Prédikun í Grensáskirkju 8. ágúst 2021
Biðjum:
Þakka þér, lifandi Guð, fyrir nálægð þína hér í dag. Þakka þér fyrir að þó að lífið sé skin og skúrir til skiptist þá sameinast þetta tvennt í regnboganum sem er tákn um frið og jafnvægi. Amen.
Við heyrðum áðan lestur úr Harmljóðunum (Hlj
5.1, 15, 19-21).
Minnstu þess,
Drottinn, hvað hefur á oss dunið [...]
Fögnuður
hjartna vorra er horfinn,
gleðidans vor snúinn í sorg. [...]
Þú, Drottinn, ríkir að eilífu,
hásæti þitt stendur frá kyni til kyns.
Hví hefur þú gleymt oss með öllu,
yfirgefið oss svo lengi?
Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér aftur,
endurnýja daga vora eins og til forna.
Þessi lestur er úr fimmta og síðasta kafla Harmljóðanna, sem kallaður hefur verið „bæn til Guðs um líkn“ (Ásmundur Guðmundsson 1933). Þar er játað allt það erfiða sem átt hefur sér stað en Guð fær að vera með í lífsreynslunni og ákallinu: „Guð af hverju hefur þú gleymt okkur?“ Við þekkjum þessa reynslu úr eigin lífi, við höfum lagt mál okkar í hendur Guðs og svo gerist eitthvað allt annað heldur en það sem að okkar skilningi er gott.
Harmljóðin eru samsafn ljóða sem eiga sér bakgrunn í miklum harmleik þegar borgin Jerúsalem hafði verið eydd (árið 586 fyrir Krist) og margir íbúa hennar herleiddir til Babýlon. Það er stef sem kemur víðar fyrir í Gamla testamentinu, ekki síst í spádómsbók Jeremía. Í því stefi sjáum við speglast þá reynslu að stundum finnst okkur eins og Guð hafi yfirgefið okkur og við skiljum ekki hvers vegna lífið er eins og það er.
Hörmungar eru oft lengi hafðar í minni. Þannig minnumst við þessa dagana hryllingsins sem dundi yfir Hiróshima (6. ágúst) og Nagasaki (9. ágúst) með fárra daga millibili í ágúst árið 1945. Þessu gleymum við ekki og viljum heldur ekki gleyma. Ástæðan fyrir því að við minnumst hörmunga er að við viljum ekki að þær endurtaki sig. Við erum að vona að við lærum eitthvað af reynslunni svo að koma megi í veg fyrir samskonar harmleiki síðar.
Við höfum heldur ekki gleymt ofsóknum nasista og kommúnista í aðdraganda og kjölfar síðari heimstyrjaldarinnar og ekki síst á meðan á henni stóð. Þær ofsóknir beindust fyrst og fremst að Gyðingum en einnig ýmsum öðrum, til að mynda samkynhneigðum.
Því miður er það svo enn í dag að Gyðingahatur er raunveruleg staðreynd víða í Evrópu. Við vitum líka öll að samkynhneigt fólk verður enn fyrir aðkasti og láta jafnvel lífið vegna kynhneigðar sinnar. Það er ekki bara í fjarlægjum löndum sem það gerist, löndum þar sem samkynhneigð varðar dauðarefsingu sem enn er tilfellið á nokkrum stöðum í heiminum.
Í sumar bárust þær fréttir að samkynhneigður
maður í borginni A Coruna í Galasíu á Spáni hafi verið barinn til dauða á
fjölfarinni götu. Einhver okkar hafa kannski gengið um álíka götu, frjáls ferða
okkar og full lífsgleði. Á fréttamiðlinum Vísi sagði frá þessum atburði 6. júlí
2021:
Þúsundir hafa leitað á götur úti í borgum og bæjum á
Spáni til að krefjast réttlætis, jafnréttis og verndar eftir að samkynhneigður
maður var myrtur af hópi manna. Lögregla telur að árásarkveikjan hafi verið
fordómar árásarmannanna fyrir hinsegin fólk.
Samuel Luiz, 24 ára gamall sjúkraliði, var úti á lífinu
með vinum sínum í borginni a A Coruna í Galasíu á aðfaranótt laugardags þegar
rifrildi braust út milli hans og tveggja manna.
Vinur Luiz sagði í samtali við El Mundo að hann hafi
farið út af skemmtistaðnum til að hringja myndsímtal þegar tveir menn sem gengu
hjá sökuðu hann um að taka þá upp á myndband. Luiz hafi þá útskýrt fyrir þeim
að hann væri að tala við vin sinn en að annar maðurinn hafi þá ráðist á hann og
barið hann í andlitið.
Aðeins fimm mínútum síðar hafi árásarmaðurinn snúið aftur
með tólf til viðbótar. Réðst hópurinn á hann og missti Luiz meðvitund eftir
átökin. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann dó seinna um morguninn.
Árásin er nú til rannsóknar en hún hefur vakið mikla
reiði víða um Spán og var mótmælt víðsvegar í gær, þar á meðal í A Coruna,
Madrid, Barcelona, Valencia, Salamanca, Bilbao og Zaragoza. Mótmælendur héldu
margir á skiltum sem á stóð „Hinseginfordómar þínir eru að drepa okkur.“
Þetta er kannski ekkert huggulegur boðskapur á fallegum sumardegi en við komumst ekki hjá því að minnast þess að enn í dag er saklaust fólk er myrt til að mynda vegna uppruna síns, kynhneigðar og lífsskoðana.
Í dag lýkur hinsegin dögum hér á Íslandi, að vísu án gleðigöngunnar sem hefði átt að vera í gær, en ýmsir viðburðir hafa verið hér og þar um borgina. Frá hörmungum og Harmljóðum þurfum við að beina sjónum að gleðinni, gleðinni yfir því að mega vera til og vera eins og hvert og eitt okkar nú er. Hún má aldrei gleymast. Því þó við munum hörmungarnar kannski lengst og best, vonandi til gagns svo að sama sagan endurtaki sig ekki í sífellu, er það samt gleðin sem við höfum mesta þörf fyrir.
Við sjáum þetta í okkar eigin lífi. Öll höfum við upplifað einhverjar persónulegar hörmungar. Ef við festum okkur þar, í því sem að hefur verið erfitt, í hörmungarhyggjunni, á enginn vöxtur sér stað. Það er eins og allt skreppi saman þegar það eru hörmungarnar sem ráða ferð. Vöxturinn verður í gleðinni, í gleðidansinum sem að ljóðskáldið í fimmta kafla Harmljóðanna saknar. Gleðidansinn. Í gleðinni felst vaxtarbroddurinn, að geta losað sig undan því sem var vont og ganga fram í því sem er gott.
Það er endilega ekki þannig að við eigum að gleyma því sem aflaga hefur farið, ekki láta eins og það hafi aldrei verið til, heldur nota það til þess að minna okkur á ef við ætlum út af brautinni aftur. Og þá kemur í hugann völundarhús í Laugardalnum sem er mótað með steinhellustíg sem færir nær og fjær miðjunni uns henni er náð og síðan aftur til baka eftir krókaleiðum.
Gangan inn að miðjunni ber heitið Fyrirgefning. Hún minnir á flókna vegferð fyrirgefningarinnar þar sem við vinnum með bæði það sem aðrir hafa gert okkur og það sem við höfum gert öðrum. Að ganga í fyrirgefningunni felur líka í sér að stundum er ekki hægt að fyrirgefa, mannlega talað, og það er bara þannig. „Sár þitt er stórt eins og hafið, hver gæti læknað þig?“ spyr ljóðskáldið þjóð sína (Harmljóðin 2.13). Þá kannski hjálpar að finna að við erum öll í sama báti á einhvern hátt, við erum á þessari siglingu saman, eigum öll okkar sár og mein og sundraðan kærleika sem við ráðum ekki við. Og sannarlega hjálpar finna að þegar allt kemur til alls þá er það Guð sem er þessi Fyrirgefning sem við fáum að ganga inn í með okkar djúpu sár.
Þegar kemur inn í miðjuna segir skiltið við völundarhúsið í Laugardalnum að þar sé tákn fyrir Frelsið. Frelsið felst til dæmis í því að leyfa öllum hörmungunum að detta af okkur á leiðinni, á þessari fyrirgefingargöngu. Og svo gangan út, sem er alveg jafn löng og gangan inn, hún heitir Friður. Þá göngum við með fyrirgefninguna og frelsið í hjartanu áfram friðarveginn af því að það hefur komist á einhvers konar jafnvægi, einhvers konar sátt í lífi okkar.
Regnboginn minnir okkur á friðinn. Guð gaf Nóa og fjölskyldu hans regnbogann sem sáttmálstákn (1Mós 9.12-17), friðartákn. Regnboginn rúmar hvort tveggja, sorgina, hörmungarnar, hryllinginn annars vegar og hins vegar gleðina, lífið, kærleikann. Það þarf sól og regn til að búa til regnboga. Fegurðin felst í þeim kjarna lífins sem rúmar hvort tveggja. Þessi yndislega litadýrð verður bara til í sameiningu skúranna dimmu og sólargeislanna björtu.
Þegar við getum afhent Guði allt sem aflaga hefur farið, sleppt tökunum á því, fundið fyrirgefningu innra með okkur sjálfum – sem þýðir ekki að við samþykkjum það vonda sem hefur átt sér stað gagnvart okkur eða öðrum – heldur að við getum gefið eftir, fundið þetta frelsi sem fylgir því og gengið út með friðinn með okkur.
Því segir skáldið í 3. kafla Harmljóðanna (vers 21-26), sem er eins og límið á milli kaflanna fimm og ber ljós inn í myrkrið:
En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.
Þetta fallega ljóð minnir okkur á að sama hvað á gengur þá eigum við alltaf okkar frelsis- og friðarhöfn þangað sem við getum sótt okkur næringu og jafnvægi. Vonin er okkur er gefin til þess að færa hana áfram inn í þennan blessaða heim sem er nú bara svona eins og hann er en við getum samt haft áhrif á, hvert og eitt, meira en okkur grunar.
Og svar Jesú í guðspjalli dagsins við spurningu samversku konunnar sem hann mætti við við brunninn er á sömu nótum (Jóh 4.19-26):
[Samverska] konan segir við [Jesú]: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður.
Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá
staður þar sem tilbiðja skuli.“
Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú
stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í
Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við
þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú
komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika.
Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga
að tilbiðja í anda og sannleika.“
Konan segir við hann: „Ég veit að Messías
kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“
Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
Deilur um hvar eigi að tilbiðja Guð – og þá líka hvernig – tilheyra liðinni tíð, segir Jesús fyrir tvö þúsund árum. Hvar og hvernig er algjört aukaatriði. Það er enginn sem hefur rétt fyrir sér í þeim efnum því Guð á að tilbiðja í anda og sannleika. Guð er ekki siðvenjur eða sagnfræði. Guð er ekki hörmungarhyggja eða hinseginfóbía. Guð er andi, Guð er gleði, Guð er líf. Á einhvern leyndardómsfullan og undursamlegan hátt sameinar Guð hvort tveggja, ljósið og myrkið, hörmungarnar og gleðina og gefur okkur regnbogann sem tákn um það, lífsins vatn og lífsins ljós, hvort tveggja hluti af heild, allt hluti af þeirri heild sem lífið er.
„Ég er hann, ég sem við þig tala,“ segir Jesús og tengir sig þannig við Guð Móse og Mirjam (2Mós 3.13-14). „Ég er,“ segir Jesús og leysir okkur þar með undan lífseyðandi viðhorfum og mannskemmandi afstöðu. „Ég er,“ segir Jesús, leyfðu lífinu að flæða, leyfðu lífsdansinum að taka þig með sér. „Ég er,“ segir Jesús, já ég er hér til að mæta þér.
Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi,
varðveiti hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen.