Úlfur, úlfur

Úlfur, úlfur

Í nýútgefnu lagi, er sungið og rappað um djöfulinn sem vill bita af höfundum. Hann verður táknmynd fyrir það sem nagar okkur að innan og gefur engin grið. Dimmur veturinn hefur leikið sálina grátt og manneskjan sér ekki til sólar. Þetta ástand orða listamennirnir á þennan hátt. Ég hefði getað sparað mér áhyggjurnar af því að kölski væri horfinn út af kortinu. En merkilegt nokk þá gegnir hann sama hlutverki í þessu fallega lagi og í orðum Hólabiskups á 17. öld og vitanlega einnig í textum Biblíunnar: Hann verður táknmynd fyrir það sem sligar okkur, röddin innra með okkur sem dregur úr okkur máttinn, sér hættur við hvert fótmál – já hrópar í sífellu: „úlfur, úlfur!“

„Myndi falla ef þú héldir ekki traustataki um höndina á mér

Því ég er valtur eftir veturinn og djöfullinn vill bita af þessu hér“


Það sem bítur

 

Þeir félagar í tvíeykinu Úlfur, úlfur sendu frá sér lag nú í vikunni og hér er vitnað í viðlagið. Það er óður til vináttu og um leið hversu brothætt tilvera okkar getur verið ef við höfum engan til að halla okkur upp að – engan sem heldur í höndina á okkur.

 

En það er meira. Verkið rak á fjörur mínar þegar ég var að brjóta heilann um texta dagsins og hversu illa mér fannst hann hafa elst – hann Satan. Já, sú var tíðin fólk sá hann, og illa anda hans, í hverju horni og gat kennt honum um allt það sem aflaga fór. Predikarar vöruðu vitanlega við gildrum hans og slægð. Það hefur nú heldur betur breyst, hugsaði ég með mér og hugleiddi öll þau mannlegu mein sem honum hefur í gegnum aldirnar verið kennt um. Nú hafa sérfræðingar í læknastétt og sálfræði fyrir löngu fundið nöfn og alls kyns skammstafanir á þessum kvillum. Þetta var einfaldara hér á öldum áður þegar téður Satan var sökudólgurinn fyrir þessu öllu.


Guðfræðingar hafa löngum lagt sig fram um að afrugla þá texta Biblíunnar sem þykja vera afrakstur gamallar heimsmyndar. Tilgangurinn er auðvitað sá að draga fram boðskapinn fremur en að fylgja bókstaflegri túlkun sem gerir engum gagn. Textum þessum var hvort eð er aldrei ætlað að vera lesnir án túlkunar og heimfærslu. Erindið er tímalaust og snertir við lífi fólks hvort heldur það lifir í fábreyttum heimi fornaldar eða tækniheimi okkar samtíma. Já, við reynum að greina kjarnann frá hisminu eins og stundum er sagt. Með því móti lesum við frásagnir út frá því hvernig þær geta mótað líf okkar og annarra.

 

Og, Satan, þessi, sem í guðspjallstextanum hefur hrapað til jarðar er í því sambandi persónugerving fyrir allt það sem aflaga fer í lífi einstaklinga og samfélags. Það er þegar fólk skeytir ekki hvert um annað, engu og engum er treystandi. Vilji Guðs er sniðgenginn. Það sem ,,bítur", svo vísað í rapparana tvo.


Sá helvítski óvin og sálarmorðingi

 

Fyrst ég er nú farinn að vitna í annarra manna texta, þá kom út um miðja 17. öld predikunarsafn, eða postilla, eftir Hólabiskupinn Gísla Þorláksson (1631–1684). Sú bók er reyndar öllum gleymd og féll fljótt í skuggann af Vídalínspostillu þegar hún kom út hálfri öldu síðar eða svo. Það sem gerir rit Gísla áhugavert er að þar má greina hvernig hinn vondi er hvorki með horn né hala, heldur verður eins og rödd innra með manneskjunni sjálfri sem sviptir hana sálarró og friðsemd. Já, þarna á tímum galdrafárs hefur hinn vondi gegnt öðru hlutverki en við kynnum að ætla.

 

Þar segir fyrst af því hvernig fagnaðarerindið réttir fram það sem biskupinn kallar „minnisseðil“. Á honum stendur:


Já þó oss falli allir aðrir hlutir úr minni utan Jesú upprisa frá dauðum þá nægði oss það að eilífu“.

 

En andstæður boðskapur kemur fram hjá hinum vonda:

 

Djöfullinn, sá helvítski óvin og sálarmorðingi fer með annan minnisseðil og ráðleggur oss, segjandi: Hafið í minni syndir þínar og hvað mikið illt þú hefur gjört á móti þínum Guði og skapara. Minnstu á illa og óguðlega þanka þína og á óguðleg orð þín og verk. Minnstu á það og þenktu aldrei að þú munir vera í náð eður vingan við lifandi Guð hér fyrir.

 

Hérna gegnir óvinurinn og sálarmorðinginn, eins og hann er nefndur, því hlutverki að steypa fólki í örvæntingu, lætur það sjá ofsjónum yfir breyskleika sínum og syndum. Stöðugt samviskubit og sálarangist leiðir af sér vonleysi og depurð. Það verður að segjast eins og er að grípandi óður Úlfs, úlfs til vináttunnar og mannlegs breyskleika er miklu nær þessum fornu textum, en sjúkdómsvæðingunni sem sumum finnst keyra um þverbak á okkar dögum.


Gott og illt

 

Þessir textar sem við heyrðum hér lesna, fjalla um gott og illt og mynda sem slíkir ákveðna samfellu. Davíðssálmurinn greinir á milli guðhræddra og guðlausra. Í anda nútímans væri nær að tala um siðblinda en guðlausa, því að í hinum forna heimi var trúleysi í sjálfu sér óþekkt. Hér er fremur vísað til einstaklinga sem eiga sér engin gildi sem leiða þá áfram í tilverunni. Góðverk þeirra sem velja betri leið er líkt við ávexti á blómstrandi tré. Hinir óguðlegu – það er að segja þau sem hafa enga siðvitund – minna á rekald eða hismi sem fýkur í stormi. Þeir láta stjórnast af því sem hentugast þykir hverju sinni en skeyta engu um rétt og rangt.

 

Þessi fyrsti Davíðssálmur er eins og upphafsstef föstunnar sem á að vera okkur tilefni til að hugleiða líf okkar og þá stefnu sem það tekur.

 

Með sama hætti minnir postulinn safnaðarmeðlimi á að lifa í anda sannleikans. Það er sú leið sem skilar þeim farsælu lífi.

 

Guðspjallið lýsir svo þessum störfum lærisveinanna sem fara af stað út á akurinn til að breiða út fagnarerindið. Störfum þeirra er lýst með þeim hætti að þeir eigi að lækna fólk og líkna. Með því sigrum við illt með góðu. Og já, Satan er fallinn af himnum, hruninn af stalli sínum. Þeir eiga að starfa í þeim anda að kærleikurinn sé illskunni yfirsterkari.

 

Úlfur, úlfur


Þannig verður boðskapur þessa fyrsta sunnudags í lönguföstu til okkar sá að sigrast á því sem sundrar og brýtur niður en ganga upplitsdjörf fram vitandi það að við erum umlukin kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú Drottni okkar. Með þeim hætti getum við unnið góð verk af einlægri trú, óttalaus við myrkrið og táknmyndir þess.

 

Í nýútgefnu lagi, er sungið og rappað um djöfulinn sem vill bíta höfundana. Hann verður táknmynd fyrir samviskubitið, allt það sem nagar okkur að innan og gefur ekki grið. Ég hefði getað sparað mér áhyggjurnar af því að kölski væri horfinn út af kortinu. En merkilegt nokk þá gegnir hann sama hlutverki í þessu fallega lagi og í orðum Hólabiskups á 17. öld og vitanlega einnig í textum Biblíunnar: Hann er það sem sligar okkur, röddin innra með okkur sem dregur úr okkur máttinn, sér hættur við hvert fótmál – já hrópar í sífellu: „úlfur, úlfur!“

 

Gegn þessu tefla höfundar fram vináttunni og það er í sama anda og við lesum um í hvatningu dagsins hér í helgidómnum þar sem kærleikurinn er það afl sem ýtir í burtu hinu vonda úr lífi okkar.