sem vatn og réttlæti sem sírennandi lækur,“ segir Amos spámaður. Réttlæti og réttvísi er lykillinn að umhyggju fyrir sköpunarverkinu í heild sinni og þarf að fá að streyma fram eins og vatnið, tákn lífsins, eins og sírennandi lækur.
Berum ávöxt
Látum okkur ekki fallast hendur. Treystum Guði, verum eins og tré, gróðursett við vatn og teygir rætur sínar að læknum og ber því ávöxt án afláts, eins og Jeremía spámaður segir. Þjónum á þann hátt sem við getum, í gæsku og umhyggju fyrir náttúru og náunga. Það þarf ekki að vera flókið. Höfum í huga orð móður Teresu sem er að finna í nýju sálmabók þjóðkirkjunnar við sálm númer 515 sem við sungum hér í Grensáskirkju síðasta sunnudag:
Verið lifandi dæmi um gæsku Guðs. Gæska í andlitum ykkar, gæska í augum ykkar, gæska í brosi ykkar og gæska í ykkar hlýju kveðju.
Gæska Guðs – í orði og verki. Verkefnið er stórt en við gerum okkar besta, minnug orða móður Teresu sem vitnað er í á öðrum stað.
Það sem þú gerir – get ég kannski ekki gert
Það sem ég geri – getur þú kannski ekki gert.
En við öll, saman,
Gerum eitthvað fallegt fyrir Guð.
Gerum eitthvað fallegt fyrir Guð, í kærleiksríkri þjónustu við fólkið í kring um okkur, fólk á fjarlægum stöðum og umhverfið gott og blessað. Já blessum hvert annað í anda gula og rauðgula litarins, sem er táknmynd fyrir þrek og styrk, jákvæða orku og andlega örvun, með því að efla félagsleg tengsl og endurspegla hlýju og glaðværar tilfinningar og leggja okkar að mörkum til að skapa heilbrigðara umhverfi í friði og jafnvægi.