Þurfum við Íslendingar frelsara?

Þurfum við Íslendingar frelsara?

Við veltum fyrir okkur hér ýmsu því sem einkennir íslenska þjóð og spyrjum: Þurfum við á frelsara að halda?

Guðspjall: Lúk 24.44-53

Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“

Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“

Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.


Glöggt er gestsaugað” segir í gömlum málshætti.

Mér þykir það áhugavert að heyra hvernig Ísland og Íslendingar koma konunni minni fyrir sjónir en hún er sjálf frá Argentínu.

Það sem hún segir mér að eitt helsta einkenni Íslendinga sem hún hefur tekið eftir er vinnusemi og dugnaður. Ég hugsa að það sé heilmikið til í því. Við höfum löngum vel kunnað að meta það mikils að fólk leggi sig hart fram í vinnu. Það á ekki síst við þau okkar sem hafa alist upp til sjávar eða sveita þar sem við vitum að það skiptir miklu máli að vera dugandi til sjós, í sauðburði, heyskap og leitum.

Paula konan mín á til dæmis ekki orð þegar hún fylgist með móður minni sem er komin vel á áttræðisaldur og er sístarfandi og virðist hafa takamarkalausa orku. Og Paula tekur líka eftir því að það er eins og við fyllumst oft sektarkennd ef við erum ekki síbrasandi eitthvað og reynandi að gera eitthvað gagnlegt. Það er þess vegna eins og erkisynd Íslendingsins sé letin og fátt verra en að fá þann stimpil að maður sé letingi og ónytjungur.

Það er auðvitað gott og blessað að við séum dugleg og skilum af okkur góðu verki. Það er líka gott held ég að við almennt berum virðingu fyrir öllum störfum bæði okkar eigin og annarra. Við berum höfuðið hátt, sama hvert starf okkar er svo lengi sem það er heiðarleg vinna sem við sinnum af trúmennsku. Þarna er dálítill menningarmunur á okkar landi og t.d. Argentínu þar sem stéttaskipting er meiri en hún er hér. Þar þykir það hálf skammarlegt að vinna með höndunum láglaunastörf sem þykja ekki merkileg eins og til dæmis þau að vera vinnukona, þjónn, smiður eða rafvirki.


Annað einkenni okkar Íslendinga er samstaða þegar á móti blæs og áföll dynja yfir. Samhugur okkar er sterkur þegar samlandar okkar verða fyrir barðinu á náttúruhamförum eins og snjóflóðum, skriðuföllum og jarðskjálftum og þegar mannlegir harmleikir eiga sér stað viljum við líka svo gjarnan veita þeim sem eiga um sárt að binda allan þann stuðning sem við mögulega getum.

 

Upp til hópa erum við þokkalega gott fólk sem reynir eftir bestu getu að lifa góðu og gagnlegu lífi. Við höfum sterka réttlætiskennd og siðaboðskapur kristinnar trúar þar sem náungakærleikur er grundvallargildi hefur gegnsýrt samfélag okkar um aldir og gerir enn.

 

Flest okkar viðurkennum að boðskapur Jesú sé bæði fagur og góður þannig að það eru ekki margir sem gera nokkurn ágreining um að Jesús sé stórkostlegur kennari með sinn einstaka boðskap um kærleikann. Almennt þekkjum við líka þokkalega vel Boðorðin 10 og reynum yfirleitt að fara svona sæmilega eftir þeim að vísu þó þannig að stundum höldum við að sum þeirra skipti minna máli en önnur.

 

Á jólum minnumst við þess að okkur er frelsari fæddur og vissulega kemur Jesús í heiminn til að vera frelsari okkar. En þá mætti spyrja. Við, þetta ágæta fólk sem við Íslendingar erum, þurfum við eitthvað á frelsara að halda? Er það ekki bara nóg að við gerum bara okkar besta og reynum að lifa þokkalega heiðarlegu lífi? Er það ekki bara nóg að við elskum fjölskyldu okkar og reynum eftir bestu getu að liðsinna náunganum þegar við getum? Er það ekki nóg að við höfum reynt að byggja upp réttlátt þjóðfélag með almannatryggingakerfi sem á að vera þetta öryggisnet sem ætti að grípa þá sem standa höllum fæti og góðu heilbrigðiskerfi sem sinnir þeim eru sjúkir á meðal okkar?

 

Freisting okkar allra er að svara þessu þannig að jú það er bara nóg að við gerum okkar besta. Þótt okkur verði að vísu stundum ýmislegt á þá verður jú öllum stundum eitthvað á og enginn er fullkominn. Og þegar okkur verður á, þá er það kannski heldur ekki svo alvarlegt. Við stöndum okkur vel í lífi og starfi og við getum líka bætt fyrir mistök okkar með því að gera gott. Með dugnaði okkar og því að við leggjum okkur öll fram hljótum við að komast á þann stað að Guð sé bara nokkuð ánægður með okkur.

 

Með slíkum svörum erum við í rauninni að segja: Nei! Við þurfum ekki á einhverjum frelsara að halda. Það er fínt að halda siðaboðskap Jesú í heiðri en við þurfum ekki á honum að halda sem frelsara okkar.

 

Með slíkri hugsun blekkjum við okkur sjálf stórkostlega. Með slíkri hugsun erum við að hafna kjarnanum í fagnaðarerindinu um Jesú Krist. Þegar kemur að því að standa réttlát frammi fyrir Guði dugir okkar íslenska eljusemi og dugnaður skammt. Þegar við gerum lítið úr mistökum okkar og afbrotum og vonum að Guð sjái í gegnum fingur sér við okkur áttum við okkur hvorki á réttlæti né heilagleika Guðs.

 

Jesús segir í fjallræðu sinni:

 

Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur skal svara til saka fyrir dómi. En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis.

 

Og svo segir hann:

 

Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt ekki drýgja hór. En ég segi yður: Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.

 

Hjálpi mér hamingjan!


Ef ég tek orð Jesú hér alvarlega, og það verð ég að gera, þá er niðurstaðan sú að ég er ekkert annað en morðingi og hórkarl sem hefur unnið til eldsvítis!

 

Þetta hljómar ekkert sérstaklega eins og fagnaðarerindi. Enda er þetta ekki fagnaðarerindið. Þetta er lögmálið og ég held að tilgangurinn með þessum orðum Jesú sé að sýna okkur að við erum fullkomlega ófær um að verða réttlát í eigin mætti.

 

Mér finnst svo góð setning í leikritinu Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner þegar þar er sagt um Mikka ref:

 

Vesalings Mikki. Hann reynir af öllum mætti að vera góður refur en refurinn er og verður refur.

 

Við getum sagt það sama um okkur sjálf: „Vesalings manneskjan Ægir. Hann reynir af öllum mætti að vera góð manneskja en manneskjan er og verður manneskja!“


Það var einmitt þetta sem Lúther sem kirkjan okkar kennir sig við, kvaldist yfir árum saman. Hann hataði orðið réttlæti því hann vissi að hann var ófær um það, alveg sama hvað hann reyndi. Og Lúther kvaldist þar til hann sá í ritningunni andsvarið við lögmálinu. Hann sá þar fagnaðarerindið og náð Guðs.

 

Fagnaðarerindið er þetta að:

 

Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann. Sá sem trúir á son Guðs dæmist ekki. Sá sem trúir ekki er þegar dæmdur því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina.

 

Það sem Lúther sá í ritningunni og gaf honum gleði og von var þessi texti í bréfi Páls til Rómverja:

 

En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.

 

Í guðspjalli dagsins heyrðum við Jesú segja:

 

Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda.

 

Jesús segir þeim að prédika öllum þjóðum að taka sinniskiptum og þiggja fyrirgefningu hans. Það hlýtur að þýða að okkar ágæta þjóð Íslendinga þarf líka á þessari sömu boðun að halda. Þrátt fyrir öll afbrot okkar er náð Guðs og miskunn hans meiri og stærri en þau. Við þurfum ekki að örvænta. Kristur hefur með dauða sínum á krossi greitt gjaldið fyrir afbrot okkar og fyrirgefning stendur öllum þeim til boða sem trúa á nafn Jesú Krists.


Kæru vinir. Okkur finnst það kannski þægilegt að heyra um afbrot okkar gegn Guði. En án þess getum við ekki skilið kærleika Guðs. Það er ekki fyrr en við sannarlega áttum okkur á því að við þurfum á frelsara að halda sem við sjáum dýptina í kærleika Guðs sem lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur. Það er þá sem fagnaðarerindið verður sannarlega að „fagnaðarerindi“. Fagnaðarerindi sem við gleðumst yfir og fyllir okkur af þakklæti fyrir kærleika Guðs, fyrir náð hans og miskunn okkur sjálfum til handa.

 

-----------------------------------------------------

 

Mér hefur alltaf fundist þessi frásögn um uppstigninguna dálítið tregablandin. Þarna er Jesús með vinum sínum í síðasta skipti líkamlega og þeir horfa á hann stíga upp til himins og smám saman hverfa sjónum þeirra. Kveðjustundir eru yfirleitt dálítið dapurlegar. En það merkilega sem við sjáum í textanum er það að lærisveinarnir snéru til baka til Jerúsalem með miklum fögnuði. Hvernig má það vera?

 

Ég held að lykilinn að því að skilja það sé fólgin í því að textinn segir frá því að Jesús lauk upp huga þeirra og þeir skildu ritningarnar. Loksins skildu þeir tilganginn með komu Krists. Tilganginum með þjáningunni, dauðanum og upprisunni. Og þeir glöddust og fögnuðu yfir þessu nýja lífi sem þeir áttu nú í Kristi. Þeir glöddust yfir fyrirheiti Jesú um það að vera með þeim fyrir heilagan anda alla daga, allt til endar veraldarinnar. Kristur í holdi á jörðinni gat ekki verið alls staðar og með öllum á sama tíma en þegar hann var nú uppstiginn til Föðurins á himnum getur hann verið með þeim og með okkur öllum alltaf. Það er sannarlega tilefni til þess að halda áfram lífsgöngunni, lofandi Guð með miklum fögnuði.

 

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.