„Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.“ (Jh 14. 15 – 21)
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Gleðilega hátíð.
Gleðilega hvítasunnuhátíð og gleðilega fermingarhátíð!
Nú er dagurinn loksins runnin upp, fermingardagurinn ykkar. Til hamingju með það kæru fermingarbörn. Og ég óska fjölskyldum ykkar til hamingju með stundina, foreldrum og systkinum, öfum og ömmum, vinum ykkar og vandamönnum sem hér eru samankomnir. Ég þykist vita að þið hafið verið orðin nokkuð óþreyjufull eftir stundinni þó þið hafið kannski ekki látið mikið á því bera, eflaust hafið þið haft nóg um að hugsa síðustu daga og líklega er margt sem leitar á ykkur nú á þessari stundu. Vonandi gátuð þið sofið í nótt. Ég man að ég svaf lítið nóttina fyrir mína fermingu.
En nú er dagurinn runninn upp, dagurinn sem virtist svo fjarlægur í haust, og hann gæti vart verið fallegri, veðrið leikur við okkur og sumarið allt er framundan. Og hér sitjið þið nú loksins, innan um allt fólkið ykkar, uppábúin og glæsileg. – Og eflaust dálítið spennt, sem er í góðu lagi og eðlilegt því dagurinn í dag er einn af þessum stóru dögum í lífinu, einn þeirra sem standa upp úr og rísa hærra en aðrir, mikilvægur dagur sem ekki mun gleymast, heldur sitja eftir í minningunni það sem eftir er. Þess vegna skuluð þið njóta þess að vera hér í dag og njóta alls þess sem dagurinn hefur upp á að bjóða því þetta er ykkar stund og ykkar dagur. Og það er mikið lán fyrir mig og gleði að fá að njóta hans með ykkur og taka þátt í honum.
Nú er fermingarveturinn ykkar sumsé runnin sitt skeið – og raunar fyrsti fermingarveturinn minn líka – hann var fljótur að líða eins og maður vissi fyrir. Þið finnið eflaust fyrir því í dag hversu hratt tíminn virðist stundum líða, því það er eflaust ekki langt síðan ykkur þótti fermingardagurinn órafjarlægð í burtu. Og einmitt það og þessi dagur minnir okkur á það krakkar, að eitt hið mikilvægasta í lífinu er að læra að njóta líðandi stundar og lifa lífinu hér og nú vegna þess að allt í einu er stundin liðin, dagur farin, mánuður horfin og ár. Það er vont að láta lífið líða framhjá sér vegna þess að maður er sífellt að flýta sér eða með hugann við eitthvað annað. Þetta verður stærra vandamál eftir því sem maður eldist. Þið getið ennþá huggað ykkur við það. Og eins og ég naut þess mjög að fá að vera með ykkur í vetur, þá verð ég samt að lýsa vonbrigðum mínum yfir því hversu fljótt veturinn leið. Hann var svo ánægjulegur að það er synd að hann gat ekki varað lengur. Og verst er að við erum rétt farin að kynnast. Þó við eigum eftir að hittast aftur og vonandi sem oftast, þá er er það alveg spurning hvort við höldum ekki áfram næsta vetur líka þó fermingin sé afstaðin. Við getum rætt það á eftir.
Það sem gerði veturinn svo ánægjulegan og fermingarfræðsluna jafn góða og innihaldsríka og raun ber vitni eru að sjálfsögðu þið sjálf. Öll eigið þið ykkar eiginleika sem gera ykkur að þeirri persónu sem þið eruð. Einhverjir eru hæglátari en aðrir, sumir láta meira í sér heyra, aðrir gaumgæfa smáatriðin öðrum fremur, hinir hugsa meira um heildarmyndina. Þannig mætti lengi telja. Að mörgu leyti eru þið ólík en samt eigið þið afar margt sameiginlegt. Öll eru þið leitandi, hugsandi og lifandi persónur og standið á tímamótum í ykkar lífi. Þið eruð öll við það að marka ykkur stefnu í lífinu; heimur ykkar fer ört stækkandi og þið standið frammi fyrir þeirri áskorun að finna ykkur farsæla leið í lífi sem er sífellt að verða meira um sig og margbreytilegra: Þið eruð engin börn lengur! – er það nokkuð? Það var stundum sagt að fermingardagurinn væri síðasti dagur barnsins. En þó að fermingardagurinn snúist ekki um það þá stendur hann fyrir viss tímamót í lífi hvers og eins. En við ykkur vil ég segja: Flýtið ykkur hægt. Þið skuluð ekkert vera að rjúka úr sætunum ykkar strax, því tíminn er nægur, tíminn vinnur með ykkur og þið skuluð nota hann vel, því eftir því sem undirbúningurinn er betri og vandaðri þeim mun meiri líkindi eru á góðri útkomu. Fermingin ykkar er liður í þessu öllu saman. Stefna og markmið skipta miklu í lífinu eins og þið vitið og við höfum rætt um í vetur. Þess vegna er afstaðan sem þið takið í dag og sá vilji sem þið lýsið yfir afar mikilsverður og mikilvægur. Því það er sá mælikvarði sem við setjum á líf okkar sem sker úr um hvernig lífið leikur við okkur.
Þið eru lánsöm að fermingin ykkar ber upp á hvítasunnudegi. Þá minnumst við á táknrænan hátt upphafs kristinnar kirkju. Atburður hvítasunnudags, sem við heyrðum um áðan, fjallar einmitt um það hvernig Jesús vill birtast okkur og gerast þáttakandi í okkar lífi og vera virkt afl og kraftur í samfélaginu. Um það snýst samfélag kirkjunnar. Og rétt eins og lærisveinarnir tóku ákvörðun um að fylgja Jesú og lifa í ljósi orða hans og verka þannig munuð þið í dag marka lífi ykkar ákveðna stefnu, hér á eftir frammi fyrir altari Guðs, frammi fyrir sjálfum Guði og í áheyrn okkar allra. Með þessu litla jáyrði eruð þið að segja æði margt og ýmislegt sem þið gerið ykkur ekki grein fyrir núna og munuð ekki uppgötva fyrr en seinna í lífinu. Og þetta já er ekki eitthvað sem þið segið í eitt skipti fyrir öll. Fermingin er ekki útskrift úr kirkjunni, þvert á móti. Við erum að gleðjast yfir veru ykkar í kirkjunni. Fermingin er fyrst og síðast játning, krakkar, persónuleg trúarjátning ykkar. Fermingin markar ákveðið upphaf, eitthvað nýtt. Hún er aldrei endanleg. Þið eigið eflaust eftir að þurfa að endurtaka þetta „já“ aftur í lífinu og gerið það vonandi. Og þá eins og nú varðar um mest við hvern þið talið.
Hér á eftir gangið þið upp að altarinu, á vit Jesú Krists sem bíður ykkar og tekur á móti ykkur og frammi fyrir honum lýsið þið yfir viljia ykkar að fylgja honum og hafa orð hans og eftirdæmi að leiðarljósi í ykkar lífi, í öllu sem þið gerið, orðum, verkum og hugsunum. Og við ykkur segir hann. Ég vil ganga með ykkur í gegnum lífið, styðja ykkur í einu og öllu, upplifa með ykkur gleði og sigra, leiða ykkur í gegnum erfiðleika og sorg, veita ykkur frið og hamingju. Þetta mun hann ætíð segja við ykkur – við þig. Sá vegur sem Jesús varðar og vill leiða þig á er vegur kærleika, friðar og fyrirgefningar. Og á þeim vegi sýnir Jesús þér rétta stefnu og átt til til að miða við í lífinu.
En auðvitað er það svo, eins og þið vitið krakkar, að vegurinn er ekki alltaf auðsóttur eða auðveldur yfirferðar. Það á eftir að reyna á ykkur því það er svo æði margt í lífinu sem ekki er fyrirséð. Það er til dæmisaga um einn ungling sem taldi sig vera gáfaðasta unglinginn í heiminum. Þið hafið kannski heyrt hana, en hún segir okkur margt.
Það var lítil fjögurra sæta flugvél sem flaug um loftin blá. Prestur, tveir unglingar og flugmaður voru um borð. Annar unglingurinn hafði nýverið hlotið titilinn Gáfaðasti unglingur í heimi. Þar sem þau svifu um í loftinu og nutu útsýnisins snéri flugmaðurinn sér skyndilega að farþegunum og sagði, „Ég er með slæmar fréttir og verri fréttir. Slæmu fréttirnar eru þær að vélin er bensínlaus og við munum hrapa. Verri fréttirnar eru þær að við höfum aðeins þrjár fallhlífar um borð.“ Fólkið gerði sér grein fyrir því að einhvert þeirra fengi ekki fallhlíf og myndi því farast með vélinni. Flugmaðurinn bætti við, „Ég á konu og þrjú börn sem bíða eftir mér. Þið sjáið því að ég hef miklum skyldum að gegna og ætla þess vegna að taka eina fallhlíf.“ Að þessu mæltu setti hann á sig fallhlíf og stökk út. Gáfaðasti unglingurinn tók þá til máls. „Ég er gáfaðasti unglingur í heimi,“ sagði hann. „Hver veit nema ég eigi eftir að finna lækningu við hættulegum sjúkdómi eða lausn á efnahagsvanda heimsins. Fólk treystir á mig!“ Að þessu mæltu setti gáfaðasti unglingur í heimi á sig fallhlíf og stökk út. Presturinn leit á unglinginn sem eftir var og sagði, „Þú mátt fá síðustu fallhlífina. Ég er sáttur við Guð og er tilbúinn að fara til hans. Drífðu þig nú.“ „Þú getur verið sallarólegur prestur minn,“ sagði unglingurinn. „Gáfaðasti unglingur í heimi stökk út úr vélinni með bakpokann minn.“
Þannig er það með marga að þeir stökkva út í hringiðu lífsins án fallhlífar. Þegar til kemur reynist fallhlífin ekkert annað en bakpoki. Þannig búa margir við falskt öryggi í lífinu og þegar á reynir, þegar neyðin blasir við, sorg og erfiðleikar sækja að, þá hafa þeir ekkert til að reiða sig á. Það getur verið auðvelt að framkvæma í fljótheitum eins og þessi gáfaði unglingur, án þess að hugsa, en það er ekki alltaf skynsamlegast.
Þið eigið eftir að kynnast ýmsum hliðum lífsins og hafið eflaust nú þegar reynt það að lífið er ekki alltaf dans á rósum. Og á slíkum stundum er gott að eiga sér fallhlíf, haldreipi, eitthvað til að reiða sig á, og það raunar lífið út í gegn. „Ég kem til yðar“, sagði Jesús í guðspjallinu sem var lesið áðan. Hann er að ávarpa þig! Fermingin snýst um það og ekkert annað, hún er fundur þín og hans. Jesús er ljós heimsins. Sá, sem fylgir honum, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. Jesús vill fara fyrir þér og vera þér nærri. Hann hefur alltaf tíma fyrir þig og mun aldrei bregðast. Og hann mun ekki sleppa af þér hendinni eða yfirgefa þig nokkurn tíma.
Megi náð hans og blessun vera yfir ykkar lífi á þessum hamingjudegi og alla ykkar daga. Í Guðs blessaða nafni. Amen.
Hvítasunnudagur - fermingarræða - Hátíðarguðsþjónusta í Hofsósskirkju og Hóladómkirkju 15. maí 2005.