Guðspjall þessa Drottins dags, sunnudagsins í föstuinngangi er úr 3. kafla Matteusar, og er um skírn Jesú:
„Þá kemur Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!“ Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og hann lét það eftir honum. En þegar Jesús hafði verið skírður, sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir, og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Matt. 3.13-17
Mannfjöldinn þrengdi sér að bökkum Jórdanar til að sjá og heyra spámanninn úr eyðimörkinni, Jóhannes. Heyra hann þruma gegn spillingu og guðleysi samtíðarinnar, og kalla til iðrunar og afturhvarfs, sjá hann skíra, og taka skírn af honum. Það var táknræn athöfn, tjáning þess að það vildi taka sinnaskiptum, iðrast synda sinna og ganga hinum komandi Messíasi á hönd. Endalaus virtist biðröð fólksins. Það var svo sannarlega litríkur hópur sem óð þarna út í strauminn, játaði syndir sínar og tók skírn.
Svo allt í einu birtist sá sem allt þetta snerist um: Messías, Kristur. En í stað þess að standa við árbakkann hinum megin, með máttinn og dýrðina og taka opnum örmum þeim sem frelsaðir og nýskírðir bröltu upp úr vatninu, þá tók hann sér stöðu í biðröðinni, innan um syndarana, tók undir grát þeirra og iðrunarbænir. „Þetta er alveg fráleitt, fær engan veginn staðist!“ hugsar Jóhannes þegar hann sér þetta. Reyndar var þetta hneykslunarefnið síðan hvar sem Jesús kom:„Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim!“ Þetta er háðung Hausaskeljastaðar: „Ef þú ert Guðs sonur þá stígðu niður af krossinum. Bjargaðu sjálfum þér!“ Hneyksli krossins. En einmitt í því hljómar okkur orð lífs og lausnar. Öllu réttlæti var fullnægt. “Fullkomnað allt hvað fyrir var spáð. Fullkomna skaltu eignast náð,” eins og Hallgrímur orðar það.
Jórdan. Við sjáum gjarna fyrir okkur glitrandi, tæra bergvatnsá, og heiðríkju og frið óspilltrar náttúru. Okkur er ótamt að hugsa um Jórdan eins og hún er, og var ugglaust, gruggug, menguð, og umhverfis allt annað en friðsæld og fegurð, heldur ys, ærusta, óreiða. Út í það veður Jesús, og vatnaskil verða í sögu trúarinnar, í sögu Guðs og manns. Guð tekur sér stöðu meðal syndaranna. Hann stendur hjá þér, þar sem þú ert, af því að hann vill taka á sig sár þín, sekt, ósigra og örlög öll. Skírn Jesú er vígsla hans til þeirrar köllunar. Þegar Kristur stígur niður í öldur Jórdanar sjáum við skugga falla á vatnsflötinn. Skugga krossins. Og við heyrum rödd Guðs og staðfesting: „Þessi er minn elskaði sonur.“ Trú okkar kristinna manna er andsvar við því. Jesús er Guðs son, sem hann hefur velþóknun á, sannur Guð. Í skírninni erum við vígð því, og við játumst markmiði Guðs með lífi manns og heims, í hvaða mynd hann vill móta það, hvaða mælikvarða hann leggur á það, hvaða augum hann lítur manninn, hvernig hann dæmir. Og við sjáum hvernig hann vill lækna þetta líf og heim, reisa upp og leið heim í föðurfaðminn himneska. Endurleyst líf, upprisið líf. Guð gerðist mannsbarn á jörðu til að gefa okkur himininn sinn. Með því helgaði hann mannlegt allt himninum sínum, lífið allt helgaði hann eilífð sinni.
Hér framan á skírnarfontinum fagra hefur Thorvaldsen meitlað mynd af skírn Jesú. Jesús hneigir í auðmýkt höfði sínu fyrir Jóhannesi, krossleggur hendur á brjósti. Jóhannes eys vatninu yfir hann með skel. Það er tákn. Í skelinni dylst perla. Í skírninni dylst sú dýrasta gersemi sem hugsast getur: Endurfæðing fyrir vatn og heilagan anda. Fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp.
Í skírn Jesú sjáum við fyrstu skrefin á langri leið lausnarans um skuggalendur lífs og heims, sorgar og neyðar, upp til Golgata og áfram lengra. Þetta er vegur okkar allra. Fyrr eða síðar leggjast sorgarskýin yfir, öll verðum við einhvern tíma feta dalinn dimma. En, segir fagnaðarerindið, þar er Kristur hjá og því er líkn í hverri raun og tári manns. Vegferð Krists hún liggur líka hér um, og hvar sem þú ert. Þegar þú varst skírð, þá var hann þar líka hjá, merki krossins og birta himinsins og rödd Guðs sem sagði við þig:„Þú ert mitt elskað barn!“ Þar varstu vígð til þess hlutverks að fylgja honum, treysta, þjóna, hlýða, elska. Og hann vígði þig sér og gaf sér perluna dýru. Þetta er kristnin. Þetta er kristindómurinn. Fyrir þetta stendur Þjóðkirkjan á Íslandi í samtíð og fortíð. Og ef Guð lofar, um ókomna tíð. Hún er farvegur og verkfæri náðarinnar, sem skírnin vitnar um, sem líknar, náðar, læknar, reisir. Af því að svo elskaði Guð heiminn. Himinninn hans er ætíð opinn yfir þér og hjarta hans hlustar á bæn þína og andi hans vill fá að styrkja þig, leiða og blessa. Fyrir þetta stendur kirkjan og vitnar um við hverja skírn og þeirri náð signir hún lífsveg okkar frá móðurskauti til moldar.
Mér finnst góð sagan af vinunum sem dóu og komu til himna. Þar fá þeir allir sömu spurningu: Nú þegar þú liggur látinn og ættingjar og vinir koma til að kveðja hinstu kveðju, hvað vildirðu þá fá að heyra sagt um þig?
Sá fyrsti segir: Ég vildi heyra þau segja að ég hafi verið mikill læknir sem bjargaði mörgum mannslífum, góður maður. Næsti segir: Ég vildi heyra að ég hafi verið frábær kennari og faðir sem markaði djúp spor í líf margra barna, göfugur maður.
Sá síðasti segir: Ég vildi heyra þau segja: Sjá´iði, hann andar! Hann er lifandi!
Þetta vill kirkjan okkar líka fá að heyra. Það er margt um hana sagt, margar yfirlýsingar og dómar kveðnir upp um stöðu hennar og framtíð. Helst viljum við heyra vitnisburð þess að hún sé lifandi, lifandi trúarsamfélag, lifandi mótunarafl menningar og samfélags til myndar hins góða og sanna og heilnæma og heila. Samtíðin vill dæma hana úr leik, og margvíslegir eru þeir kraftar menningarinnar sem vilja lýsa hana feiga sem stofnun og starfsemi, og þann trúarlega veruleika sem hún stendur fyrir og þann helga arf og heilaga orð sem henni er falið. En lifandi er kirkjan aðeins að því marki sem hún er samfélag við hinn upprisna frelsara, lifandi Guð. Lífsmörkin sem samtíðin metur og kallar eftir, og í hæsta gildi standa í kastljósum dagsins, eru ekki endilega líf- vænleg í augum hans eða í ljósi hans. Tíðarandinn er hverful gjóla. Þótt hann þjóti og drynji og hamist. En andi Guðs er hinn blíði blær, sem bærist iðulega í því dulda, í leynum. Kirkjan er eilífur veruleiki. Hún lifir af því að Kristur er á ferð og kallar til fylgdar. En það getur verið að sál okkar sé “snauð, sjónlaus, köld dauf og rétt steindauð“ – eins og Hallgrímur segir um þá sál sem ekki biður, um trú sem ekki tjáir sig, sem ekki hlustar á Guð né opnar sig fyrir orðinu hans, - líka þegar það leiðbeinir, áminnir, dæmir-, og leyfir því orði og anda að leiða sig.
Þið, kæru vígsluþegar, Hildur Eir og Margrét Ólöf, þiggið vígslu til helgrar þjónustu prests og djákna. Þið eruð hér fráteknar og sendar til að þjóna, til að vitna og vaka og vinna. Kirkjan fagnar ykkur, og gleðst með ykkur og gleðst yfir ykkur, samverkamönnum að uppskerunni á Guðs akri. Við samgleðjumst sóknunum sem að njóta krafta ykkar, og við samfögnum ástvinum ykkar, þakklát þeim og Guði fyrir ykkur og við biðjum Guð að styrkja ykkur öll á þessum tímamótum. Og við sem hér afhendum ykkur hið heilaga hlutverk að hætti postulanna í umboði heilagrar kirkju, treystum um leið okkar vígsluheit og ásetning trúmennsku og heilinda sem boðendur orðsins og samverkamenn að gleði fagnaðarerindisins í frelsarans Jesú nafni. Honum sé dýrð um aldir alda.